29. sep. 2010

Uppskrift af góðu skapi :)

7 km upphitun í rigningu og roki með flottu fólki (að innan sem utan :).

400 m sprettur á harðakani.

50 öklahopp (ímynda sér að maður sé Masaíi).
10 Burpees í grasinu og fatta að maður setti hendina ofan í einn blautan gæsaskít og annar er rétt fyrir neðan nefið á manni.
30 uppsetur, já þá leggst maður á bakið í rennandi blautt grasið með öllum gæsaskítnum.
Hlaupa út í runna og pissa.
30 hnébeygjur á meðan hinir klára að hoppa á einni löpp 20 m fram og til baka (bakið stoppar mig í því).

400 m sprettur á harðakani og reyna núna að halda í við strákana.

30 hnébeygjur með annan fótinn upp á bekk.
Aftur í grasið og gæsaskítinn, liggja á maganum eins og selur og gera bakfettur 15 á hvorri hlið.
Yfir á hliðina og 30 hliðar uppsetur á hvoru megin.
15 dýfur á bekknum.
30 framstig

Beinustu leið í 800 m sprett, tvisvar sinnum skemmtilegra en 400 metrarnir...

Byrja svo upp á nýtt og taka aðra umferð í þrekið og sprettum.
Skakklappast svo í gegnum Laugardalinn í skýfalli, ennþá með öllu fallega fólkinu.
Kveðja félagana, beygja heim á leið með bónda sínum.
Teygja vel á tröppunum og rífa sig úr gegnblautum gæsaskítslyktandi hlaupagallanum fram á gangi og vona að nágrannarnir séu ekkert á ferðinni.
Læðast inn þar sem mamma manns og krakkarnir taka á móti manni með knúsum og kossum.
Litla skvísan manns borar nefinu á sér inní naflann á manni og segir 'Ég elska ískalda bumbu mamma'.

Þá er allt gott í heiminum, getur ekki klikkað!

Arghhhh!!!

Ég er hundleið á þessum degi og eins gott að það sé hlaupaæfing á eftir, sem ég n.b. nenni ekki á þessa stundina! Skítaveður, glötuð ríkisstjórn, apakettir á Alþingi, njólar í kjallaranum og svo hringdi sonur minn í mig rétt í þessu með kökkinn í hálsinum, búið að stela hlaupahjólinu hans í skólanum.  

Hann sem er svo passasamur með hlaupahjólið sitt.  Fékk meira að segja leyfi hjá umsjónakennaranum til að geyma það inní skólastofunni.  Í dag var heimilisfræði í síðasta tíma og þá þurfti hann að taka það úr heimastofunni sinni því henni var læst, mátti ekki taka það með inn í heimilisfræða stofuna og þurfti að skilja það eftir fyrir utan dyrnar. 

Nú langar mig í súkkulaði og ég ætla ekki að fá mér.  Þá vinn ég.

27. sep. 2010

Öðruvísi helgi

Fór á tjúttið með vinnufélögunum á föstudagskvöldið og það er sko langt síðan síðast.  Fórum út að borða á Eldsmiðjunni og svo var haldið í sal þar sem búið var að græja partý stemmningu með öllu.  Jónsi í Svörtum fötum var trúbador og svo var bara disco og læti.  Hrikalega gaman, dansaði af mér rassinn og náði samt að vera komin heim á skikkanlegum tíma!

Þakkaði fyrir hvað ég var ofur skynsöm morguninn eftir þegar ég var að græja litlu dömuna mína í fimleika en þar vorum við mættar á slaginu 9.  Ég var búin að ákveða að sleppa öllum æfingapælingum og bara sjá hvernig dagurinn yrði og það varð úr að við mæðgur fórum í Kringluna beint eftir fimleika og þar krúttuðumst við fram að hádegi.  Við versluðum heilmikið á vask dögunum í Hagkaup, nú er búið að græja kuldaskó fyrir veturinn og svo keypti ég nokkrar litabækur, það er algjörlega málið hjá minni núna.  Settumst svo á Kaffitár en þar eru mamma og pabbi vön að hitta sína félaga á laugardögum og við slógumst í hópinn.  Ekki slæmt að sötra kaffi og narta í súkkulaðibitakökur í semi-rykugu ástandi...

Seinni partinn var ég svo komin topp form og ákvað að skjótast út í smá hlaupatúr.  Veðrið var svo gott og ég klukkulaus og áður en ég vissi af var ég komin langleiðina með sunnudagshringinn okkar þannig að ég ákvað bara að klára hann, 18 km, ánægð með gömlu!  Kom heim rétt um kvöldmatarleytið og dreif þá krakkana með mér í sund í Árbæjarlaug.  Þeim fannst voða spennandi að vera svona seint á ferli og voru alveg til fyrirmyndar, Gabríel drauma-stóribróðir sem fór með systur sína í heilmargar ferðir í rennibrautina.  Eftir sund fengum við okkur bita á Subway og stoppuðum svo í Hagkaup á leiðinni heim til að ná í pínu nammi, enda nammidagur.  Skriðum heim rétt fyrir hálf tíu en þá var Þórólfur heldur betur farin að sakna okkar...

Fann engan fiðring þegar ég hugsaði um Hjartadagshlaupið og hreinlega nennti ekki að fara í það.  Sendi bóndann af stað með árnaðaróskum, setti upp svuntuna og bakaði lummur í staðinn.  Bauð svo í lummukaffi og var alsæl að vera heima hjá mér.    Seinni partinn tók sig upp gömul hreyfingarþörf og þá dreif ég mig niðrí laugar og ákvað að taka smá stöðupróf í 1000 m skiði.  Ég hoppaði út í laug og byrjaði strax að taka tímann með snúningum í kafi (er mjög léleg í þeim n.b.).  Synti 1000m á 21:06 og það eru miklar framfarir bara á síðustu vikum frá því ég byrjaði á sundæfingunum.  Nú ætla ég að taka svona stöðupróf á sunnudögum en reikna með að  hita aðeins upp fyrst og snúa venjulega næst til að fá betri mynd af stöðunni.  Ætla pottþétt undir 20 mínútur fyrir jól!  (held ég...).

Agga frænka er engum lík.  Ég heyrði í henni fyrir nokkru þegar hún átti afmæli og sagði að ég þyrfti nú endilega að bjóða henni í kaffi einhvern sunnudaginn.  Á laugardagskvöldið hringdi mín og sagðist ekki geta komið í kaffi á morgun..., hvort það væri ekki bara betra að hún kæmi í mat :)  Ekki spurning, frábær hugmynd!  Ruslaði upp veislu úr frystinum, það eina sem þurfti að kaupa var sýrður rjómi og sítróna, hitt var til eða hægt að ná í út í garð.  Ofnbakaður lax með sítrónu og graslaukssósu, steiktur humar í hvítlaukssmjöri og nýsoðið hangikjöt (afgangur sem ég hafði fengið frá mömmu og pabba)  Surf and turf þema, LOL.  Frönsk súkkulaðikaka  með rjóma og rifsberjum úr garðinum, voilà!

Frábær öðruvísi helgi

24. sep. 2010

Gönguferð í Búrfellsgjá

Fór í skemmtilega gönguferð með vinnufélögum hans Þórólfs í Heiðmörkina í gær eftir vinnu.  Gengum inn í Búrfellsgjá og þaðan upp á Búrfellsgíginn og inn í Kaldárssel.  Lilja var í besta skapinu sínu, söng, trallaði og blaðraði alla leiðina.  Eftir gönguna fór hópurinn í golfskálann við Hvaleyri og þar var boðið upp á dýrindis kjúklinga salat og með því.  Allir voru sammála um að við þyrftum að endurtaka þetta og ganga aftur saman og þá lá beinast við að stofna gönguhóp... Afturgöngurnar!





Ég rétt náði sund fyrirlestrinum hjá honum Remí, mjög fróðlegt og á örugglega eftir að nýtast vel í æfingunum í vetur.  Gabríel er í samræmdu prófunum, búin með íslensku og í dag er það stærðfræðin.  Hann er vel undirbúin og á örugglega eftir að standa sig með prýði.  

23. sep. 2010

Sjúkleg Esja

Eina skothelda leiðin til þess að losna við Esju harðsperrur er... að fara aðra Esju.  Var á fundum allan daginn í gær með Esjuna fyrir augunum og eftir vinnu ákvað ég að breyta út af plani, sleppa hefðbundinni æfingu og bruna upp í fjall.  Fór vinstra megin upp í þetta sinn og hljóp niður hægra megin.  Var vel innan við klukkutímann upp og niður.

 

Það er planið að fara í gönguferð með vinnufélögum Þórólfs eftir vinnu í dag, krakkarnir með, þannig að ég tók sundæfingu dagsins, í morgun, til vonar og vara ef ég myndi ekki ná í tæka tíð á æfingu í kvöld.  

Það gekk voða vel að synda, tók heilmikið baksund og drillur.  Þegar síga tók á seinni hlutann voru 3 * 100 m skrið.  Ég er með markmið að komast undir 1:50 og notaði tækifærið til að taka stöðuna.  Fyrsti 1:52, nokkuð gott, 45 sek hvíld á milli og svo annar... 1:44!!  Þvílíkt ánægð með mig.  Svo var gefið í botn og þriðji á... 1:33, hmmmm.  

Bankaði í klukkuna og fór að líta í kringum mig.  Sé ég þá ekki hvar sundlauga kallinn er að færa miðju skilrúmið til að stækka laugina úr 25 m í 50m og ég er þeim megin sem laugin minnkar!!!  Ekkert verið að láta mann vita, hrmfff...    Snautaði út með skottið á milli lappanna og tók 2 * 100 m þar, 1:52 og 1:54.  Er bara nokkuð sátt og þetta er allt í rétta átt, stutt síðan ég komst ekki undir tvær.

22. sep. 2010

Bikarmeistari í götuhjólreiðum 2010

Í gær var lokahóf hjólreiðanefndar ÍSÍ.  Þar var farið yfir keppnistímabilið 2010, framtíðarplön, keppnisreglur, bikarmeisturum afhent verðlaun, tilnefningar til hjólreiðamanns og konu ársins og margt fleira.  Það er greinilega mikill metnaður hjá hjólreiðanefndinni að hafa skýrar, gengsæjar og sanngjarnar reglur.  Sannarlega fyrirmyndar vinnubrögð á þeim bænum og gaman að vera með.  

Bikarmeistari í götuhjólreiðum 2010
Margrét, Eva og Ása

Við Margrét vorum voða glaðar með þetta.

Styrktaraðilarnir mínir hjá EAS eru voða ánægðir með mig.  Þær vörur sem ég nota (n.b. ég skipti ekki út máltíðum fyrir fæðubótadrykki!) eru Iso Drive, sem ég nota sem orkudrykki á löngum og erfiðum æfingum, Mass Factor prótein drykki eftir erfiðar æfingar til að dekka næringarþörf þangað til maður getur græjað almennilegan mat og svo er gott að redda sér á Myoplex ef maður er í tímaþröng og þarf að næra sig fyrir æfingu, létt í maga.

19. sep. 2010

Esjan mín

Hreyfing fyrir allan peninginn í um helgina.  Er laus úr hlaupahvíldinni og fór rúma 10 km í gær.  Í morgun fór ég Hálftímann og svo tók ég 1200m sundæfingu á eftir.  Ég er svei mér þá búin að synda rúma 8 km í vikunni, sennilega meira en samtals síðustu árin...  Það sem var samt toppurinn hreyfingalega séð, að eftir hádegi fór ég loksins, loksins aftur á Esjuna en ég hef ekki farið síðan sumarið 2008.
.
Gabríel var í afmæli og Þórólfur fór með afa Þór og Lilju í Kolaportið svo ég var ein í kotinu.  Leit út um gluggann og áður en ég vissi af var ég kominn í skóna og út í bíl.  Ég hef tvisvar labbað upp Esjuna (annars alltaf hlaupið :), í bæði skiptin með börnin mín.  Þá fer mesti tíminn í að hvetja, ýta og tosa unguna upp og maður nýtur þess öðruvísi.  Nú var ég bara alein með sjálfri mér, gat tekið þetta á mínum hraða, valið mína leið og notið þess á minn hátt.  Ég fór borgaralega klædd til að missa mig ekki í að hlaupa... 

Ég fór hægra megin upp, lengri leiðina og var akkúrat klukkutíma upp á topp.  Ég hef bara einu sinni áður farið alla leið upp á topp og það var fyrir mörgum árum síðan.  Mér fannst leiðin frá Steini ansi óljós á köflum og var vappandi fram og til baka þangað til ég fann mér mann til að elta.  Frábært veður og útsýnið engu líkt.  Var í samfloti við manninn sem ég fann á leiðinnu upp, alvanur Esjumaður, langleiðina niður og þá fórum við vinstra megin.  Síðasta hlutann tóku fæturnir af mér völdin og hlupu af stað, það er bara miklu erfiðara að reyna að halda aftur af sér en að láta sig rúlla niður.  Var komin heim á undan fólkinu mínu, alsæl með Esjuferðina mína.'
  
Toppurinn


17. sep. 2010

Gömul og feit

Félagi minn í vinnunni er með eitthvað forrit í símanum sínum sem virkar þannig að hann tekur andlitsmynd og svo annað hvort breytir það manni í fitubollu eða gamalmenni.

Sjúklega fyndið!




Mér finnst nú bara soldið vænt um þessa gömlu konu, fitubollan er ekki velkomin aftur :)

16. sep. 2010

Allskonar Ironman

Sjöundi dagur í hlaupafríi og örlögin hafa hagað því þannig að ég einbeiti mér eingöngu að sundinu þessa dagana. Búin að fara daglega í þessari viku og komin í 4,6 km (sennilega meira en samanlagt á síðustu tveim árum...:).  Sundæfing í kvöld og ég hlakka til.  Á eftir að rifja upp gömul kynni við bakkann en í dag á að byrja á teygjum á bakkanum.  Í minningunni var ég mest upp á bakkanum hjá honum Mads þarna fyrir fjórum árum þegar ég fór að læra skriðsund, jæks hvað ég var oft við það að gefast upp.

Í dag þakka ég fyrir að hafa byrjað að synda undir leiðsögn frá upphafi og þannig lært strax réttan grunn.  Núna er þetta bara spurning um að tweek-a til hitt og þetta og koma sér í æfingu.  Ég læri heilmikið af því að skoða efni eins og þetta á netinu, sé fyrir mér hreyfingarnar í vatninu og ég reyni núna að hugsa þetta svolítið eins og dans.  Humma meira að segja eitthvað lag til að halda taktinum.  Ekkert erfitt, bara gaman og á pottþétt eftir að nýtast í framtíðinni og þeim ævintýrum sem bíða þar.  

Fólk keppist við að senda mér eitthvað fyndið efni í kjölfarið á stóru Ironman umræðunni.  Vinnufélagi minn benti mér t.d. á þessa frábæra og hagkvæmu leið til að verða alvöru Iron man og n.b. kostar bara 3690,-   Konan þarf ekki einu sinni að vita af þessu!

Annars er ég nú meira fyrir þetta :)

15. sep. 2010

Kedar Culver

Vorum að fá nokkrar myndir af litla bróður hans Gabríels í Kanada.  Hann er alveg svakalega lítill enda var hann ekki væntanlegur í heiminn fyrr en í nóvember.  Nú er hann búin að fá nafn, Kedar (sagt Keedar).  Hann braggast vel og er bara farin að brosa svei mér þá!



14. sep. 2010

Fréttirnar

Auðvitað fæ ég hnút í magann þegar ég heyri fréttirnar af ofbeldi tengdu kynþáttahatri.  Úff, ég hef svo sem verið í sporum þolanda í denn, það þótti nú ekki par fínt að maður átti svartan kærasta, fékk þokkaleg að heyra það frá fólki mér nær og fjær...  

Svo upplifi ég sennilega útlendinga- og kynþátta fordóma (já og jafnvel hatur) í kringum mig sterkar vegna þess að ég á svartan son og pólska 'fóstur' fjölskyldu.

Það er fullorðna fólkið sem leggur línurnar í þessum efnum.  Krakkarnir, þó svo þeir hafi fjörugt ímyndunarafl hafa ekki nægilegt ímyndunarafl til að leggja fæð á einhvern annan vegna litarháttar eða upprunalands.  Eða þannig upplifi ég það alla vega.  Sonur minn kom heim úr skólanum 7-8 ára gamall og sagði mér ljótan Pólverja brandara.  Það var í fyrsta og síðasta sinn sem hann gerði það.  Þetta er ekki flókið.

Ég veit vel hverjir það eru sem voru beittir ofbeldi í þetta sinn, þó svo ég þekki þá ekki persónulega.  Hef séð þá milljón sinnum á frjálíþróttaæfingum.  Stærri hnútur þess vegna.  Og svo rifjar maður upp svona atvik...

Ég fæ líka hnút í magann þegar ég heyri fólk tala um Kastljósið í gær og viðtölin við trans gender einstaklingana.  Þeir standa mér líka nærri og það krullast upp á tærnar á mér þegar fólk byrjar á kaffistofunni.  Gagnvart þeim vitleysingum, sem eru uppfullir af favisku og sleggjudómum hef ég nánast enga þolinmæði.  Jú, jú, pínu...  En ég þarf virkilega að beita mig hörðu að fara ekki í árásargírinn og leita einhvers staðar djúpt í sálinni að skilningi á fáfræðinni og fyrirgefningu í framhaldinu.  En nota bene, aldrei samþykki. 

En ojjj... hvað það er ógeðslega erfitt.  

13. sep. 2010

Hlaupafrí

10 daga hlaupafrí samkvæmt fyrirmælum þjálfarans.  Þetta er í fyrsta sinn frá því ég fór að hlaupa fyrir 8 árum að ég tek mér svona langt hlé frá hlaupunum án þess að þurfa þess!  Það þýðir bara fullt af tíma í annað, heill hellingur af klukkutímum og það er æði.  Ég er búin að hjóla og synda aðeins meira en venjulega en ég er líka búin að hanga með börnunum mínum, já miklu meira en venjulega og það er það allra besta.

Þórólfur fór í veiði með vinnufélögunum um helgina þannig að ég var ein með krakkana.  Á föstudagskvöldið fékk vinur hans Gabríels að gista hjá okkur.  Það var þræl gaman (og fróðlegt) að hanga með strákunum...  Við byrjuðum að horfa á bíómynd sem ég valdi reyndar sjálf (Fishtank) sem fjallar um uppreisnargjarna unglingsstúlku.  Hálfa leið inní myndina sá ég mér þann kost vænstan að slökkva á henni, þvílíku 'ástar' senurnar upp um alla veggi, var ekki alveg að passa við félgsskapinn!!!  Strákarnir fengu þá að velja og ég man ekkert hvað það var en við hámuðum í okkur popp og höfðum það kósý.  

Á laugardagsmorgun fór ég með Lilju í fyrsta tímann í fimleikum hjá Ármanni.  Hún smellpassaði inní þetta prógramm, er komin með þjálfun í að hlýða kennurunum úr ballettímunum og er svakalega sterk og spræk.  Hrikalega gaman að fylgjast með henni blómstra þarna.


Brunuðum heim eftir fimleikana og náðum í strákana og héldum svo austur í bústað.  Fór Þingvallaleiðina í góða veðrinu, ótrúlega fallegt og stákarnir töluðu um að umhverfið væri eins og í Lord of the Rings, fannst þetta rosa flott.  Ég hjólaði leiðina frá Þingvöllum í Grímsnesið í Landskeppninni í sumar, annars hefði ég örugglega ekki fattað að fara þessa leið.  Losuðum okkur við dótið í bústaðinn og fíruðum upp í kofanum áður en við héldum á Selfoss í hádegissnarl og innkaupaferð.

Allt dettur í annan gír í sveitinni og dásamlegt að hafa engin plön.  Mamma og pabbi kíktu í síðdegiskaffi.  Við fórum í berjamó og strákarnir reyndu að höggva eldivið fyrir kvöldið.  Renndum svo aftur inná Selfoss seinni partinn og kíktum í kaffi hjá vinum okkar, keyptum kubb í arininn (skógarhöggsmennirnir ekki alveg að standa sig :), sykurpúða til að grilla og græjuðum afþreyingu fyrir kvöldið (Tvíhöfði á DVD).  Ákváðum að fara frekar á Kaffi Krús og smakka eldbakaðar pizzur en að grilla í bústaðnum og sáum ekki eftir því, mæli með þeim.

Lilja fann listakonuna í sér og málaði eins og vindurinn og prófaði sig áfram með kroppsmálningu.  Gerði fótaför og tattú á sig og ég veit ekki hvað.  Engin sturta í bústaðnum þannig að þá er bara að notast við þá aðstöðu sem er fyrir hendi:

  
Engin hlaupaæfing á sunnudaginn þýddi að við gátum sofið eins og sveskjur fram eftir og svo skriðum við Lilja upp í sófa og kúrðum þangað til strákarnir vöknuðu.  Það var hellidemba úti, fullkomin afsökun fyrir að gera ekki neitt nema í mesta lagi að prjóna aðeins og borða.  Dóluðum okkur í bæinn eftir hádegið en Lilja fór í afmæli til vinkonu sinnar og svo tókum við á móti Þórólfi úr veiðiferðinni.  Frábær hlaupalaus helgi og sé fram á skemmtilega hlaupalausa viku.  Carpe Diem!

10. sep. 2010

Laxableikur

Lilja er svo mikil stelpu-stelpa, það er bara fyndið. Ég þurfti að skjótast með Gabríel í Hagkaup og ætlaði að reyna að finna einhvern sætan kjól á hana í leiðinni. Og hvernig kjól langar þig í Lilja?

Laxableikan! 

Ég vissi ekki einu sinni að það væri litur fyrr en ég var orðin fullorðin :)
Posted by Picasa

8. sep. 2010

Drottnunaraðferðir

Ég á alveg stór merkilega frænku í Norge sem heitir Berit Ås en hún og mamma eru bræðradætur.  Hún er vel þekktur stjónmálamaður, prófessor og kvenréttindakona.  Ég man eftir að hafa heyrt um hana þegar ég var lítil, aðallega þó vegna þess að hún á dóttur sem er lesbía!  Það þótti nú ekkert svakalega fínt í norsku trúboðafjölskyldunni þegar dóttirin mætti í fjölskylduboðin með sinni frú (sem er þekkt leikkona :) eins og ekkert væri eðlilegra...

Eins hefur mamma sagt mér frá því að Berit sjálf hafi nú ekki verið neitt sérstaklega vinsæl innan fjölskyldunnar í gamla daga, með sínar sterku og þá óvenjulegu skoðanir.  Alltaf eitthvað að vagga bátnum...  En það hefur breyst með árunum og nú finn ég ekki annað en að fjölskyldan sé bara stolt af henni Berit, svo er hún líka stór skemmtileg og góð kona.  

Ég prófaði að googla hana og fann heilan helling af skemmtilegu efni henni tengt.  Það sem hún er nú samt sennilega þekktust fyrir er að hafa sett fram kenninguna um Master suppression techniquesen þar eru taldar upp aðferðir ráðandi afla til að þagga niður í einstaklingum sem ekki falla algjörlega inní mynstur hópsins og viðhalda þanning ráðandi stöðu sinni.  Þó svo að kenningarnar væru mótaðar út frá hennar reynslu sem kona í karlapólitík, þá eiga þær við um hegðun hópa og hjarða almennt.  



The Master suppression techniques were a framework articulated by the Norwegian social psychologist and feminist Berit Ås to describe five means by which women are or were subjugated in Western patriarchical societies. Master suppression techniques are strategies of social manipulation by which a dominant group maintains such a position in a (established or unexposed) hierarchy.

Making Invisible
To silence or otherwise marginalize persons in opposition by ignoring them.
Examples:
  • Another speaker takes something you have said as if it was an idea of their own, or starts speaking despite it being your turn.
  • As it is your turn to speak, the other attendees start to talk to each other, browse through their papers, etc.

Ridicule

To in a manipulative way portray the arguments of, or their opponents themselves, in a ridiculing fashion.
Example:
  • Another speaker laughs at your accent and compares you to a character in a humorous TV show (although you had something important to say).

Withhold information

To exclude a person from the decision making process, or knowingly not forwarding information so as to make the person less able to make an informed choice.
Examples:
  • Your colleagues have a meeting that concerns you, without inviting you.
  • Decisions are made not in a conference where everyone is present, but at a dinner party later in the evening, where only some attendants are allowed entrance.

Double Bind

To punish or otherwise belittle the actions of a person, regardless of how they act.
Examples:
  • When you do your work tasks thoroughly, you receive complaints for being too slow. When you do them efficiently, you're critiqued for being sloppy.
  • A man is critiqued for not helping out with domestic work, but is called unmanly when doing so.

Heap blame/put to shame

To embarrass someone, or to insinuate that they are themselves to blame for their position.
Example:
  • You inform your manager that you are being slandered, but are told it is your fault since you dress provokingly.

Later additions

Berit Ås has since added two supplementary master suppression techniques.

Objectifying

To discuss the appearance of one or several persons in a situation where it is irrelevant.

Force/threat of force

To threaten with or use one's physical strength towards one or several persons.

6. sep. 2010

Þöggun

Ég er búin að hugsa heilmikið um orðið 'þöggun' síðustu vikur.  Þöggun er í rauninni tól sem er notað til að halda upplýsingum eða skoðunum annarra í skefjum, ef þær henta ekki viðkomandi.  Þetta er alþekkt fyrirbæri í öllum illvirkum hópum og samfélögum.

Ég persónulega upplifði mjög ung það 'ofbeldi' sem þöggunin felur í sér, enda er ég alin upp á heimili þar sem alkohólismi og tilheyrandi meðvirkni réði ríkjum.  Í þeim aðstæðum lærir maður fljótt hvað má tala um og hvað ekki.  Ég fékk sem betur fer tækifæri til að komast út úr mínum vítahring og nýtti mér það, já bara ansi vel myndi ég segja.  Ég held að ég sé alveg ferlega lítið meðvirk í dag, sumir myndu segja 'óþægilega' lítið.

Í dag prísa ég mig sæla að hafa fengið þessa mikilvægu reynslu, sem felst í að lifa við illvirkni og að komast frá því, sterkari fyrir vikið.  Hafi maður einu sinni gert það, þá er miklu auðveldara að koma auga á og bregðast við sambærilegum aðstæðum sem, óhjákvæmilega koma upp í lífinu, með reglulegu millibili.

Það eru ýmsar leiðir og tól til að framfylgja þögguninni.  Ég er aðeins búin að skoða hvaða leiðir eru notaðar til að þagga niður í óþægilegum einstaklingum, hér og þar í samfélaginu og það er ansi fróðlegt.  Meira síðar...

3. sep. 2010

Drekaslóð

Nokkru fyrir Reykjavíkur Maraþon var haft samband við mig frá samtökum sem kalla sig Drekaslóð og ég beðin um að safna áheitum fyrir þau. Ég kynnti mér málið og ákvað í framhaldinu að gera það sem ég gæti til að hjálpa þeim af stað og sé ekki eftir því.  

Í dag voru samtökin formlega stofnuð og mér var boðið á opnunina í Borgartúni 3.  Kaffi, kökur og knús á boðstólnum.  Fyrir utan að fá að hitta Drekana sem bjóða uppá aðstoð við þá sem verða fyrir hvers konar ofbeldi og aðstandendur þeirra, þá fékk ég líka að hitta og spjalla við Gerði Kristnýju og óska henni til hamingju með sína sigra og svo borgarstjórann okkar, hann Jón Gnarr.  Mér fannst hann líta sérstaklega vel út, var ekkert nikótínfúll, bara sætur og brosandi.

Ótrúlega gefandi að komast í snertingu við fólk sem starfar af heilindum og ástríðu og er tilbúið að berjast fyrir því sem skiptir það máli.  Óska Drekunum í Drekaslóð til hamingju með opnunina og alls hins besta í framtíðinni!




1. sep. 2010

Góðan daginn dagur

Frábær dagur byrjaður og ekkert nema gleði framundan.  Í morgun sögðu allir 'Góðan daginn!' á sinn hátt og brostu eftir hvatningu borgarstjórans, það er gaman.  Það sem ég kann einna best við borgarstjórann okkar, fyrir utan það hvað hann er fyndinn, er hvað hann er óhræddur við að horfast í augu við sjálfan sig.  Var eitthvað grumpy og ómögulegur, búin að kom auga á það og nú er hann að laga til.  Flott hjá honum og ekki verra að hafa húmorinn með sér.

Brosa!  Var að spá í að setja mynd af mér hérna brosandi út að eyrum en hætti við þegar ég sá þessa mynd.  Þessir þrír apakettir fá mig til að brosa í dag :)