29. feb. 2012

Fyndið...

Það er búið að krauma í mér blogg í nokkra daga.  Ég hef fylgst með umræðunni um dónakarla, bæði hérlendis og erlendis, eins og þorri þjóðar og skoðanir almennings á viðbrögðum þolenda.  Kannski með meiri áhuga en margir, það er nefnilega þannig að ég á mína eigin dónakarla sögu.

Þegar ég var rúmlega tvítug fór ég í gegnum dökkt tímabil, var vansæl og ringluð, gekk illa að átta mig á afleiðingum þess að alast upp í alka fjölskyldu og öllu sem því fylgir.  Þetta var nokkrum árum eftir að pabbi minn hætti að drekka og við vorum farin að átta okkur á að vinnan við að laga allt sem úrskeiðis hafði farið tæki langan tíma.  Ég ákvað með stuðningi foreldra minna að fara til sálfræðings sem hafði verið með nokkra fjölskyldumeðlimi í viðtölum og þekkti aðeins okkar sögu.  Í einu viðtalinu spyr sálfræðingurinn mig hvort ég hafi einhvern tíma orðið fyrir einhverju sem gæti flokkast undir kynferðislegt ofbeldi sem barn.  Ég var fljót að svara nei, nei en ég lenti reyndar einu sinni í soldið fyndnu atviki...   Hann bað mig endinlega að segja frá og ég byrjaði:

Ég var svona 12 eða 13 ára þegar ég vakna í rúminu mínu eina nóttina við einhvern umgang.  Hálf sofandii og gleraugnalaus (ég var mjög nærsýn með - 6) þá greini ég manneskju í myrkrinu í dyragættinni.  Herbergið mitt var við hliðina á herbergi foreldra minna og í fyrstu hélt ég að þetta væri mamma.  Manneskjan kemur aðeins nær og þegar ég píri augun sé ég að þetta er karlmaður, nú þá hlítur þetta að vera pabbi.  Þá beygir manneskjan sig fram og ég sé hreyfinguna þegar hártoppurinn fellur fram á ennið og þá verð ég hrædd.  Pabbi minn er sköllóttur.  Maðurinn losar beltið og klæðir sig úr buxunum.  Ég finn hvernig ég lamast af ótta, það ókunnur maður inní herberginu mínu um miðja nótt, komin úr buxunum.   Hann gengur að rúminu mínu og leggst upp í það.  Á einhvern ótrúlegan hátt tekst mér að troða mér undan honum, stökkva úr rúminu mínu, rífa sængina með mér og hlaupa inn til mömmu og pabba.  Ég get varla andað en næ að vekja mömmu og á milli ekkasoganna segi ég: 'Mamma, mamma, það er maður í rúminu mínu!'.  Mamma hélt að mig hefði verið að dreyma illa en ég segi aftur og aftur: 'Það er maður í rúminu mínu, í alvöru!!!'.   Pabbi vaknaði líka og fór athugaði málið og jú, þarna var hann ennþá.  Hann lá blindfullur, í hnipri á nærbuxunum í rúminu mínu.  

Og þarna fór ég aðeins að hlægja og sálfræðingurinn horfði á mig eins eitt stórt spurningarmerki.

Ja, þetta var sko Njáll frændi.  Hann hafði komið fullur heim til okkar eftir eitthvað skrall til að fá að sofa úr sér áður en hann færi heim til sín.  Ekkert mál að láta konuna sækja sig daginn eftir ef hann var bara að gista hjá frænda sínum en ekki einhvers staðar út í bæ, hehe...

Ég hlæ pínu meira en líður asnalega núna því sálfræðingurinn horfir mjög undarlega á mig og spyr svo hvað gerðist næst?

Mamma segir að ég hafi sennilega fengið taugaáfall, því ég var með skjálftakippi um allan kroppinn og grét í marga klukkutíma.  Ég fékk að vera uppí hjá henni restina af nóttinni og hún hélt utan um mig og huggaði mig. 

Þarna er ég hætt að hlægja.  En maðurinn, hvað var gert við hann?  Var hringt á lögregluna? Var hann handtekinn?

Nei, nei, þau náðu í sæng fyrir hann og leyfðu honum bara að sofa í rúminu mínu þangað til hann vaknaði.  Þá fékk hann kaffi og svona áður en konan kom að sækja hann.  Ég faldi mig inní herbergi hjá mömmu og pabba þangað til hann fór.  Þau sögðu aldrei neitt við hann og það var alltaf bara hlegið að þessu heima hjá mér.  'Muniði þegar Njáll frændi fór óvart upp í rúm til Evu, blindfullur og vitlaus.  Hann hélt örugglega að hann væri bara heima hjá sér, hahahhahaha...'   'Og díhhh hvað Eva var hrædd maður, næstum búin að pissa á sig af hræðslu, allt einn stór misskilningur...'

Ég á aldrei eftir að gleyma svipnum á sálfræðingnum.  Hann varð brjálaður af reiði.  Reiði fyrir mína hönd.  Hann gat ekki einu sinni talað í nokkrar mínútur.  Svo hrækti hann orðunum út úr sér.  

Ertu að segja mér að þegar þú upplifðir þá mestu ógn sem þú hafðir upplifað á ævinni, þá var hún ekki fjarlægð af þeim sem standa þér næst, heldur er hlúð að henni og ofbeldið gert að brandara?

Þarna var vörin farin að titra.  10 árum eftir atburðinn varð loksins einhver reiður fyrir mína hönd.  Og svo fór ég að hágráta.  Svo varð ég reið.  Alveg brjáluð. Brjáluð út í mömmu og pabba.  Brjáluð út í helvítis Njalla frænda sem hræddi næstum því úr mér líftóruna.  Brjáluð yfir því að vegna þess að hann var svo fullur greyið þá var þetta bara óvart og það var aldrei talað um þetta við hann.  Brjáluð yfir öllum skiptunum sem ég fór og faldi mig inní herbergi þegar hann mætti í kaffi eins og ekkert væri.

Ég fór beint heim og 'ræddi', ef það er hægt að nota það orð..., þetta við foreldra mína og fékk þeirra sýn á málið.  Og í gegnum árin höfum við rætt þetta oft og mörgum sinnum.  Og auðvitað hefðu þau brugðist öðru vísi við í dag og þau áttuðu sig strax á hversu fáránlegt þetta var allt saman.  Það voru bara allir svo gegnsýrðir af meðvirkni heima hjá mér að þau kunnu ekkert annað en að breiða yfir það sem var óþægilegt, í orðsins fyllstu merkingu.  Það að gera atvikið að brandara átti að gera mig minna hrædda.  Látum bara eins og þetta sé fyndið og þá verður þetta allt í lagi.

Ég er löngu búin að fyrirgefa foreldrum mínum.  Ég hef enga löngun til að hitta eða ræða við Njalla frænda.  Það eru meira en 25 ár síðan þetta gerðist, allt saman löngu fyrnt og ég hugsa mjög sjaldan um þetta.  Ég hef alveg talað um þetta við nokkra í gegnum árin, sérstaklega þegar einhver mál sem ég tengi við eru mikið í umræðunni.  Ég hef aldrei áður haft þörf til að skrifa um þetta.  Það var í rauninni annars vegar grein í Nýju Lífi og svo hins vegar Facebook status hjá henni Sóleyju Tómasdóttur sem triggeraði eitthvað í mér, sem gerði það að verkum að ég skrifa þessa reynslu niður núna.    

Statusinn var svona:

Mikið finnst mér merkilegt hvað það er til mikið af fólki sem vill stjórna því hvort og þá hvernig þolendur kynferðisafbrota tjá sig um reynslu sína.

3 ummæli:

  1. Hef ég nokkuð sagt þér alveg nýlega hvað mér finnst þú hugrökk og klár og hvað ég elska þig ótrúlega mikið?

    SvaraEyða
  2. Jábbs,ef ekki með orðum þá gjörðum og það er algjörlega gagnkvæmt :)

    SvaraEyða
  3. Þetta er góður pistill Eva! Vegna þess að hann skiptir máli!

    SvaraEyða