25. apr. 2012

Kvefnef

Sonja reið á vaðið og náði sér í kvefpest, sennilega í sundferðinni á Sumardaginn fyrsta.  Á föstudagskvöld rauk hún upp með hita og var með hita um helgina.  Hún er ennþá með hornös en góða skapið komið á sinn stað, ekki það hún var ósköp góð litla skinnið.  Mamman fékk líka sinn skammt, þ.e. kvefið en ég er alveg hitalaus bara soldið drusluleg með hósta og hor.  Ég hef ekki orðið veik í meira en tvö ár og ég er ekkert að fara að breyta því, þetta telst ekki með :)

Kroppurinn er komin í toppstand, laus við alla sýru og óþægindi í læri.  Var að fá nýja skó frá styrktaraðilunum mínum í Sportís, líst mjög vel á þá og hlakka til að prófa almennilega.  Er ekki gefið að maður hlaupi hraðar á svona flottum skóm!

Jæja, nú er ég búin að prófa þá, fór á sprettæfingu í Laugardalnum og ég er mjög ánægð með þá, léttir, mjúkir og þægilegir.  

Við hjónin vorum að koma heim af fræðslukvöldi hjá Hlaupahópi FH en við vorum beðin um að halda smá erindi um næringu langhlaupara og hvernig við notum fæðubótarefni.  Mjög flott dagskrá hjá FH-ingum og frábær mæting, örugglega hundrað manns í salnum!  Fyrst var kynning á félagsstarfinu hjá þeim og atburðum framundan, næst var fyrirlestur næringarfræðings, svo komum við Þórólfur með okkar erindi og að lokum var kynning á hlaupagreiningum, sjúkraþjálfun og hlaupavörum frá Atlas.  Skemmtilegt kvöld og frábært að sjá þenna flotta stóra hóp af áhugasömum hlaupurum.

19. apr. 2012

Kerrukapp í Víðavangshlaupi ÍR

Hélt að ég hefði heldur betur gert í buxurnar á mánudaginn.  Eftir Gamlárshlaupið fór ég of geyst af stað, tók langa æfingu daginn eftir og sprett æfingu daginn þar á eftir.  Tognaði í lærinu og var frá alvöru æfingum í 6 vikur.  Sór og sárt við lagði að læra af reynslunni og setti meira að segja miða upp á ísskáp sem segir til um hversu marga daga Recovery maður þarf eftir mismunandi keppnishlaup miðað við aldur.  Já, finn að með aldrinum þarf ég lengri tíma að jafna mig, gat keppt þrisvar í viku í denn án þess að finna fyrir því.  En alla vega eftir Flóahlaupið hvíldi ég alveg á sunnudaginn og svo ákvað ég bara að kíkja á æfingu á mánudag en ekki taka sprettæfinguna, bara upphitun og eitthvað dútl.  Svo vorum við allt í einu komin á brautina og svo var bara svo gaman í góða veðrinu og svo fékk ég allt í einu sting í vinstra lærið!!!   ARRRRGHHHH....  Stoppaði í skrefinu, labbaði og teygði og blótaði mér í sand og ösku.  Lullaði heim og hugsaði með mér hvurslags endemis grasasni ég gæti verið, FJÓRIR KOMMA TVEIR DAGAR Í RECOVERY EFTIR KEPPNI ÞEGAR MAÐUR ER 40+ OG ÞÁ MÁ MAÐUR TAKA EASY WORKOUT.

Var ennþá stíf í lærinu á þriðjudaginn og fór með skottið á milli lappanna til hans Rúnars sjúkraþjálfara.  Nema hvað, af því að ég stoppaði strax þá slapp ég við tognun og var bara súr og stíf í lærinu.  Hjóla einn dag, skokka næsta og ég má blasta á mánudaginn, á að vera orðin full frísk þá.  Hjúkkit og ég lofa, lofa, lofa að láta ekki eins og kjáni aftur.  

Í dag var Víðavangshlaup ÍR og ég var með leyfi frá Rúnari til að skokka það en ekki taka á því.  Veit alveg hvernig ég er og til að geta verið með án þess að missa mig þá ákvað ég að nota tækifærið og hlaupa með Sonju í hlaupakerrunni, sjá hvað við gætum gert saman.  Við byrjuðum alveg aftast og fyrsta km notaði ég til að lauma mér fram hjá eins mörgum og ég gat.  Eftir 2-3 km var aðeins auðveldara að komast áfram og við vorum komnar á fínt skrið.  Það eru þrenns konar viðbrögð sem maður fær þegar maður hleypur fram úr fólki með barn í kerru.  A) Vááá flott hjá þér!!!  B) Ertu að grínast í mér, andsk...   C) Segja ekki orð en taka sprettinn á eftir manni og endast í svona 100m og hviss bang búmm...   Síðasta km hljóp ég á 4:04 pace, frekar ánægð með það en lokatíminn okkar var 22:25.  Við fórum fram úr 321 hlaupara og komum í mark númer 125 af öllum, 15. kona í mark.  Þórólfur var 12. á sínum besta tíma 16:39, frábært hlaup hjá honum.  Tengdapabbi og Lilja tóku á móti okkur í markinu og eftir hlaupið bauð tengdapabbi okkur í brunch.  

Á fleygiferð á endasprettinum.


Í dag: 'Lilja, veistu hvað ríkasta kona í heimi heitir?'  'Já mamma...., hún heitir Eva'.  :)


Lilja fékk bikiní í sumargjöf og það kom ekki annað til greina en að skella sér í sund í góða veðrinu í endurbætta Laugardalslaug.  Frábær dagur í safnið hjá okkur og við hlökkum til sumarsins og ævintýranna sem bíða handan við hornið.

17. apr. 2012

Flóahlaup og ferming

Erum að komast á jörðina eftir alveg hreint frábæra helgi.  Við notuðum laugardagsmorguninn til að græja salinn fyrir fermingarveisluna, röðuðum upp borðum, dekkuðum og skreyttum.  Ég var búin að gæla alvarlega við það að fara í Flóahlaupið en var ekki viss um að það tækist að pota því inn í dagskránna.  Ákvað á endanum að ef allt væri orðið klárt klukkan hálf tólf þá myndi ég láta vaða og það varð úr.  Gummi fékk far hjá mér og var svo sætur að keyra austur, lúxus á frúnni og ekki nóg með það, hann ætlaði að hlaupa á 4:00 pace sem passaði akkúrat fyrir mig í fyrstu atlögu að sub 40.

Veðrið var fallegt en það var töluverður vindur eins og venjulega í Flóanum.  Fystu 2,5 km var hliðavindur, næstu 2,5 fengum við meðvind, aðeins hliðarvindur og síðustu 3 km var frekar sterkur mótvindur.  Allt gekk samkvæmt plani fystu 7 km og við vorum akkúrat á pari þar en þá fór ég að síga aftur úr.  Náði ekki að hanga í hælunum á Gumma sem þýddi að ég þurfti að berjast í vindinum ein og missti mikinn hraða.  Endaði á tímanum 40:58 (glöð að vera undir 41 :), fyrsta kona í mark og 8. í heildina.  Góð tilraun og fer í reynslubankann.  Kökurnar í Flóanum klikkuðu ekki frekar en fyrri daginn og allt til fyrirmyndar hjá þeim Flóamönnum eins og venjulega.

Sigurvegarar í 10 km hlaupinu, Moi og Bjössi.

Brunuðum í bæinn og rétt hafði tíma til að skvísa mig upp og næra áður en við Mamma og Lalla frænka frá Ameríku héldum í Hörpu til að njóta þess að horfa og hlusta á La bohème.  Frábær sýning.

Á sunnudagsmorguninn var svo komin tími til að rigga upp Rice Krispís kransakökunni, skreyta og leggja lokahönd á allan fermingarundirbúining.  Við fengum pössunarpíu til að sjá um stelpurnar á meðan messan var og þær komu ferskar og fínar beint í veisluna.  Það þýddi að við Þórólfur gátum slakað á og notið þessarar stóru stundar í lífi stráksins okkar.  Hann var svo flottur.  Veislan var góð og við erum svo þakklát þeim sem gátu deilt þessum degi með okkur og glatt strákinn okkar með nærveru og góðum gjöfum.  Gamla hélt meira að segja ræðu í tilefni dagsins.  Var búin að lofa stráknum að láta ekki eins og asni eða að fara að grenja og ég stóð við það (vörin titraði bara pínu).  Mér finnst erfitt að halda ræður og lít á það sem áskorun sem ekki er hægt að skorast undan og jú það verður auðveldara með hverju skiptinu.  Þórólfur náði síðustu  hálfu mínútunni á vídeó.



Og svo eru hérna nokkrar myndir úr fermingarmyndatökunni:




9. apr. 2012

Páska fartlek og fermingarmyndataka

Já við hjónin erum búin að vera dugleg að hreyfa okkur í páskafríinu, vinna upp á móti breyttu mataræði og svo náttúrulega bara okkur til skemmtunar.  Í gær tókum við sértaklega skemmtilega æfingu saman, vorum hálfveigis búin að kvíða henni, klukkutíma upphitun og svo 10 * 90 sek hratt/rólega.  Hljómar eitthvað svo óendanlega langt... en af því við vorum saman í þessu þá var þetta bara ekkert mál eftir allt saman.  Ég hljóp af stað aðeins á undan og í öðrum hraða kaflanum náði Þórólfur mér og fór fram úr.  Þá var málið að reyna að missa ekki sjónar af honum þangað til við snérum aftur eftir 5 spretti (tókst ekki :).  Við snúninginn var ég aftur komin á undan og nú var komið að Þórólfi að elta.  Hann náði mér aftur í næst síðasta, en nú ég að sjá í skottið á honum alla leið.  Svo var bara rólegheita niðurskokk heim, við alsæl með æfinguna og hvort annað, win, win.

Í dag er önnur gæðaæfing á dagskrá og við erum búin að plana hana í huganum.  3*10 mínútur á T-hraða (threshold) sem er í mínu tilfelli svona mitt á milli 10 km og hálfmaraþons hraða, með 5 mínútna skokk hvíldum á milli.  Við ætlum að taka hana í Laugardalnum, í blíðunni.  Náum góðum bruna eftir veislur gærdagsins.

Á eftir ætla ég að spreyta mig í fyrsta sinn á að gera Rice Krispies kransaköku fyrir ferminguna hans Gabríels.  Það verður spennandi að sjá hvernig það tekst til!   Klára jafnvel bara allt kökustúss í dag og þarf þá ekki að hugsa meira um það.

Við fórum í fermingar og fjölskyldumyndatöku á laugardaginn sem gekk eins og í sögu.  Skemmtilegur ljósmyndari, fínar aðstæður og við komum afslöppuð og fín út úr þessari reynslu.  Vissum ekki hverju við ættum von á því við lentum í skelfilegri 'fjölskyldumyndatöku' reynslu fyrir 4 árum og vorum rétt að jafna okkur eftir hana.  Grautfúll og lífsleiður ljósmyndari sem gelti á krakkana til skiptis (Gabríel 9 og Lilja 1 árs): 'Strákur, brostu. Stelpa sittu kyrr. Strákur stattu beinn.  Stelpa brostu....!'.  

Fékk að smella af á minni vél nokkrum myndum þegar tækifæri gafst, á meðan fermingardrengurinn fór að skipta um föt.