31. des. 2010

Gamlárshlaup ÍR 2010

Þetta var óhefðbundið í ár hjá okkur.  Eftir að hafa afskrifað hlaupið vegna hlaupaleysis og aumingjaskapar, þá skiptum við um skoðun seint í gærkvöldi, við kunnum ekkert að vera ekki með.  Fyrst við gátum ekki platað Gabríel með okkur til að við færum okkur ekki um of þá var brugðið á það ráð að dressa sig upp í búninga.  Ég á klappstýrubúning frá USA og í morgun brunaði ég í Hókus pókus og náði mér í hárkollu, ljósa lokka til að fullkomna look-ið.  Þórólfur fékk lánaðan rosalega flottan Prins polo galla í vinnunni og var leystur út með kassa af Prins polo-i til að gefa í hlaupinu. 

Við störtuðum aftarlega og Þórólfur var duglegur að gefa krökkunum á hliðarlínunni sem voru að hvetja, starfsmönnum hlaupsins og meira að segja löggan fékk Prins polo.  Við höfðum sett okkur strangar reglum um að  gefa engum hlaupurum á meðan hlaupinu stóð og eiga þannig á hættu að vera dæmd úr leik fyrir ólöglega aðstoð muwahahaha...   Þegar við vorum komin niður fyrstu brekkuna, með öllum súkkulaðistoppunum vorum við öftust  :)  Thíhí mjög fyndin tilfinning að sjá alla strolluna fyrir framan sig, við byrjuðum að skokka og allt hlaupið vorum við að taka fram úr fólki.  Ég hef aldrei hitt eins marga á hlaupum, ótrúlega gaman, eins gott að maður venjist þessu ekki um of.

Við komum í mark á rúmum 52 mínútum og þá voru 3 lítil Prins eftir í kassanum góða.  Margir félagar okkar voru að gera frábæra hluti og bæta sig, gaman.  Ég var smá tapsár að vinna ekki búningakeppnina (get over it!).  Á heimleiðinni stoppuðum við eins og venjulega í Öskjuhlíðinni og keyptum flugelda, ég ennþá í fullum skrúða og vakti óskipta athygli (bætti alveg fyrir tapið).


Framundan góðar stundir með fjölskyldunni og gourmet veisla ársins að venju hjá Röggu svilkonu.  Getur ekki verið betra!

Við tókum saman árangur í keppnum 2010 um daginn og sendum styrktaraðilum okkar samantektina og þakkir fyrir stuðninginn.  Það þýðir að ég á þetta allt saman í röð og reglu.  Það sem stendur upp úr eftir árið  íþróttalega séð er sigur í Vesturgötunni sem ég hljóp í fyrsta sinn alla leið, pb í 5 km hlaupi í ágúst 19:34 og svo var mjög gaman að vinna Haustþonið og fara undir 1:30 þrátt fyrir brjósklos en ég vissi náttúrulega ekkert af því þá.  Ég er líka alsæl með framfarir í skriðsundinu en ég get eiginlega þakkað brjósklosinu það, ég hefði aldrei gefið mér tíma í allar þessar sundæfingar hefði ég getað hlaupið.  

Ég tók líka þátt í fullt af skemmtilegum hjólakeppnum og náði einni ágætis þríþraut.  Skrítnasta reynslan var að fá heiftarlega sinaskeiðabólgu í kjölfar landskeppninnar í götuhjólum, algjörlega handlama í fleiri vikur og þurfti þar af leiðandi að sleppa hálfa járnkarlinum, pínu súrt.   En annars ágætis ár, fullt fullt af skemmtilegu og krefjandi atburðum.  Það er hægt að stækka skjalið með því að smella á það:




30. des. 2010

Að fylgja eigin sannfæringu

Ég dáist að fólki sem fylgir sinni sannfæringu, það er eitthvað svo hreint og gott við það.  Ég fæ alveg fiðrildi í magann af gleði.  Skiptir ekki máli hvort það samræmist minni sannfæringu eða ekki.  

Ég hef lengi litið upp til Bjössa Margeirs., bæði fyrir það að hann er einn flottasti íþróttamaðurinn sem ég þekki, en ekki síður fyrir það hvernig manneskja hann er.  Í rökræðum á netinu um hin ýmsu mál tengdum íþróttinni okkar þá finnst mér skína í gegn rökhyggja, heiðarleiki og sjálfsgagrýni þar sem það á við.  Hann er samkvæmur sjálfum sér.  Það er ekki öllum gefið.

Ég heyrði af úrsögn hans úr FH á hlaupaæfingu í gærkvöldi.  Við vildum öll fá hann í okkar lið.  Ég skoðaði fréttirnar í DV í dag.  Ég renndi yfir kommentin.  Fékk aðeins í magann.  Hugsaði til fjölskyldunnar.

Áfram Bjössi, við erum stolt af þér.

29. des. 2010

Komin af stað

Fyrsta æfingin okkar í langan tíma á mánudaginn.  Ég var fullviss um að ég myndi ekki halda í við hópinn í upphitun og þorði ekki annað en að taka með mér iPod og byrjaði á að afsaka mig í bak og fyrir.  Kom í ljós að ég var bara í fínu standi og blés varla úr nös.  Ég læt samt allar sprettæfingar eiga sig í 4 vikur í viðbót, ég ætla að byrja á að koma mér í rútínu að hlaupa 5-6 sinnum í viku áður en ég tek á því af einhverju viti.  

Við erum búin að eiga frábær jól fyrir utan smá pestarsnert.  Gabríel var slappur í maganum í fyrradag og nú er hann komin með smá hita og hósta.  Lilja vaknaði með rautt auga af kvefi í gær, er með hósta en annars hitalaus og nokkuð brött.  Þórólfur er líka búin að vera með smá í hálsinum en sleppur með því að dæla í sig c vítamíni og Panodil hot.  Ég hef eiginlega sloppið best, var aðeins tæp í gær en náði mér á strik.  Það versta var eiginlega að ég hnerraði án þess að koma mér í læsta stöðu og þarf að borga fyrir það með eymslum í baki í tvo daga :(  Eins gott að ég sé ekki með ofnæmi fyrir einhverju!

Við hlökkum til að halda uppá áramótin með stórfjölskyldunni og svo er afmælið hennar Lilju rétt handan við hornið.  Nóg að gera og lífið er gott.

Svona enduðum við mæðgur á kósíkvöldinu okkar...

Aðeins að viðra okkur á jóladag :)

24. des. 2010

Snapshot af aðfangadeginum okkar

Lilja hjálpar pabba að setja toppinn á jólatréð.
 Lilja milli afa, spennan að magnast...
 Gabríel var ótrúlega duglegur að hjálpa til í eldhúsinu.
 Sætustu stelpurnar í bænum.
 Alveg að missa sig úr spenningi.
Kollý amma var löngu búin að ákveða að gefa henni Lilju dúkkuhús í jólagjöf.  Við hjálpuðum afa Þór að klára málið og uppfylla drauminn.   
Gabríel var ánægður með uppskeruna og nú sitja strákarnir hérna hjá okkur og keppa í nýja PS3 körfuboltaleiknum hans Gabríels.

Við stelpurnar erum að koma okkur fyrir í kósí fílíng og ætlum að horfa á Vefinn hennar Karlottu. 
Dásamleg jól.  
Takk fyrir.


Gleðileg jól!

21. des. 2010

Jólaskap

Svei mér þá, nú finn ég jólaskapið læðast aftan að mér og ofan í hálsmálið...  Byrjaði daginn á að taka á móti ungri stúlku sem ætlar að taka jólahreingerninguna í ár fyrir okkur.  Ó, hvílík gleði, finnst það eiginlega allra besta jólagjöfin í ár.

Við Gabríel fórum í smá jólagjafaleiðangur í gær og svo fóru strákarnir og náðu í jólatré handa okkur.  Ég fór út að skokka í hádeginu og tók þá eftir öllum jólaljósunum, svo kalt og fallegt.  Í dag fékk ég líka jólagjöfina frá vinnunni og allt þetta jóla, jóla... gerði það að verkum að ég skipti um skoðun og útbjó jólakort í hvelli (ætlaði bara að sleppa því í ár) og nú er ég búin að græja það allt saman.  Það verða sem sagt send út jólakort í ár en ég lofa ekki að þau komi fyrir jól.  Það er örugglega bara betra, kortið fær þá extra mikla athygli og týnist ekki í fjöldanum :)

Jingle bells, jingle bells, duhduhrudduhduhhh...

19. des. 2010

Trompetleikari?


Eða það hélt ég, en þetta er víst flygilhorn...? Lilja er alla vega alveg með þetta, sama hvað þetta er. Náði fínum tón í fyrstu tilraun, annað en mamma hennar. Sé hana alveg fyrir mér í gasalega smart lúðrasveitarbúning, norpandi niður Laugavegin á 17. júní... :)
Posted by Picasa

Eins og talað...

Mér fannst eins og ég hefði fengið fyrstu jólagjöfina mína í ár, þegar ég rakst á smá umsögn  í Fréttatímanum, um ljóðasafn sem verið er að gefa út um jólin.

Lífsþor

Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun.

Höfundur: Árni Grétar Finnsson

Verð eilíflega þakklát fyrir að einhver hafi getað komið þessum mikilvægu skilaboðum, sem ég hef haft að leiðaljósi í mínu lífi síðustu árin, í svona flottan búning.  Cool.

17. des. 2010

Spennufall

Formlegu sorgarferli eftir fráfall tengdamömmu minnar lauk í gær en þá fór jarðarförin hennar fram.  Þetta er búið að vera ótrúega skrítið og erfitt, en líka mjög lærdómsríkt og jákvætt. 

Mikilvægasta lexían í öllu þessu ferli er hversu ómetanlegur stuðningurinn frá vinum og fjölskyldu er.  Ég hefði aldrei trúað því hvaða áhrif smá skilaboð á Facebook eða sms hafa á svona stundum.  Tala nú ekki um símtöl, blóm, kerti og knús.  Ég verð að viðurkenna að ég var fyrir þessa reynslu alveg 'clueless'.  Í þau fáu skipti, sem betur fer, sem einhver mér náin hefur misst ástvin þá hef ég bara verið hálf feiminn, rétt svo stunið upp úr mér samúðarkveðjum og dregið mig í hlé.  Hélt einhvern veginn að maður væri bara fyrir eða eitthvað.  Ég hafði til dæmis ekki hugmynd um að fólk mætir í jarðarfarir, ekki bara til að kveðja einhvern sem þeim þykir vænt um heldur líka og kannski enn frekar til að sýna þeim sem eftir standa væntumþykju og stuðning.  Ég hef aldeilis fengið rækilega lexíu undanfarna daga og það veit sá sem allt veit að héðan í frá mun ég hegða mér öðruvísi í svona aðstæðum.

Ég er svo þreytt að mér líður eins og tólf tonna trukkur hafi keyrt yfir mig og bakkað aftur.   Allt fer úr skorðum, maturinn í tómu tjóni og orkuleysi eftir því.  Við höfum ekki gefið okkur tíma til að hreyfa okkur eins og venjulega og þá verður maður ennþá þreyttari og slappari.  Það stendur nú samt allt til bóta og við stefnum á að koma okkur í dásamlegu rútínuna okkar eins og skot, ja svona í nokkra daga áður en allt fer úr skorðum aftur :)

En alla vega nú byrjar nýr kafli og við förum að einbeita okkur að því að halda gleðileg jól.  Til að marka það skýrt fórum við á jólatónleika hjá Sinfóníunni áðan, alltaf jafn gaman að fá smá jólagleði innspítingu beint í æð. 

10. des. 2010

Arnaldur, drapst þú mann?

Þegar ég skrifa sögur, t.d.smásögur, þá er það skáldskapur, ekkert flóknara en það.  Ég fæ kannski hugmyndina  að plottinu vegna einhvers sem ég upplifi eða heyri einhvers staðar.  Í framhaldinu myndast setningar og myndir í kollinum á mér, ekkert endilega tengt upprunalegu hugmyndinni en jú stundum er það þannig.  Svo gerjast þetta allt saman í kollinum á mér í nokkra daga.  Ég safna saman myndum, hugmyndum, tilfinningum og hugsunum sem mér finnst passa inn í söguna.  Hluti af því að auka áhrif boðskapsins, því sannarlega er þessi saga skrifuð með ákveðin boðskap í huga, er t.d. að stórkostlega ýkja kringumstæður og gera þær dramatískar.  

Í nýjustu smásögunni minni, Vinarkveðja, þá er ég bæði allar persónurnar og engin þeirra.  Hugmyndin kviknaði reyndar út frá litlu atviki sem gerðist ekki alls fyrir löngu en það var bara neistinn.  Persónurnar eru samsettar úr allri minni reynslu, af sjálfri mér og öðrum sem hafa orðið á vegi mínum.  Ég gæti sennilega leikið öll hlutverkin á einhverjum tíma í mínu lífi.  Ég skálda hugsanir og tilfinningar allra persónanna.  Tilgangur sögunar var annars vegar að setja niður fyrir mig hvernig ég upplifi hugtök eins og vinátta, traust, vinsemd, virðing, fyrirgefning, lærdómur, þroski, sorg o.s.frv. og hins vegar að vinna mig út úr smá vonbrigðum.

Ég er mjög ánægð með söguna og finnst hún áhrifarík.  Til þess var leikurinn gerður.  Það myndi aldrei hvafla að mér að taka til mín eitthvað sem ég ætti ekki en það myndi vekja mig til umhugsunar ef ég sæi sjálfan mig í hlutverki sem mér líkar ekki.  

Ég held líka að það hvarfli ekki að nokkrum manni að Arnaldur hafi drepið mann, þó svo hann skrifi um morð :)

6. des. 2010

Friður og ró

Í dag vil ég hafa eitthvað fallegt á síðunni minni.  Í dag er ég svo óendanlega þakklát fyrir vini mína og fjölskyldu.   Í dag höfum við grátið, hlegið og faðmast.  Í dag lærðum við enn einu sinni hvað það er sem skiptir máli.  Í dag fékk ástvinur okkar loksins hvíld.


 

4. des. 2010

Smásaga

Vinarkveðja

Af hverju?

Við hittumst á ganginum og ég veit að þér leið illa.  Orðin bunuðust út úr munninum á þér.  Ekki hátt, þú vilt ekki vekja á þér athygli.  'Ég gat ekkert að þessu gert.  Þetta var ekkert mér að kenna.  Þú ert bara ósanngjörn að ætlast til það að ég... ég...   Ég á ekki að þurfa að velja.  Hvað viltu eiginlega frá mér?   Ég gat ekkert að þessu gert!'

Nei annars, þú sagðir ekkert, leist bara í gólfið og labbaðir framhjá. 

Vinur minn hefði hringt í mig og sagt mér frá þessu.  Vinur minn hefði skilið, að þó svo mér fyndist það erfitt, þá hefði ég bara hafa tautað eitthvað pínulítið og sætt mig svo við stöðuna.  Ekki kennt honum um neitt.  Auðvitað ekki.  Ég er ekkert þannig.  Vinur minn sem veit allt um málið.  Vinur minn.  Hann hefði alla vega sent sms.   Varað mig við.  Leyft mér að brynja mig.  Af því að honum þykir vænt um mig og fólkið mitt.  Og af því hann vissi allt.  Vissi hvað ég hafði misst mikið.  Vinur minn hefði gert það.

Ég er ekki nísk á bros eða greiða.  En vinátta mín, er dýrmætasta gjöfin sem ég gef.  Ég gaf þér mína.  Í fyrstu galopin og óhrædd, síðar aðeins hikandi.  En samt gaf ég þér hana alla.  

Og þú splundraðir henni.  Ekki með því að grýta henni í gólfið með einhverjum látum.  Þú ert ekki þannig.  Nei, þú læddir henni bara hljóðlega fram af brúninni. Aftur.  

Hún splundrast.

Glerbrotin stingast í mig.  Stingast í þann sem mér þykir svo vænt um.  Það er verra.  Ég hefði samt alveg fyrirgefið vini mínum.  Hann hefði bara þurft að biðja.

Ég hef líka fyrirgefið þér.  Þú þarft ekkert að biðja.  Og ekki vera hrædd við mig.  Ég vil þér bara vel.  Þú getur treyst því.  Og þú veist að þú getur treyst mér.  

Af hverju?

Það glymur í höfðinu á þér.  'Hver þykist hún vera?  Hún getur ekki ætlast til þess að ég...?  Þetta er ekkert mér að kenna!   Ég gerði ekkert!  Ég gerði ekkert!  ÉG GERÐI EKKERT!'.

Sama hvað þú öskrar hátt inní þér, þá yfirgnæfir lítið hvísl allt saman.  Óþolandi lítið hvísl:  'Ég hefði ekki getað átt betri vin...  Ég hefði ekki getað átt betri vin....  Ég hefði ekki getað...'. 


Höf:  Eva Margrét Einarsdóttir

3. des. 2010

Fjölskyldan

Ég er ein af þeim sem fá frunsur öðru hvoru.  Það eru reyndar margir, margir, mánuðir síðan síðast en í gærkvöldi fékk ég tvær í einu!  Það sem mér finnst svo merkilegt er hvað andleg og líkamleg heilsa eru samtengd og ég get nákvæmlega sagt til um það hvað triggeraði það að þessi vírus blossaði upp með þessu offorsi í líkamanum mínum. Við hjónin upplifðum persónulegt áfall á miðvikudaginn (reyndar ekkert sem við getum ekki unnið úr og erum á góðri leið með það n.b.) og voilá í gærkvöldi fékk ég slátt í varirnar.  En skítt með það, þetta tekur nokkra daga og svo er það búið.

Í gær endurskipulögðum við þvottahúsið með tilliti til breyttra bakaðstæðna og með hjálp pabba græjuðum við borð undir þvottavélina og þurrkarann, þannig að nú er ekkert því til fyrirstöðu að ég leggi mitt af mökum í þvottamálum, jeiii....   Nei, í alvöru talað þá skil ég ekkert í af hverju við erum ekki löngu búin að gera þetta, nóg pláss og allt annað að þurfa ekki að bogra við að setja í vélina, algjör snilld.

Menningamálaráðherrann (Þórólfur :) á heimilinum fór hamförum í síðasta mánuði og er búin að skipuleggja þvílíkt mikið skemmtilegt fyrir okkur.  Í kvöld er það Fjölskyldan í Borgarleikhúsinu og það er eins gott að ég sé orðin svona góð í bakinu, skilst að þetta sé maraþon sýning!

1. des. 2010

Fyrsti í hlaupi

Miklu merkilegri en fyrsti í aðventu :)   Það er eins og hlaupa-genið og blogg-genið sé samtengt hjá mér, ef ég hleyp minna, blogga ég minna.  Rétt rúmar þrjár vikur síðan ég fór á sprettæfinguna örlagaríku og þurfti að skríða heim nánast.  Í dag skokkaði ég hálftímann, það er algjör hefð þegar ég er að koma mér í gang af því það er fyrsta leiðin sem ég hljóp (þ.e. hluta af henni) þegar ég byrjaði að hlaupa í gamla daga. 

Það var líka tilvalið að nota tímann til að senda fallegar hugsanir til hennar Bibbu minnar sem á afmæli í dag en það var einmitt hún sem hvatti mig til að byrja að hlaupa.  Allt of langt síðan ég hef hitt hana Bibbu mína :(

Ég var að spá í að koma við í höllinni að kíkja á félagana á 'alvöru' æfingu en hætti við og er þakklát fyrir það eftir á, það var ekki rétti dagurinn fyrir mig að mæta.  Ég reikna nú samt með því að byrja  í næstu viku og miðað við hversu vel mér líður á hlaupunum, þá hef ég engar áhyggjur af framhaldinu, ég á eftir að koma mér í topp form áður en langt um líður.  Og já, já ég er ofur skynsöm.

Við vorum svo glöð að eignast litlu skvísuna okkar á sínum tíma og þegar ég segi skvísa þá meina ég Skvísa með stóru essi!
Vouge...

 Ég er búin að prjóna heilmikið í hlaupapásunni og
hér er Liljan heimaprjónuð frá toppi til læra.

Krakkarnir komust í kistuna með gömlu búningunum
hans Gabríels um daginn, muwahahaha...

Að lokum smá tungumálakennsla en Lilja talar heilmikla ensku, spjallar eins og vindurinn við pabba hans Gabríel í Ameríku á Skype-inu og svona   Hún er líka alveg ófeimin við að spreyta sig á pólsku upp í risi en uppáhalds erlenda tungumálið er án nokkurs vafa...danska!