30. apr. 2014

Staðan

Að blogga eða ekki blogga, það er spurningin.  

Ég hef tekið eftir ákveðnu blogg-munstri hjá mér.  Svo lengi sem mér líður vel og lífið er í föstum skorðum þá hef ég löngun til að skrifa.  Þegar það er of mikið áreiti og  breytingar í gangi þá er það bara kvöð.   Nú er staðan þannig að ég bý þar sem ég vil búa, með þeim sem ég vil búa, er ánægð í vinnunni, með frábæra þjálfara og topp æfingafélaga.  

Fjölskyldulífið er ljúft.  Litla barnið okkar er orðið að krakka og þarf ekki eins mikla umönnun.  Hætt á bleyju, farin að spjalla um allt mögulegt, telur upp á tíu... á ensku líka og svo getur hún náttúrulega ALLT sjálf.  Þessi stelpa er svo mikill gleðigjafi að það er engu lagi líkt, hún laðar fram það besta í okkur öllum.

Miðjan hörkudugleg, flott og góð stelpa og ungi maðurinn á heimilinu er komin yfir erfiðasta hjalla unglingsáranna, fjúff...  

Það kemur bara í ljós hvort áhuginn endist, en þegar ég var að skoða gamlar bloggfærslur síðustu daga þá rifjaðist margt skemmtilegt upp og mig langar til að blaðra aðeins hérna, aðallega um hlaupin en líka fólkið mitt og ef mér liggur eitthvað sérstakt á hjarta.  Kannski hætti ég þá að tala eins mikið!  (Nei sennilega ekki...).  

Síðustu níu mánuður eða ca. frá því ég fótbrotnaði síðasta sumar hafa verið mjög viðburðaríkir.  Ég man þegar ég fékk að vita upp á slysó að ég væri brotin, þá vonaðist ég til að geta farið að hlaupa eitthvað af viti og keppa aftur núna í sumar.  Reiknaði með að þetta tæki árið, miðað við reynslu annarra.  Ég þurfti ekki að bíða svo lengi, 6 vikum síðar hljóp ég 10 km í RM á undir 50 mínútum.  Powerade serían byrjaði nákvæmlega 3 mánuðum eftir brot og á dauða mínum átti ég von en að jafna minn besta árangur í seríunni, annað sæti over-all og sigur í Parakeppninni með bónda mínum.  

Í febrúar var ég komin í topp form og farin að æfa fyrir Milanó maraþon sem við hjónin höfðum skráð okkur í töluvert áður en ég brotnaði.  Ég datt á rassinn í hálkunni þrem vikum síðar og tognaði aðeins á hné og mátti ekkert æfa af viti í 3 vikur.  Ekki fyrr búin að jafna mig á því þegar ég varð lasin og með því að keyra mig áfram í stað þess að henda mér í bólið eins og gamalli konu sæmir, þá endaði það með ósköpum og lungnabólgu.  Milanó var afskrifað, en Þórólfur hélt sínu striki með maraþonþjálfunina á meðan ég einbeitti mér að ná heilsu.  

Hjólaði seinni hlutann af Vorþoninu með Þórólfi, mynd frá Summa.

FH hlaupið 5 km, í mars var fyrsta keppnishlaupið eftir vetrar veikindin.  Hljóp það svona til að taka stöðuna, í miðri æfingaviku og það gekk bara ágætlega, tíminn 20:12.  Næsta hlaup var Flóahlaupið 10 km.  Það gekk ekki eins vel, það var kaldara úti og ég of lítið klædd.  Ég fann fyrir í lungunum, erfitt að anda og var stíf og ómöguleg af kulda.  Tíminn 42:02 minnir mig.
  
Nú finnst mér ég aftur vera komin á mjög gott ról og æfingarnar ganga vel.  Við erum þrjú sem höldum hópinn og vinnum vel saman undir stjórn Gunna Palla hjá ÍR og svo fáum við líka að hanga með afrekshlaupurunum.  Svo er það nú bara þannig að í vinnunni hjá mér er frábær hlaupahópur.  Hér er ekkert verið að lufsast 5 í hádeginu, aldeilis ekki.  Við erum með tvo þjálfara sem plana fyrir okkur fjölbreyttar æfingar og stýra hópnum eins og herforingjar. 

Ég fór fyrstu ferðina upp á Esju á föstudaginn (ca 35:30 upp að Steini), fór upp og niður vinstra megin og það er fínt færi fyrir utan drulluna á mýrunum.  Ég notaði öll trixin í bókinni til að lágmarka Esju-harðsperrurnar, notaði stafi, var í compression buxum og sokkum, drakk vel áður en ég fór upp, skokkaði niður en missti mig ekki í hlaup, borðaði banana og drakk kókómjólk um leið og ég kom niður og stoppaði í Mosó sundlauginni á leiðinni heim.  Fór aftur á sunnudaginn (ca. 34:30 upp að Steini), sama aðferð og ég hef aldrei áður komist svona vel í gegnum þetta.  3 dagar í staðinn fyrir að vera ónýt í viku! 

Esja #2

Næsta keppnishlaup er einmitt með vinnufélögunum, en við erum að fara saman í Þórsmörk og ætlum að taka þá í Volcano Trail Run á laugardaginn.    Þetta verður eitthvað!

29. apr. 2014

Veltir vöngum, lítur til baka og biðst afsökunar.

Það hefur ekki farið fram hjá þeim sem þekkja mig að það var stór dagur hjá okkur á laugardaginn.  Þórólfur hljóp heilt maraþon í Vorþoninu eftir góðan undirbúning.  Hann hljóp af stað eins og engill, þurfti að berjast við vindinn og sjálfan sig, uppskar á endanum eins og hann sáði, með sigri og 13 mínútna bætingu á tímanum 2:56:19.  Ég fékk að taka þátt í upplifuninni með honum á hliðarlínunni og hvatti minn mann, svo mikið að sumum fannst nóg um á stundum!  Já, því líkur dagur.   

Fyrir utan árangur míns manns, þótti mér sérstaklega ánægjulegt að sjá Sigríði Einarsdóttur sigra í maraþonhlaupi kvenna og fá að upplifa það að vera heiðruð fyrir vikið af viðstöddum.  Það er nefnilega ekki alltaf þannig...  Það er mér í fersku minni þegar sama kona sigraði Akureyrarmaraþonið 2009 en var látin taka við verðlaunum fyrir annað sætið í súrrealískri athöfn seinna um daginn.  Fyrir þá sem ekki þekkja söguna þá má lesa mitt innlegg í pistli sem ég skrifaði þá, Nýju fötin keisarans.  

Nokkrum mánuðum eftir hlaupið og bloggfærsluna, sem olli heilmiklu fjaðrafoki á sínum tíma, var úrskurðað í Akureyrarmálinu eins og sjá má hér og réttur sigurvegari staðfestur.  Það sem sveið samt sárast var að sjá sigurvegarann sviptann heiðrinum og gleðinni við verðlaunaafhendinguna.  Það var ekki hægt að bæta.  Mér þótti þess vegna einstaklega vænt um að sjá sigurvegarann í kvennaflokki taka á móti sínum verðlaunum, undir dynjandi lófaklappi og ég upplifði að hringnum væri á einhvern hátt lokað núna fimm árum síðar.    

Jæja, aftur að laugardeginum.  Þeir sem standa að Vorþoninu eru upp til hópa miklir sómamenn og reynsluboltar og framkvæmd hlaupsins var að því er ég best veit hnökralaus og allir þátttakendur ánægðir.  

Og þá er komin tími á afsökunarbeiðnina...

Eftir að búið var að hlúa að lúnum hlaupurum var komin tími til að veita verðlaun fyrir fremstu menn og konur.  Í þessu dásamlega fallega umhverfi sem Elliðaárdalurinn er, með ánna niðandi og fuglana syngjandi var verðlaunaafhendingunni valin staður fyrir framan rauðan sendibíl.   Við vorum nokkrir aðstandendur að mynda sigurvegarana í heilu og hálfu maraþoni sem vorum að spá í, okkar á milli, hvort ekki væri hægt að færa hana til, svona u.þ.b. þrjú skref til vinstri til að fá fallegri bakgrunn á mynd á þessari stóru stund.  

Ég bar upp þessa bón, fyrir okkar hönd, við starfsmenn hlaupsins sem sáu um verðlaunaafhendinguna.  Annar starfsmaðurinn gerði sig líklegan til að verða við óskum okkar þegar hinn, með þjósti, harðneitaði og var ekki haggað.

Ég er ansi hrædd um að tenging við söguna hér að ofan hafi ráðið þar mestu um og svo þessi pistill en andagiftina fékk ég eftir að hafa eytt kvöldstund í návist viðkomandi.  Einu samskipti okkar síðustu árin eru nokkrar pínlegar verðlaunaafhendingar þar sem öðrum sigurvegurum er óskað til hamingju þegar þeir fá sín verðlaun afhent en ekki mér.  Þrátt fyrir að ég taki það ekki nærri mér má velta því fyrir sér hvort ekki sé betra að velja manneskju í þetta tiltekna verkefni sem treystir sér til að koma eins fram við alla verðlaunahafa sem, jú borga sama gjald fyrir þátttöku og ættu að fá sömu þjónustu fyrir vikið.  FM-arar mættu taka það til athugunar.

En alla vega, í hita leiksins, í kjölfar neitunarinnar, þá gerðist það áður en ég náði að stoppa mig.  Ég lagði sem sagt til, að viðkomandi myndi fjarlægja prikið úr rassinum á sér eitt augnablik.  Þó svo að þetta hafi verið sagt í léttum tón og með bros á vör, þá skammast ég mín.  Maður á ekki að biðja einhvern um eitthvað sem maður veit að þeir eru ófærir um.  Ég biðst afsökunar.

Það má svo með sanni segja að þessir heiðursmenn er jafn glaðir og glæsilegir fyrir framan rauða sendibílinn eins og...




...tveimur mínútum síðar með náttúruna í baksýn.