27. nóv. 2014

Vandræðalegt...

Annar tími hjá Postura og í þetta sinn bjó ég mig undir alvöru pyntingar.  En allt kom fyrir ekki, þrátt fyrir að það væri ansi mikið þjösnast á mér þá gat ég vel umborið þetta.  Rótin að verknum neðst í mjóbakinu var í mjöðminni á mér og eftir pot og nudd, þá endaði tíminn á því að mér var hnykkt út og suður.  Fyrst hálsinn, braaakkkk... svo vinsti hliðin, meira brak og að lokum hægri hlið.   Í lokahnykknum gerðist eitthvað furðulegt og ég fékk ósvöðvandi hláturskast!  Ég emjaði úr hlátri, hristist og fékk tár í augun og gat engan veginn hætt að hlægja.  Maðurinn horfði á mig í forundran og sagði síðan eftir nokkra stund 'Ég fer bara fram á meðan þú jafnar þig...'.

Í nokkrar mínútur í viðbót hristist ég úr hlátri á bekknum en náði svo hemja mig að lokum.  'Þú mátt bara fara núna.'  Hláturinn bubblaði ennþá í mér og þegar ég borgaði fyrir tímann (hjá öðrum manni) og ég handviss um að hann hafi flissað pínu þegar hann leit upp.  Svo hló ég alla leiðina í vinnuna og var hálf flissandi allan daginn.  Sem betur fer er verkurinn farinn og ég þarf ekki að fara aftur.



Ég er búin að ræða þetta við heilmarga en engin kannaðist við þessar lýsingar og ég var farin að hallast að því að ég væri 'klín kókos'...  En hver kemur þá til bjargar nema Google!  Þetta fyrirbæri er al-þekkt og ég er alls ekki sú eina í heiminum sem hef upplifað þetta!  Sjáið bara þetta!  Og þessar upplýsingar fann ég á FAQ síðum um allt sem viðkemur hnykkingum (Chiropractic)...

Is it true that some patients experience emotional changes while under chiropractic care?

Yes. Almost every patient experiences some emotional change. It can range from uncontrollable laughter, gentle crying, singing and outbursts of joy to the more typical sense of optimism and lightness. Subluxations are caused by emotional, physical and chemical stress to the nervous system and body. My understanding is that once an emotionally-caused subluxation is removed, the body is released from the pathological effect of this emotion, leading to a cathartic release.

Og hér er kafli sem ég fann annars staðar:

Where chiropractic adjustments usually are associated with swift movements and the sound of bones cracking, the Network practitioner uses mostly the light touch of a finger to create the desired effects. Patients under treatment experience not only physical changes, but also emotional release such as uncontrollable laughter or crying, easier breathing, and deep relaxation.
Hjúkkit.

23. nóv. 2014

Gerir mistök... og lagar til eftir sig.

Mér líður best á hlaupabrautinni þessa dagana, það er bara þannig.  Er ekki orðin alveg góð í bakinu en þegar ég hleyp finn ég ekki fyrir neinu nema vellíðan og því hraðari æfing, meiri hiti, því betra. Eftir sprettæfingarnar er ég súper-góð í sólarhring.  Engu að síður leiðist mér þófið og er afspyrnu léleg í að vera ekki 100% og þá grípur maður til allra ráða og einmitt þess vegna pantaði ég tíma hjá náunga sem ég hef heyrt mikið um en aldrei farið til og ekki að ástæðulausu... hann er kallaður Jói pyntari.

Fór á þriðjudaginn í Postura þar sem Jói tók á móti mér.  Ég þurfti nú ekki mikið að segja hvað væri að hrjá mig, hann horfði á mig og sagði mér svo frá öllu sem var í ólagi.  Hann leiðrétti líkamsstöðuna, gaf mér góð ráð, benti svo á staðina þar sem ég fann til og sagði að vinstri löppin á mér væri úr synci.  Því næst fór ég á bekkinn, þar sem hann og félagi hans héldu mér, tosuðu, kipptu og hnykktu mér sundur og saman.  Það brakaði í mér frá tám og upp í hvirfil en eftir að hafa verið með þetta tak í bakinu í nokkrar vikur þá er ég búin að stífa líkamann svo gjörsamlega af að ég var eins og spítukarl.  Ég upplifði engar pyntingar í þetta sinn en missti andann nokkrum sinnum í hnykkjunum en það var ekkert mál.

Þegar þeir voru búinir stóð ég upp og fann strax að ég var allt önnur en ennþá með smá verk neðst í mjóbakinu.  'Hvenær fer verkurinn?'.  'Eftir þrjá daga.'   Ég tók síðustu verkjatöfluna tveim dögum síðar og er búin að vera góð í nokkra daga.  Ég fór ekkert að hlaupa í gær vegna anna og í gærkvöldi fannst mér ég aðeins verri aftur.  Betri eftir hlaup í dag en ég á annan tíma í Postura á þriðjudaginn og spurning hvort það klári málið.  

Þetta var erfið vika peysulega séð.  Ekki það, ég prjónaði eins og vindurinn en þegar ég var að bíða eftir henni Lilju minni á sundæfingu kíkti ég í gamni á uppskriftarsíðuna og á myndir frá öðrum sem eru að prjóna sömu peysu.  Og þá rak ég augun í að hliðarnar á bakinu hjá mér voru ekki eins og hjá þeim!!!

Kom heim og kannaði málið betur og jú, var búin að gera bölvaða vitleysu.  Ekki það, ég las uppskriftina aftur og mér fannst þetta ekki mjög skýrt en alla vega í staðinn fyrir að það væru tvær slétta og tvær brugðnar eins og í stroffinu sitt hvoru megin við aðal mynstrið þá átti að vera tvöfalt perluprjón.  Hugsaði aðeins málið hvort ég ætti bara að breyta restinni af peysunni til að sleppa við að laga en komst að því að ég yrði aldrei ánægð með það.  Þannig að ég notaði tvö kvöld í að rekja upp eina lykkju í einu alla leið að stroffi og hekla hana svo upp á réttan máta aftur...   20 lykkjur alls.  Og tatahhh..., hrikalega fínt núna og ég komin vel upp yfir ermaúrtöku.  

Hérna er ég búin að laga hægra megin.

Hérna er þetta svo komið og byrjuð á úrtöku fyrir ermar.

16. nóv. 2014

Heldur sér við efnið

Leiðinda vika heilsufarslega séð.  Fylltist af kvefi og ógeði á sunnudagskvöldið síðasta og er ekki ennþá búin að jafna mig alveg þó ég sé betri í dag en í gær.  Finn ennþá fyrir stífleika í bakinu og líður pínulítið eins og konu á fimmtugsaldri svei mér þá, mjög framandi tilfinning.  Og í dag tók svo betri helmingurinn upp á því að næla sér í svæsna magapest, grey kallinn veit ekki hvort hann er að koma eða fara.  Krossa putta, tær og allt annað sem mér dettur í hug og forðast hann eins og pestina...!

Hápunktur vikunnar var nú samt í gær, ég orðin þokkalega spræk og bóndinn ekki orðin veikur, en þá fögnuðum við 11 ára brúðkaupsafmæli.  Við héldum uppá áfangann með rómantískri bæjarferð, köku og kaffi latte á Garðinum.

Áskirkja 15. nóvember 2003

Garðurinn 15. nóvember 2014

Þegar maður er ekki til stórræðna í hlaupum og öðrum líkamlegum átökum þá er nú aldeilis gott að nýta tímann í prjónaskapinn og ég er hæst ánægð með afrakstur vikunnar.  Ta..tahhh...  eins og dóttir mín hin yngri myndi segja:

Vika 2

Og nóttin er ung, næ örugglega nokkrum umferðum í viðbót, allir aðrir á heimilinu í bólinu :)

10. nóv. 2014

Finnur sér verðugt verkefni

Nú þegar aðal hlaupa-keppnistímabilinu er lokið og það eina fram undan eru stöku 10 km hlaup, þá er allt í einu fullt af tíma og ég er ekki eins þreytt á kvöldin eftir langar æfingar.  Ég er reyndar að æfa mjög vel, hleyp 5-6 sinnum í viku en ekki eins mikið magn og ég hef verið að gera undanfarna mánuði.  Reikna með að auka í aftur eftir áramótin.  Sprettæfingarnar á mánudögum og miðvikudögum með stelpunum hjá GPJ erum alveg frábærar, nú erum við 6 sem æfum saman og höldum hvor annarri við efnið.

Dró fram prjónana aftur eftir langt hlé og fleira kom til en minni æfingar.  Sonja orðin svo stór að hún er hætt að flækjast í garninu mínu og fátt eins kósý og sitja með prjónana á kvöldin þegar vetrar.  Ég byrjaði á prjóna mér svarta peysu, var búin að eiga garnið í nokkur ár...   Það er orðið ansi langt síðan ég hef prjónað eitthvað eftir uppskrift og ég notaði bara aðarar peysur sem ég á til viðmiðunar enda ekki flókin hönnun hér á ferð.  


Þegar peysan var klár prjónaði ég bindi handa Þórólfi.  Var búin að sjá myndir af flottum bindum á netinu, átti skemmtilegt garn og mixaði nokkrum hugmyndum í eitt bindi.  Bóndinn alsæll með útkomuna.  


Það er voða mikið um kaðlapeysur núna, mér finnst þær fallegar og var með augun opin fyrir flottri uppskrift.  Ég prjónaði síðast kaðlapeysu á hann Gabríel fyrir 12 árum eða svo, en það er eins og með flest, það virkar miklu flóknara en það er og ég er alveg óhrædd við að taka slaginn.   Fann svo flotta uppskrift um daginn og það má segja að hún sé fyrir allan peninginn!  


Keypti garn í RL og byrjaði að prjóna í vikunni.  Þetta verður 'langhlaup' ef það má orða það þannig og til að halda mér við efnið mun ég pósta framvinduskýrslu vikulega þar til verkinu er lokið.  Ekki alveg tilbúin að setja mér markmið ennþá, þarf að fá alla vega tvær vikur til að sjá meðal framleiðni til að geta reiknað út verklok... En fyrir jól hljómar sérstaklega vel!  Sé þetta alveg fyrir mér... í náttbuxum og peysunni, drekkandi heitt kakó úr blóma-bolla frá tengdó (fann ekkert ittala dót til að troða inná myndina :).

Vika 1 - Bak hluti