29. maí 2013

Pínu Forrest Gump

Það er alveg svakalega gott að hlaupa hérna.  Í morgun ætlaði ég að taka smá túr, kannski 8 km en áður en ég vissi af var ég komin 7 km út í buskann og þá snéri ég við.  Ég hef ekki verið að taka neinar hraðaæfingar bara notið þess að sprikla á þægilegum hraða.  Það er líka eins gott að hreyfa sig heilan helling hérna í gourmet fæðinu hjá systur minni... 

Við fórum í bæjarferð eftir hádegið, skoðuðum útimarkaði og nutum mannlífsins.  Við stelpurnar fórum upp í Péturskirkjuna til að njóta útsýnisins yfir borgina en til að komast upp í turninn þarf maður að gjöra svo vel að tölta upp 306 brattar tröppur í einstigi.  Mamma, langt komin á áttræðisaldur tók þetta í nefið og það var bara fyndið að sjá hana skokka niður aftur eins og smástelpu.


Við skiptum svo liði og ég fór í smá verslunarleiðangur fyrir strákana mína á meðan restin fór í skoðunarferð í Asam kirkjuna sem er svakalega falleg barrokk kirkja.  Við hittumst svo aftur á kaffihúsi á Marienplatz en þar fengum við að bíða fyrir allan peninginn en veitingarnar voru góðar þegar þær komu.



Á heimleiðinni komumst við að því að það er frídagur hér á morgun, sem er mjög gott fyrir veskið!   Ásta riggaði fram enn einni gúmmelaði máltíðinni sem innihélt m.a. norskan lax, þýska skinku og, ferskan arspars, nammi namm.


Við fórum líka í gourmet búð í dag og mamma verslaði dökkt súkkulaði með rósarpipar og þvílíkt gúmmelaði með espresso ala Mummi.



Hlakka til að sjá hvað morgundagurinn ber í skauti sér og svo höldum við mæðgur heim á leið annað kvöld.

Bongó blíða í Munkaborg

Áttum frábæran dag í gær, veðrið lék við okkur með 20° hita og sól.  Við Ásta fórum í morgungönguna okkar, í þetta sinn um hverfin hérna í nágrenninu og svo tók ég hlaupatúrinn minn.  Maður er ekki lengi að koma sér upp rútínu!

Hlaupastígurinn minn.

Eftir góðan hádegisverð lá leiðin í Olympia park.  Við tókum sporvagninn upp eftir og röltum svo síðasta spottann.  Svakalega fallegt umhverfið og gaman að sjá þessar flottu byggingar.  Hlauparar og hjólarar út um all og fólk að slaka á.

Ég stökk upp á hæstu hæðina og útsýnið flott.

Inn í garðinum er einn af hundruðum Biergarten veitingahúsa Munchen borgar og við settumst og vökvuðum kroppinn og smökkuðum Bretzel með tilheyrandi gúmmelaði.  Er nú engin bjórkerling en lét mig hafa það að pósa með hann, look-aði bara rétt.

Glaðar mæðgur.

Ásta og Mummi kunna þetta.

Við systur ánægðar með hvor aðra.

Á heimleiðinni fórum við í Enska garðinn en það er risastór (7*13 km) garður í miðborginni sem er alveg einstaklega fallegur.   Fólk safnast þar saman á góðviðrisdögum, hleypur, hjólar, slakar á og hlustar á tónlist, kælir sig í ánni o.s.frv.

Ásta leiðsögumaður í essinu sínu.

Mannlífið í Enska garðinum.

Kínverski turninn, þekkt kennileiti í garðinum.

Eftir alla útiveruna var gott að komast heim í hús og slaka aðeins á, en við vorum búin að plana að fara út að borða með Robba, á ítalskan veitingastað í nágrenninu um kvöldið.  Þar áttum við frábæra kvöldstund, góður matur, mikið hlegið og margar sögur sagðar.  Já alveg frábær dagur í Munchen.

27. maí 2013

Bæjarferð

Ásta klikkaði ekki frekar en fyrri daginn á eldamennskunni í gærkvöldi og þá bauð frúin uppá dýrindis kjúklingarétt og tilbehör.


Eftir kvöldmat læddumst við Mummi inn í stofu og horfðum á einn góðan þýskan krimma, á þýsku og svei mér þá gamla menntaskóla þýskan dugði til að ná plottinu.  Ég sef svo eins og steinn hérna, sofnuð um leið og ég leggst á koddann.  Mér er samt búið að takast að klára eina bók, The Great Gatsby, en ég hef lengi ætlað mér að lesa hana.  Frábærlega skrifuð bók, margt til að hugsa um.

Í morgun tók ég langan hlaupatúr meðfram ánni Isar.  Yndislegt að hlaupa á mjúkum stígunum innan um trén.  Komst í Forrest Gump fíling og það var bara erfitt að snúa við.  Það er engin leið að villast hérna og stígarnir er bjartir, maður er aldrei óöruggur með sig.  Endaði í góðum 18 km og kom endurnærð og frísk heim.


Teygt á eftir hlaup við Friedens engel

Eftir góðan hádegisverð fórum við stelpurnar í bæjarferð og röltum okkur upp að hnjám.  Á leiðinni skoðuðum við ýmsa merkis-staði.  Mér fannst stórmerkilegt að sjá hóp fólks skiptast á að serf-a á Isar ánni í flúðunum.   Það gilda strangar reglur um fyrirkomulagið, serf-ararnir skiptast á frá sitt hvorum bakkanum og hafa bara stuttan tíma í einu til að æfa sig.  Ef næsta manni finnst hann þurfa að bíða of lengi þá er bankað ákveðið í brettið til að láta óánægjuna í ljós.  Svona er þetta allan ársins hring að mér skilst en ég get ekki sagt að mér hafi fundist þetta freistandi í grámanum í morgun.


Serf-að á Isar ánni.


Falleg fiðrildi lífga heldur betur uppá byggingu í miðbænum.


Kúlan hans Ólafs Elíassonar í Fünf Höfe.


Theatinerkirche

Við skoðuðum garða og fallegar byggingar, röltum um markaði og kíktum í nokkrar búðir.  Um miðjan daginn fundum við okkur lítið kaffihús og bættum á tankinn.  Virkilega skemmtilegur miðbærinn í Munchen, stór og breið göngugata og fullt af krúttlegum hriðargötum sem gaman er að kíkja í.


Sacher terta, apfelstrudel mit vanillesauce og íþróttaálfurinn með bláberja-skyrdrykk...  
Maður kann sko að njóta :)

Eftir alla útiveruna þá komum við heim í enn einn gourmet kvöldmatinn.  Innbakaður arspas í skinku og osti, með Hollandaise sósu, mit weiss wein.  Sehr shön...:

26. maí 2013

Hvíldardagurinn heilagur

Við Ásta byrjuðum daginn á góðri kraftgöngu og svo skottaðist ég í smá hlaupatúr á eftir.  Finn hvernig það líður úr mér þreytan.  Veðrið er frekar grátt og kalt og nú rignir þannig að við höfum það huggulegt inni við.  Ég er meira segja búin að fá mér góðan miðdegislúr.   

Eftir að við komum heim í gær riggaði Ásta upp dýrindis veislu, norskur lax í geitostasósu og með því.  Þvílíkt sælgæti.  



Eftir matinn horfðum við á úrslitaleikinn í Meistardeildinni og eins og ég hef lítinn áhuga á fótbolta, þá var þetta hörkuspennandi og frábært að fylgjast með okkar mönnum sigra.  Það verður þvílík stemmning í bænum þegar hetjurnar snúa aftur.

25. maí 2013

Eat, drink, sleep, walk, run...

Dásamleg byrjun á frábæru fríi.  Við komum hingað til Ástu og Mumma eldsnemma á föstudagsmorguninn og dagurinn fór að mestu í að spjalla frá okkur allt vit á milli þess sem við lögðum okkur, fórum í göngutúr um hverfið og borðuðum góðan mat.  

Svaf eins og steinn í nótt og eftir hafragrautinn drifum við Ásta okkur út í langa kraftgöngu.  Hún sýndi mér Freidens Engel sem er einn km frá okkur og svo tókum við góðan göngutúr í Enska garðinum.  Skilaði Ástu heim í sturtu og fór í smá hlaupatúr meðfram Isar ánni.   Eftir að stóra systir var búin að næra okkur með gourmet hádegismat fórum við í langan göngutúr um borgina og enduðum í heimsókn hjá Róberti frænda sem býr í næsta hverfi.  Fengum okkur smá hressingu á kaffihúsi í skólanum hennar Ástu á leiðinni:

  
Við stelpurnar við maí stöng og kaffisopi í skólanum.
                               

Mamma kveikir á kertum fyrir þá sem okkur þykir vænt um, eitt fyrir þá sem eru lifandi og eitt fyrir dána.


Hjá Roberti, allir strákarnir í símunum en stelpurnar að tala saman :)


Ekki leiðinlegt hjá mér :)

Nú erum við komin aftur heim í hús og við mamma sitjum eins og drottningar og bíðum eftir að kvölverðurinn veður framreiddur...

Það þarf ekki mikið til að gleðja gamlar konur, en ég var að kíkja á úrslitin í Flóa-, Fjölnis- og Valshlaupinu frá því í fyrra, því ég mundi að ég hafði tekið þátt en löngu búin að gleyma tímunum mínum.  Hafði á tilfinningunni að ég hefði örugglega hlaupið hraðar þá og væri ekki í eins góðu formi núna og blehhh...  Mér til mikillar ánægju þá var það bara alls ekki þannig:

2012 2013
Flóahlaupið 40:58 41:04
Valshlaupið 42:47 42:20
Fjölnishlaupið 42:31 42:10


Nú er bara að halda áfram á þessari braut, þá reiknast mér til að ég fari sjálfkrafa undir 40 um miðjan júlí og málið er dautt, erhaggi annars...

24. maí 2013

Mæðgnaferð til Munchen

Systir mín missti sig í símann við mig.  Ætlarðu hvað?   Er ekki í lagi með þig?   (n.b. með ást og umhyggjutón)

Já, ég átti sem sagt flug til Munchen rétt um miðnætti á fimmtudagskvöldinu og var að segja systur minni að við hjónin ætluðum að skottast í Fjölnishlaupið kl. 20 og bruna svo beinustu leið heim um leið og við værum búin að hlaupa, því mamma myndi sækja mig hálf tíu til að fara út á völl.

Við fengum heljarinnar harðsperrur eftir Haukahlaupið á mánudaginn og tókum bara stöðuna eftir því sem dagarnir liðu og ákváðum rétt áður en forskráningu lauk að vera með í Fjölnishlaupinu.  Það rættist úr veðrinu eftir sem leið á daginn og ég var búin að undirbúa brottför áður en við skottuðumst af stað.  Brautin er með þeim meira krefjandi, fyrstu 5 km að mestu niður í mót og flatt, seinni 5 km að mestu upp i mót í staðinn og brattasta brekkan á síðasta km.  Ég var harðákveðin í að hlaupa bara mitt eigið hlaup og láta samkeppnina ekki trufla mig eða rugla mig í ríminu.  Var yfirveguð niður brekkurnar og eftir fyrstu 2 -3 km fann ég mér gaur til að elta, hann hélt góðum takti og við hjalpuðumst af við að halda uppi hraðanum það sem eftir var halupsins.  Var létt á mér og frísk fram að snúning, sá alltaf í Helgu Guðnýju sem hafði forystuna frá upphafi en það var mjög stutt í næstu konur á eftir mér svo það var ekkert svigrúm til að slaka á...

Næstu 3 km liðu nokkuð hratt en svo fór aðeins að draga af gömlu, fann fyrir þreytunni í lærunum og nú var tími til að bíta á jaxlinn, hysja upp um sig og klára dæmið.  Pjakk, pjakk upp brekkurnar, ég og nýi hlaupafélaginn skiptumst á að draga hvort annað áfram.  Síðasta brekkan var mér hrikalega erfið og endaspretturinn var vægast sagt lítið þokkafullur.   Sjaldan verið eins glöð að krossa marklínuna, alveg búin á því eftir þessa keppnistörn og svo tilbúin í langa og góða hvíld, dæs...

Eva, Helga Guðný og Ósk.

Þórólfur, Ingvar og Róbert.

Fjölnismenn flýttu verðlaunaafhendingunni til þess að við hjónin gætum tekið þátt og að henni lokinni hlupum við út í bíl, brunuðum heim og ég var rétt komin úr sturtu og í fötin þegar mamma bankaði uppá.  Allt gekk eins og í sögu hjá okkur mömmu á ferðalaginu og Ásta og Mummi tóku á móti okkur með bros á vör út á flugvelli.  

Tvær tilbúnar í húsmæðraorlof :)


Móttökurnar í Munchen eru eins og á 5 stjörnu hóteli, þetta verður eitthvað...

21. maí 2013

Hvítasunnuhlaup Hauka 2013


Ég fékk fyrir nokkru skilaboð á FB þar sem mér var boðið,  ásamt nokkrum öðrum hlaupurum sem höfðu staðið sig vel í utanvegahlaupum síðasta árs og Vorþoninu, að taka þátt í nýju utanegahlaupi í Hafnarfirðinum.  Ég var ekki lengi að þakka gott boð, sérstaklega eftir að hafa lesið lýsinguna en þar var hamrað á að mikið væri lagt upp úr góðri skipulagningu, merkingum á braut og allri umgjörð.  Sem gamall refur í hlaupunum er maður pínu tregur (ef mikið annað er í boði) að taka þátt í nýjum hlaupum vegna þess að yfirleitt kemur allt það fram sem betur mætti fara í fyrsta hlaupinu og næst eru þeir hlutir komnir í lag.  En alla vega, þrátt fyrir að vera búin að plana Valshlaupið þann 17. maí og Fjölnishlaupið þann 23. maí þá var það bara of freistandi að láta vaða þó þétt væri á milli hlaupa.


Valshlaupið var mér mjög erfitt, dagurinn fór í rugl, náði ekki að næra mig almennilega, var bara ekki í stuði og það hjálpaði ekkert til að það var mótvindur í hlaupinu ca. 8 km!!!  Vindáttin snérist á miðri leið svo þetta var bara endalaus barningur.  Var að vonast til að geta hlaupið í skjóli til baka en til að halda öðru sætinu á eftir henni Fríður Rún, þá þurfti ég að taka vindinn og böðlast þetta í mark.  Fjúff...  En sennilega vegna þess að hraðinn var ekkert svo mikill þá var ég rosa fljót að jafna mig og var þreytulaus tveim dögum eftir hlaup og til í tuskið.


Alveg að drepast, með bros á vör engu að síður, fyrir Torfa ljómyndara...

Eva, Fríða Rún og Svava Rán.                  Þórólfur, Ingvar og Geir.
 
Ég brá aðeins út af vananum með næringu fyrir keppnishlaup en síðustu árin þá hefur það verið meitlað í stein að borða eina ristaða beyglu með hnetusmjöri og sultu, ca. tveim tímum fyrir hlaup.  Núna borðaði ég hrá hafragrautinn minn eins og venjulega og fékk mér hálfa beyglu með kaffinu á eftir.  Fram að hlaupi var ég að smá súpa á orkudrykk frá Gatorade en mér finnst ekki gott að drekka mikið nálægt hlaupinu.  Veðrið var alls konar þannig að við tókum með allan mögulegan og ómögulegan fatnað til að hlaupa í.  Í Hafnarfirðinum var kalt, rok og gekk á með skúrum og niðurstaðan var, háir sokkar, hnébuxur, trail peysa, vesti, þunnir vettlingar, derhúfa og eyrnaband yfir.  Ég hleyp alltaf með sólgleraugun með mér og þau fengu að tróna á toppnum.
 
Ég þekkti brautina ekki neitt og vissi ekkert hvað ég var að fara út í þannig að ég ákvað að elta hana Elísabetu af stað og sjá hvernig það myndi ganga.  Hún er þaulvön utanvega og hafði eitthvað kynnt sér brautina og það var mjög þægilegt að hafa hana til að vísa veginn.  Ég hef oft sagt að það megi henda mér í hvaða stórborg sem er og ég er enga stund að ná áttum en um leið og ég er komin út í náttúruna veit ég ekkert hvað snýr upp og niður.  Það er þess vegna mjög áríðandi fyrir mig að sjá í næsta mann til þess að mér líði vel.   Eftir 8 km í skugganum af Elísabetu komum við að háu fjalli og þar seig ég fram úr og tók smá sprett til að ná næsta manni á undan okkur.  Ég elti manninn næstu km og í einni brekkunni löngu síðar sá ég að þetta var gamall félagi minn, hann Guðmundur sem byrjaði að ég held að hlaupa hjá henni Bibbu eins og ég.  

Gunnar Páll tók þessa mynd og hér er eintóm gleði í gangi!

Alla vega, km liðu hver af öðrum og ég hékk í hælunum á honum þangað til við kláruðum síðustu löngu brekkuna upp og nú voru bara 3 km eftir.  Við tók langur kafli niður í móti á mjög gríttum og þröngum stíg sem reyndist mér mjög erfiður.   Af því ég þekkti ekki umhverfið þá var ég hrædd um að missa sjónar af förunauti mínum og það er vonlaust að hlaupa niður svona brekkur nema einbeita sér algjörlega að stígnum.  Það er skemmst frá því að segja að hann hvarf út í buskann og ég tók nokkra útúrdúra og hrös þangað til ég hægði á mér og leyfði næstu mönnum að taka fram úr og vísa veginn.   Var svo glöð að komast á beinu brautina aftur og þá var bara að halda dampi og klár þetta.

Elísabet, Eva og Jóhanna.

Þórólfur, Biggi og 


Kom skoppandi af gleði í mark á rétt rúmum einum og hálfum tíma, fyrsta konan í fyrsta HvítasunnuhlaupiHauka.  Jíbbííí...   Ekki skemmdi það nú fyrir gleðinni að finna minn mann sem hafði líka staðið sig með prýði og varð annar, rétt á eftir honum Bigga Sævars, respect segi ég nú bara.  Eftir recovery næringu, niðurskokk og teygjur tók við verðlaunaafhending, fjöldinn allur af glæsilegum úrdráttarverðlaunum og flottir verðlaunagripir fyrir fyrstu þrjá í hlaupinu.   Eftir allt saman gáfum við okkur tíma til að þakka hlaupahöldurum fyrir einstaklega vel skipulagt og flott hlaup.  Það má með sanni segja að Hauka menn hafi staðið við stóru orðin og ef við fáum einhverju um það ráðið þá mætum við hjónin galvösk á startlínuna að ári.

Húrra fyrir Haukum!




14. maí 2013

Flóahlaupið 2013

Þar sem bloggið mitt hefur hálfpartinn verið dagbókin mín og ég nota það oft til að rifja upp gömul hlaup þá ætla ég að pota inn hlaupasögum síðustu vikna svona inn á milli þangaði til ég næ í skottið á mér.

Fyrir mig þá er Flóahlaupið vorboðinn ljúfi.  Flóahlaup UMF Samhygðar í Gaulverjabæjarhreppi var haldið í 35. skipti í ár og þetta er eitt af þessum hlaupum sem manni þykir sérstaklega vænt um.  Allir sem koma að hlaupinu gera það af alúð og eftir hlaup er boðið í stórkostlega kökuveislu en allar konurnar í sveitinni baka á hlaðborðið og að lokum er glæsileg verðlaunaafhending. 

Ég á margar góðar minningar úr hlaupinu.  Yfirleitt hefur maður reyndar þurft að berjast við rokið seinni hlutann og þá eru síðustu km svakalega drjúgir.  Eitt árið háði ég blóðugt einvígi við hann Börk vin minn, þá kölluðum við það Flóabardagann.  Hann hafði betur í það sinnið.  Af því að brautin er marflöt þá er svakalega freistandi að reyna að bæta tímann sinn en það er nú sennilega raunhæfara að gera sitt besta og taka stöðuna fyrir sumarið.  Hér áður fyrr voru farandsverðlaunin fyrir konur þau flottustu á landinu, Þórshamarinn, en því miður er búið að leggja hann til hvílu og í staðinn er komin hefðbundinn bikar.  Það finnst mér synd. 

Í fyrra hljóp ég þetta hlaup með honum Gumma félaga mínum.  Hann tók það sem tempó æfingu fyrir maraþon og ég reyndi að hanga í honum eins og ég gat.  Sprakk eftir góða 7 km (á 4:00 pace) og kom í mark á 40:58, alveg búin á því.  

Í ár fór ég með Jóa frænda og nú voru væntingarnar mjög hófstilltar, bara að rúlla af stað og sjá hvað myndi gerast.   Stuttu eftir að við lögðum af stað fann ég mér 'pacer' sem hentaði og nelgdi mig á hælana á honum.  Í ár var vindáttin akkúrat öfugt við það sem hún er venjulega og við tókum rokið í upphafi.  Það hentar mér miklu betur (og sennilega öllum :) og við rúlluðum þetta í góðum takti, ég og nýi hlaupafélaginn.  Þegar u.þ.b. km var eftir, þakkaði ég pent fyrir fylgdina og bætti aðeins í.  Var létt á mér og sterk og kom í mark alveg alsæl með þetta allt saman.  Ég leit aldrei á klukkuna í hlaupinu og var ekki lítið hissa og glöð þegar ég sá tímann minn, 41:04, bara 6 sek frá tímanum í fyrra en þá taldi ég mig vera í þrusu formi...

Ég var 6. í heildina og fyrsta konan í 10 km, rétt á undan nýja hlaupafélaganum Wieslaw, en ég komst að því eftir hlaup að hann er að æfa með Frískum Flóamönnum.  Ég vissi það ekki þá en hann átti eftir að koma við sögu hjá mér í Vorþoninu, meira um það síðar.   Jói frændi sigraði 5 km hlaupið og það er ekki orðum aukið að fólkið okkar hafi verið ánægt með okkur.  Á einhvern óskiljanlegan hátt tókst mér að eyða út öllum myndunum af símanum mínum sem ég tók frá hlaupinu, nema þessari af því hún var komin á Instagram.

Í fyrra meiddist ég tveim dögum eftir Flóahlaupið af bölvuðum kjánaskap og var úti í 6 vikur fyrir vikið, ekkert svoleiðis í boði núna :)

Ég og Kári.


  


13. maí 2013

Það tók sig upp gamalt blogg...

Það er rúmlega hálft ár síðan ég fann út að nú var komið nóg.  Ég þurfti allan minn tíma til að koma mér í gegnum erfitt tímabil.  Nú er ég komin í gegnum það, sprell-lifandi og hoppandi glöð og þá fór mig að klæja í lyklaborðið aftur.

Helstu hindranirnar sem ég þurfi að tækla á síðasta ársfjórðungi 2012:
  • Lilja byrjaði í grunnskóla, ári fyrr en planað var.
  • Sonja byrjaði hjá dagmömmu.
  • Við seldum tvær íbúðir og keyptum okkur hús.
  • Ég mætti fyrsta daginn (í sparifötunum :) í vinnuna eftir 14 mánaða barneignarfrí og fékk starfslokasamning að launum.
  • Ég fór í gegnum atvinnuleitenda ferlið og ákvað að ráða mig tímabundið til Össurar í stöðu Master Data Manager.
  • Þórólfur skipti um vinnu og fór til Icelandair.
  • Við fórum í stórframkvæmdir í nýja húsinu okkar.
  • Nóvember kom með flutningum og öllu því tilheyrandi.
  • Hlaupin voru sett á hakann eins og bloggið.
  • Ég missti keppnisgleðina mína, þyngdist og datt úr hlaupaformi.
Ó hvað ég var þreytt.  Svo úrvinda af þreytu.  Þreyttari en allt sem þreytt er.  Mig dreymdi um að læðast upp á milliloftið í nýja bílskúrnum okkar með dýnu og sæng, fela mig og sofa í nokkrar vikur.  Þreytt á morgnana, þreytt á kvöldin, þreytt um miðjan dag.    

Um áramótin tókum við hjónin ákvörðun um að koma okkur aftur í form og fórum að mæta á æfingarnar okkar. En það var ekki auðvelt.  Þórólfur var heilmikið í útlöndum vegna sinnar vinnu, ég var að kljást við mjög erfið verkefni í minni vinnu og það tekur bara á að koma sér aftur í form, bæði andlega og líkamlega.  

Fyrstu vikurnar og mánuðina var eins og ekkert væri að gerast.  Alltaf jafn erfitt að koma sér af stað, erfitt að halda í við hina í upphituninni og hvað þá í sprettunum.  Mér fannst ég vera þung, hæg og framfarirnar litlar.  En ég hef gert þetta áður.  Ég veit að með þolinmæði og því að halda sér við efnið kemst ég þangað sem ég ætla mér.  Þá var bara að ríghalda í þá hugsun.

Allar afsakanirnar sem klingdu í kollinum:   Er þetta ekki bara komið gott?  Þú ert búin að gera þitt?  Þarftu endilega alltaf að vera keppnis?  Hvað ertu að reyna að sanna? Ertu ekki bara fín smá búttuð?  Er ekki miklu betra að vera heima hjá börnunum?  Ég finn aldrei neitt í nýja elhúsinu, nema eitthvað drasl...  Það er fullt af fólki sem borðar óhollari mat en ég...   Hvar er blandarinn?  Kökur á hverjum degi í vinnunni...  Hinir eru að fá sér?  Ég er bara eins og asni hérna með epli...  Ef einn í viðbót segir við mig 'Þú mátt nú alveg við þessu...'.  Ég verð pottþétt svöng seinna í dag ef ég borða þetta ekki núna...  Ég er samt miklu duglegri að hreyfa mig en hinir...  Ég passa ennþá í flest fötin mín...  Þetta voru ekkert svo flottar buxur hvort sem er...  Veistu hver ég var?   STOPP! 

Í lok mars fann ég allt í einu að eitthvað var að gerast.  Ég fór í síðasta Flandrasprettinn og í þetta sinn var ég létt á mér og sterk.  Hljóp rúmlega mínútu hraðar en í mánuðinum á undan, en engin kvöl og pína, bara sigurtilfinning og þá skipti engu máli þó ég væri langt frá mínu besta. Nú þekkti ég mig aftur!

Ég hef nokkrum sinnum þurft að koma mér í form aftur, þ.e. eftir að ég snéri við blaðinu hjá mér fyrir 11 árum, t.d. eftir meðgöngur og meiðsl. Það hefur aldrei reynst mér erfitt, ég hef alltaf verið æst í að komast af stað og ekki þurft aðra hvatningu en þá sem býr innra með mér.  Fyrr en núna.   

Í þetta sinn þurfti ég á hjálp að halda og án þess að þurfa að biðja um hana, fékk ég nákvæmlega það sem ég þurfti.  Fyrst og fremst hjá mínum allra nánustu en þar fyrir utan hjálpaði mér ótrúlega mikið að hafa hann Jóa frænda minn sem æfingafélaga, hann Stefán Gíslason til að hvetja mig áfram með óbilandi trú á gömlu og svo bara óteljandi gamla vini, félaga og jafnvel bláókunnuga sem gáfu sér tíma til að segja eitthvað fallegt við mig akkúrat þegar ég þurfti á því að halda.

Já og ætli þar sé ekki komin ástæðan fyrir endurkomunni hér.  Mig sárvantar stað til að þakka reglulega fyrir mig!


Hér er mynd úr fyrsta hlaupinu sem ég tók þátt í, Kvennahlaupið á Selfossi 2002.  Ég var önnur kona í mark og hafði aldrei upplifað annað eins 'high' á ævinni!