25. ágú. 2010

Klifurhúsið

Í gær fór ég í fyrsta skipti á ævinni í klifurhús.  Við Gabríel fórum með góðri vinkonu minni og syni hennar, þau sýndu okkur grunnatriðin og hjálpuðu okkur af stað.  Vá hvað þetta er erfitt!!!  Fyrstu veggirnir voru í lagi, þegar maður var óþreyttur og ég gat treyst á kraftana, en þar sem tæknina vantaði algjörlega þá gekk fljótt á þá.  Ég sé að það er stórhættulegt fyrir manneskju eins og mig að koma nálægt þessu.  Þurfti nefnilega að gefast upp í svörtu brautinni og nú hugsa ég ekki um annað en að komast aftur og klára hana.  Viss um að ég komist hana óþreytt.  Og svo er það kaðlstiginn.  Hann var þvílíkt freistandi, dinglaði fyrir framan mann mjög sakleysislegur en þar er málið að geta klifrað bara á höndunum alla leið upp í loft, snerta grænan ferhyrning og fara aftur niður.  Ég held að mig hafi dreymt græna ferhyrninginn í nótt...  Ég skil líka vel af hverju klifrarar eru svona grannir, maður blótar aukakílóinu í sand og ösku þegar maður hangir á fingrunum og það er eins og það sé búið að festa blý í rassinn á manni!  Á leiðinni út sá ég fullt af coverum á klifurblöðum og þvílíku skvísurnar, hangandi utan á einhverjum klettum, hrikalega þokkafullar.  Mig langar að vera svoleiðis þegar ég verð stór :)

Fékk sendingu frá skipuleggjendum Vesturgötunnar í síðustu viku.  Sérprjónaða verðlaunapeysan komin í hús og hún er algjört æði!

2 ummæli:

  1. Ég er til í klifurhús! Ólst upp í klettunum í Borgarnesi og hlýt að vera ÓGÓ góð í klifri ;-)

    Flott peysa, annars!

    SvaraEyða
  2. Peysan er æði og örugglega sjúk með nýju gallabuxunum.

    SvaraEyða