27. okt. 2010

Gungur

Ó hvað ég á erfitt með gungur!  Kanski af því ég var einu sinni svo mikil gunga sjálf.  Ég er svo heppin í dag að þekkja heilan helling af flottu, hugrökku fólki sem gerir umburðarlyndi mitt gagnvart gungum enn minna...

Um helgina horfðist ég í augu við gungu.  Gungan lét persónulega innibyrgða reiði sína gagnvart mér, bitna á manninum mínum þar sem hann var að hvetja hlaupara í Haustþoninu.  Í staðinn fyrir að þakka stuðninginn eða bara láta hann afskiptalausan, snéri hann sér að honum, gretti sig ógurlega og setti þumalinn niður.  Krakkarnir voru sem betur fer á þeirri stundu komin niður í fjöru að leika sér.

Eftir hlaupið fékk ég að heyra af þessu og spurði gunguna hvort þetta væri satt og hvað henni gengi eiginlega til með þessari hegðun?  'Já, ég gerði það!', sagði hann hróðugur.  'Maðurinn þinn á stoppa þessi geðsjúku skrif þín á blogginu!!!'.   (Ég geri þá ráð fyrir að maðurinn sé að vísa í þetta eða þetta, nei það er sennilega þetta sem hann meinar þegar hann talar um geðsjúk skrif, án þess að vita það fyrir víst enda  skýrði hann það ekki nánar.)

Þegar ég stóð þarna með börnin mín tvö mér við hlið og horfði á afmyndað andlitið af reiði og hatri, hugsaði ég til þess að síðasta sumar ullaði sami maður á okkur hjónin í Laugardalnum þegar við vorum að hita upp fyrir Ármannshlaupið.

Já og ég hugsaði líka um tölvupóstana sem hann sendi og bað mig svo fyrir alla muni að birta ekki eftirá, sem var náttúrulega bara sjálfsagt.  Ég hef enga þörf fyrir að birta sorp.

Það rifjaðist líka upp fyrir mér atvik úr síðasta Haustþoni þar sem ég var í hörku keppni í hálfa maraþoninu.  Við komum 3 konur í röð að drykkjarstöð á snúningspunkti, ég síðust.  Fyrstu tvær fengu drykki en þegar kom að mér að taka við mínum, rykkti starfsmaðurinn (og spúsa ullarans/gungunnar) að sér drykknum og neitaði að afhenda mér hann!  Ég þurfti að hlaupa aukakrók að drykkjarborðinu og ná mér í drykk sjálf en svei mér þá ef það var samt ekki skárra en þetta, þó svo ég hafi á sínum tíma verið verulega slegin.

Áður en ég labbaði í burtu frá gungunni á laugardaginn og tók við sigurlaununum í hálfa maraþoninu, horfði ég í augun á henni og sagði ósköp rólega og yfirvegað:  'Þú ert lítill maður'.

Hann og hans líkar geta aldrei framar gert mér mein.

P.s. Ástæðan fyrir því að ég skrifa þennan pistil er ekki sú að ég þurfi endilega að vera að velta mér upp úr þessu, mér hundleiðist þetta mál frá upphafi til enda.  En ég hef tekið persónulega ákvörðun um að líða hvorki einelti, né ofbeldi og þá er sama hver á í hlut.  Ég ætla ekki að þegja yfir svona uppákomum lengur.  Skömmin er ekki mín.

Ath. Ég birti ekki nafnlausar athugasemdir, takk samt.

9 ummæli:

  1. Ég verð nú að segja það Eva að ég er alveg orðlaus og það þarf nú dálítið til.
    Mbk
    Gunnlaugur

    SvaraEyða
  2. Alveg sammála, hversu b.... getur fólk verið. Á bara ekki til orð.
    Með kveðju
    Sigríður Ásta

    SvaraEyða
  3. Sammála Gunnlaugi hér að ofan. Ég á bara ekki orð.

    SvaraEyða
  4. Sæl Eva,
    Væri nú ekki ágætt að nafngreina þessa gungu svo að maður sé ekki að dæma alla í Laugaskokki fyrir dóna og gunguskap. Það væri gott fyrir vini viðkomandi(ef hann/hún á slíka)svo að þeir geti boðið honum/henni aðstoð sína hvort sem það sé öxl til að gráta á eða boðskap um almenna mannasiði eða hvort tveggja. Hann/hún á greinilega bágt sem þarf að sinna.

    Mbk
    Stefán Viðar

    SvaraEyða
  5. Welcome to my world... :)

    Góð ábending Stefán og það er sjálfsagt. Sá sem að gretti sig framan í Þórólf, gaf honum þumalinn niður, ullaði á okkur og talaði um geðsjúk skrif mín heitir Davíð Björnsson.

    Ég vil taka það fram, það að lifa við þessa hegðun hefur ekki afgerandi áhrif á líf okkar lengur, meira eins og að fá smásteina í skóinn á hlaupum. Pirrandi og getur orðið að sári ef maður hreinsar ekki út.

    Ég geri mér líka grein fyrir því að þegar ég kemst í þær aðstæður að vera nálægt þessum litla hópi sem ofannefdur tilheyrir og hefur það að takmarki að gera okkur lífið leitt (sem er nánast eingöngu í keppnishlaupum í dag þar sem við forðuðum okkur úr Laugaskokki) þá verð ég óörugg, utan við mig og ég myndi segja introvert (öfugt við venjulega :). Ég veit hreint og beint ekki hvort fólk í sumum tilfellum vill mér vel eða illa.

    Það gerir það að verkum að ég held mig meira út af fyrir mig, bæði fyrir og eftir hlaup og er ekki mikið fyrir að spjalla. Getur örugglega komið út eins og ég sé fjarræn og ekkert sérstaklega vingjarnleg. Ég veit bara aldrei hverju ég á von á. Mér þykir það leiðinlegt og ég ætla að reyna að vinna í því.

    Svo er það nýjasta nýtt! Í dag heyrði ég frá vinnufélaga mínum að einhverjar fullyrðingar væru á Facebook um að ég hefði stytt mér leið í hlaupinu. Ja eða ekki beint stytt mér leið en ekki farið í kringum keiluna á snúningspunkti á Ægissíðu. Mér skilst að þetta hafi verið sagt í þeim tilgangi að rýra á einhvern hátt minn sigur í hlaupinu.

    Ég fór klárlega út fyrir keiluna og að drykkjarborðinu en þar voru annars vegar starfsmaður og hins vegar keppandi sem stóðu á milli keilu og drykkjarborðs og hindruðu umferðina þar á milli.

    Ég fullvissaði mig þ.a.l. að ég væri komin vel út fyrir keiluna vinstra megin áður en ég snéri til baka. Þessi hindrun tafði mig ekki umtalsvert, ég náði þeim sem ég var samferða út og aðal keppinaut mínum eftir u.þ.b. hálfan km. Starfsmenn gerðu engar athugsemdir við hvoru megin við keiluna ég fór á bakaleiðinni.

    Það er nú samt sjálfsagt mál að senda póst á skipuleggjendur og fá úr því skorið hvort nóg sé að fara út fyrir keiluna eða hvort það sé nauðsynlegt að fara hringinn í kringum hana. Það er þá spurning í leiðinni að senda inn fyrirspurn um hvort það sé í lagi að fara vinsta megin við staurinn þegar maður kemur úr lykkjunni frá Loftleiðum inn á malarstíginn þó svo örin hafi verið hægra megin við hann... Tveir hlauparar á undan mér gerðu það og ég sá ekki að það skipti neinu máli en hver veit...

    SvaraEyða
  6. Já og við þetta má bæta að Davíð Björnsson er starfandi gjaldkeri Laugaskokks.

    SvaraEyða
  7. Þessi farsi er orðinn á við bestu Hollívúdd mynd! Er viss um að handritahöfundar hefðu varla hugmyndaflug í svona...
    Knús á þig elsku vinkona!

    SvaraEyða
  8. Úff, þetta væri í mesta lagi léleg B-mynd. Ekki myndi ég borga fyrir að horfa á þetta alla vega. Takk fyrir knúsið, það er ómetanlegt að eiga vinkonu eins og þig, það núllar út alla lúða heimsins :)

    SvaraEyða
  9. Nánari upplýsingar varðandi Haustþonið í pistli hjá Gísla ritara: http://hlaup.malbein.net/blog/?p=1664

    SvaraEyða