28. okt. 2014

Haustþonið 2014 - Hálfmaraþon

Ég gat ekki verið með í Haustþoninu í fyrra vegna þess að viku fyrir hlaup var ég að rölta með hana Sonju út á leikskóla, hún rann til í hálku og við að tempra fallið hjá henni fékk ég þursabit.  Skakklappaðist með hana á leikskólann og gat svo ekki klætt mig í sokka næstu vikurnar...

Í ár var allt í góðu, skráði mig og sótti gögnin á föstudaginn.  Þegar ég er að taka saman eftir kvöldmatinn og henda einhverju í ruslið þá 'spojng...', sá stjörnur og þurfti að styðja mig við til að rétta úr mér.  Ekki fundið fyrir bakinu í heilt ár... þetta var klárlega ekki eins slæmt og í fyrra en ég fann hvernig ég stífnaði upp hægra megin við hryggsúluna, helvítis, fokking, fokk.

Ohh well, ætlaði svo sem bara að fara mér til skemmtunar.  Ég tók eina íbúfen og bóndinn bar krem á bakið og ég hugsaði sem svo að ég myndi taka stöðuna morguninn eftir.  Ég var stíf og stirð í morgunsárið en gerði allt eins og venjulega og hjólaði af stað að rásmarkinu, annað hvort til að skila inn flögu og númeri eða ef ég gæti hlaupið upphitunina án þess að finna fyrir, þá myndi ég rúlla af stað og sjá hvað gerðist. 

Skokkaði í átt að Rafstöðvarbrekkunni og fann ekkert fyrir bakinu.  Þegar ég kom til baka að rásmarki var ég bara aðeins betri ef eitthvað var.  Þá var bara málið að festa á sig flögu og númer og rúlla af stað.  Veðrið frábært og allir vinir mínir úti að leika!

Ég var komin af stað þegar ég áttaði mig á því að ég hafði ekki stillt Garmin á að lappa á km, skítt með það, dró ermina yfir úrið og leit ekki á það aftur fyrr en eftir hlaupið.

Ég hljóp þetta létt, engin átök og skemmti mér konunglega alla leiðina.  Ótrúlega margir að hvetja, Þórólfur út um allt, gaman að sjá hann á hliðarlínunni og reyna að spá fyrir um hvar hann væri næst.  Ég var fljótlega 3. kona á eftir Arndísi og Önnu Berglindi og sá á snúningi á Ægissíðu að ég gæti bara haft það huggulegt á bakaleiðinni og haldið sama dampi, ég hafði gott forskot á næstu konur.  

Ljósmyndari: Rúdolf Adolfsson

Á bakaleiðinni fengum við smá mótvind en ekkert til að væla yfir.  Svo er líka hrikalega gaman að pikka upp marathonhlauparana, alltaf að taka fram úr einhverjum.  Hálf maraþonið er í miklu uppáhaldi hjá mér, ekki alveg eins hratt og 10 km og maður þarf ekki að borga fyrir eins og eftir maraþon.

Tilfinningin í kroppnum var eins og ég væri að hlaupa þetta á ca. 1:35 þannig að ég var meira en lítið hissa þegar ég kom á stokkinn og sá klukkuna 1:31:...   Blastaði síðasta spottann og kom í mark á 1:32:16, ja hérna hér.  Ég sé á tímatökunni að ég var 45:34 með fyrri hlutann og 46:45 með þann seinni.

Nappaði þessari mynd frá henni Arndísi á Instagram.  
Þrjár fyrstu konur, Arndís Ýr, Anna Berglind og Eva.

Ég var miklu betri í bakinu eftir hlaupið og það vottar ekki fyrir harðsperrum eða stífleika í mjöðmum eins og eftir Munchen.  Framundan er skemmtilegur tími og æfingar í Höllinni með snilldar skvísum.  Svo á maður örugglega eftir að kíkja á Víðavangshlaup Newton Running og Framfara og svo að sjálfsögðu Powerade.  Já og hver veit nema maður bregði sér af bæ, í Borgarnesið og heilsi upp á Flandrara! 

Annars bara róleg.

24. okt. 2014

Besti dagur í heimi!

Þann 24. október 2010, klukkan 15:00, átti ég pantaðan tíma hjá kvensjúkdómalækni í hormónalykkju uppsteningu.

Eftir fjórða fósturmissinn okkar síðsumars 2010, tókum við hjónin þá ákvörðun að hætta að reyna að eignast fleiri börn.  Við gerðum okkur grein fyrir að við værum ótrúlega rík að eiga Gabríel og Lilju. Við hvern missi, skildum við það betur og vorum þakklátari fyrir börnin sem við þó áttum.  

Ákvörðunin var sameiginleg þó svo að ég hafi kannski átt frumkvæðið, ég gat bara ekki meir.  Upplifunin að komast að því að ég væri ólétt var ekki lengur eintóm gleði, heldur hafði í för með sér sjúklega hræðslu um að illa færi.  Við tóku dagar og vikur þar sem ég var endalaust að reyna að sannfæra sjálfa mig um að allt væri í lagi.  Alltaf að gá hvort mér væri farið að blæða.  Hætta að æfa eins og venjulega, finna til afsakanir fyrir hina hvers vegna.  Vera með samviskubit yfir því að geta ekki glaðst innilega.  Vera hrædd um að hræðslan myndi hafa neikvæð áhrif, arghhh....  Þetta var jafn erfitt fyrir okkur bæði.

Þann 24. október 2010, klukkan 13:00, hringdi læknirinn minn í mig.  'Sæl, ég var að komast að því að konurnar sem vinna hérna í móttökunni munu leggja niður störf kl. 14:25 í dag í tilefni þess að 35 ár eru frá Kvennafrídeginum'. (Sjá nánar!)  'Geturðu komið í næsta mánuði?'  

'Ekkert mál, einn mánuður til eða frá skiptir ekki máli.'

Ekki grunaði mig á þeirri stundu að ég gæti ekki haft meira rangt fyrir mér.  

Mánuði seinna pissaði ég á prik til vonar og vara.  

24. október 2010 er sennilega bara besti dagur í heimi.




23. okt. 2014

Yfirgangur, frekja og veruleikafirring

Skokkaði í gegnum Laugardalinn í gær á leiðinni á æfingu í Höllinni.  Vel dúðuð, með bakpoka og tónlist í eyrunum, bara notalegt.  Þegar ég nálgast tjaldstæðið sé ég framundan mér manneskju og lausan hund hlaupandi kruss og þvers yfir stíginn, snusandi af trjánum hér og þar.  Það er bannað að vera með lausa hunda í Laugardalnum og oftar en einu sinni hafa lausir hundar flaðrað upp um mig og tala nú ekki um, þegar ég var krakki og var bitinn í andlitið af hundi 'sem bítur ekki' eins og allir hundar áður en þeir bíta í fyrsta sinn.  Sem betur fer hjuggust tennurnar í augabrúnina á mér og kinnbeinið, augað slapp.

Þar sem ég skokka fram úr manneskjunni og sé að hún er með upprúllaðan taum í hendi, bendi ég henni, n.b. ofurljúflega og með spariröddinni, á að það sé bannað að vera með lausa hunda hérna.

Þá lítur þessi kona á mig og segir 'Hann er ekkert laus!'.  Já svei mér þá ef það var ekki með nákvæmlega þessum svip.


Mér varð svo mikið um að ég stoppaði í sporunum og leit á hana með tauminn í hendinni og svo hundinn sem hljóp út um allt og hef örugglega verið eins og spurningarmerki í framan.

'Ehh, jú hann er laus.  Hann er þarna og þú ert hérna með tauminn.'

'HANN ER EKKI LAUS!'

'Ehhh... jú hann er laus.' og bendi á hundinn sem í því hleypur yfir stiginn og nánast yfir tærnar á mér og út í runna hinu megin.

'Hva, ég var nú bara aðeins að leyfa honum að hreyfa sig.'

'Já ég skil það, en það er bannað hérna og minn réttur er bara ríkari til að fá að vera í friði fyrir lausum hundum hér en þinn réttur til að hleypa honum lausum.  Það er bannað samkvæmt lögum.'

'ÞÚ SKALT BARA HÆTTA AÐ VERA AÐ ÁREITA FÓLK!' 

Ég hefði gjarnan vilja sjá framan í mig á þessari stundu, díhhh ég hélt að fólk gæti ekki komið mér lengur á óvart.  Ég varð orðlaus í smá stund og svo segi ég:

'Fröken Fix, vilt þú ekki bara líta í eigin barm?´ og skokkaði aftur af stað.  Í alvöru, ég sagði Fröken Fix!!!     

Er búin að flissa þvílíkt yfir þessu og gat ekki beðið eftir að leika atriðið fyrir Þórólf sem pissaði næstum í sig af hlátri.  En í alvöru talað, þá verð ég að taka mig á og hætta að áreita fólk svona út í bláinn, þetta gengur ekki lengur.  

17. okt. 2014

Munchen Halbmarathon 2014

Undirbúningurinn fyrir hlaupið gekk eins og í sögu fyrir utan að 10 dögum fyrir hlaup varð ég aðeins lasin, sár í hálsinum, með þurran hósta og full af kvefi.  Ég var alveg pollróleg yfir þessu, náði mér á nokkrum dögum og búin að leggja í hlaupa-bankann.  Á mánudeginum fyrir hlaup heyrði ég eitthvað ókennilegt hljóð í öndunarveginum, brak og hrygl... andsk..  Fékk tíma hjá lækni og það fór ekki á milli mála, ég var komin með bronkítis.  Ég fékk púst og vonaði það besta.  Leið strax miklu betur eftir 3-4 daga og það var alveg hætt að hrygla í mér áður en ég fór út.  

Við fórum á eigin vegum út og gistum hjá systur minni og fjölskyldu í Munchen.  Það var tekið á móti okkur eins og kóngafólki og dekrað við okkur í bak og fyrir.  Við notuðum dagana fram að hlaupi til að skoða borgina og njóta veðurblíðunnar, alveg dásamlegt að fá smá 'Indian summer' til að stytta veturinn.  Það var 27 stiga hiti daginn sem við komum en spár gerðu ráð fyrir aðeins lægra hitastigi næstu daga.  Það má segja að á laugardeginum hafi verið fullkomið hlaupaveður, 18 gráður, logn og skýjað.

Á sunnudagsmorgun vöknuðum við snemma og fórum að hvetja maraþonhlauparana sem byrjuðu að hlaupa kl. 10.  Við náðum þeim á milli km 18 og 19 rétt hjá okkur.  Hrikalega gaman að fylgjast með fystu mönnum hlaupa framhjá og svo smám saman einum og einum hlaupafélaga, vííí...

Fyrsti maður og næstu menn nokkru síðar.
 Það var heilmikið af hjólurum í brautinni en þeir voru allir kirfilega merktir starfsmenn hlaupsins.

Á hádegi var orðið ansi heitt og sólin braust fram úr skýjunum.  Við vorum komin í startið á hálf maraþoninu tímanlega en það var líka rétt hjá okkur.  Þórólfur og Ásta systir skildu við mig tæplega klukkutíma fyrir hlaup og eftir allar kúnstarinnar reglur í undirbúningi, hoppaði ég yfir grindurnar og kom mér fyrir í start block A, hálftíma fyrir start.  Nú var orðið verulega heitt og alveg heiðskýrt, klukkan að verða tvö.  Fiðrildi í maganum af spenningi en líka áhyggjur af skrælnuðum munni...  Hvar var aftur fyrsta drykkjarstöð?

Tilbúin í blíðunni.

Æðislegt að komast af stað niður breiðgötu á milli trjáganga, yehaww... og ég fylgdist bæði með pace-i á Garmin og km merkingum.  Fyrstu 5 km voru meira og minna skv. plani en tilfinningin í kroppnum var að þetta væri erfiðara en það ætti að vera.  Hmmm...   

Fjölskyldan mín stóð vaktina og hvatti gömlu konuna eftir rúma 7 km.

Næstu 5 km var ég að halda nokkurn veginn hraða en á þessum kafla gerði ég mér grein fyrir að ég myndi ekki ná tímamarkmiðunum.  Ég var að ströggla allt of mikið og á drykkjarstöð í kringum 10 km stoppaði ég, drakk almennilega, hellti yfir mig tveim glösum af vatni og byrjaði upp á nýtt.  Nú rúllaði ég þægilega af stað og fór að horfa í kringum mig og njóta dagsins.  Hér og þar í brautinni voru krakkar að hvetja og ég gaf þeim high-five, klappaði fyrir bestu hvetjurunum og ég fann brosið mitt aftur.  

Þegar 5 km voru eftir fór ég að draga á ansi marga hlaupara aftur og fara fram úr þeim sem höfðu keyrt sig út.  Síðustu 3 km var aftur komið smá kapp í kellu, ég jók aðeins hraðann og pikkaði upp hvern hlauparann á fætur öðrum.  Ótrúlega gaman að koma inn á Ólympíuleikvanginn, drúndrandi músík og diskóljós í göngunum áður en maður kemur inn á brautina og svo tæpur hringur á brautinni.  Ég heyrði nafnið mitt gargað úr stúkunni og sá í fjarska fólkið mitt hvetja mig.  Þvílík vítamínsprauta, hljóp síðustu 400 m á 3:32 pace og tók fram úr tveimur konum þar.  

Rétt áður en maður kemur inn á Ólympíuleikvanginn. 
Úbbs, má víst alls ekki nota þessa mynd!
Bara kát :þ

Tíminn minn 1:32:04 var vissulega ekki það sem ég hafði ætlað mér en þannig er þetta bara og maður er löngu búin að læra að það er leiðin sem skiptir mestu máli, ekki endamarkið.  Langflestir (allir nema einn sem ég ræddi við í þessum stóra hóp) voru ekki að toppa þennan dag, aðstæður hreinlega buðu ekki upp á það.  Af tæplega 2600 konum var ég 21. kona í mark og 5. í mínum aldursflokki en í honum voru skráðar rétt tæplega 900 konur.  Frábær reynsla fyrir mig að taka þátt í stóru hlaupi aftur en ég hef ekki gert það síðan 2008, það mun koma að góðum notum í framtíðinni.

Eftir að hafa drukkið vel og nært mig á marksvæðinu, fann ég fjölskylduna mína fyrir utan leikvanginn, yndislegt.  Þá kom í ljós að þau höfðu lent í veseni með samgöngur og voru alls ekki inn á leikvanginum þegar ég kom hlaupandi inn!!!  Lýsi hér með eftir hóp af fólki á áhorfendapöllunum rétt eftir að hlaupararnir komu inn á leikvanginn, sem hvöttu mig í mark.  Takk fyrir hver sem þið eruð :)
Þessi er bestur.

Garmin mældi brautina 21,380 km og svona voru splittin mín.  Ég hljóp fystu 10 km á 41:39 sem er nákvæmlega 4:10 pace.  Fyrri helminginn (10,69 km) hljóp ég á 44:09 en seinni helminginn á 47:55, tæplega fjórum mínútum hægar.