15. okt. 2013

Powerade #1 ~ 2013

Aldrei þessu vant vorum við hjónin spriklandi spræk á leiðinni í Powerade hlaup.  Alla jafna erum við frekar lúin svona seint á fimmtudagskvöldum og geispum til skiptis á leiðinni upp í Árbæ.  En alla vega, spriklandi spræk og þvílíkt spennt að taka stöðuna 'eftir brot' í fyrsta alvöru keppnishlaupinu mínu þar sem ég hef samanburð milli ára.  

Æfingarnar hafa gengið mjög vel en nú eru rétt um 8 vikur frá því ég gat farið að stíga almennilega í fótinn og skokka aðeins af stað.  Fyrstu tvær vikurnar fór ég mjög varlega, passaði að hlaupa á sléttu undirlagi og lágmarka álag á ökkla.  Næstu tvær vikur fór ég reglulega í Hólmann til að venja mig við að hlaupa á stígum utan vega og auka þannig styrkinn og mýktina í ökklanum.  Ég var dugleg að gera styrktaræfingar eftir leiðbeiningum sjúkraþjálfara enda mikið í mun að gera allt rétt til þess að ná mér sem fyrst.  Eftir æfingar fékk ég yfirleitt töluverðan bjúg í kringum ökklan og ég svaf í tegjusokk og með hátt undir fætinum.  Ekkert popp í marga mánuði!

 Ég myndi segja að síðustu 4 vikur þá hafi ég getað beitt mér almennilega á æfingum og tekið vel á því án þess að finna nokkurn skapaðan hlut fyrir fætinum.  Ég er annars vegar að æfa með vinnufélögum mínum, tvisvar í viku tökum við góðar æfingar í hádeginu, brekkur, tempó eða spretti og svo hef ég síðustu vikurnar verið hjá honum Gunna Palla með öllum hans frábæru hlaupurum.  Það er frábært að blanda þessu svona saman, í öðrum hópnum er ég mjög sterk en hinum er ég að elta mér sterkari hlaupara.  Fer voða vel með geðheilsuna að upplifa bæði og báðir hóparnir eru mér mikilvægir.  Ég finn að ég er að styrkjast og formið verður betra með hverri vikunni, lungun að taka við sér á ný.

Ég veit fátt skemmtilegra en að standa á ráslínunni með hlaupafélögunum, finna spenninginn hríslast um kroppinn.  Planið var að hlaupa algjörlega eftir tilfinningu, hlusta á kroppinn, huga að stíl og öndun.  Ég vonaðist til að það myndi skila mér sub 45 og í topp 10.  

Strax í upphafi fann ég að ég réð vel við að fylgja gömlum hlaupafélögum og ég var fljót að finna góðan takt.  Eftir brekkuna tók við gott rúll og ég náði að keyra vel niður dalinn.  Eftir stokkinn fór ég aðeins að þreytast og vindur í fangið var ekki að hjálpa til.   Nú fóru öll plön um að hlaupa þetta þægilega og yfirvegað út um gluggann, tveir km eftir, nú skyldi duga eða drepast.   Rafstöðvarbrekkan tók vel í og ég missti eina svífandi fram úr mér upp bekkuna en ég hélt alveg dampi og efst í brekkunni náði ég að taka fram úr nokkrum og svo var bara að bíta á jaxlinn síðasta km og koma sér í mark.  Kláraði á gufunni og lokatíminn 43:51 og sjöunda kona í mark.

Þetta verður skemmtilegur vetur!

30. júl. 2013

Frjáls

Ég datt heldur betur í lukkupottinn, lenti á gömlum og góðum lækni upp á slysó sem skoðaði mig og mat það þannig að ég mætti losna við gipsið og það sem meira var, hann sá ekki ástæðu til að fjárfesta í ofurspelkunni!   'Þetta grær vel og fyrst þú ert farin að geta stigið í hælinn þá er þetta í rauninni eins og rifbeinsbrot.  Þú þarft ekkert að vera í gipsi ef þú ferð bara varlega og notar heilbrigða skynsemi.'.  Jeiii... ég knúsaði hann ég var svo glöð.  Nú get ég hjólað og synt og byrjað að þjálfa upp hreyfigetuna í ökklanum í rólegheitum, allt annað líf.

Við fjölskyldan ákváðum seinni partinn á fimmtudaginn að drífa okkur norður til Orra á Akureyri, klukkutíma síðar vorum við komin af stað og renndum í hlað á áfangastað rétt fyrir miðnætti.  Ferðin gekk eins og í sögu, krakkarnir til fyrirmyndar.  

Föstudaginn notuðum við á Akureyri, röltum um bæinn, fengum okkur gott að borða og slökuðum á.  Við tókum daginn snemma á laugardag og keyrðum á Mývatn þar sem við heimsóttum góða vinkonu okkar.  Eftir gott stopp í Vagnbrekku og hádegismat, héldum við áfram í Jarðvegsböðin í þvílíkri blíðu, svo fallegt í Mývatnssveitinni. Um kvöldið var slegið upp heljarinnar grillveislu hjá Orra með góðum gestum.  Mikið hlegið og skrafað.  Á sunnudaginn fórum við í sund á Akureyri og fikruðum okkur í átt að bænum aftur.  Þórólfur græjaði gistingu fyrir okkur á Laugabakka, sem er ekki svo langt frá Staðarskála.  Skemmtum okkur konunglega og krakkarnir alsælir að komast í íþróttahúsið og léku sér í körfubolta, badminton, fótbolta, kaðlaklifri og gamla tók nokkara léttar yoga teigjur á meðan.  Sváfum eins og englar á Eddu hótelinu og eftir góðan morgunverð og 'round two' í íþróttahúsinu, var ekkert mál að keyra síðasta spottann í bæinn og allir glaðir.

Framundan eru spennandi tímamót, Sonja verður tveggja ára þann 1. ágúst og ég byrja að vinna hjá Betware sama dag.  Hlakka mikið til hvoru tveggja!


 Rölt um bæinn á Akureyri.


Í Vagnbrekku hjá Dagbjörtu.

Stelpurnar komust heldur betur yfir hundahræðsluna!

Sonja er sérstaklega hrifin af hænum.

Vinkonur.

 Jarðböðin á Mývatni.

 Íþróttahúsið á Laugabakka.

23. júl. 2013

Afmælisvika

Strákarnir mínir áttu báðir afmæli í síðustu viku, Gabríel þann 17. og Þórólfur þann 19.  Vorum heilmikið að spá og spögulegra hvernig við ættum að hafa þetta í ár en það varð ofan á að hóa í heljarinnar veislu þann 18., mitt á milli þeirra.   Við reiknuðum með svona 15 - 20 manns til að byja með en þetta vatt aldeilis upp á sig og við vorum með tæplega 30 manns þegar á hóminn var komið.  Þórólfur eldaði dýrindis súpu fyrir mannskapinn með tilheyrandi og svo var kökuveisla á eftir.  Gestirnir fengu fyrirmæli um að vera sérstaklega sjálfbjarga þar sem frúin væri á 'einari' og við fengum rosalega flotta einnota diska, glös, kaffibolla og áhöld í Rekstrarvörum, til að gera þetta einfalt.

Það er skemmst frá því að segja að veislan var alveg æðisleg!  Heiðursgestir voru frænka mín og hennar fjölskylda frá Norge en þau eru í sumarfríi hérna.  Maðurinn hennar er mikill tónlistarmaður og eftir mat og spjall settist hann við píanóið, fékk Þórólf með sér á bassann og svo var spilað og sungið fram eftir.  Krakkarnir skiptust á að syngja einsöng og láta ljós sitt skína.  


Sonja fór í sína fyrstu bíóferð á laugardaginn og þvílík upplifun, henni fannst þetta alveg magnað.  Ljósin, hávaðinn, fólkið, poppið...   Bara allt æðislegt!!!   Og mín sat eins og klessa með uppglennt augun í klukkutíma en þá var hún búin að fá nóg.  Við mæðgur skökklöppuðumst þá fram og lékum okkur þangað til myndin var búin, ekkert mál. 


Allt á réttri leið með fótinn, ég er farin að sleppa hækjunum og hjökta um á göngugipsinu.  Er þessa stundina upp á Slysó í þeim tilgangi að sannfæra bæklunarlæknana að það sé miklu betra fyrir mig að vera í Walker spelku frá Össuri sem ég get tekið af mér og er bara að öllu leyti þægilegti en gipsið.  Krossa puttana, það kemur í ljós næsta hálftímann!

Brotni sperrileggurinn minn.  Brotið sést vel á grennra beininu rétt fyrir ofan miðja mynd.


17. júl. 2013

Það sem ég get gert

Ég var ótrúlega fljót að komast úr 'ég get ekki...' gírnum, í að einbeita mér að finna hluti sem ég get gert.   Ég get t.d. hjólað og það er frábært.  Ég verð betri með hverjum deginum og í morgun hjólaði ég rúma 20 km í góða veðrinu og naut þess að geta verið úti.  Ég skrapp svo niður í bæ eftir hádegi og fékk mér góðan latte og las slúður úti í sólinni.

Hjólatúr út á Ægissíðu.

Te og Kaffi@Eymundsson

Reyndar fór ég aðeins yfir strikið í gær en það var ekki alveg mér að kenna, thí hí.  Daginn eftir að ég brotnaði þá fór Þórólfur í Lyfju fyrir mig og keypti poka utan um gipsið til þess að ég geti farið í sturtu.  Ég fór að skoða pakkninguna og sá þá að þetta er hannað til að fara með í sund!   Þannig að í gær ákvað ég að láta vaða og prófa að fara í sund með blessaðan pokann.  Frænka mín frá Norge er í heimsókn með sína fjölskyldu og við fórum öll saman í Laugardalslaugina og þetta gekk svona svakalega vel, ég synti meira að segja 400 m og allt í góðu.  Rétt áður en ég fór upp úr var ég eitthvað að leika við Sonju og hún sparkaði í pokann, hann losnar aðeins frá löppinni og úbbs... ég rennandi blaut...

Ég hringdi upp á bæklunardeild á leiðinni heim úr sundinu.  'Ehhh.. sko ég var í sturtu og það blotnaði óvart hjá mér gipsið, er eitthvað hægt að gera.. ?'.  'Þú verður að koma og fá nýtt, annars myglar þetta bara'.  Á leiðinni upp á Slysó þá ákvað ég að 'come clean', ég angaði hvort eð er af klórlykt og það skvampaði +o gipsinu, ekkert nokkrir dropar.   'Hvað geriðst?'.  'Þarf ég að segja það?' með skömmustusvip.  'Nei, nei ekkert frekar.'.  Og svo sagði ég alla sólarsöguna, eins og fimm ára með skömmustusvip en samt hálf hlægjandi.   Stelpunum fannst þetta hrikalega fyndið og ein spurði mig af hverju ég hefði fengið fjólublátt gips, 'Það eru bara börn og þroskaheftir sem fá lituðu gipsin...'.  Ég sagðist klárlega tilheyra seinni hópnum og snúllurnar leyfðu mér að fá fjólublátt aftur, hjúkkit.  'En við viljum ekki sjá þig aftur hérna fyrr en þú átt að koma aftur!'  Þannig að ég held að ég verði að láta allar sundtilraunir bíða í bili, eins og þetta var gaman.



13. júl. 2013

Fótbrotinn

Maður veit aldrei og það er eins gott að lifa í nú-inu, það er lexía vikunnar.   Ég sit hérna með gips upp að hné og er rétt svo að átta mig á því að lífið verður aðeins með öðru sniði næstu vikurnar.  

Á miðvikudagskvöld var komið að Ármannshlaupinu sem er fjórða hlaupið af fimm í Powerade mótarröðinni.  Brautin er hröð og góð,  það var flott veður og ég í besta stuðinu mínu.  Ég missti aðeins keppnis mojo-ið mitt fyrr í sumar, var að ströggla of mikið og um leið og áherslan fer af því að hafa það gaman, yfir í að vera of markmiðadrifin, þá gengur mér ekki eins vel.  Hjá mér er algjört samasem merki á milli þess að ég hafi gaman og árangrinum á hlaupabrautinni.   

En alla vega, fullt af góðum konum með og nokkrar miklu hraðari en ég, þá var öll pressa farin og bara tilhlökkun eftir.  Lagði upp með að hlaupa á sub 41 og einbeita mér að því að fara ekki of hratt fyrstu 2-3 km.  Það gekk eins og í sögu, var yfirveguð og leið frábærlega og km flugu árfam einn af öðrum.  Þegar komið var að snúningpunkti var ég 7. kona en ekki langt á eftir næstu tveimur á undan og hafði greinilega verið að vinna á þær.   

Í banastuði eftir rúmlega 4 km.

Ég gaf mér 2 km í að ná þeim í huganum og eftir einn og hálfan var ég komin fram úr báðum og átti helling inni, hrikalega gaman.   Rétt eftir 7 km keiluna var ég komin í hælana á Pétri Helgasyni, vini mínum, og var að undirbúa að kasta á hann kveðju, þegar ég fæ skot rétt fyrir ofan ökklann á utanverðum vinstri fæti.  Aldrei fundið þessa tilfinningu áður og hugsaði með mér að það væri eins gott að þetta væri ekkert sem truflaði þangað til ég kláraði hlaupið!   Rétt á eftir fæ ég stingandi verk á sama stað og finn að þetta er búið, stíg út fyrir brautina, trúi þessu ekki, reyni að stíga í fótinn, gengur ekki.   Horfi á hlauparana einn af öðrum hlaupa fram úr mér, 'Er allt í lagi með þið?', 'Komaso, lítið eftir...'.  Úff...

Tók af mér númerið og skakklappaðist af stað í átt að markinu en eftir 100-200 m gefst ég upp og húkkaði mér far til baka að bílnum okkar.  Ég vissi strax að það var eitthvað mikið að því mér fannst eins og ég væri brotin og að brotin væru að nuddast saman.  Fann ekki lykilinn af bílnum en ég ætlaði bara að bíða eftir Þórólfi eða hringja eftir hjálp en í því kom Arnar, sem varð 2. í hlaupinu fram hjá með foreldrum sínum.  Ég bað hann að stökkva eftir Þórólfi og áður en ég vissi af voru þeir komnir.  Ég spjallaði við foreldra hans á meðan og sagðist halda að ég væri brotin en þeim fannst ég ekki nógu illa haldin og föl, héldu frekar að ég væri tognuð.

Við komum við heima til að ná í föt og Kindle því við reiknuðum alveg með því að þurfa að bíða á Slysó.  Mamma passaði krakkana fyrir okkur og tók vaktina til ellefu en þá tók Gabríel við.   Ég fékk hjólastól og 2 parkódín um leið og ég var búin að skrá mig inn og hjúkkan sem kom með verkjalyfin sagði að ég kæmist örugglega ekki að fyrir miðnætti.  Sendi Þórólf eftir mat handa okkur og það var mjög góð ákvörðun því það kom í ljós að ég myndi ekkert fá að borða og drekka til klukkan þrjú daginn eftir.
  
 Síðasta máltíðin í bili, á biðstofunni á Slysó.

Eftir fjögurra og hálfs tíma bið á biðstofunni bað ég um að fá að komast í rúm af því ég var orðin frekar þreytt í bakinu á að sitja svona lengi og hálftíma síðar fór eitthvað að gerast.  Eftir forskoðun fór greyið Þórólfur loksins heim en hann vildi endilega vera mér til halds og trausts þangað til að ég kæmist í hendurnar á fagfólki.  Ég var send beint í röntgen og klukkutíma síðar fékk ég að vita að ég væri brotin og þyrfti hugsanlega að fara í skurðaðgerð.  Fyrst var talað um að leggja mig inn en ég bar mig svo vel að ég mátti fara heim og svo yrði hringt í mig um leið og bæklunarlæknarnir væru búnir að skoða myndirnar.  Ég fékk spelku gips og var send heim fastandi klukkan fimm um morguninn, 9 tímum eftir að ég kom upp á Slysó.  Það gleymdist að senda með mér verkjalyf og eftir tvo tíma heima, frekar illa haldinn hringdi ég upp eftir og því var reddað. 

Bráðabirgða spelkan mótuð.

Ég heyrði í Orra bróður sem er röntgen læknir og bað hann að kíkja á myndirnar og hann sagði mér að þetta liti vel út að sínu mati og hann væri hissa ef ég þyrfti í aðgerð.  

Ekkert heyrðist frá bæklunarlæknunum og þegar klukkan var að verða eitt, þá gafst ég upp,hringdi og bar mig aumlega.  Úbbss... var ekki búið að tala við þig, þetta á alls ekki að vera þannig að fólk sé látið fasta heima hjá sér og fái ekki að vita neitt... Mjög ólíklegt að þú verði skorin í dag, bæklunarlæknir hringir eins fljótt og hægt er.  Hálf þrjú hringdi bæklunarlæknirinn og baðst innilega afsökunar á þessu öllu saman, farðu og fáðu þér að borða og komdu svo til okkar og við skellum þér í almennilegt gips, það þarf ekkert að skera þig, þetta verður í fínu lagi.   Jeiii...

Frábært starfsfólk á spítalanum, þessi stakk upp á fallega fjólubláu gipsi, snilld!

Langaði mest í hafragraut og góðan kaffibolla á eftir föstuna.  Það var allt annað að koma aftur á Slysó, nú gekk allt hratt og vel fyrir sig og engin bið.  Bæklunarlæknirinn tók á móti mér og sýndi mér myndirnar, brot þvert í gegnum Fibula (sperrilegginn) 6 cm fyrir ofan ökklann.  Smá beinflís sem stóð út úr brotinu en það á ekki að hafa nein áhrif.  Engin hreyfing á beinunum og leit allt saman mjög vel út.  Gips í fjórar vikur og svo verður staðan tekin.  

Ég get gert magaæfingar :)

Maður er rosalega fljótur að aðlagast nýjum aðstæðum og ég var ekki lengi að velta mér upp úr þessu.  Það var aðallega rétt eftir brotið, að sætta sig við að þurfa að hætta í hlaupinu og hugurinn skannaði næstu vikur og markmiðin sem klárlega þyrftu að breytast.  Svo var þetta bara búið, ég sættist við stöðuna eins og hún er og fór að spá í hvernig ég gæti gert það besta úr stöðunni.  Er eiginlega alveg hissa á því hvað ég er róleg og mér líður vel.   Ég finn að verkirnir eru í rénun og gæti trúað að ég verði verkjalaus eftir einn til tvo daga í viðbót.      
Sonja purrar á magan á mömmu sinni.

10. júl. 2013

Laugardagsbíltúr

Þetta þarf ekki að vera flókið.  Eigum lítið sumarfrí svo við nýtum þá daga sem við höfum eins vel og við getum.  Á laugardaginn var fínasta veður, við hjónin tókum góða æfingu um morguninn, snörluðum svo með stelpunum í hádeginu og lögðum svo í hann í bíltúr. Dásamlegur dagur!

Vantar bara hann Gabríel okkar sem var í Svíþjóð.
Foss!
Flott feðgin. 
Sonja slök með í á Geysi Bistro.
 
 Alveg að fara að gjósa.
  
Rok og rigning á Gullfossi.
Leikstopp á Laugarvatni.
Þríréttaður dinner í boði Gullsprettsins.


5. júl. 2013

Sjóveðurspá

Ætlaði bara aldrei að ná mér eftir pestina um daginn og eftir 10 daga, stútfull af hori og hósta, leitaði ég til stóra bróðurs og fékk penselín til að hjálpa mér í baráttunni.  Var svo steinhissa að ég væri ekki orðin fullgóð daginn eftir en það tekur víst 3 daga fyrir stöffið að kikka inn og já, í dag er ég miklu betri!

Við hjónin vorum með plön um að taka þátt í Vestmannaeyja hlaupinu um helgina (okkar hlaup :) og planið var að skottast með Herjólfi á laugardagsmorguninn og taka hann til baka seinni partinn, skvísurnar okkar kæmu með.   Veðurspáin hefur verið alveg afleit í vikunni en við ætluðum ekki að láta það á okkur fá, þarf meira til en smá rok og rigningu til að stoppa okkur.  En sennnilega er þetta meira til, komið...



Ég er ekki sterk í sjóinn og að fara með tvö börn, þó ferðin sé stutt... til að keppa í hlaupi klukkutíma síðar... er kannski ekki alveg að gera sig, buhuuuu...  Okkur langaði svo að taka þátt af því við erum svo stolt af þeim sem standa að þessu ótrúlega flotta hlaupi.  

Erum samt ekki alveg, alveg búin að blása þetta af... Veðurfréttamenn hafa nú átt það til að hafa rangt fyrir sér og þá verðum við klár á línunni!

28. jún. 2013

Miðnæturhlaupið og stóra planið...

Esjuhlaupið var síðustu helgi og ég ákvað að vera ekki með í þetta sinn þó mig dauðlangaði...  Ástæðan að ég ætlaði að vera með í Miðnæturhlaupinu tveimur dögum seinna og hlaupa þá eins og vindurinn!  Laugardagurinn var sérstaklega fallegur og ég hugsaði til vina minna í Esjunni en ég átti líka mjög skemmtilegan dag, skokkaði með bónda mínum, vann heilmikið í garðinum og fór í afmæli.  

Um kvöldið fann ég pestina hellast yfir mig, særindi í hálsinum og þyngsli í hausnum, nei....  Vaknaði með 38,5° daginn eftir.  Fyrsta sem ég hugsaði var 'Ég hefði betur verið með á Esjunni!!!'.  En ohh welll...  á mánudaginn var ég ennþá með smá hita en fann að pestin var að rjátlast af mér, bara stútfull af kvefi.  Tók stöðuna um kvöldmat og ákvað að slá til, vera með og sjá hvað myndi gerast.  Annað hvort yrði ég betri, verri eða eins.    

Það voru tæplega 700 manns sem tóku þátt í 10 km hlaupinu, þar af 350 konur og nokkrar af okkar allra bestu hlaupurum.  Ég var svakalega afslöppuð, leið eins vel og hægt var miðað við aðstæður og naut þess að komast aðeins út.   Hlaupið var mjög skemmtilegt, gaman að tækla brekkurnar og rúlla svo niður seinni hlutann.  Ég hafði hlaupið í 4-5 manna hópi sem skiptist á að taka forystuna en þegar 2 km voru eftir þá fór ég örlítið að gefa eftir.  Einn úr hópnum lítur þá til mín í þann mund sem hann er að fara fram úr mér og segir  skýrt en yfirvegð 'Áfram'.  Ekkert annað, bara 'Áfram'.   Og það var nóg.  Ég negldi mig á hælana á honum og eftir km þá var ég komin í stuð aftur.  Ég seig svo fram úr hópnum aftur og þegar við komum inn í dal sé ég að minn maður er aðeins að dragast aftur úr og þá var komið að mér, snéri mér við og sagði hátt og skýrt 'Áfram!'.  Og þá kom hann til baka líka.  Niður síðustu brekkuna spurði hann mig hvort ég vissi hvað væri langt eftir, já ca. 350 metrar...   Ok, látum vaða.  Og það gerðum við, blöstuðum síðasta spottann eins og sá svarti sjálfur væri á hælunum á okkur.   4. kona í mark á 42:36 sem var langt fram úr væntingum þennan daginn en það var Þórólfur sem átti 'Glory-ið', hann sigraði í hlaupinu!


Merkilegt að þegar við komum heim þá mældi ég mig og þá var ég með 35,6°   Ég marg prófaði og svo mældi Þórólfur sig til að tékka á mælinum, þá var hann með 35,8° ???   Við fórum þá stórlega að efast um mælinn og mældum Gabríel, hann var með 37°.   Daginn eftir var ég aftur orðin 'eðlileg' eða með 36,8° eins og ég mælist venjulega með þessum mæli (eyrnamæli).   Ætla að prófa að mæla hitann aftur eftir næsta keppnishlaup í gamni.   

Við hjónin ennþá með 'Runners High' eftir hlaupið, settumst fyrir framan tölvuna, googluðum 'Spring Marathons in Europe' og skráðum okkur í maraþon í Mílanó í apríl á næsta ári!  Það verður fyrsta maraþonið hjá okkur í 6 ár og fyrst að við erum farin að hugsa langt og stórt þá er stóra planið hlaupalega sérð, eins og hér segir:  
  • Hálft maraþon í Munchen í október
  • Heilt maraþon í Mílanó í apríl
  • Laugavegurinn í júlí

Annars er ég rétt að fara að sjá til sólar núna eftir viku sem einkenndist helst af snýtum og hóstum.  Skemmtileg helgi framundan hjá okkur, ekkert keppnishlaup en samverustundir með góðum vinum og sumarfjölskyldugleði með vinnunni hans Þórólfs.    

19. jún. 2013

Gullspretturinn 2013

Ég vissi það!   Gullspretturinn var æðislegur og heldur sannarlega sessi sínum sem skemmtilegasta hlaup... í heimi!

Við lögðum í hann á laugardagsmorgun eftir að Gabríel var búin að bera út og aldrei þessu vant vorum við næstum því of snemma í því.  Vorum ótrúlega skipulögð, búin að pakka daginn áður og með allt á tæru.  Veðrið var frábært, hlýtt og sólin glennti sig öðru hvoru.  Fyrirfram vissi ég að það voru tvær konur sem eru sterkari en ég með, svo stefnan var sett á 3. og að hlaupa mitt besta hlaup í brautinni, sem þýðir fyrir mig að hlaupa þetta vaxandi, velja bestu leiðina og njóta!  Í skráningunni hittum við Doktorinn og hann tjáði okkur að allt kvennalandsliðið í handbolta, Ólympíu og heimsmeistarar, tækju þátt, hmmm þær eru nú örugglega ekki vanar að vaða ár og drullu...  



 Í ár var þetta ansi blautt, mýrin þung en ég beitti járnaga í að fylgja bakkanum og lét ekkert plata mig af leið.  Það var miklu meira vatn í skurðunum og á vaðinu var vatnið vel upp fyrir mitti, í fyrra var það rétt upp að hnjám.   Ég sýndi mikil tilþrif á þessum parti, eftir að hafa böðlast hálfa leið missti ég einn stóran og sterkan fram úr mér.  Tók þá til minna ráða og í stað þess að vaða, spyrnti ég mér og lét mig renna í vatninu eins langt og ég gat, upp aftur, spyrnti og rann.   Mjög lítið þokkafullt við þessar aðfarir en skilaði mér fram úr gaurnum aftur!  Leiðin frá vaðinu hefur aldrei virkað eins stutt og frábært að tæta síðustu fjöruna og í mark, 3. kona, og eintóm gleði.  Eftir að hafa damlað dágóða stund í Fontana var verðlaunaafhending í gamla gróðurhúsinu og þriggja rétta máltíð fyrir tvo á Hótel Eddu á Laugarvatni kom í minn hlut.




Næst lá leiðin í bústaðinn og við komum okkur vel fyrir og slökuðum aðeins á.  



Um kvöldið var okkur boðið í heljarinnar grillveislu á Sólheimum en húsfreyjan tók líka þátt í Gullsprettinum og það í fyrsta skipti svo það var nóg um að skrafa.   Frábær kvöldstund með yndislegum vinum.


Á laugardagsmorguninn fórum við Þórólfur með stelpurnar í Kerið en leyfðum guttanum okkar að hvíla sig á meðan.    Eftir ræs og hádegimat gátu krakkarnir þrefað endalaust um, í hvaða sundlaug ætti að fara!  Við  keyðum upp á Borg en þar var stappfullt svo við enduðum á Selfossi, sem hentaði vel því þá gátum við keypt inn fyrir kvöldið.   Eftir nokkra tíma í sundi var hungrið þvílíkt að við versluðum og elduðum mat fyrir 10 manns, það fór engin svangur í rúmið á sunnudaginn, það er sko alveg á hreinu.




Eftir sundferð á sunnudagsmorgun í bústaðnum fannst okkur tilvalið að fara Þingvallaleiðina heim þar sem það var nú einu sinni þjóðhátíðardagurinn okkar.  Hentum upp úr töskunum þegar heim var komið og náðum að kíkja niðrí bæ og vera hefðbundin, þ.e. skjálfandi úr kulda að horfa á skemmtiatriði á Arnarhóli.  Note to self: Taka með lopapeysu í bæinn.  ALLTAF. Og auka jakka.  Hljýjan.  Sama þó það sé logn og sól þegar maður leggur af stað.  



13. jún. 2013

Crash and burn...

Jæja, þá er hræðilega hlaup sumarsins afgreitt!   Þetta byrjaði nú samt allt saman nokkuð vel.  Við Þórólfur, sóttum Jóa frænda og rúlluðum upp í Mosó til að taka þátt í Álafosshlaupinu, sem er 9 km utanvegahlaup.  Þetta er eitt af mínum uppáhalds og ég á margar góðar minningar.   Í fyrra setti ég pb í brautinni og hljóp á 38:06, ég er í svipuðu formin núna og reiknaði með að geta jafnvel gert betur þar sem aðstæður voru mjög góðar.

Allt gekk eins og í lygasögu fyrstu 4-5 km, mér leið vel og pjakkaði upp brekkurnar með fyrstu konu vel í sjónmáli.  Ég var komin með þokkalegt forskot á næstu tvær á eftir mér og lífið dásamlegt.  Allt í einu fæ ég snarpan sting upp undir þindina.  Hmmm... hvað var þetta?  Ég rúlla áfram og nú er löng brekka niður framundan.  Stingurinn eða takið eykst og ég finn að ég er að fá magaverk og þarf að komast á dolluna.  Farging sjitttt...   Ég verð að draga úr hraðanum, sem er alveg blóðugt niður brekkuna og sé að bilið milli mín og næsta manns á undan breikkar.   Ég er á þessum tímapunkti að velta fyrir mér hvort það sé einhver möguleiki að halda út alla leið í mark eða hvort það sé bara tímaspursmál að missa stelpurnar fram úr mér.  Eftir 6,5 km ná þær mér og sigla fram úr.  Þarna er ég komin í keng og nú er ég að velta fyrir mér möguleikunum: a) Hlaupa inn í næsta garð, dömpa og ná þeim svo aftur :-/   b) Hætta í hlaupinu og reyna að finna styttri leið í mark.  c) Skokka restina og klára...    

Auðvitað varð c) ofan á, a) maður gerir ekki svoleiðis og b) maður gerir helst ekki svoleiðis heldur...

Síðustu 2 km voru allt í lagi, ég hljóp bara þannig að ég héldi haus og hægðum, leið ekkert svo illa á þessum kafla, nema bara andlega!!!   Um leið og ég kom í mark, gat ég ekki haldið haus eða öðru lengur og sennilega af því ég var búin að pína mig þetta lengi, þá borgaði ég fyrir með þvílíkum magakrömpum og endaði á að kasta upp, en n.b. inná klósetti eins og dannaða konan sem ég er.  Var hálf skjálfandi á beinunum í smá stund en ég var fljót jafna mig, fékk mér recovery og skokkaði niður með bónda mínum.  

Þórólfur massaði þetta og sigraði í hlaupinu og Jói frændi átti líka góðan dag.  Þurfti alveg að nota heilmikinn viljastyrk til að samgleðjast mínum mönnum (sem tókst!) en ekki drekkja mér í sjálfsvorkunn (sem ég gerði ekki :þ

Maður fer svo yfir svona misheppnað hlaup í huganum, milljón sinnum og reynir að finna út hvort maður hefði getað gert betur en ég komst að þeirri niðurstöðu að svo var ekki.  Maður getur harkað af sér ef maður er móður eða þreyttur í löppunum, talað sig til og notað hausinn.  En það er bara ekkert sem maður getur gert ef maður fær í magann, alveg sama hvað hausinn er sterkur og þannig er það bara.  

Grunar að það séu tveir til þrír þættir sem orsökuðu þetta ástand.  Ég var lasin í síðustu viku, með magakveisu og þó svo ég hafi ekki fundið neitt fyrir því síðustu daga þá hef ég sennilega ekki þolað keppnisátökin strax.  Svo var næringin fyrir hlaup ekki eins og vanalega, tímasetningin er þannig að ég hefði helst þurft að borða svona þrjú, hálf fjögur en ég náði því ekki í vinnunni svo ég var alveg á síðasta snúning með það.  

Nú er ég búin að skrifa um þetta og þá þarf ég ekki að velta mér meira upp úr þessu.  Næst á dagskrá Gullspretturinn og mig grunar að það verði frábært!

9. jún. 2013

Rangur misskilningur

Við hjónin vorum búin að plana rómantískt 'get-away' á föstudaginn.  Þórólfur græjaði gistingu á Hotel Marina, ég pantaði miða fyrir okkur á Tengdó í Borgarleikhúsinu og Mamma tók að sér börn og bú í tæpan sólarhring á meðan.

Snemma í vikunni fékk ég vinabeiðni á Facebook frá manni sem ég þekki ekkert, virðulegum lögfræðing hér í bæ og ég sendi smá skilaboð til baka:

Fékk vinabeiðni frá þér en er ekki viss um að það hafi verið viljandi, þekkjumst við? 

Kv. Eva 





Eftir tvo daga kom svar (stytt, nöfn og heimilsföng fjarlægð):

Sæl, Líklega hefur þessi vinabeiðni bara komið óvart. Ég var að búa til atburð í fyrsta skipti og það skýrir þetta. Hef óvart ýtt á takka. Er enn að fást við þessar flækjur sem eru marghverjar illleysanlegar. Efast um að ég bjóði aftur í boð á Facebook nema með aðstoð mér betra fólks. Við - fyrst allt þetta hefur gerst - getum ekki annað en boðið þér og þínum maka að taka þátt í fárviðrafagnaðinum, sem á að heita sumarfagnaður eða dúfnaveisla hér kl. 17.30 á föstudaginn kemur, þ.e. 7. júní.

Þetta var of skemmtilegt til að láta eiga sig og ég svara:

En skemmtilega rangur misskilningur, þetta kann ég að meta eins og margt annað sem er óvænt í lífinu. Ég lenti sjálf í því að senda óvart vinabeiðni á þekktan söngvara hér í borg sem ég þekkti ekkert og ég hef unnið við hugbúnað í 15 ár, svo það getur kárlega hent hvern sem er.
Ég myndi eindregið ráðleggja þér að láta ekki deigann síga og halda áfram að búa til atburði á Facebook. Við hjónin erum reyndar að fara í leikhús á föstudaginn að sjá Tengdó en hver veit nema við náum að grafa upp ævintýramanneskjurnar í okkur og finna hugrekki til að heilsa upp á ykkur fyrst.
Bestu kveðjur, Eva
Ég reiknaði svo með að þessar línur myndu ljúka málinu en svo var ekki.  Daginn eftir kom svar:
Þið skuluð endilega líta við áður en farið er á leiksýninguna. Hér verður alls konar fólk og líklega ekki minna leikhús!! Tilviljanir eru líklega það öruggasta sem kemur fyrir mannskepnuna. Sem sagt: Boðið hefst ca kl. 17. Gert er ráð fyrir að hafa gestina úti við en þeim verður samt hleypt inn geri verulega rigningu. 
Hmmm... ættum við kannski að láta vaða:
Takk kærlega, tek þessu sem alvöru boði núna og við hjónin sitjum hérna og brosum prakkaralega til hvors annars. Finnst þetta pínulítið vera eins og áskorun og við erum mikið keppnisfólk!
Planið var að leggja í hann héðan klukkan hálf fimm, strax eftir vinnu, koma okkur fyrir á hótelinu, fá okkur smá bita og kíkja svo í veisluna áður en við héldum í leikhúsið.  Það er skemmst frá því að segja að það gekk ekki upp!   Sonja kúkaði upp undir eyrnasnepla á leiðinni heim frá dagmömmunni, ég þurfti að smúla hana í sturtunni áður en ég afhenti mömmu barnið, fundur í vinnunni hjá Þórólfi dróst á langinn og við vorum ekki komin niðrí bæ fyrr en rúmlega sex.   Timinn  var of naumur til að fara út að borða þannig að við gripum með okkur Búlluborgara upp á herbergi...  Rétt náðum að shine-a okkur aðeins til fyrir leikhúsið og ekki séns að ná því að koma við í veislunni.  Vorum bara verulega svekkt yfir því...
Í leikhúsið fórum við og sýningin var alveg frábær, snerti okkur sérstaklega.  Við hittum vinkonu okkar á leiðinni úr leikhúsinu sem skutlaði okkur í bæinn.  Klukkan rétt rúmlega tíu... ættum við að kíkja við og sjá hvort það sé eitthvað um að vera ennþá?   
Við fundum rétta húsið og jú viti menn þarna var fólk á vappi í garðinum.  Kíktum inn og þar tók nýi FB vinur minn hlýlega á móti okkur og bauð okkur hjartanlega velkomin.  Jiiii hvað það var gaman hjá okkur! Við kynntumst fullt af nýju fólki, spjölluðum út í eitt, það var spilað á píanó og sungið.  Við vorum með síðustu gestum út, vel eftir miðnætti, sammála um að við hefðum sjaldan skemmt okkur eins vel.  Þetta er lífið!

Lognmollan

... eða ekki.  Eftir frábært frí hjá systur minni og mági í Þýskalandi þá var ég fljót að detta inn í mína rútínu sem þýðir endalaust fjör og minna um slökun :)

Daginn eftir að við komum heim var fyrsti formlegi viðburðurinn á dagskrá en það var Víðavangshlaup í Öskjuhlíðinni til styrktar MFMB sem voru að safna peningum fyrir blind börn á Íslandi.  Ég get ekki sagt að ég hafi verið í besta stuðinu mínu, var hálf skrýtin í maganum og lúin eftir ferðalagið en ekkert stórvægilegt.   Það voru háttí 300 manns með í hlaupinu í ár og stemmningin einstök.  Brautin er mjög krefjandi, hlaupið á malarstígum til að byrja með niður að sjó og svo pjakkað upp, alla leiðina að Perlunni og svo var bara að láta sig gossa niður og í mark.  Ég fór yfirvegað af stað og passaði að sleppa ekki fyrstu konu úr augsýn og eftir ca. 2,5 km náði ég forystu og hélt henni í mark.   Við vorum samstíga hjónin, Þórólfur var fyrstur karla og ein skemmtilegasta verðlaunaafhending sem ég man eftir setti punktinn yfir i-ið á þessu vel skipulagða og skemmtilega hlaupi!


Daginn eftir var Sjómannadagurinn og eftir góða törn í garðvinnu drifum við okkur niðrí bæ með krakkana og afa Þór.  


Á mánudaginn var komið að skuldadögum, fór ég öfug heim úr vinnunni og lagðist í pest, með hita og magakveisu og lá eins og klessa í 3 daga.  Þrátt fyrir að vera hitalaus þá var ég alla vikuna viðkvæm í maganum og það er nokkuð ljóst að ég fitnaði ekki þessa vikuna... enda bara ágætt því helgin framundan var fyrri allan peninginn...