28. mar. 2011

Vorið komið

Vorþefur í lofti og allt verður létt og skemmtilegt.  Gabríel okkar fór í keppnisferð til Egilsstaða um helgina og strákarnir stóðu sig þvílíkt vel, allt í einu er eins og allt gangi upp hjá þeim og þeir unnu alla leikina sína fyrir austan.

Á laugardaginn drifum við okkur í bæinn eftir morgunprógrammið okkar, röltum niður Laugaveginn, náðum okkur í blöðru í 66° Norður og gáfum öndunum.  Við vorum búin að lofa ísbíltúr á eftir ef Lilja væri til í að rölta með okkur hringinn í kringum Tjörnina og það var sko samþykkt.


Buðum pabba í snarl með okkur um kvöldið en mamma er komin loksins, loksins til Madagaskar en þetta er þriðja árið í röð sem hún og bróðir hennar plana ferð á æskuslóðinar.  Fyrsta ferðin var blásin af vegna borgarastyrjaldar og í fyrra var það Eyjafjallajökull sem setti strik í reikninginn, mamma komin til Noregs og allt...  En alla vega búin að fá nokkur sms og allt gengur eins og í sögu.

Tók góðan hlaupatúr í gær, frábært að geta spriklað á auðum stígum og ég stefndi á 10 km á innan við klukkara og það gekk vel.  Sé það betur og betur hvað ég er heppinn að geta hreyft mig eins og ég geri, það er alls ekki sjálfsagt.  Alltaf að heyra af stelpum sem eru stopp vegna verkja í mjöðmum, lífbeini eða vegna annarra óþæginda.  Mér líður bara vel og er svo þakklát fyrir það.  Er á leiðinni í hádegisskokk, over and out!

26. mar. 2011

Bumbumynd #2



Tími á aðra bumbumynd, komin 21 viku í dag :)


Greinilegur munur frá 15. viku.


Posted by Picasa

25. mar. 2011

Útihlaup

Ég hef svona verið heldur treg til útihlaupa síðustu vikurnar, var farin að bíða eftir að losna við snjóinn.  En í gær gafst ég upp, ég sakna þess svo mikið að komast út í súrefnisskammtinn minn.   Fór góðan hring í hádeginu og það var eins og við manninn mælt, þreyta sem hefur verið að hellast yfir mig seinni partinn í vinnunni fauk út í veður og vind og ég var uppfull af orku restina af deginum.

Ég skrópaði á þriðjudaginn í sundskólanum hennar Lilju, einmitt vegna þess að ég var svo voðalega þreytt eitthvað en í gær hlakkaði ég bara til og það var æðislegt að komast í sundið.  Ég er búin að vera að troða mér í æfinga sundbolinn minn sem er nú frekar sleiktur á mér venjulega og nú var svo komið að hann var ekki að höndla þessi nýju brjóst og bumbu, var orðin eins og rækja í honum.  Prófaði að fara í bikiní og það var bara í fínasta lagi enda bumban farin að líta út eins og óléttubumba en ekki bjórvömb! 

Annars var ég að skrá mig á nýtt námskeið í Hreyfingu sem mér líst svakalega vel á, HD Fitness, en tímarnir byggjast á rólegum styrktaræfingum og djúpum teygjum.  Ætti að smellpassa fyrir mig með mínu hefðbundna sprikli.  

22. mar. 2011

Malmö og barnalán

Sérstaklega viðburðarrík og skemmtileg vika að baki.  Við hjónin stungum af í árshátíðarferð til Malmö.  Já og nú spyr fólk hvaða fyrirtæki fer til útlanda í árshátíðarferð á þessum tímum, alla vega ekki bankinn :).

Við tókum forskot á sæluna og fórum til Keflavíkur á þriðjudagskvöldið og gistum á Hótel Keflavík um nóttina.  Þórólfur vann gistinótt í Reykjanesmaraþoninu og nú var tilvalið að nota hana, geta sofið aðeins lengur og sleppa við keyrsluna fyrir flug.  Við bættum líka við auka degi úti og sáum ekki eftir því, áttum frábært frí saman og nutum hverrar einustu mínútu.  Við byrjuðum dagana á því að hreyfa okkur, annað hvort úti eða í pínu litlu gymmi á hótelinu.  Svo var það dýrindis morgunverður og bæjarrölt í framhaldinu.  Einn daginn fengum við lánuð hjól á hótelinu og hjóluðum um allan bæinn.  Við vorum líka pínu menningarleg, kíktum á Ebba's hus sem hefur staðið óhreyft í 100 ár og svo fórum við á súkkulaðisafn!  Árshátíðin var skemmtileg og við nutum þess að borða góðan mat, dag eftir dag.  Versluðum líka aðeins, það finnst okkur ekkert leiðinlegt og svo er náttúrulega alltaf jafn gott að komast heim aftur, fá að knúsa krakkana og koma sér í rútínuna aftur.

Chokladfabrikken, nammi namm og hægt að fá smakk af öllu :)
Sporty gömlu hjónin
Fundum kósí hverfi með smá tjörn á hjólreiðatúrnum
The Turning Torso í baksýn
Frekar flott hjól!

Mánudagurinn var svakalega spennandi hjá okkur en við áttum tíma í 20 vikna sónar.  Við vorum svo heppin að fá ljósmóðurnema og þá fengum við útskýringar á öllu mögulegu sem verið er að skoða og það var bara gaman.  Allt lítur vel út og þessi sónar gefur okkur líka fæðingardag 6. ágúst.  

 Aðeins að sjúga puttann
Undir ilina og klárlega Nimbus fótur :)

Eftir hádegi var svo komið að henni Lilju okkar en hún átti tíma í 4 ára skoðun.  Stóð sig með miklum sóma og rúllaði upp hverju prófinu á fætur öðru.  Fékk líka tvær sprautur... í einu í handleggina, var voða hugrökk og fljót að jafna sig.   Í dag fengum við svo meiri góðar fréttir, Lilja fær pláss á Ásborg sem er leikskóli fyrir stærri krakka á sömu lóð og hún fær að byrja 2. maí.  Hún er sko alveg tilbúin í að breyta til, hlakka til að segja henni fréttirnar.  

Gabríel okkar er svo að fara í spennandi keppnisferð í körfu til Egilsstaða næstu helgi.  Hann var ekki lítið glaður að heyra að þeir færu með flugi í þetta sinn, var alveg komin með nóg af rútuferðum fram og til baka fyrir og eftir mót.  

Sem sagt... engin lognmolla frekar en fyrri daginn.

12. mar. 2011

Enn einn snilldardagurin í fjöllunum

Eins gott að vera með skiptingarnar á hreinu í morgun þegar körfuboltamót bættist við venjubundið laugardagsmorguns kaosið okkar.  Vorum eins og borðtenniskúlur út um allan bæ að skutla, sækja, æfa, horfa til hádegis.  Eftir góðan hádegismat héldum við svo til fjalla enda algjörlega ómótstæðilegt veður, glampandi sól og logn.   Hvað getur maður sagt, bara dásamlegt!  Það var svo hlýtt að ég skildi lopapeysuna eftir út í bíl og nýja skíðaúlpan (gömul úlpa sem ég fann í geymslunni) var alveg að gera sig, náði vel niður fyrir rass svo það var ekkert mál að sleppa því að smella efstu tölunni á buxunum :).  25 ára gömlu skíðalúffurnar sem fundust heima hjá mömmu voru líka skotheldar svo kaldir puttar eru úr sögunni.

Stóru framfarir dagsins á hún Lilja en við létum vaða í hólana í Suðurhlíðinni (mamma hraðar, ég er nefnilega mjög hugrökk...)  Það var ekki allt, í lok dagsins var sú stutta farin að fara ein í toglyftuna eins og ekkert væri.  Mér hefði reyndar ekki dottið í hug að láta hana prófa það nema fyrir það að við hittum vinkonu hennar sem er árinu eldri í fjallinu.  Hún var í skíðakennslu, var hent beint út í djúpu og látin bjarga sér.  

Gabríel er komin á það stig að hann getur brunað niður hvaða brekku sem er, prófuðu að fara niður gilið á milli stólalyftnanna í fyrsta sinn og minn maður átti ekki neinum vandræðum.  

Þórólfur er á fljúgandi framfara ferð en langar mikið til að komast í almennilega kennslu núna svo hann geti einbeitt sér að því að bæta tæknina og festi ekki í sér einhverja vitleysu.  

Ekkert betra en að rífa í sig heimatilbúið nesti og skola því niður með heitu kakó-i eftir þriggja tíma skíðatörn,  umkringdur fólkinu sem maður elskar, rjóðu, glöðu og stútfullu af ferksku fjallalofti.  

Mamman að missa sig í pósunum
Flottir krakkar sem við eigum mar...
Lilja ein í toglyftunni á undan mér!

9. mar. 2011

Litla prinsessan eða þannig...

Lilja er búin að vera svo spennt fyrir Öskudeginum og ætlaði að fara sem álfaprinsessa með voða fína bleika vængi, kjól, kórónu og sprota.  Í morgun skipti mín um skoðun: 'Ég ætla vera Spiderman!' og þá er það bara þannig. 

8. mar. 2011

Gott combó

Breytti aðeins til í gær eftir vinnu og fór á hlaupabrettið í staðinn fyrir þrektímann.  Skokkaði á brettinu, horfði á einhvern þátt og það var bara notalegt að vera inni og horfa á rokið og snjóinn út um gluggann.  Mér fannst passlegt að hlaupa í hálftíma eða 5 km en var ennþá í stuði svo ég skellti mér á þrekhjólið og hjólaði líka í hálftíma, tæpa 14 km.  Þetta var alveg að skítvirka fyrir mig og ég á örugglega eftir að gera þetta alla vega einu sinni í viku.  Var að stefna á sundæfingu í morgun en þegar ég sá skaflana á bílnum þá hætti ég við í snarhasti.  Var ekki að sjá fyrir mér að fara út með kústinn fyrir sex...   Það er líka sundskóli hjá Lilju á eftir og þá fæ ég mína 1000 m.  Það veitir ekki af smá hreyfingu núna í miðju bollu- og saltkjötsfárinu.

Annars líður mér alveg ótrúlega vel og það er bara gaman að lifa.

7. mar. 2011

Blóðugur sunnudagur...

Ég hefði ekki átt að minnast á slysó!  Í gær fékk Gabríel blóðnasir, sem er svo sem ekkert óvenjulegt þannig.  Venjulega höndlar hann það bara sjálfur, stoppar rennslið og treður bómull í nefið á sér, ekkert stórmál.  En í gær var þetta ekkert venjulegt.  Gabríel hleypur inn á bað og svo heyri ég allt í einu angistaróp.  Þegar ég kom að honum stóðu gusurnar út úr báðum nösum, blóð á speglinum, veggnum og vaskurinn allur útataður!  Ég náði góðu taki á nebbanum og stoppaði bunurnar og prófaði að sleppa aðeins eftir 5 mínútur og þá var það sama sagan, ekkert lát á blæðingunni.  Aðrar tíu mínútur stóðum við hlið við hlið, ég haldandi þéttingsfast um nefið og sleppti svo pínu til að tékka... Gusan út í loftið.

Bað Þórólf um að hringja í 112 og fá einhver ráð, spjallaði aðeins við þá og það var tekin ákvörðun um að senda hjálp á staðinn.  Sjúkrabíllinn kom 10 mínútum síðar, ég komin með massaðan hægri handlegg og ekkert lát á blæðingunni.  Þeir reyndu aðeins að kæla og leystu mig af en allt kom fyrir ekki og þá var eina ráðið að fara á slysó og fá hjálp þar.

Sem betur fer var afi Þór í heimsókn og hann passaði Lilju meðan við drösluðum guttanum á slysó.  Þar var vel tekið á móti okkur og við þurftum ekki að bíða lengi.  Ungur og myndarlegur læknir kallaði í okkur og mér fannst ég kannast við hann en áttaði mig ekki á hvaðan.  Upp á háls-, nef- og eyrna og þar skoðaði hann í krók og kring og tók ákvörðun um að brenna fyrir.  Allt í einu fattaði ég hvaðan ég þekkti kauða og fékk smá svona omg hvað ég er orðin gömul tilfinningu.  Þetta var sem sagt sonur kunningjakonu minna en foreldrar okkar eru vinahjón, sá hann síðast með hor í nös á Þorláksmessu fyrir nokkrum árum :)

En alla vega guttinn kom stálsleginn og viðbrenndur heim aftur, fegin að ævintýri dagsins lauk svona farssællega!

5. mar. 2011

Bolludagur

Hjá mínum manni er Bolludagurinn mesta hátíð ársins, ja kannski fyrir utan jólin.  Hann bakar alltaf vatnsdeigsbollur eftir gamalli uppskrift frá mömmu sinni og yfirleit tvo frekar en einn skammt.  Fyrsta porsjón var bökuð í gær og nú var hann að taka aðra umferð úr ofninum.  Afi Þór og amma Gerd eru komin í bollukaffi og allir fá að skreyta sínar bollur og hafa þetta eins og þeir vilja.  

Ég var reyndar heppin að taka ekki af mér putta áðan.   Notaði töfrasprotann til að hakka frosin jarðaber til að blanda saman við þeytta rjómann og ætli ég kenni ekki óléttu þoku um, ég fór sem sagt með fingurinn í spaðann til að hreisna úr honum, án þess að taka úr sambandi, með hinn fingurinn ennþá á túrbó takkanum og já, mér tókst að ýta óvart á hann í leiðinni!!!  Betur fór en á horfðist, puttinn hangir á en ég fékk tvo stóra skurði á hann.  Bóndinn setti stóra plástur á bágtið og ég held að það dugi, er alla vega ekki að nenna að fara á slysó í þessu skítaveðri og bíða þar hálfan daginn.  -Döhhhh...  


Gabríel tekur forskot á sæluna!

3. mar. 2011

Aftur á skíði

'I have created a monster...'.   Nei, langt í frá en nú er lífið hjá okkur þannig að ef það er opið í Bláfjöllum þá eru allar líkur á að tveir eða fleiri fjölskyldumeðlimir séu þar.  Kom við heima eftir vinnu í gær til að ná í leikfimisfötin mín þá beið guttinn í startholunum, 'Eigum við ekki að fara á skíði, það er opið!'.  Þá er ekkert annað að gera en að skipta um gír, græja sig í gallann og ég var ekki lengi að tala Þórólf til að koma með okkur.  Lilja var í heimsókn hjá ömmu og við vorum ekkert að hrófla við henni svona stuttu eftir veikindin.

Ég þarf aðeins að finna út úr galla málum á mig, er hætt að geta hneppt skíðabuxunum og næst ætla ég að passa að fara í úlpu niður fyrir rass :þ .  Skvísuúlpan sem ég hef notað hingað til er ekki alveg vindheld, sem er ekki alveg að gera sig þegar farið er að dimma og kólna...   Ég er líka í smá vandræðum með puttana á mér en þegar ég náði í Lilju í gær var mamma búin að grafa upp gömlu skíðalúffurnar mínar, hlakka til að prófa þær.  

2. mar. 2011

Mæðraskoðun

Mæðraskoðun hjá okkur í morgun og allt gekk eins og í sögu, komin 17 vikur og 4 daga.  Vegna þess að ég átti Gabríel aðeins fyrir tímann og af því að ég er með skjaldkirtilssjúkdóm þá er fylgst extra vel með mér, sem er bara betra.  Ég fer í blóðprufur og skoðanir á 6 vikna fresti og svo eitthvað örar þegar lengra líður.  Ég er ennþá aðeins að berjast við kollinn á mér, varla að trúa að þetta sé satt og svona 2-3 dögum fyrir hverja skoðun þá verð ég utan við mig og pínu stressuð.  Svo er það þvílíkur léttir að fá staðfestingu að allt sé eins og það á að vera, flottur hjartsláttur og svo sparkaði krílið kröftuglega í ljósmóðurina þegar hún var að skoða mig.

Hlaupin eru farin að rokka og ég finn að um leið og ég get hlaupið meira, þá skipti ég einhverju öðru út fyrir þau.  Mér finnst alltaf skemmtilegast að hlaupa þegar allt kemur til alls.  Fór smá hring í hádeginu og undur og stórmerki, þurfti ekkert að stoppa til að pissa, þvílíkur sigur!