1. júl. 2012

Orsök og afleiðing

Ég fór í vikunni til hans Daníels Smára í Afreksvörum til að skipta nokkrum vörum sem ég fékk í verðlaun í Mt. Esja Ultra og þurfti ekki á að halda.  Ég var heillengi að vangaveltast og skoða mig um í búðinni hjá honum og var eiginlega búin að ákveða að taka Compression buxur þegar ég rek augun í svakalega flottan þríþrautargalla!  Ég á allar græjur til að keppa í þríþraut nema gallann, hef notast við hlaupaföt eða fengið lánað hingað til þannig að það var engin spurning um að taka hann.   Planið hjá mér var nefnilega að demba mér út í þríþrautina aftur næsta vor, þá væri ég búin að hjóla heilmikið en ég byrja að hjóla eitthvað af viti þegar ég fer að hjóla í vinnuna í haust.  

Svo var ég komin heim með flotta þríþrautargallann minn og fannst nú hálfgerð synd að hann væri bara ofan í skúffu í hálft ár...   Og það er náttúrulega Hálfur járnkarl seinna í mánuðinum sem myndi smellpassa fyrir gallann.  Og...  hugs, hugs...

Svo fæ ég boð um að skella mér í sjósund frá henni vinkonu minni og þrátt fyrir yfirlýsingar um að ég ætli ALDREI, ALDREI, ALDREI  að fara í sjóinn á Íslandi, það er ekki fyrir mig og ég er allt of mikil kuldaskræfa, þá sá ég tækifæri til að prófa þríþrautargallann :)   Í Nauthólsvíkinni var ég svo heppin að fá smá leiðbeiningar hjá 'Sjósundsmanni Íslands', honum Benna sem synti yfir Ermasund og hann gaf mér nokkur góð ráð.  Hann sagði líka að það væri algjört lágmark að taka 15 sundtök og þá ákvað ég náttúrulega að taka alla vega 30 eða 42...   Það fór svo bara þannig að ég óð út í sjóinn og hætti ekki fyrr en ég var komin á sund, missti andann í nokkrar sekúndur og náði svo að slaka á.  Þá var ég líka góð og ég endaði á að synda í kringum ilströndina, 250 m og fór upp úr hjá klettunum hinu megin.  Mér fannst þetta gaman og fer örugglega aftur, þrátt fyrir allar fyrri yfirlýsingar.

Í dag fór ég svo að æfa mig að hjóla.  Hitti félaga úr Ægi þríþraut og við hjóluðum í áttina að Þingvöllum.  Var ákveðin í að taka bara stöðuna eftir því hvernig mér myndi líða og ég náði að hanga vel í strákunum að Gljúfrasteini en þá fór ég að síga aftur úr.  Það fór svo þannig að við hjóluðum upp að Skálfelli og þá voru allir tilbúnir að snúa aftur í bæinn.  Á bakaleiðinni hjóluðum við svo uppi HFR hjólara og vorum samferða þeim í bæinn.  Kom heim eftir 60 km túr á þokkalegum hraða og ég finn að ég á alveg eftir að ráða við hjólalegginn.

Áttum svo frábæran dag í Húsdýragarðinum með stelpunum.