13. ágú. 2010

Í upphafi skyldi endinn skoða!

Ég var að vinna í nokkur ár sem "Business Analyst" í hugbúnaðardeild og í því starfi lærði ég þá lexíu rækilega að í upphafi skyldi endinn skoða.  Starf mitt fólst í því að taka niður þarfir og óskir viðskiptavina um breytingar eða nýjungar í hugbúnaði.  Eftir að maður hefur safnað saman öllum óskum, þörfum og athugasemdum sem málið varðar, þá tekur við greining á m.a. afleiðingum þeirra breytinga sem verið er að óska eftir.  Ein pínulítil breyting einhvers staðar í einhverju kerfi, getur nefnilega sett fyrirtæki á hliðina ef allt fer á versta veg.  Titilinn á þessu bloggi voru einmitt gerð að einkunnar orðum okkar og við vorum dugleg að minna hvert annað á þetta.

Þessi fleygu orð hringla nú um í höfðinu á mér þegar ég hugsa um nýjustu pælingar mínar og samskipti við hagsmunaaðila þríþrautarmála á Íslandi.  Það er nefnilega þannig að hafi maður einu sinni verið á kafi í greiningum þá loðir það við mann, bara svona í lífinu almennt.  Þess vegna er ég yfirleitt mjög vel undirbúin og búin að skoða hlutina frá öllum hliðum (eins framarlega og mér er unnt :) áður en ég set eitthvað frá mér.   Af hverju er ég að spá í reglur og framkvæmd í þríþraut á Íslandi?  Það er ekki vegna þess að ég vilji skemma eða að mér sé illa við nokkurn sem að henni stendur, heldur vegna þess að mér er ekki sama.  Ég myndi t.d. ekki skipta mér af hestaíþróttum af því ég hef engan  áhuga á þeim.  Ég veit líka að með því að blaðra um þessi mál hérna þá verða ég seint valin vinsælasta stúlkan í þríþrautinni en það verður bara að hafa það. 

Nú hvað gerist þegar úrslitum er breytt á Íslandsmeistaramóti í Hálfum járnkarli eftir að keppni er lokið.  Ég er  ekki að gleyma því að þetta voru mannleg mistök hjá starfsmanni í talningu í sundinu, eitthvað sem alltaf getur gerst og er á engan hátt keppendunum að 'kenna' ef maður vill nota það orð.  

Jú, í fyrsta lagi þá liggja fyrir upplýsingar um raun tíma allra keppenda í þrautinni og röð þeirra eins og hún sannarlega var, þannig að það er ekkert erfitt að finna út hverjir áttu í hlut og hvernig tímum þeirra var breytt.  Þessar upplýsingar hef ég og í raun var fyrirspurn til mótsstjóra einungis af forvitni um hvernig yrði tekið á móti henni.  Svör voru í samræmi við væntingar.  Sundtímum þriggja keppenda var breytt eftir á, án skýringa og þannig voru þeir uppfærðir í afrekaskrá.  Tveir keppendur færast upp á listanum um tvö sæti en einn keppandi um eitt sæti.  Það gerir það að verkum að keppandi, sem gaf allt í botn til að ná og fara fram úr öðrum keppanda og kom sannarlega á undan honum í mark, þarf að bíta í það súra epli að sá sem hann sigraði, stendur honum nú framar í afrekaskránni.  Þrír keppendur eru sem sagt skráðir í afrekaskrá fyrir Hálfan járnkarl á tímum sem voru reiknaðir út eftir á, en ekki á þeim tímum sem þeir luku þrautinni á.  Til að gera málið flóknara þá sendi ég inn fyrirspurn í gegnum hlaup.com um hver sæi um uppfærslu á afrekaskránni, (til þess þá að geta sent inn athugasemd) og þá kom í ljós að það er einn þessara þriggja aðila...  Hehemm og hvað gerir maður þá?  Mér fannst alla vega ekki eiga við að senda ábendinguna þar sem það liggur ljóst fyrir að viðkomandi þekkti allar forsendur nú þegar :)

Nú er hægt að hugsa með sér að í keppnishlaupum þá er það alltaf röð keppenda í mark sem ræður úrslitum eru flögutímar stundum notaðir í afrekaskrár.  Ég hef ekkert á móti því, vegna þess að með flögutímanum er tryggt að viðkomandi hafi lokið tiltekinni vegalengd á tilteknum tíma, allt á tæru.  Ég hef meira að segja sjálf lent í þeirri stöðu að fá 3. verðlaun í keppnishlaupi (Miðnæturhlaupið í fyrra) en konan í 4. sæti var með nokkrum sekúndum betri flögutíma og fór þar af leiðandi ofar í afrekaskrár, með réttu.  Hins vegar hefði það aldrei komið til að kona sem er 4. í mark fengi 3. verðlaun, því maður veit aldrei hvaða áhrif það hefur á hlaupara að keppast um verðlaunasæti vs. að vera öruggur um það.  

Munurinn á að nota chip tíma og að nota útreiknaðan tíma eftir heimatilbúinni formúlu (t.d. meðalhraði á hverja 100m dreginn frá heildartíma) sem ekkert hefur með raunverulegan tíma að gera er í mínum huga álíka og munurinn á svörtu og hvítu.  Eitt er það sem gerðist í rauninni, hitt er það sem hugsanlega hefði getað gerst ef til vill...

Ég tók þátt í Kópavogsþríþrautinni fyrr í ár, hljóp út úr braut og miklu lengri leið en ég átti að gera.  Keppnisstjóri sendi frá sér flotta samantekt þar sem farið var yfir það sem betur mátti fara, m.a. merkingar  á  hlaupaleiðinni.  Þetta var bara ekkert mál, eitt af þessum shit happens.  Í rauninni hefði ég átt að vera DQ (disqualified) þar sem ég hljóp út úr braut og ekki inn á hana á sama stað.  Það var reyndar talað um að alla vega einn þriðja keppenda hefði átt að vera DQ af mismunandi ástæðum, miðað við að almennum reglum hefði verið fylgt.  Það var ekki gert og mér fannst það í fínu lagi þar sem þetta var lítil og skemmtileg þraut og allt var uppi á borðum.

Samkvæmt sömu hundalógikk og notuð er í Hálfa járnkarlinum, þá hefði ég getað gefið upp þá vegalengd sem ég sannarlega hljóp og þann hraða sem ég var á (var með Garmin svo ég veit hraða/vegalengd) og beðið mótsstjóra um að draga frá mér þær mínútur sem tilheyrðu umframhlaupi mínu og þannig verið á palli en ekki í 5. sæti.

Já sællll...  pæling :).  Svo er þetta allt saman kannski bara ósköp eðlilegt og sjálfsagt og ég bara svona ótrúlega öfugsnúin!

Annars er ég náttúrulega mest með hugann hjá þeim sem eru að fara að takast á við Ironman í Köben á sunnudaginn og hlakka til að sjá hvernig þau standa sig.  Búið að vera svo gaman að fylgjast með flottum undirbúningi, svo spennandi að sjá uppskeruna.  Ég á líka örugglega eftir að prófa þegar ég verð orðin stór.

 Gangi ykkur öllum sem allra best og megið þið rokka spikfeitt!

2 ummæli:

  1. Einmitt Eva mín, ekki meðvirk heldur sjálfvirk.

    Ég var kallaður Einar Andskoti þegar ég var í guðfræðinni af þeim guðfræðinemum sem nú eru orðnir prestar.

    Kannski þeim verði að ósk sinni....

    SvaraEyða
  2. Gaman að heyra í þér elsku bróðir minn! Að vera andskoti og að vera öfugsnúinn, er það ekki bara svipað? Þýðir and-skoti ekki bara sá sem skýtur á móti? Það væri skemmtilegt :) Annars finnst mér líka gaman að vera svona 'Devil's advocate', muwahahahhaha...

    In common parlance, a devil's advocate is someone who takes a position he or she does not necessarily agree with for the sake of argument. This process can also be used to test the quality of the original argument and identify weaknesses in its structure.

    SvaraEyða