16. ágú. 2010

Undirbúningur í fullum gangi

Nú eru allir fjölskyldumeðlimir búinir að skrá sig í Reykjavíkurmaraþonið og stífar æfingar standa yfir. Gabríel, sem ætlar að hlaupa 10 km hefur komið með mér út að hlaupa annan hvorn dag, fyrst 3,5 km, svo 5,5 km o.s.frv. Lilju finnst reyndar gróflega á sér brotið að fá ekki að fara með okkur út að hlaupa og grenjar eins og stunginn grís. Hún er nú samt fljót að jafna sig og ég passa að taka nokkra stílspretti með henni líka. Svo er svaka magaæfingaprógramm í gangi hjá okkur, erum að safna í sixpack á línuna. Er örugglega frekar fyndið að vera fluga á vegg á okkar heimili á kvöldin, einn hangandi í upphífingartækinu, annar með lappirnar upp á kassa að gera magaæfingar, Lilja að teygja, fetta sig og herma eftir hinum.  Svo er yfirleitt einn í sófanum að reyna að horfa á eitthvað eða að skrá inn æfingar í tölvuna.
Íslandsmeistaramótið í götuhjólum fór fram núna á laugardaginn og það var stórskemmtilegt þrátt fyrir bæði rok og rigningu á köflum.  Hjóluðum saman fjögur í hóp nánast alla leiðina, tæpa 70 km en í síðustu brekkunni skildi á milli og það var blóðug barátta um titilinn á æsispennandi endaspretti milli okkar Ásu.  Ása hafði betur, var 4 sek. á undan í mark og átti svo sannarlega skilið titilinn í ár.  Í markinu tóku fulltrúar frá lyfjaeftirlitinu á móti okkur og voru nýjir Íslandsmeistarar teknir beint í lyfjapróf.  Okkur fannst þetta allt saman mjög spennadi og gerði þetta enn meira alvöru :) .  Úrslit og myndir af HFR síðunni.  Ég fann ekkert fyrir hendinni í keppninni, að öðru leyti en að ég hef ekkert getað hjólað síðustu 6 vikur... en um kvöldið fann ég fyrir smá doða svo það er eins gott að vera vel vakandi og ég þarf greinilega að passa mig.

Eva, Ása Guðný og María Ögn
Ég var eitthvað að gæla við að vera með í Íslandsmeistaramótinu í Timetrial á götuhjólum á fimmtudaginn en er búin að blása það af, það er of nálægt hlaupinu og ég myndi bæði þurfa að spara mig á hjólinu og þurfa að borga fyrir það í hlaupinu ef ég væri með.  Klúbburinn Skynsemin ræður, góðan daginn!
Posted by Picasa

Engin ummæli:

Skrifa ummæli