30. ágú. 2012

Öll að koma til

Nú er ég búin að hvíla mig eins og mér sé borgað fyrir það, nýti hvert tækifæri til að fá mér kríu og finn hvernig ég er að fyllast af orku aftur.  Ég er líka búin að fylla á magnesíum byrgðir líkamans en að öllum líkindum hef ég verið komin í þrot og þ.a.l. lent í þessu krampaveseni.  Ég er búin að prófa nokkra tíma í Hreyfingu  í hlaupahvíldinni, synda aðeins og hjóla.  Hjólaði til vinkonu minnar í dag og flaug svona líka svakalega á hausinn á beinum kafla, á gangstíg, á fjallahjólinu mínu, toppiði það!  Skóf af mér hægra hnéð og snéri upp á vinstri þumal sem er bólginn og aumur núna.  Ég átti tíma hjá honum Rúnari sjúkraþjálfara í dag til að taka stöðuna á kálfanum og hann teipaði á mér þumalinn.  Er ennþá pínu stíf í kálfanum en þetta er allt að koma, hvíli fram yfir helgi og þá má ég fara að taka á því aftur.  

Við skrifuðum undir kaupsamning á þriðjudaginn, ó hvað við erum glöð og hlökkum til að flytja í nýja húsið okkar.  Dæs...


Síðasti dagurin í fæðingarorlofinu á morgun og eftir helgina fer ég að vinna aftur eftir 13 mánaða hlé.  Það verður pínu skrýtið en ég er til í tuskið núna.  En fyrst er það dekurhelgi í Reykjanesbæ á Ljósanótt.  Gaman.

28. ágú. 2012

Zen

Þvílík ró.  Sonja hjá dagmömmu, Lilja í skólanum, Gabríel sefur og Þórólfur í vinnunni.  Ég er búin að gera nákvæmlega ekkert nema fá mér kaffisopa og glugga í blöðin í heilan klukkutíma.  Enginn að toga í buxnaskálmina mína eða biðja mig um að gera eitthvað.  Dæs...   

Og nú langar mig til að fara að gera eitthvað.  Ætla að skella mér í stuttan tíma í Hreyfingu sem heitir Zen kjarni, á ótrúlega vel við núna.  Ég tók þátt í Miðnæturhlaupinu og númerið gildir sem 10 daga passi í Hreyfingu.  Byrjaði í gær og fór í Hot Jóga en ég hef ekki prófað það áður og ég verð að segja að mér finnst þetta rugl heitt!  Ég gat svo sem alveg gert allar æfingarnar, er vön að vera mátulega miklum í hita í HD fitness og kann jógaæfingarnar en ég get ekki skilið að það sé gott að tæma allan vökva úr líkamanum og vera í átökum í svona miklum hita.  Fólk lyppaðist niður og þurfti að fara út oftar en einu sinni til að jafna sig.  Ég er enginn sérfræðingur en ég er mjög góð í að hlusta á líkamann minn og mér leið ekkert vel í þessum tíma og var sjúklega þyrst erftir þetta og dösuð.   Þá er ég hrifnari af sjósundinu!!!

Ég er ennþá aum í kálfanum og bara þreytt í öllum skrokknum einhvern veginn þannig að ég ætla að gefa mér einhverja daga í viðbót í dekri og afslöppun.  Já eða bara þangað til að ég finn að ég er aftur orðin úthvíld, hversu langan tíma sem það tekur.

Er ótrúlega mikið zen eitthvað þessa dagana og gæti ekki verið glaðari. 


24. ágú. 2012

Alveg nýtt... bágt

Ég hélt að ég væri komin hringinn í hlaupameiðslum og það væri ekkert sem kæmi mér á óvart lengur en nei, í vikunni upplifði ég alveg nýtt og óskemmtilegt.  Fór út að skokka á þriðjudags eftirmiðdaginn með iPodinn og í besta skapinu.  Verð reyndar að viðurkenna að ég var orðin ansi langþreytt eftir álag síðustu vikna, þá aðallega fasteignakaupa/sölu álags en ég á miklu erfiðara með að höndla það en erfiðar líkamlegar æfingar.  

Alveg búin á því og lagði mig á elhúsgólfinu.  
Þurfti nákvæmlega að bíða í svona 30 sek. eftir félagsskap :)

Alla vega, lullaði mér inn í Elliðaárdal og þegar ég er næstum komin upp að Árbæjarlaug hitti ég nokkrar hlaupaskvísur, stoppaði og spjallaði í smá stund.  Þegar ég skokka svo aftur af stað fæ ég þennan líka hrottlega krampa í vinstri kálfann og þarf að stoppa í sporinu.  Ég hef aldrei áður fengið krampa í kálfa, teygði aðeins en fann að ég var hel aum og þurfti að labba heim aftur!

Ég er ennþá aum í kálfanum og með marblett sem ég veit ekki hvort kom áður eða eftir krampann.  Ég prófaði að skokka nokkur hundruð metra í gær en fann þá kálfann stífna aftur upp.  Það verður forvitnilegt að sjá hversu fljótt ég jafna mig á þessu, tilfinningin er eins og smá tognun en mér finnst það skrítið að það gerist á skokki?   Ég er nú alveg pollróleg yfir þessu, hef í nógu að snúast þessa dagana og ég labba, hjóla og syndi þangað til að mig langar til að hlaupa aftur.  

En já, aðalmálið hjá okkur núna er að Sonja er nýbyrjuð hjá dagmömmu og gengur vel.  Ætli við höfum ekki báðar verið orðnar tilbúnar í smá aðskilnað.  Liljan mín er byrjuð í skóla, fyrsti skóladagurinn í dag og hún er svo ánægð með skólann og frístundaheimilið.  Ég er að fara að vinna aftur í byrjun september eftir 13 mánaða barneignarfrí.  Og svo erum við búin að nýta sumarfríið í að kaupa hús og selja tvær íbúðir!!!  Meira um það bráðum.  Segið svo að maður kunni ekki að slappa af í fríinu sínu ;)

Stóra stelpan mín tilbúin til að hefja skólagöngu.

Flottar bekkjarsystur.

Sonja farin að spila á píanóið

22. ágú. 2012

RM 2012

Ég ætlaði að byrja á að segja að ég hafi aldrei verið að toppa í RM og eins og venjulega hafi þetta verið frekar erfitt og ég töluvert frá mínu besta.  En þegar ég fór að hugsa til baka þá er það er bara alls ekki þannig.  Ég hljóp frábært maraþon í Reykjavík 2005 en það var annað maraþonið mitt og ég stefndi á sub 3:30.  Endaði á 3:28 og var 3. íslenska konan í mark það árið.  Ég hef alltaf tengt það hlaup við þá ákvörðun mína að verða 'alvöru' hlaupari og virkilega sjá hvaða árangri ég gæti náð með góðum æfingum.   Ég hef líka hlaupið gott hálf maraþon á 1:29 í RM, það eru eiginlega bara 10 km hlaupin sem ég hef verið að ströggla við.  Ég er alveg búin að greina þetta hjá mér.  Alla jafna er ég búin að keppa mjög mikið í maí, júní, júlí og hungrið dvínar.  Við erum líka yfirleitt í sumarfríi í júlí og þá fer öll rútína út í veður og vind, matarræði og æfingar fara úr skorðum.  Í ár bættist ofan á heilmikið álag vegna þess að við vorum að kaupa okkur hús og selja íbúðirnar okkar í flóknum fasteignaviðskiptum.  Já og Sonja er að byrja hjá dagmömmu og Liljan okkar er að fara í skóla!  

Ég þekki mig og kroppinn minn nógu vel til að vita að í ár var það verðugt markmið að hlaupa þannig að ég gæti notið dagsins, skemmt mér og gert mitt besta.   Ég svaf vel og vaknaði spræk og tilbúin í daginn.  Eftir keppnisrútínuna hjólaði ég niðrí bæ og náði að fylgjast með maraþon og hálf maraþon hlaupurunum leggja í hann.  Stemmningin!!!   Svo var bara að hita aðeins upp og græja sig fyrir hlaupið.  Á ráslínunni áður en við lögðum af stað var tilkynnt að bestu 10 km hlauparar landsins væru með í dag miðað við árangur á árinu. Nafnið mitt var lesið upp og það kom í ljós að ég átti 3. besta tímann í 10 km í ár, ég vissi það ekki :)   

Bara gaman að komast af stað, þvílík blíða og allaf jafn gaman að hlaupa inn Lynghagann þar sem íbúarnir leggja metnað sinn í að hvetja hlauparana með tónlist og gleði.    Um miðbik hlaupsins fór ég aðeins að ströggla en svo náði ég áttum aftur eftir 7 km en þá var mér ljóst að ég væri ekki að bæta pb (og ekki að vinna muwahahahah....), slakaði á í öxlunum, lét spennuna bókstaflega leka út um fingurgómana, fann brosið breiðast yfir andlitið á ný og fiðrildin í maganum fara á flug í hvert sinn sem ég sá kunnuglegt andlit og fékk hvatningu frá vinum og fólkinu mínu.  Ég hljóp á 40:50 sem er pb í þessari braut og varð 5. kona í mark.  Ég tryggði mér jafnframt 2. sætið í Powerade sumar seríunni og hlaut að launum flottan bikar og Asics skó.  Það sem stóð upp úr var nú samt að sjá gleðina og sigurvímuna í andlitunum á þeim sem voru að ná sínum markmiðum stórum og smáum.  Frábær dagur.

Þórólfur og stelpurnar komu og hvöttu mig til dáða á lokakaflanum.

Rík.

Ekki ónýtt að vera á palli með þessum skvísum!

21. ágú. 2012

Déjà vu

Ég er mikið búin að velta því fyrir mér hvort ég eigi ekki að láta þetta blogg gott heita og hætta.  Ég hef það stundum á tilfinningunni að ég sé búin að blaðra um allt sem skiptir mig máli og ég finn að ég fer í hringi og endurtek mig vegna þess að lífið er pínulítið þannig.  Er ég ekki búin að segja allt sem ég þarf að segja?  Eftir tæpa tveggja mánaða hvíld langaði mig aftur til að setjast niður og koma hugsunum mínum í orð.  Ein ástæðan er sú að ég rakst á þetta blogg og ég hafði sérstaklega gaman af því að lesa það vegna þess að ég kannaðist við höfundinn.  Ég tók þátt í sjónvarpsauglýsingu fyrir Asics um daginn (n.b. var uppfyllingarefni :) og eins og gengur og gerist tók þetta heilmikinn tíma og ég væri ekki sú sem ég væri ef ég hefði ekki náð að blaðra við hálfan hópinn til að stytta mér stundir.  Einn þeirra sem ég spjallaði við var höfundurinn en hann hafði verið á næringarfyrirlestri sem við Þórólfur vorum með hjá hlaupahópi FH.  Hann kom til mín og þakkaði fyrir sig og sagði mér aðeins af sér og hvað hlaupin hefðu haft jákvæð áhrif á hans líf. 

Í gær googlaði manneskju sem ég átti samskipti við en hafði aldrei hitt og í gamni þá googlaði ég sjálfa mig með nýja nafninu mínu (Eva Skarpaas) líka og viti menn, eitt af því sem kom upp var þetta blogg.  Ég hef lesið milljón svona blogg og hef skrifað milljón svona blogg og samt fannst mér frábært að lesa það.  Það er bara þannig að aldrei er góð vísa of of kveðin og á hverjum tíma er kannski einhver sem þarf akkúrat að heyra það sem maður hefur að segja.

Þannig að ég held svei mér þá að það sé smá líf í glæðunum enn og nú fer ég aftur að dásama rútínuna mína, punkta niður merkisviðburði í lífi barnanna, upplifanir úr hlaupunum, áskoranir og sigra.  Eða kannski bara fyrst og fremst að nota þennan vettvang til láta allan heiminn vita hversu margt það er sem veitir mér ánægju í lífinu, að ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að ég er lukkunnar pamfíll og þar af leiðandi að springa gleði, ást og þakklæti.  Gleði, ást og þakklæti.  Er það ekki málið?



Nautn að horfa á þennan mann vinna á Menningarnótt.  Hann lagði þvílíka alúð í verkefnin sín og við biðum þolinmóð og borguðum með ánægju fyrir listaverkið.  Þetta er einmitt að vanda sig við lífið.



8. ágú. 2012

Ertu hætt að blogga?

Ég veit það ekki.  Þetta langa hlé varð eiginlega óvart, sumarfrí og svona.  Svo er bara svo mikið skemmtilegt að gera að ég tími ekki að nota tímann í blogg...   Nú er stund milli skemmtana, sjáum svo hvað setur :)


Við fórum til Norge


Við fórum á Hlaupahátíð á Vestfjörðum


Gabríel fór í ævintýraferð til Englands



Gamla tók þátt í Hálfum járnkarli 


Við héldum uppá eins árs afmælið hennar Sonju