28. apr. 2011

Páskar og hreiðurgerð

Fínir páskar að baki hjá okkur og við létum veðrið ekkert fara í taugarnar á okkur.  Fórum í staðinn daglega í sund, ekki beint freistandi að vera úti annars... og svo drifum við okkur loksins, loksins í Bláa Lónið.  Við unnum árskort í fyrra í einhverjum hlaupum og áttum eftir að virkja þau.  Bogomil Font var með tónleika þegar við vorum þarna og krakkarnir skemmtu sér vel.  Öll aðstaðan er náttúrulega allt önnur en í gamla daga en kuldaskræfan ég, mér finnst að það mætti aðeins fíra upp í hitanum á vatninu.  Var alveg á mörkunum að líða vel í hlandvolgu vatninu og var fljót að finna mér heitan blett til að hlýja mér inn á milli.  En alla vega áttum fínan dag og    við förum örugglega bráðum aftur, tala nú ekki um ef sólin fer að skína á klakanum.

Annars vorum við heilmikið í matarboðum en á páskadag vorum við heima hjá okkur, kjarnafjölskyldan.  Í ár breyttum við aðeins til og höfðum lambafillet að hætti bóndans í matinn, sætkartöflumús og hið ómissandi Waldorf salat, sem er aðalmáltíðin hjá mér á sparidögum, nammi namm.

Nú er allt komið á fullt í eldhúsframkvæmdum.  Erum búin að fjárfesta í nýju eldhúsi sem við fáum afhent um miðjan maí.  Nú erum við (Þórólfur :)  að rífa niður gömlu innréttinguna, við þurfum að láta fjarlægja einn vegg, flota gólf og ég veit ekki hvað.  Næstu vikurnar verður sem sagt útilegu stemmning á heimilinu en það er bara gaman, við verðum fljót að aðlagast því.  

Annars er bara brjálað að gera í félagslífinu, saumaklúbbur, leikhús, vinnuskemmtun hjá mér, vinnuskemmtun hjá Þórólfi, hlaupaviðburðir, Verzló reunion og ég veit ekki hvað og hvað.  Er þá bara að tala um næstu 2-3 vikur.   Svo er ég að fara að detta í fertugt (jeiii... loksins) um miðjan mánuðinn og það er búið að skipuleggja eitthvað óvissu í kringum það, plús að ég ætla aðeins að halda uppá daginn sjálfan.  Pjúff, þetta virðist koma í skorpum eins og annað og ég er ekki að sjá að ég komist yfir að vera með í öllu sem mig langar til.  Þarf virkilega að setjast niður núna og velja og hafna, svo ég fari nú ekki alveg með mig :þ

23. apr. 2011

25 vikur

Komin tími á bumbumynd, í dag er ég akkúrat komin 25 vikur.  Hlaupin ganga eins og í sögu, hleyp 5-6 km 2-3 í viku og svo eitt 10 km hlaup um helgar.  Gæti ekki haft það betra og nýt þess til hins ítrasta að vera ólétt.  Litla krílið okkar er sérstaklega aktívt, alltaf nóg að gerasta, spörk, kollhnísar og ég veit ekki hvað. 


Lilja fékk að vera með í dag :)
Við njótum þess í botn að vera í páskafríi og næst á dagskrá hjá okkur er ferð í Blá Lónið.  Svo er spurning um að fá sér snarl í Keflavík og kíkja á Skessuna. 

22. apr. 2011

Gleðilegt sumar!

Sumarið byrjar aldeilis með stæl hjá okkur.  Þórólfur gerði sér lítið fyrir og sigraði í Víðavangshlaupi ÍR.  Við Gabríel fórum niðrí bæ að hvetja okkar mann og ég var næstum búin að pissa á mig af spenningi í lokin!  Svo stolt af bónda mínum.  Ég hefði verið með ef það hefði verið bongó blíða, með bumbuna út í loftið en fyrst það var rok og rigning þá fór ég bara mitt morgunskokk í Laugardalnum og lét það duga.  Gaman að sjá hlaupafélagana, nú fer að styttast í að ég láti sjá mig á æfingum aftur... :)


Sigurvegarar í Víðavangshlaupi ÍR
Arndís og Þórólfur
Fórum í flotta fermingaveislu í Úlfljótsskála seinni partinn og það var engin hætta á að einhver færi svangur í rúmið.  Gourmet matur og kökuveisla á eftir, eins gott að vera í teygjanlegu, muwhahahha...  Héldum í bæinn aftur um átta leytið og ákváðum að drífa okkur með krakkana í sund, svona til að ná þeim vel niður fyrir svefninn.    Sund til tíu og beint í náttfötin, mmmm... enn einn frábær dagur í safnið.

17. apr. 2011

Ballið á Bessastöðum og fleira

Sérstaklega skemmtileg helgi langt komin.  Laugardagsmorgun með venjubundnu amstri klikkar ekki og í þetta sinn stungum við af í brunch til ömmu og afa í Norðurbrún til að vera ekki fyrir snillingnum sem mætir reglulega heim og skilur allt eftir nýstrokið og ilmandi, mmmm lúxus.  Ekki verra að henda sér upp í Lazy-boy-inn eftir bita og detta út í klukkara eða svo.  Þá var komin tími á action fyrir krakkana og við skelltum okkur í sund í Ásvallalauginni í Hafnarfirði sem er í miklu uppáhaldi hjá okkur barnafólkinu.  Alltaf pínu skrítið samt að keyra 'landshlutanna' á milli til að komast í barnvæna laug þegar maður getur bókstaflega horft ofan í Laugardalslaugina heiman frá sér.  Stendur víst til bóta skv. fréttum.  Hefðbundið kósýkvöld hjá okkur mínus Gabríel sem fékk að horfa á El Classico hjá vini sínum.  Við hin horfðum á nýjustu Harry Potter myndina og gæddum okkur á laugardags gúmmelaði.

Sunnudagshlaupatúrinn gekk vonum framar, bumban er greinilega að færast upp og ég kemst lengra og lengra milli stoppa ;)   Leið alveg ljómandi vel og skilaði rúmúm 10 km í fínu vor veðri en var reyndar ekki fyrr komin inn en hann snérist aftur í vetur með roki og snjókomu, ohh well...   Við mamma fórum svo í Body Balance tíma í Hreyfingu eftir morgunhlaupið, tókum allan pakkann í dag og enduðum í heita pottinum á eftir, svo notalegt.  Var ég búin að segja hvað ég er stolt af því að eiga mömmu sem er 75 ár (í júní :) og er til í að prófa hvað sem er, lætur ekkert stoppa sig!

Við Lilja fórum svo í stelpu leikhúsferð og sáum Ballið á Bessastöðum í Þjóðleikhúsinu.  Mér fannst leikararnir standa sig vel og leiksviðið flott.  Við skemmtum okkur vel en ég varð fyrir smá vonbrigðum með söguna, ég er nefnilega mikið Gerðar Kristnýjar 'fan' og mér fannst ekki alveg nógu mikið kjöt á beinunum ef svo má að orði komast.  Maður áttar sig líka á hvað klassísku ævintýrin eru mikil snilld, Dýrin í Hálsaskógi, Lína Langsokkur o.s.frv. sem halda athygli allan tímann, engin tilviljun að þau séu klassísk.  Lokasenan var hápunkturinn og flott að enda á aðal laginu sem allir þekkja, Ballinu á Bessastöðum, Lilja missti sig í söng og dansi.

Með pósurnar á hreinu

Rólegheit framundan, ætla að sjá hvort ég nái barasta ekki að komast langleiðina með peysuna sem ég er að prjóna á bóndann.  Er komin upp að öxlum, ekki langt í land núna, yeehawww...  Eins og ég er búin að vera lengi að koma mér að verki.

15. apr. 2011

Áfanga náð

Í gær var sýning í sundskólanum hjá henni Lilju, krakkarnir hafa lokið 10 vikna námskeiði hjá Ægi, æfingar tvisvar í viku.  Nú er komið sumarfrí og næstu námskeið byrja í haust.  Eins og við vorum oft varla að nenna að drífa okkur beint eftir vinnu, oft í skítaveðri, þá finn ég núna að ég á eftir að sakna þessara föstu punkta í rútínunni okkar.  

Nokkrar svipmyndir af sýningunni

Lilja með viðurkenningarskjal og blóm í verðlaun

Annars var hann Gabríel að hringja í mig rétt í þessu og láta vita að hann hafi unnið páskaegg á einni útvarpsstöðinni.  Það er nefnilega skertur skóladagur í dag hjá honum og árshátíð, þannig að hann fékk að sofa út í morgun og dóla sér heima fram eftir degi.  Ég sagði guttanum náttúrulega að drífa sig beint út í sjoppu og kaupa lottómiða, go with the flow :)

Fór í frábæran hlaupatúr í hádeginu í gær.  Bumban er greinilega að færast aðeins ofar og fjær blöðrunni, yeehawww... Bara gaman og var rosalega spræk.  Í dag ætla ég svo að bjóða mömmu minni með mér í Hreyfingu í Body Balance tíma.  Allt gott í heiminum.

11. apr. 2011

Innihelgi

Það var nú meira skítaveðrið um helgina.  Á laugardags morguninn fór ég í leikfimina mína eins og venjulega en ég var frekar slöpp og ónýt restina af deginum vegna svefnleysis.  Lá og dormaði á milli þess sem við tókum á móti iðnaðarmönnum og gestum (já, já bullandi hreiðurgerð komin í gang).  Við áttum miða á forsýningu á Húsmóðurina hjá Vesturporti um kvöldið og ég var ansi smeyk um að ég myndi dotta á sýningunni en ég hefði alveg getað látið þær áhyggjur eiga sig, hvergi dauður punktur í sýningunni og við skemmtum okkur konunglega.

Náði góðum hlaupatúr á sunnudagsmorguninn áður en veðrið varð brjálað og skellti mér svo í Body Balance tíma á eftir sem var rúsínan í pylsuendanum, elska þessa tíma.  Við tókum innipúkann á þetta og fórum á krakkadaga í Kringlunni til að viðra prinsessuna, hún var alsæl með það.  Íþróttaálfurinn, Solla Stirða, Wally trúður og svo andlitmálun í lokin, bara gaman.  Ég skuldaði krökkunum ísbúltúr frá því síðustu helgi og það var ekkert annað að gera en að standa við stóru orðin og það var frekar fyndið að sitja inní ísbúðinni sem venjulega er stöppuð af fólki, í bandbrjáluðu veðri og þekkja svo eina fólkið fyrir utan okkur á staðnum!

Svo gaman að hitta Sollu stirðu 
Lilja heilsar upp á Wally
Hún fékk líka að prófa hjólið hans
Fiðrildastelpa

9. apr. 2011

Fjölskyldan mín

Fórum í opnunarhófið í nýju Cintamani versluninni og vorum alveg búin að sjá fyrir okkur að pína krakkana í hálftíma og koma okkur svo heim.  Einum og hálfum tíma síðar náðum við að draga börnin heim.  Guttinn búin að láta mynda sig í bak og fyrir í Cintamani fatnaði, snarla og fíla dj-inn.  Lilja skottið búið að renna sér 100 ferði í rennibrautinni, róla og kríta á RISA stóra krítarvegginn.

Og hér er hele familien í öllu sínu veldi, myndina tók Ellý og hún birtist á Vísi:

7. apr. 2011

Hlaup á meðgöngu

Ég fæ endalaust komment á að ég sé að hlaupa á meðgöngunni.  Ertu ekki hætt að hlaupa?  Er þetta ekki stórhættulegt (jú, einmitt þess vegna hleyp ég, mér er náttla skítsama...  döhhh).

Las skemmtilega grein í Mogganum um hana Mörthu, með því að smella á myndina er hægt að stækka hana og lesa:


Og svo var smá klausa sérstaklega um hlaup á meðgöngu sem ég læt fylgja með:

Á norsku vefsíðunni trim.no eru gefin nokkur ráð um það í hvaða tilfellum sé réttast að leita aðstoðar þjálfara eða læknis varðandi hlaup á meðgöngu.


Meðal þeirra má nefna ef konan fær verki í brjóstin eða ef hún verður vör við óreglulegan eða óvenju öran hjartslátt. Eins ef vart verður við blæðingu og ef konan finnur fyrir miklum maga- eða samdráttarverkjum. Svimi og mikill höfuðverkur eða óvenjulegir verkir sem þú finnur vanalega ekki fyrir geta einnig verið til marks um að einhverju þurfi að kippa í liðinn. Mikilvægast er þó að fylgjast vel með sjálfum sér og gleyma ekki að hlusta á líkamann.


Ég var svo lánsöm að geta hlaupið nánast alla meðgönguna með hana Lilju mína og leið alveg svakalega vel.  Ég stytti og hægði á mér eftir því sem ég var komin lengra á leið og það gerðist alveg sjálfkrafa.  Síðasta hlaupið mitt var ca. viku áður en ég átti (mjög rólegt 3 km hlaup) og svo var ég komin af stað aftur 3 vikum eftir burð (rólegt 4 km hlaup).  Þessar vikur sem ég var ekki að hlaupa fór ég nánast daglega út að labba til að fá súrefnisskammtinn minn og hreyfingargleðina og ég hélt áfram að synda.  Það er skemmst frá því að segja að ég átti 6 dögum fyrir settan dag, fæðingin gekk eins og í sögu, en ég var heilar 7 mínútur á fæðingardeildinni áður en ég átti hana Lilju mína og var komin heim hálfum sólarhring síðar.  


Ég var ekki farin að hlaupa þegar ég átti hann Gabríel minn, en sú fæðing var aðeins öðruvísi.  Ég var 25 kg þyngri, hreyðfði mig ekkert á meðgöngunni og á þessum tíma má segja að matarvenjur mínar voru vægast sagt crap.  Ég fór af stað rúmum 3 vikum fyrir tímann, missti vatnið sólarhring áður en guttinn lét sjá sig, hann fæddist með vot lungu og þurfti að fara beint í hitakassa í nokkra daga.  Ég var ekki fyrr komin með hann í hendurnar þegar hann greindist með gulu og þurfti að fara í ljós í nokkra daga.  Sem betur fer var þetta nú bara smotterí sem hafði engin langvarandi áhrif og Gabríel hefur alltaf verið sérstaklega hraustur.


En það er engin spurning hvorn kostinn ég vel í dag.

4. apr. 2011

Gifting í Vegas og Honeymoon skíðaferð

Fórum á alveg frábæra árshátíð á laugardaginn.  Hátíðarhöldunum var startað með forpartýi í Kiwanis húsinu við Engjateig og þar var boðið uppá fínar veitingar og kósí stemmningu með Charlotte Böving og co.  Eftir upphitunina skottuðumst við svo yfir götuna á Hilton Nordica og þema kvöldsins var Vegas stemmning.  

Rúlletta, 21, Black Jack, myndatökur með stjörnunum, alvöru Vegas Show, já og ekki má gleyma Vegas kapellu þar sem boðið var upp á skyndibrúðkaup, vottorð og alles.  Við hjónin stóðumst ekki mátið, endurnýjuðum heitin og létum smella af okkur alvöru Vegas brúðkaupsmynd, brúðurin með bumbuna út í loftið!

Við fengum líka fullt af góðum mat og tókum nokkra létta takta á dansgólfinu á milli þess sem maður spjallaði við félaga og vini.  Frábært kvöld.

Krakkarnir gistu hjá afa sínum og við hjónin notuðum tækifærið, fórum snemma á fætur og hlupum fínan hring í góða veðrinu (n.b. ekki saman enda er ég ekki hlaupurum bjóðandi þessa dagana með öll mín pissustopp).  Á skokkinu heyrði ég í útvarpinu að í Bláfjöllum væri bongóblíða og frábært færi og eftir smá hressingu drifum við okkur upp í fjall.

Það var ekki ofsögum sagt með veður og færi, man varla eftir svona góðum degi og þó höfum við upplifað nokkra góða í vetur.  Sól, hlýtt, logn og nýfallinn snjór, dæs.  Prufukeyrðum nýtt skíðabeisli á henni Lilju og nú eru okkur allir vegir færir, stelpan heimtar að fara í stólalyftuna næst, mamma förum hraðar...  Þórólfur náði stórum áfanga, þ.e. náði að upplifa að það væri virkilega gaman að renna sér niður, ekki bara erfitt og hættulegt :).  

Eftir 4 tíma í fjallinu var gott að eiga heimboð hjá afa Þór í sunnudagsmat, grillaðan hrygg og meðlæti.  Það þarf ekki að taka það fram að frúin var farin að hrjóta fyrir 10 og rumskaði ekki fyrr en við klukkuna í morgun.

1. apr. 2011

Nýtt dót

Hætt að hugsa um íþróttadót í bili en var að eignast alveg æðislegt öðruvísi dót í gær.  Nú get ég bara látið mig hlakka til að vera andvaka með sparkandi krílinu mínu, algjör snilld!