30. mar. 2012

Sjötti þáttur - Interview with David A Kessler, MD

Já það eru rúmir þrír mánuðir síðan ég bloggaði síðast um hann Bevan, vin minn og Fitness Behaviour.  Ástæðan er einfaldlega sú að í 6. þættinum er viðtal við lækni, sem lýsir rannsóknum sínum á fyrirbærinu að borða meira en maður þarf.  Hann skrifaði bók sem heitir The End of Overeating og viðtalið vakti nógu mikinn áhuga hjá mér til þess að ég keypti bókina og las.  Ég er ekkert fyrir að mæla með einhverju sem ég þekki ekki og þess vegna ákvað ég að gefa mér góðan tíma í að rannsaka á sjálfri mér hvort það væri þess virði að mæla með þessari bók.  

Það er skemmst frá því að segja að frá því ég las bókina þá hefur hafist enn ein ítrun í mínu matar og þyngdarlífi :)  Vil taka það skýrt fram að það eru engir kúrar í þessari bók, engar uppskriftir né annað sem alla jafna er í 'Megrunarbókum' enda ekki megrunarbók, alls ekki.  Bókin er hafsjór af fróðleik hvers vegna mannskepnan kemst í þá stöðu að, í staðinn fyrir að næra sig til að lifa þá verður þetta allt öfugsnúið og hún fer að lifa til að næra sig eða réttara sagt éta á sig gat með tilheyrandi neikvæðum fylgifiskum.  

Síðustu tíu árin eða svo hef ég verið í þeirri þyngd sem ég kýs hverju sinni.  Það hefur tekist með heilmikilli vinnu.  Ég hef passað uppá að hreyfing og matarinntaka sé í jafnvægi en það hefur ekkert endilega verið auðvelt.  Ég hef hugsað meira um mat en 'eðlilegt' getur talist, t.d. stax farið að hugsa um næstu máltíð þó svo ég sé að renna niður síðasta bitanum og sé södd og sæl.  Ég var orðinn sérfræðingu í að undirbúa mig fyrir aðstæður sem áður hefðu komið mér út af sporinu og hvernig ég á að bregðast við.  Ég hafði sem sagt náð góðum tökum á að halda 'einkennum' ofætunnar niðri (offitunni) án þess að fá í rauninni frelsi frá 'sjúkdómnum', ef þannig má að orði komast.

 Fyrir myndir

Það sem hefur breyst eftir lestur bókarinnar er að ég skil núna hvers vegna ég hef stundum átt erfitt með að hætta að borða þegar ég er södd og hvers vegna ég hugsa um mat þegar ég er alls ekki svöng.  Ég hef breytt matarræðinu töluvert en í þá átt að ég borða frekar meira en minna, miklu fjölbreyttari fæðu og jú, klárlega hef ég kosið að sleppa einu og öðru sem ég borðaði áður.  Ég hef á síðustu þremur mánuðum bætt mig jafnt og þétt í hlaupunum, bætt styrk og vöðvamassa, ég sef betur og best af öllu ég hef lært að njóta þess að búa til góðan mat og borða.  Já og svo léttist ég um 4 kíló.   Hérna áður fyrr hafði ég aldrei gaman af því að stússast í mat vegna þess að ég tengdi mat við eitthvað neikvætt í mínu lífi.  Ég hef oft hugsað að ef ég gæti bara sleppt því alveg að hugsa um mat, t.d. tekið eina galdrapillu á dag, þá væri ég alsæl.  Þetta hefur breyst.  Nú nýt ég þess að stússast í eldhúsinu og finnst gaman útbúa mat sem mér finnst hrikalega góður og veit að er frábær næring fyrir kroppinn minn.

Þannig að niðurstaðan er sú að ég get sannarlega mælt með bæði þættinum og bókinni.



23. mar. 2012

Dánarfregnir og jarðarfarir

Mér finnst svo skemmtilegt að finna merki um að ég sé að eldast, er flissandi með sjálfri mér þegar ég uppgötva að ég er farin að gera eitthvað nýtt sem 'gamalt fólk' gerir.  Fyrir svona fimm árum áttaði ég mig á að ég var farin að stilla af Bylgjunni yfir á Rás 2, pjúff hugsaði ég þetta er aldurinn.  Nú er svo komið að ég er oftar og oftar farin að stilla á RÚV í staðinn fyrir Rás 2 þegar graðhesta-rokkið er æra mig.  Rankaði við mér um daginn en þá kaus ég frekar að hlusta á upplestur dánarfregna og jarðarfara en síbyljuna.  Það er endanlega staðfest að ég er orðin miðaldra!

En ég er frísk og spræk miðaldra og ánægð með lífið og minn stað í því.  Í gær var lokahlaupið í  Atlantsolíu/FH  5 km hlaupaseríunni og ég stóð mig að því að dæsa oftar en einu sinni yfir rokinu þegar  leið á daginn.  Á leiðinni í Hafnarfjörðinn var ég að gæla við þá hugsun að skokka bara einhvern góðan hring og sleppa þessu en þegar nær dró og ég sá hlaupara hita upp, þá var það ómótstæðilegt að vera með.  Ég fann mig vel frá upphafi hlaups og þetta var alveg svakalega gaman (auðvitað) þrátt fyrir hífandi rok.  Notaði skynsemina og fann mér skjól í verstu kviðunum en annars rúllaði ég bara létt og sterk.  Í þetta sinn átti ég nóg eftir síðasta km og við síðustu beygju náði ég konu nr. 2, alveg eins og í síðasta mánuði, þá náði ég ekki að hanga í henni.  Í þetta sinn hafði ég betur og var 2. kona í mark á 19:45 og eina konan á undan mér gæti hæglega verið dóttir mín :).  Veit að ég er komin í mitt besta form og það hefði verið svo gaman að taka PB í aðeins lygnara veðri en það bíður betri tíma.  Ef ég fæ ekki veðrið þá ætla ég bara að vera komin í svo gott form að það skiptir ekki máli í sumar!


Tekið á því á endasprettinum :)

Framundan skemmtileg helgi hjá okkur hjónum.  Annað kvöld er árshátíð hjá bónda mínum með tilheyrandi tjútti og á sunnudagskvöldið er hann búin að bjóða mér út að borða á Goodness, sem er pop-up veitingastaður í tengslum við 'Hönnunar mars'.  Var alveg hoppandi glöð með það, spennandi að smakka á ljúffengu heilsufæði og læra kannski eitthvað nýtt í leiðinni.  Pop-up veitingastaðurinn er hugmynd Elettru Wiedeman en það vill svo skemmtilega til að fyrir nokkrum árum þá hafði stjúpa hennar samband við mig og fékk hjá mér maraþon prógramm og við höfum verið í smá samskiptum síðan, erum FB vinkonur.  Á sínum tíma minnir mig að hún hafi stefnt á 3:20 sem  hún rúllaði upp.  Hún lét ekki þar við sitja, er komin fram úr mér og á 3:03, respect.

19. mar. 2012

Matur og hvíld

Frábær hvíldarvika í hlaupunum að baki þar sem við hjónin skárum niður æfingamagn og lufsuðumst bara hlaupatúrana okkar í rólegheitum.  Það var komin tími á hvíld og við nutum þess í botn að slaka á.  Hristum svo aftur upp í okkur á laugardaginn og alvöru æfing framundan í dag.  

Hún Lilja okkar var að keppa í frjálsum í vikunni og skemmti sér þvílíkt vel.  Það er þvílíkur kraftur í skottunni og maður sér framfarir í öllum greinum milli móta.  Á hennar aldri keppir hópurinn sem heild og samanlagður árangur er mældur og settur á netið fyrir þá sem hafa áhuga á úrslitum, annars er þetta bara til að hafa gaman og venja krakkan við að vinna saman og hegða sér á mótum.  

Smá brot af stemmningunni hjá minni

Sonja kann vel við sig í Höllinni

Það var árhátíð hjá Íslandsbanka um daginn og við gömlu hjónin dressuðum okkur heldur betur upp og skemmtum okkur konunglega.  Glæsileg árhátíð í alla staði með '007 Bond' þema en sumir höfðu á orði að það vantað bara 2 fyrir framan...  :)


Ég fékk nýju bókina hennar Sollu Eiríks í jólagjöf og nú er ég alveg komin vel með annan fótinn á kaf í grænmetis/hráfæðið.  Nú hef ég tíma til að æfa mig á daginn og ég er hvort eð er að útbúa allan mat fyrir Sonju sjálf.  Því meira sem ég læri, prófa og smakka, því fjær færist ég fyrra matarræði.  Mér finnst þessi matur í fyrsta lagi miklu betri en svo líður mér bara svo svakalega vel af því að borða þessa hollustu.  Ég er stútfull af orku og vellíðan, hleyp betur en nokkru sinni, sef eins og engill.  Síðustu mánuði hefur sem sagt heill heimur af mat bæst við flóruna hjá mér en að sama skapi er ég búin að henda öðru út fyrir fullt og allt sýnist mér.  Er núna laus við alla unna matvöru, skinkan er out eftir að ég áttaði mig á því að það er búið að sprauta hana ekki bara með salti heldur sykri.  Annars ræður nú bara heilbrigð skynsemi ferðinni og sú lífstíðar ákvörðun að borða bara mat sem mér finnst góður!

Fermingarundirbúningur er í fullum gangi og allt á áætlun.  Búin að útbúa boðskort og þau fóru í póst í morgun.   Fermingarfötin klár, kjólar á stelpurnar, myndatakan bókuð, salurinn og í vikunni ætlum við svilkonurnar að plana veitingar og verkaskiptingu.  

Sonja ekkert smá ánægð hjá stóra bróður.  Verð að minnast á blómin á kjólnum hennar.  Það sullaðist eitthvað bláberja gums á kjólinn og ég náði ekki blettunum úr.  Datt þá í hug að leita til mömmu og sjá hvort hún gæti ekki heklað einhverjar dúllur til að hylja blettina.  Ekki málið!

Mæðgna hrúga, best í heimi.

12. mar. 2012

Feita konan syngur...

Ja það var heldur betur gaman hjá okkur hjónum í lokahófi Powerade þetta árið.  Eins og við vissum fyrir kvöldið þá vorum við búin að sigra Parakeppnina og Þórólfur var öruggur í fyrsta sæti í sínum flokki.  Ég hafði aftur á móti þurft að taka mjög rólegt hlaup í janúar og var þar með, að ég hélt, búin að missa af fyrsta sætinu í mínum flokki.  En mér til mikillar undrunar og gleði þá náði ég að krækja mér í efsta sætið á lokasprettinum, jafnaði stigafjölda og var á undan keppinautnum í síðasta hlaupinu og fékk krúttlega bikar fyrir.  Við Þórólfur fengum svo nótt á Icelandair hótelunum í vinning í parakeppninni.  Ég hafði líka heppnina með mér í úrdrættinum og vann kippu að orkudrykk.  



Þessar myndir eru af síðunni www.hlaup.is

Annars hafa síðustu dagar verið svolítið skrýtnir og atburðir nálægt okkur hafa gert það að verkum að maður þakkar endalaust fyrir heilsuna, fjölskylduna sína, vini og lífsgleðina.  Spark í rassinn að fresta engu til morguns sem maður getur gert í dag og sérstaklega ekki því að láta draumana rætast.  

Í morgun var ég að greiða Lilju áður en hún fór í leikskólann.  Mamma, viltu gera Línu fléttur og setja vír í hárið?  Já í dag vil ég einmitt gera það.  Stelpan mín snerti ekki jörðina á leiðinni í leikskólann og vakti þvílíka lukku bæði hjá krökkum og kennurum.  Gaman :)




8. mar. 2012

Síðasta Powerade í bili

Powerade er svona gott/vont.  Alltaf svo gott þegar það er búið og oft soldið vont áður en maður kemur sér af stað.  Já, já og í dag er það alveg eins og venjulega, maður er eitthvað óvenju syfjaður, það er voða mikill snjór eitthvað, spáin segir rok í kvöld, bla, bla, bla...   Og svo mætir maður á staðinn, hleypur smá upphitun og er voða þungur á sér og líst ekkert svakalega vel á þetta og svo gerist eitthvað um leið og maður hleypur af stað gerast töfrarnir!  Allt í einu hrekkur maður í gírinn, skrefin verða létt og endorfínið kikkar inn.  Ég hef oft hugsað á löngu æfingunum mínum þegar 2-3 km eru eftir, ohhh hvað það væri gott að vera komin heim núna en það gerist aldrei í Powerade.  Það er svo fjölbreytt hlaupaleiðin að maður er alltaf bara með hugann við næsta legg, nota fyrstu til að koma sér í takt, klára brekkuna, rúlla niður allan dalinn, halda á slétta kaflanum, bíta á jaxlinn yfir stokkinn og undirbúa sig undir Rafstöðvarbrekkuna, verða svo glaður að komast upp á stíginn og þá byrjar niðurtalningin, bara 1 km eftir.  

Eftir hlaupið í kvöld tekur við hvíldarvika hjá okkur hjónum, langþráð hvíldarvika.  Við erum búin að vera rosalega dugleg að æfa síðustu vikurnar og nú finnur maður að það er komin þreyta í skrokkinn.  Ég ætla svoleiðis að njóta þess að slaka á.  Hvíldarvika þýðir nú samt ekki að maður geri ekki neitt og sitji upp í sófa með tærnar upp í loft, vá þá yrðum við örugglega brjáluð...  Hvílarvika þýðir að maður tekur sér alla vega tvo hvíldardaga frá hlaupunum, tekur í mesta lagi eina sprettæfingu í vikunni en ekki á fullu blasti, styttir önnur hlaup  og hleypur hægar en venjulega og syndir svo kannski bara þegar hreyfingarþörfin er að drepa mann.  

Sonjan mín var bara tveggja mánaða þegar ég hljóp fyrsta hlaupið í þessari seríu.  Með hverju hlaupinu hef ég styrkst og bætt mig, ja fyrir utan janúarhlaupið sem ég þurfti að taka rólega vegna tognun í læri.  Nú er hún Sonja mín orðin 7 mánaða, komin með tvær tennur, farin að borða mat og er að æfa sig að sitja sjálf.  Á laugardaginn verður svo uppskeruhátíð og það verður gaman að sjá hvernig þetta fer allt saman og fagna með félögunum.


Sonja daginn sem fyrsta Powerade hlaupið var í vetur :)