26. ágú. 2010

Dularfulla færslan sem hvarf...

Ég var búin að ákveða að láta þetta vera... en ég gefst upp :)

Fyrir nokkru hringdi ritarinn í mig og við áttum frábært spjall um hvað við værum bæði æði, þó svo að við værum með ólíkar skoðanir á hinu og þessu.   Í samtalinu sagði hann mér líka frá því að það væri færsla í Dagbók ritarans sem hann vildi láta mig vita af eða aðallega vara mig við.  Einhver hafði sett inn komment  þar sem farið var í manninn en ekki boltann (og ég var þá maðurinn :).  Ég var svo pollróleg yfir þessu að ég spurði ekki einu sinni hvað um var rætt og ætlaði bara að kíkja á þetta í rólegheitum síðar.

Ég komst í mitt besta stríðnisskap og svei mér þá ef ég varð ekki pínulítið eins og hann Láki sem fannst gaman að vera vondur.  Það er nefnilega þannig að það er bara alls ekki neitt sem ég get ekki höndlað úr fortíðinni, ekki eitt einasta atvik sem ég get ekki horfst í augu við og þá er maður ekkert hræddur viði svona lagað.

Og svo fór ég að skoða síðuna.  Ekkert merkilegt eða ómerkilegt um mig, hmfff...  Ég hélt að ég hefði misskilið eitthvað og að færslan ætti eftir að koma inn, en nokkrum dögum síðar bólaði ekki á neinu skítkasti!  Ég sendi póst á ritarann og rukkaði færsluna, var alveg búin að sjá fyrir mér beinan link á svínarí-ið og allt en þá kom babb í bátinn.  Ritarinn hafði fjarlægt færsluna og kommentin af síðunni sinni.  Ég notaði alla mína kvenlegu klæki til að fá hann til að setja færsluna aftur inn (stríddi honum með því að kalla hann ´Herra galopið athugasemdakerfi' og ég veit ekki hvað...) en ekker dugði, honum var ekki haggað.   Þá ætti málið að vera dautt eða hvað.  Nei... þannig er það bara ekki, það er ekki hægt að stroka eitthvað út og halda að þá sé enginn skaði skeður.  Um daginn var ég spurð hvort ég hafi séð þessa færslu og það sem meira er, hvort ég hafi beðið ritarann að fjarlægja hana!   

Neihhhhh... það er of mikið fyrir mig.  Ég fór að grenslast fyrir um hvað málið snérist og í gegnum félaga mína sem höfðu lesið þetta, fékk ég að vita að í kommentinu við færsluna (sem enginn mundi hvað fjallaði um) var annars vegar talað um meinta aðstoð Ívars við mig á Laugaveginum, þegar ég vann 2008 og hins vegar meinta aðstoð við mig í Reykjavíkur maraþoni árið 2005 þegar ég hljóp mitt annað maraþon.  Í báðum tilfellunum var um algjörar rangfærslur að ræða og sá sem skrifaði þessar nafnlausu athugasemdir sá greinilega eftir því og bað um að láta eyða þeim út, líka nafnlaust að mér skilst.  Ég er að sjálfsögðu búin að hafa samband við ritarann, vin minn og láta hann vita að ég myndi rifja upp þessi hlaup hérna hjá mér og hvers vegna.  Bullandi lærdómskúrfa!

Það vill svo vel til að ég á Laugavegssöguna mína á gamla blogginu, vessgú!  Ég myndi lesa alla söguna því hún er bara stór skemmtileg en leiðir okkar Ívars (sem n.b. var skráður í hlaupið og lauk því um 10 mínútum á eftir mér) lágu saman í mjög skamma stund frá Emstrum eða á að giska 700 m (+/- hundrað :).  Við Örn (sem líka var skráður í hlaupið) vorum í samfloti 2-3 km en þá lenti hann í krampa vandræðum og dróst aftur úr.  Hann lauk hlaupinu tæpu korteri á eftir mér.

Ég á líka RM söguna mína en þar verð ég að hafa smá inngang.  Málið var að við hjónin höfðum ákveðið að hlaupa saman annað maraþonið okkar og stefndum á sub 3:30.  Við vorum þá félagar í Laugaskokki og þegar við mættum í Miðbæjarskólann rétt fyrir ræsingu þá tilkynnti formaðurinn okkur að það væri maður sem myndi hjóla með okkur seinni helminginn af maraþoninu.  Við höfðum aldrei séð manninn fyrr og ekkert heyrt af þessum plönum.  Ég man að við vorum alveg gáttuð á að einhver sem þekkti okkur ekkert ætlaði að eyða deginum í að hjóla þetta með okkur!  Við fengum að vita að búið var að útdeila hjólurum á alla sem ætluðu að hlaupa heilt maraþon í hópnum og mig minnir reyndar að okkar hjólari hafi átt að fylgja einhverjum í hálfu maraþoni áður en hann færi að huga að okkur.  

Það sem gerðist síðan óvænt (fyrir utan að fá úthlutað hjólara...) var að eftir hálft maraþon, í þann mund sem hjólarinn fann okkur, þá skildu leiðir okkar Þórólfs.  Honum leið illa og gekk ekki að halda hraðanum en ég hélt áfram samkvæmt plani.  Nú voru góð ráð dýr hjá hjólaranum, en hann hefur að öllum líkindum hjólað nokkur maraþon þennan dag vegna þess að það varð alltaf lengra og lengra á milli okkar Þórólfs og hann hjólaði fram og til baka, fram og til baka...  

Við höfðum nýtt okkur þjónustu RM um að hafa eigin drykki og gel á drykkjarstöðvunum og hjólarinn hjálpsami hjólaði á undan á tvær drykkjarstöðvar og stóð svo teinréttur með brúsann minn og gelið, við hliðina á starfsmanni á drykkjarstöðinni og með þeirra leyfi geri ég ráð fyrir.  Hann hjólaði svo á eftir mér og tíndi upp brúsa sem ég henti frá mér (fyllti meira að segja á einn brúsa áður en hann áttaði sig á því að á næstu drykkjarstöð vorum við með tilbúna brúsa...), svo hjólaði til baka til Þórólfs og athugaði hverning honum leið og svona gekk þetta.   

Ég man að þegar ég skrifaði söguna mína um RM 2005 þá var mér mjög umhugað um að sýna hjólaranum okkar þakklæti og skrifin voru lituð af því að við hjónin vorum eiginlega alveg miður okkar að hafa gert manninum þetta svona erfitt fyrir.  Ég setti þess vegna inn sérstakan þakklætiskafla tileinkaðan honum í lokin á sögunni.  En hérna er RM 2005 sagan, mér finnst hún líka skemmtileg en eftir þetta hlaup áttaði ég mig á því í fyrsta sinn að ég gæti kannski einhvern daginn orðið eitthvað meira en meðal hlaupari og það var góð tilfinning!

Meginástæða þess að ég skrifa þessa færslu er nú samt sú að skýra í leiðinni hvers vegna ég er ekki með 'galopið' athugasemdakerfi.  Ég lít nefnilega þannig á að ég beri ábyrgð á því sem birt er á minni síðu og hér mun hvorki vera birt skítkast, rógur eða rugl.  Skemmtileg, krefjandi, áhugaverð, erfið, vingjarnleg og  asnaleg komment eru hjartanlega velkomin hvenær sem er.  

Engin ummæli:

Skrifa ummæli