22. des. 2011

3000 m test #2

Já nú er gaman í hlaupalífinu, er á fljúgandi fart og nýt þess að góðar bætingar detta inn án þess að þurfa að hafa svo svakalega mikið fyrir því.  Alveg á hreinu að það er eitthvað til sem heitir vöðvaminni og ég er á fullu að rifja upp.  

Fyrir þremur vikum tókum við 3000 m test í Höllinni og þá hljóp ég á 11:33.  Hlaupið var mér frekar auðvelt og ég átti nóg inni til að spretta síðasta hringinn, þannig að ég vissi að ég ætti að geta betur.  Í gær var svo næsta 3000 m test og ég stefndi á að hlaupa á 3:45 pace eða á 11:15.  Í þetta sinn var hlaupið passlega krefjandi og ég hljóp það mjög jafnt.  Endaði á 11:17 og var þá að bæta mig um 16 sek frá því síðast (fyrir ekki hlaupara þá er það bara feit bæting í svona stuttri vegalengd :).  Ég er orðin svaka spennt fyrir Gamlárshlaupið, vona að það verði góð færð og maður fái tækifæri til að sjá hvað í manni býr.  

Fyrir utan að hafa verið dugleg að æfa þá upplifði ég það í fyrsta sinn á ævinni að léttast án þess að hafa virkilega fyrir því og það hjálpar líka í hlaupunum.  6. október var ég 66 kíló en í dag er ég 63 (búin að vera það í tvær vikur annars er það ekki að marka!).  Eina 'drastíska' breytingin sem ég gerði á þessum tíma var að skipta út Special K yfir í gamla góða hafragrautinn minn á morgnana eins og ég tala um hérna.  Ætli maður sé loksins að fatta þetta með matinn alla leið?


16. des. 2011

Prjónahornið

Jæja þá er ég búin að afreka að prjóna fyrstu flíkina á hana Sonju mína.  Ég átti heilmikið prjónadót frá henni Lilju og svo er mamma náttúrulega bara eins og prjónamaskína á sterum :)


Er svo ánægð með þennan galla, hann er úr Færeyskri ull sem ég rékk í Rúmfatalagernum og nú er ég að gera húfu í stíl.


Sagði mömmu að mig langaði í hettupeysu á skottið, nokkrum dögum seinna var komin hettupeysa, vettlingar og sokkar í stíl.


Í mesta frostinu hef ég pakkað henni Sonju inní lopapeysu af sjálfri mér...  Það var náttúrulega ekki alveg nógu gott fyrir litlu prinsessuna.   Mamma hannaði lopapoka í einum grænum, prjónað í hálf patent, þvílík snilld! 

13. des. 2011

Fimmti þáttur - A different way of looking at goals

Held að þetta sé uppáhaldsþátturinn minn hingað til.  Ég er nefnilega afskaplega óSMART.  Ég hef alveg reynt að gera þetta eftir (sjálfshjálpar-) bókinni en einhvern veginn þá endist ég ekki við það.  En það er samt alls ekki þannig að ég viti ekki hvað ég vil.  Ég held bara að ég viti það svo vel að ég þarf ekki að skrifa það niður til að ná mínum markmiðum.  Já einmitt, ég er mjög meðvituð (aware) um hver ég er, hvar ég er stödd og hvert ég stefni.  Einu markmiðin sem eru niðurskrifuð eru sennilega þyngdarmarkmiðin mín og ég er með ritara sem sér um þau skrif ;)   Já og fyrir utan að þau eru ekki beint samkvæmt formúlinni þar sem ég er ekki að reyna að ná einhverju markmiði heldur að viðhalda árangri, en jú getur sennilega samt sem áður flokkast nokkuð SMART.

Mér fannst mjög áhugavert að heyra hvernig Bevan lýsir því að til að ná ákveðnu markmiði hafi hann ýtt til hliðar öllu öðru, líka því sem var í raun og veru mikilvægara en markmiðið.  Ég held nefnilega að ég hafi uppgötvað þetta jafnvægi frekar snemma og áttað mig á því hvað skiptir mig mestu máli hér í lífinu og hef verið nokkuð góð í að forgangsraða.  Ég hef t.d. aldrei litið á hlaupin og árangur þar sem upphaf og endi alheimsins, það er svo ótal margt annað sem er mér mikilvægara.  Ég hef samt mjög gaman af því að sjá hversu langt ég get náð miðað við þann tíma sem ég get hugsað mér að nýta í þetta hobbý, því já á endanum er þetta einungis hobbý ekkert meira eða minna en það.  

Mikilvægasta verkefnið mitt er að hugsa vel um sjálfa mig.  Í því felst að sofa vel, nærast vel og hreyfa mig.  Ef ég meiðist þá geri ég það sem ég þarf til að ná bata án inngripa.  Já ekki frekar en ég myndi nota svefntöflur eða að fara í megrun eða fitusog...  Ég fæ í magann þegar ég heyri hlaupara tala um að láta sprauta sig eða skera til að flýta fyrir bata sem annars væri hægt að ná með hvíld.  Ég hef enga trú á að það sé gott til langs tíma litið.  En alla vega, ef að ég er í góðu lagi þá get ég verið til staðar fyrir fólkið mitt sem er mér mikilvægara en nokkuð annað, miklu mikilvægara en að ná einhverjum markmiðum í íþróttum, vinnu eða veraldlegum gæðum.  

Jú, jú, ég læt mig oft dreyma um að gera hitt og þetta sem ekki passar inn í lífið mitt núna.  Sennilega mest um IronMan og Ultrahlaup í útlöndum, jú og hjólreiðaferðir um Toskana...  Ef ég virkilega vildi, þá gæti ég gert eitthvað eða allt af þessu, það veit sá sem allt veit að ég hef stuðninginn.  Mig langar bara miklu meira að vera hjá mínum og ég skil það í hverri einustu frumu að það er það mikilvægasta fyrir mig núna.  Svo er líka svo dásamlegt að láta sig hlakka til ævintýranna sem tilheyra öðrum stigum lífsins, þegar ungarnir er flognir úr hreiðrinu.  Það er alveg á hreinu að við gömlu hjónin munum ekki láta okkur leiðast!

En það merkilega við þetta allt saman er að ef maður er með forgangsröðunina á hreinu þá er ótrúlegt hvaða árangri maður getur náð á öllum sviðum, ég myndi segja betri árangri en ef einblínt er á einhvern einn þátt.  Eða þannig upplifi ég það.  







Powerade #3 - 2011

Þriðja Powerade hlaupið fór fram á fimmtudagskvöldið.  Ég var í fínu stuði fyrir hlaupið, hlakkaði bara til.  Veðrið hafði skánað, ekki eins svakalega kalt en í staðinn fengum við verra færi á hluta leiðarinnar.  Það var snjór á allri brautinni og maður fann strax á fyrsta km að þetta yrði heilmikið púl, spólandi í snjónum.

Ég fór skynsamlega af stað og á öðrum km fór ég að renna fram úr fólki. Eftir 3 km sá ég í skottið á henni Sibbu, æfingafélaga mínum og ég reyndi að negla mig á hælana á henni eins lengi og ég gat.  Yfirleitt finnst mér auðvelt að rúlla niður brekkurnar en í snjónum þá hleypur maður öðruvísi og er stífari, alltaf að passa að renna ekki til.  Eftir 7 km dróst ég aftur úr og varð bara að einbeita mér að klára sómasamlega og láta engan ná mér.

Eftir stokkinn kom versti hluti hlaupsins, blautt og hált, spól alla leið upp fyrir Rafstöðvarbrekku.  Þvílíkur léttir að komast upp á stíg og maður var alsæll að trítla restina í snjónum, alla vega flatt og ekki eins blautt.  Tíminn 44:27 sem var bara ágætt miðað við aðstæður.  Ég var á undan nokkrum sem tóku mig í síðasta hlaupi og er búin að minnka bilið töluvert á þá sem eru á undan mér.  Ég var þriðja kona í mark í heildina og nú er þetta farið að vera spennandi í stigakeppninni.  Við Þórólfur erum komin í forystu í parakeppninni, ég er í öðru sæti í aldursflokki, einu stigi á eftir fyrstu og nú er ég komin í fjórða sæti í heildina.

Var alveg svakalega þreytt eftir þetta hlaup, hvíldi á föstudaginn en var lúin alla helgina.  Þá fór ég smá hring niðrí bæ og í kringum Tjörnina, skít kalt úti og rok, var svooo fegin að komast heim aftur.  Á sunnudaginn var svo hefðbundið hjónahlaup, fórum rúma 17 km og það var sama sagan, þreyta í kroppnum og gott að komast heim.     Í gær var sprettæfing í Höllinni og þá fann ég að ég var alveg búin að ná mér, gekk mjög vel.  Næst á dagskrá er svo Gamlárshlaupið, mikið væri ég til í bongó blíðu og auða braut, takk fyrir!

7. des. 2011

Fjórði þáttur - Black and White Rules

Ég á kannski ekkert að vera hissa hvað ég kannast við allt sem hann Bevan vinur minn talar um.  Ég er jú búin að ná árangri í þyngdarstjórnun og heilbrigðu líferni og eyða svipað löngum tíma og hann (talar um 13-14 ár) í að finna út hvað virkar og hvað ekki.

Ég á mér ótal margar svart/hvítar reglur, bæði varðandi heilsu og matarræði.  Ég hef bætt við reglum sem henta mér en ég hef líka hent þeim út í gegnum árin.  Fyrstu reglurnar sem ég setti mér voru varðandi reykingar og gosdrykkju fyrir 14 árum og enn þann dag í dag læt ég hvoru tveggja alveg eiga sig.  Það er ekkert erfitt, hugsa aldrei um þetta.  Í gegnum árin bættust fleiri reglur við eins og td. skyndibiti, djúpsteiktur matur, kartöfluflögur og sælgæti (annað en súkkulaði n.b. :).   Ekkert af þessu freistar mín nokkurn tímann, það er eins og þetta sé ekki til í mínum heimi.  Ég er líka með reglu um að borða 5 - 6 sinnum á dag, alltaf og reglur varðandi skammtastærðir.  Ég hreyfi mig 5-6 sinnum í viku og þannig er það bara.

Í nokkur ár hætti ég alveg að borða smjör eða annað viðbit á brauð.  Það var á tímabilinu sem ég var fitufælin út í öfgar, borðaði t.d. ekki hnetur og annað hollt, ef það var feitt.  Þegar ég var ólétt af Lilju þá bætti ég viðbiti aftur inn og hef ekkert tekið það út aftur.  Eins þegar ég lærði hvað það skiptir okkur miklu máli að borða passlega mikið af góðri fitu, þá duttu hnetur og fræ og annað inn aftur, nammi namm.  Það er líka miklu auðveldara að stjórna þyngdinni ef maður borðar passlega mikið af fitu, ég er ekki að grínast.

Ég er líka með svart/hvíta reglu sem tekur á því ef ég kýs að brjóta svart/hvíta reglu eins og t.d. kökuregluna.  Ég fæ mér oft kökusneið eða eitthvað sambærilegt um helgar en sleppi kökum annars.  Ef ég fengi mér alltaf kökur þegar þær væru í boði (þú, þú ert nú svo grönn, þú mátt nú alveg... döhhh), þá væri það á hverjum degi nánast, alltaf einhver sem á afmæli í vinnunni eða eitthvað í gangi.  En... ef mig langar til að breyta út af og fá mér köku á öðrum degi en laugardegi eða sunnudegi, þá er það svart/hvít regla að ég tek aukaæfingu á móti.  Málið er að þegar maður er að æfa eins mikið og ég, þá er ekkert sjálfsagt að taka aukaæfingar þannig að ég hugsa mig vel um áður en ég ákveð mig.  Nenni ég að hlaupa auka hring í dag fyrir þessa köku?  Stundum er svarið já, oftast nei, ég er líka frekar kresin á kökur nú til dags.   

Eftir að hafa hlustað á þáttinn og söguna um skyndibitastaðina þá fór ég að hugsa um morgunmatinn minn en ég hef í mörg ár borðað hafragraut og elska grautinn minn.  Þegar ég var ófrísk þá missti ég lystina á grautnum og skipti yfir í Special K og það var allt í góðu.  Eftir að ég átti Sonju þá hélt ég áfram að borða Special K og seldi mér að það væri svo gott fyrir mig að fá mjólkina.  Í raun og veru þá var það sykurinn í Special K sem ég var sólgin í, ekki mjólkin, mig langaði aldrei í mjólk annars.  Ég ákvað, med det samme, að skipta aftur yfir í grautinn minn.

Það sem gerðist í framhaldinu var að ég léttist um tvö kíló á næstu vikum án þess að hafa fyrir því og ég meina það, eina sem ég breytti var að borða graut í staðinn fyrir Special K. Skýringin er sú að ef maður byrjar daginn á sykri þá er maður sólginn í sykur allan daginn og þar sem maturinn minn inniheldur ekki mikinn sykur þá hef ég verið að borða meira í einu.  Sykurinn virkar eins og fíkniefni, að byrja daginn á sykri er eins og fyrir nikótín fíkil/alka að leyfa sér að fá sér eina einustu sígarettu/einn drykk á morgnana.  Þá fer allur dagurinn að snúast um hvenær maður megi fá sér næst og það hefur áhrif á alla þína hegðun.


6. des. 2011

Að nauðga

Ég á þrettán ára strák sem ég elska út fyrir endimörk alheimsins en á laugardagsmorgun fékk ég hnút í magann þegar ég las samræður hans við félaga sinn á Facebook.  Þeir voru nú bara að tala um að taka á því í ræktinni og að metast um hvor væri sterkari.  Þetta var rosalega fyndið, sérstaklega þar sem minn maður er miklu yngri og minni en hinn, en fór mikinn.  Þangað til að ég hnaut heldur betur um eina setninguna.  'Ég nauðga þér í bekkpressu...', í merkingunni ég 'tek þig', 'rústa þér' eða eitthvað í þá áttina.  Sæll, hvaðan kom þetta?  Hann hefur alla vega ekki heyrt þetta heima hjá sér, það er alveg ljóst.  Ég fór út að skokka að venju og hugsaði um hvernig ég gæti sent honum skýr skilaboð um að þessi orðnotkun væri ekki í lagi.  

Áhrifamesta mynd sem ég hef séð um nauðgun er 'The Accused' með Jodie Foster.  Þegar ég kom heim fann ég hana á Skjánum og planaði bíókvöld, eftir að stelpurnar voru farnar í ból, skyldumæting.  Ef maður er nógu gamall til að nota orðið 'nauðgun' þá er maður nógu gamall til að fá að vita hvað það þýðir í raun og veru.  Við horfðum saman á myndina og þegar hún var búin ræddum við hana og svo sagði ég sögu af sjálfri mér,  þegar ég komst virkilega í hann krappann.  

Ég var tvítug Au Pair stelpa í Bandaríkjunum og eins heimskulegt og mér finnst það í dag, þá ákváðum við vinkonurnar eitt sinn að fara með hópi fólks sem við þekktum ekki neitt, í partý eftir djamm.  Við djúsuðum og dönsuðum og létum örugglega eins og fífl.  Allt í einu átta ég mig á að vinkona mín er horfin eitthvað á spjall og ég er ein eftir með fullt af gaurum í stofunni.  Einn þeirra gerist heldur ágengur og þetta er ekkert fyndið lengur.  Ég  bið hann að láta mig í friði og hreyti einhverju í hann.  Áður en ég veit af er hann búin að snúa mig niður á hnén, með hendur fyrir aftan bak og segist ætla að kenna mér að haga mér, voða fyndið og allir hlægjandi...   Það var mér til happs að eigandi íbúðarinnar áttaði sig á því hvað var að gerast og tók í taumana.  Hann rak alla út úr íbúðinni og beindi þeim í annað partý, fann vinkonu mína og hringdi á leigubíl fyrir okkur.  Ég man að ég var skjálfandi á beinunum og dauðskammaðist mín.  Ef það hefði farið verulega illa þá hefði mín saga ekki verið féleg.  Búin að drekka, fór heim með fólki sem ég þekkti ekkert, ég hefði ekki einu sinni getað sagt hvert heimilisfangið var...  Ég sór þess dýran eið að setja mig aldrei aftur í þess konar aðstæður og prísaði mig sæla að hafa sloppið með lexíu fyrir lífið.  Ég skammaðist mín svo fyrir 'minn þátt' í þessari uppákomu að það liðu mörg ár þar til ég sagði nokkrum manni frá þessari óskemmtilegu reynslu.

Við ræddum líka um hvernig það væri fyrir einhvern sem hefði orðið fyrir því ofbeldi sem nauðgun er, að sjá orðið notað svona.  Ég hef líka tekið eftir og man sjálfsagt sjálf eftir því líka, hvað unglings stelpum er tamt að kalla aðrar stelpur 'mellur' og 'hórur', við fórum aðeins yfir það líka.  Konur/stelpur eru dætur, mömmur, systur, vinkonur, frænkur o.s.frv., ekki gleyma því.  Statusinn var strokaður út og ég held að ég hafi náð í gegn með minn boðskap.  Ég vona það alla vega.

4. des. 2011

Secret-að feitt

Fórum í hlaupa-brunch á laugardaginn og skemmtinefndin var með lotterí vegna þess að nokkrir vinningar sem þau höfðu safnað fyrir árshátíðina bárust of seint og gengu þar af leiðandi ekki út.  Við áttum að skrifa númer á miða, strákarnir sér og stelpurnar sér, síðan var dregið og þá þurftu þeir sem unnu að útskýra töluna sína.

Ég fór eitthvað að grínast með að það væri nú engin spurning, ég myndi taka þetta og sagði félögum mínum söguna af því þegar rauðvínslottó-ið í vinnunni var lagt niður eftir að ég hafði unnið 8 sinnum af 12 dráttum, þar af 6 síðustu skiptin í röð.  Eftir það var einhvern veginn enginn stemmning hjá hinum...   Mín kenning var sú að eftir að hafa unnir nokkrum sinnum þá fóru allir að trúa því að ég myndi vinna og það var alveg sama hver var látinn draga úr pottinum, alltaf kom minn miði upp og því oftar sem hann kom upp, því vissari voru allir að ég myndi vinna.  Bullandi Secret vítahringur (þ.e. fyrir hina :þ  )

Ég skrifaði síðan tölu á miðann minn og horfði djúpt í augun á þeim sem sá um að draga, rétt áður en hann dró miðann...  MINN!   Ég fékk flottan bleikan Asics bol í vinning.  En það var ekki nóg, það voru dregnir út 3 aðrir vinningar og það voru þeir þrír aðilar sem voru næst mér sem fengu þá.  Eftir fyrstu tvo þá fórum við að hlægja að þessu, í því röltir ein konan yfir í hópinn til okkar og það er eins og við manninn mælt, hún fékk síðasta vinningin.

Ég valdi töluna 7.  Þórólfur og Gabríel eru fæddir í 7. mánuðinum, ég var 7 mínútur á fæðingardeildinni með Lilju mína og hún er fædd 2007 og svo ég fékk hana Sonju mína í 7. meðgöngunni minni.