28. feb. 2011

Heimadagur

Lilja er búin að vera veik alla helgina, fékk slæman eyrnaverk á föstudagskvöldið og var ómöguleg fram á miðjan laugardag.  Henni leið betur í eyrunum um kvöldið en var með hita þangað til í gærkvöldi.  Við mæðgur vorum heima saman í dag og erum búnar að bralla eitt og annað.  Föndra, horfa á sjónvarpið, gera okkur fínar með málningardótinu hennar Lilju, naglalakka okkur, mála nokkrar myndir og já svo bökuðum við tvær nýjar uppskriftir.  Annars vega kókosbrauðbollur, nammi namm og svo var ég að taka banana/döðlubrauð út úr ofninum, á eftir að smakka en það lítur mjög vel út.

Gabríel leysti mig af á vaktinni þegar hann kom heim úr skólanum og hleypti mér út að skokka.  Æðislegt veður og ég tók sunnudagshringinn minn til að fá nóg af súrefni í lungun til að endast daginn.  Svo ánægð hvað mér líður vel á hlaupunum núna, hleyp lengra og léttara en fyrir nokkrum vikum og ekki eins móð.  

Við hjónin skelltum okkur í bíó í gærkvöldi, röltum út í Laugarásbíó á True grit og skemmtum okkur vel.  Við erum svo ýkt hallærisleg að við tökum með okkur Kristal/Topp í nesti, get ekki borgað hátt í fjögur hundruð kall fyrir kolsýrt vatn, þyrfti sennilega að vera á annars konar sýru til þess...  Við erum búin að standa okkur einstaklega vel í bíómenningarlífinu, búin að sjá The King's speech og Black Swan líka, ætli maður sé ekki strax farin að hugsa um að nýta tækifærið...

Það er ekki alslæmt að vera heima hjá mömmu allan daginn og fá frí í leikskólanum, mín gæti nú alveg vanist því :)



Fékk bolinn í pósti í dag, gott málefni!





24. feb. 2011

Hálftíminn og vigtun

Eftir aðeins of langt hlé þá var loksins komið að Hálftímanum og vigtun aftur.  Fáránlega gaman að vakna klukkan 6, hitta 'my partner in crime', skottast hlaupatúrinn okkar, hanga í pottinum á eftir með stóru strákunum, kyssa Kidda á kinnina, vigtun, rúnnstykki, kókómjólk og nærandi samræður í morgunsárið.  Ekki hægt að leggja betri grunn að góðum degi.

Ég er aðeins léttari núna en á sama tíma með hana Lilju mína, en ég var líka aðeins léttari áður en ég varð ólétt í þetta skiptið.  Samt búin að þyngjast um 3-4 kg og mér líður ótrúlega vel, krafmikil og glöð.  Ég er farin að finna greinilegar hreyfingar og það er bara svo mögnuð tilfinning.  Þó ég hafi gengið í gegnum þetta tvisvar sinnum áður þá er maður bara alveg jafn rasandi hissa yfir svona kraftaverki.

Í hádeginu í dag prófaði ég alveg nýtt, fór í bakleikfimi í Heilsuborg.  Ég var nefnilega beðin um að taka að mér smá morgunleikfimi nokkra daga í viku í einni deildinni hérna í bankanum sakvæmt þessu prógrammi.  Ég fæ að æfa mig og sækja nokkra tíma áður en við látum til skarar skríða.  Hlakka til að takast á við þetta verkefni. Fyndið hvernig tækifærin detta stundum upp í hendurnar á manni því bakleikfimi er akkúrat það besta sem ég get gert til að fyrirbyggja annað brjósklos.

Annars er ég alltaf að prófa einhverja nýja líkamsrækt núna þegar ég er komin með kort í Hreyfingu.  Mér finnst mjög gaman í tímum þar sem við vinnum með lóð og styrktaræfingar og tökum stutta spretti á milli, ekkert flókið. Ég fer svo alveg í baklás ef ég þarf að taka einhver flókin spor og omg ef ég á að klappa, þá læðist ég út og fer frekar á hlaupabrettið!  Ég er búin að finna tíma sem smellpassa fyrir mig 4*sinnum í viku og þá er prógrammið eiginlega fullt því ég er líka að synda og skokka.  Ég tek þetta nú samt allt á mínum hraða og er mjög dugleg við að hlusta á líkamann og stilla álagi í hóf en fá samt sem áður vellíðunartilfinninguna við að hreyfa sig.

Ég fór í hlaupaprjónaklúbb í gærkvöldi og lærði rússneskt hekl, það fannst mér gaman.  Ætla pottþétt að fjárfesta í svona heklunál og hekla flott sjal við allra fyrsta tækifæri.   Annars var þema kvöldsins 'Hráfæði' og það var ekkert smá fyndið að sjá svipinn á 'Gourmet' vinnufélögunum þegar ég var að segja frá þessu, 'Ojjjjjj'.   Þeir sem ekki þekkja til halda sennilega að maður sé að setja ofan í sig eitthvað ógirnilegt grænt jukk en á boðstólnum hjá okkur var: döðlusúkkulaðikaka með grískri jógúrt, ávaxta og súkkulaðihnetukaka með rjóma, berja-súkkulaði-döðlu gums með ristuðum kókos, kókoskúlur (er með kókoskúlu fetish...mmmmm), avocado og banana klakar (kom mjög á óvart, algjör galdrasamsetning) og berjaskyrterta.  Pjúff, þvílík sæla.  Og það besta, ekki gramminu þyngri í morgun, hrein og klár næringar fullkomnun :)

20. feb. 2011

Litli vísindamaðurinn

Skemmtileg helgi langt komin.  Við erum komin með ofurskipulag á laugardagsmorgnum svo allir nái að fara á sínar æfingar.  Vöknum hálf átta til að borða morgunmat, Þórólfur skutlar mér á æfingu í Hreyfingu korter í níu, Gabríel passar á meðan, Þórólfur fer heim og skellir sér í hlaupagallann og græjar Lilju fyrir fimleikana klukkan 10, skilur hana þar eftir í smá stund í umsjá vinar okkar og kemur og sækir mig, ég tek bílinn og keyri í fimleikana til Lilju en Þórólfur hleypur af stað á sína hlaupaæfingu!

Eftir morgunatið fórum við í frábæran hádegisverð með hlaupafélögunum, svo gaman að sjá fólkið mitt og ég finn að ég sakna félagsskaparins af æfingum.

Eftir mat fórum við í Háskólann að sjá Dóru og Sprengjugengið sýna listir sínar á opnu húsi HÍ.  Lilja missti sig af gleði, átti ekki orð yfir þessi töfrabrögð og var alveg heilluð.  Eftir sýninguna fórum við yfir Öskju og sáum stjörnusýningu í litlu tjaldi það sem allir lágu á bakinu í hring og horfðu upp í stjörnuhimininn.  Mjög skemmtileg tilbreyting á laugardegi.

Við hjónin skelltum okkur í bíó á The Black Swan um kvöldið, jæks hrollur!  Við vorum komin í keng saman og horfðum á milli puttanna á sum atriðin.  Flott mynd en svakalega átakanleg.  Kannaðist nú við ýmislegt úr hinum harða heimi götuhlaupanna....  Muwahahahhaha :)

Fór í góðan hlaupatúr í morgun, rétt tæpa 10 km og í dag var eiginlega í fyrsta sinn sem ég fann aðeins fyrir bumbunni.  Ekkert að ráði en bara pínu skrítin tilfinning.  Annars gengur eins og í sögu að hlaupa, líður vel en ég fer voða rólega og mér finnst gott að hlusta á útvarpið á meðan ég skokka.  

Þórólfur og Gabríel klikkuðu ekki á konudeginum og færðu okkur mæðgum góða glaðninga.  Varð að smella einni af Lilju með blómið sitt og uppdressaðri í álfaprinsessu dressinu sem hún fékk.  


18. feb. 2011

Á skíðum skemmti ég mér tralalallala...

Við höfum ekki setið auðum höndum síðustu vikuna, ekki stund til að blogga en það er nú bara gott mál.  Leikfimi, sundskóli hjá Lilju, bingó í Langholtsskóla og síðast en ekki síst, skíðagræju útréttingar og tvær skíðaferðir! 

Við sáum auglýsingu frá Intersport í vikunni með góðum díl á skíðum fyrir dömur og krakka.  Við Gabríel vorum svo heppin að fá græjur á okkur á spottprís og þá var ekki aftur snúið, nú var bara að redda græjum fyrir Lilju og Þórólf.  Við fengum allan pakkan fyrir Lilju á Akureyri í Skíðaþjónustunni og þvílík þjónusta!  Þeir voru alveg frábærir, tóku saman pakka fyrir hana og hentu á Flytjanda fyrir okkur svo við fengjum græjurna fyrir helgi.  Og herlegheitin kostuðu heilar 8.900 krónur, skíði, bindingar og skór, alveg eins og nýtt!  Við græjuðum svo Þórólf upp í Everest í dag og svo kláruðum við málið, keyptum hjálma á alla fjölskylduna í Intersport á leiðinni upp í fjall, eftir vinnu í dag.  Við Gabríel tókum reyndar forskot á sæluna í gær en þá vorum við búin að fá okkar dót.  Jiiii hvað það var gaman hjá okkur.  Það var töluvert rok efst í stólalyftunni þannig að við renndum okkur yfir í Suðurgil og þar vorum við bara með einkalyftur fyrir okkur, í logni og nýtroðnum brekkum.  Algjör snilld. 


Í dag vorum við ekki komin upp í fjall fyrr en að verða sjö (eftir skíða og hjálmaútréttingar sem tóku sinn tíma).  Ég reiknaði með að Lilja myndi í mesta lagi endast tvær, þrjár ferðir enda nánast komin háttatími hjá minni.  Nei, held nú aldeilis ekki, mín söng og trallaði allan tímann og við náðum einum og hálfum tíma áður en við fengum okkur hressingu og komum okkur í bæinn.

Nú sitjum við hérna eins og klessur í sófanum, gömlu hjónin og Gabríel, en Lilja er löngu sofnuð.  Alveg spurning hver verður fyrstur á fætur til að kíkja á http://www.blafjoll.is/

Læfs greit :)

12. feb. 2011

Ný sunddrottning?

Mikið er dásamlegt að geta lifað aðeins í gegnum ungana sína!  Eitt af því sem ég hefði gjarnan viljað er að hafa lært að synda skriðsund þegar ég var lítil, hafa þetta bara í kroppnum.  En þannig var það bara ekki, þegar ég var í skólasundi var bara lögð áhersla á bringusund.  Gabríel var heilmikið í ungbarnasundi og er fínn sundmaður og Lilja hefur líka farið á nokkur námskeið.  Um daginn var ég að skoða heimasíðuna hjá Ægi (nú syndi ég með Ægi þríþraut) og rak þá augun í sundskóla hjá þeim, fyrir 4 - 6 ára.  Við skráðum Lilju og hún fór í fyrsta tímann sinn núna á fimmtudaginn.  Þetta er öðruvísi en barnasundið sem við höfum verið í þar sem foreldrarnir eru með krökkunum ofaní, hérna fylgir maður þeim að bakkanum í innilauginni og svo bless á meðan þangað til tíminn er búinn.  Tímarnir eru tvisvar í viku og við Þórólfur notum tímann til að synda á meðan í útilauginni.  Lilja var alveg alsæl með þetta, algjör snilld.




Gabríel er í keppnisferð á Akureyri og Þórólfur fór að stússast með pabba sínum í eftirmiðdagninn þannig að við mæðgurnar skelltum okkur í bíó á Múmínálfana.  Eftir bíó fórum við í bæinn á kaffihús sem mig hefur lengi langað að kíkja á, Fjallkonubakaríið.  Frábær staður til að fara með krakka, risastórt leiksvæði og engar áhyggjur að krakkarnir hverfi eða fari sér að voða.  Þórólfur kom og hitti okkur stelpurnar þar og við vorum örugglega í tvo tíma að spjalla og hafa það huggulegt á meðan Lilja lék sér við hina krakkana. 

Fyrsta bumbumyndataka í dag, komin 15 vikur.  Ég var eiginlega hálf hissa að sjá myndina því ég var farin að halda að ég væri komin með risastóra bumbu.  Lilja er mjög dugleg að segja öllum sem heyra vilja að mamma hennar sé orðin ótrúlega feit og með risastór brjóst af því að það er barn í maganum á henni...  Helst vill hún sýna sem flestum líka og finnst frekar dónalegt af mér að malda í móinn á kassanum í Bónus þegar hún er að reyna að fletta upp um mig!  Nú hallast ég að því að þetta sé meira svona óskhyggja hjá skottinu.    Ég er nú samt farin að finna vel fyrir kúlunni og er búin að þyngjast um tæplega 3 kg, sem er bara alveg eftir bókinni.  


9. feb. 2011

Skíðafjölskylda

Já svei mér þá ef við erum ekki orðin skíðafjölskylda!  Við fórum upp í Bláfjöll eftir hádegi á sunnudaginn, öll sömul og ætluðum að skella okkur á skíði.  Það reyndist ekki vera svo einfalt...  Það var 2-3 tíma biðröð í skíðaleiguna og alla vega klukkutími í miðasöluna, þannig að við sáum okkar kost vænstan að hundskast heim aftur.  Ekki vorum við þó búin að gefast upp, á skíði skyldum við fara og tókum ákvörðun um að taka okkur frí daginn eftir og fá leyfi fyrir Gabríel úr skólanum, ef vel viðraði.  Eins fundum við út að það væri hægt að kaupa miða á N1 í Ártúnsbrekkunni þannig að það vandamál var úr sögunni.

Á mánudagsmorgun sáum við að opnað yrði kl. 14 og veðrið eins og best verður á kosið.  Gabríel skaust í skólann til hádegis og Þórólfur í vinnu en ég fór bara einn góðan skokktúr í morgunsárið.  Eftir skokkið datt mér í hug að hringja í vin minn sem vinnur í Bláfjöllum og fá nánari upplýsingar um hvenær skíðaleigan opnaði svo við værum nú örugglega tímanlega í því.  Það kom í ljós að nokkrar lyftur voru opnaðar strax klukkan 10 og eins skíðaleigan.  'Drífið ykkur bara upp í fjall mar...'.  

Ég gerði allt klárt fyrir okkur, nesti og galla og um leið og strákarnir komu heim brunuðum við upp í Bláfjöll.  Það voru svona 8 bílar á bílastæðinu þegar við komum.  Beint inn í skíðaleiguna og þar var enginn nema vingjarnlegur starfsmaður sem var ekki lengi að græja okkur og svoooshhh beint upp í brekku.


Vá hvað það var fallegt veður, glampandi sól, blankandi log og færi eins og best gerist.  Þórólfur hitaði sig upp nokkarar ferðir í kaðlinum og svo dreif hann sig í toglyfturnar en við Gabríel stungum fljótlega af í stólalyfturnar.  Gabríel er fær í allan sjó eftir þennan dag, hann var hvergi banginn og við höfum ekki skemmt okkur svona vel saman í háa herrans tíð og það er yfirleitt ekkert leiðinlegt hjá okkur.  Fórum reglulega og kíktum á Þórólf, sem tók stórstígum framförum með hverri ferðinni.  Vorum orðin glorhungruð um kaffileytið og þá dró gamla upp kakó og smurt brauð, gulrætur og súkkulaðikex.  Namminamm hvað allt bragðast betur á fjöllum.  Út aftur og nú var aðeins farið að fjölga í brekkunum.  Við (ég :) gafst upp rétt fyrir sex en þá vorum við búin að skíða eins og berserkir í rúma fimm klukkutíma.  Gabríel var svo glaður með þennan dag, sagði oftar en einu sinni, 'Mamma, þetta er alveg ótrúlega góður dagur.'.

   
Lentum í smá töf á heimleiðinni en einhver snillingur hafði lagt bílnum sínum þannig að það komst enginn af (eða á ef út í það er farið) svæðinu í hálftíma eða svo.  Skilst að bíllinn hafi að lokum verið borin eða ýtt út af veginum og við fegin að vera á heimleið.  Þegar við fórum þá var samfelld tæplega kílómeters bílalest á leið upp í fjall.  Það var tvöfalt lengri röð í skíðaleiguna en daginn áður og sennilega tveggja tíma við í miðasöluna...  Úff hvað maður fann til með barnafjölskyldunum sem áttu ekki annarra kosta völ en að snúa öfug til baka.  



Við vorum orðin svo svöng eftir útiveruna að það var bara eitt í stöðunni, að koma við í Nóatúni og kaupa KJÖT.  Náðum okkur í læri og purusteik, rófustöppu og rauðvínssósu.  Eftir mat og sturtu missti ég meðvitund upp úr átta í sófanum, læddist inn í rúm klukkan tíu og svaf eins og skotinn til sjö morguninn eftir.  Ég var ennþá þreytt eftir vinnu í gær og þurfti að leggja mig og ég er ekki frá því að ég hefði getað lúrt í svona 2-3 klukkutíma í viðbót í morgun...  Næst á dagskrá er að safna sér fyrir skíðagræjum.  Endilega ef þið eigið eða vitið um græjur til sölu fyrir skikkanlegt verð, látið í ykkur heyra. 

6. feb. 2011

Morgunskokkið

Í morgun hlustaði ég á hana Sirrý í morgunútvarpinu og heyrði skemmtilegt samtal við Halldóru Geirharðsdóttur.  Í lok viðtalsins las hún upp áhugaverða sögu, í íslenskri þýðingu, sem höfðaði sérstaklega til mín.  Stundum efast maður endalaust um hvort maður sé að taka réttar eða rangar ákvarðanir í samskiptum við annað fólk.  Ætti maður að sýna meiri þroska, reyna aftur, betur, meira...  Eða ekki.  Ég googlaði söguna og fann upprunalegu útgáfuna:

AUTOBIOGRAPHY IN FIVE SHORT CHAPTERS
by Portia Nelson

I
I walk down the street.
There is a deep hole in the sidewalk
I fall in.
I am lost ... I am helpless.
It isn't my fault.
It takes me forever to find a way out.

II
I walk down the same street.
There is a deep hole in the sidewalk.
I pretend I don't see it.
I fall in again.
I can't believe I am in the same place
but, it isn't my fault.
It still takes a long time to get out.

III
I walk down the same street.
There is a deep hole in the sidewalk.
I see it is there.
I still fall in ... it's a habit.
my eyes are open
I know where I am.
It is my fault.
I get out immediately.

IV
I walk down the same street.
There is a deep hole in the sidewalk.
I walk around it.

V
I walk down another street


5. feb. 2011

Stóra planið - kafli 3

Við mættum til læknisins daginn eftir, frekar skrýtið allt saman.  'Jæja, nú er ég orðin ólétt og nú verður þú bara að sjá um að allt gangi vel í þetta sinn!'.  Læknirinn brosti bara út að eyrum og sagði ok, ég skal gera mitt besta.  'Ég fann það á þér að þið voruð ekki alveg búin að afgreiða þetta mál'.  Ég fékk fyrirmæli um að taka eina töflu af hjartamagníl á dag og var sett í reglulegar blóðprufur vegna skjaldkiltilssjúkdómsins.

Og svo hófst biðin...   Dagarnir eru lengi að líða, skapið fer á skjön en einhvern veginn tikkar þetta samt hægt og örugglega.  Svo kom pínulítil blæðing.  Neiiiii...  Og svo ekkert meir.  5 dagar eftir, 4, 3...   Við vorum mátulega bjartsýn, búin að undirbúa okkur eins og við gátum undir vonbrigðin.  Læknirinn tók á móti okkur með hlýju og brosi. ' Jæja, drífum í þessu, kíkjum'.  'Nei sko þarna er þessi fíni hjartsláttur og allt eins og það á að vera!'.   BUHUUUUUU...  Ég hef aldrei farið að gráta þegar illa gengur, ekki hjá læknunum, þá bít ég á jaxlinn.  En alveg eins og með Lilju þá hristist ég skalf þegar ég sá fyrsta hjartsláttinn og grét af gleði, hor og allt.   6 vikur komnar, 6 krítískar vikur eftir.  Við fórum frá lækninum alsæl og þar sem var alveg að koma jólafrí þá fengum við næst tíma eftir 3 vikur.  

Á annan í jólum, um kvöldið, pínulítil blæðing... Neiiii... og læknirinn í fríi.  Ég fékk tíma niðrá Landspítala daginn eftir og átti frekar erfiðan sólarhring.  Það var vel tekið á móti okkur og ég fór beint í sónar.  Jú, allt eins og það á að vera 8 vikur og 3 dagar.  Nú var komin enn meiri mynd á krílið og við sáum hjartsláttinn vel og greinilega.  HJÚKK og já BUHUUUU aftur.  

Tikk, takk, tikk, takk...   Næsti sónar 9 vikur og 2 dagar, allt í gúddí.  Og svo voru það 3 endalausar vikur þangað til við fórum í hnakkaþykktarmælingu og blóðprufur.  Ég verð fertug á árinu og maður ræður ekkert við hugsanirnar.  Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að með aldrinum aukast líkurnar á alls konar veseni.  Loksins, loksins, rann dagurinn upp og við niður á Landspítalann aftur.  Það er ekki mikið talað, bara mikið hugsað á leiðinni í svona erindi.  Það var kallað á okkur og á leiðinni inn í stofuna mættum við pari sem augljóslega hafði fengið hræðilegar fréttir.  Hnútur í magann.  Og svo sá ég konuna sem átti að skoða mig og ég þekkti hana undir eins.  Þetta var sama kona og hafði tekið á móti okkur þegar við sáum hjartsláttinn hennar Lilju í fyrsta sinn.  Hlýtur að vera happa.  

BUHUUUUU... þessi fíni hjartsláttur, sérstaklega nettur hnakki og allt eins og það á að vera.  Vinkona okkar sendi okkur svo í blóðprufu og bauðst til að hringja um leið og niðurstöðurnar kæmu svo við þyrftum ekki að bíða í 3 daga.  Daginn eftir hringdi hún með gleðifréttirnar.  Gæti ekki fengið betri tölur og nú, loksins, loksins gátum við farið að slappa af og farið að hlakka almennilega til.  Ég fann stressið líða úr skrokknum og vellíðanina hellast yfir mig.  Nú ætla ég bara að leyfa mér að vera endalaust glöð og nú get ég sagt öllum heiminum gleðifréttirnar.  

Við eigum von á barni þann 6. ágúst, ég er komin 14. vikur og lífið gæti ekki verið dásamlegra!  Já og það er ekkert eins töff og að vera með bumbuna út í loftið á fertugsafmælinu, kúkableiur og andvökunætur, bring it on, við erum til í tuskið!

4. feb. 2011

Aðeins og flókið...

Það var nú ekki eins einfalt að loka þessu bloggi og ég hélt.  Eða réttara sagt þá er bara heilmikið stúss (alla vega fyrir elstu kynslóðina...) að búa til Google Account og jarí jarí.  Mikið er gott að geta skipt um skoðun anytime :)

Stóra planið - kafli 2

Þá var bara að ganga í málið og ég pantaði mér tíma hjá lækninum mínum, hormónalykkja og málið afgreitt.  Eins fór ég að skoða IronMan keppnir og annað spennandi og datt niður á þessa hér, Ironman Cozumel sem mér leist bara ljómandi vel á.  Fullt af félögum mínum höfðu skráð sig í Ironman í Florida í nóvember en sú keppni var fullbókuð og þessi keppni var ca. tveim vikum síðar og mér fannst staðsetningin meira spennandi.  Að sama skapi gæti ég þá æft með þeim sem væru að fara til Flórída.  Það opnaði fyrir skráningu þann 28. nóvember og ég hafði smá tíma til að hugsa mig um.

Ég fékk tíma hjá lækninum þann 18. október en það kom í ljós að ég var ekki á réttum tíma í tíðahringnum og var boðuð í nýjan tíma viku seinna.  Viku seinna hringdi síminn og læknirinn minn á línunni, því miður gat hann ekki tekið á móti mér vegna þess að það var Kvennafrídagurinn og allar konurnar farnar heim um tvö en ég átti tíma hálf fjögur...  Geturðu komið eftir mánuð?  Já, já ekkert mál.  Ég hugsaði með mér hvað lífið getur stundum verið fyndið, skráning í Ironman 28. og lykkjan 29., gat ekki passað betur.

Ég sat fyrir framan tölvuna sunnudagsmorguninn 28. nóvember og skoðaði enn einu sinni allar upplýsingar um keppnina.  Þetta er risa fyrirtæki að taka þátt í svona dæmi, flug, hótel, keppnisgjöld, græjur og ég veit ekki hvað og þetta er ekki eitthvað sem þú ákveður 1,2 og 3.  Það stór fjárfesting að það var bara ekkert sjálfsagt að eyða öllum þessum pening í bara elsku mig, þó ég hefði allan stuðning í heiminum frá mínum manni  :)   Áður en ég ýtti á send, þá hugsaði ég með mér að það væri eins gott að vera 100% viss um að ekkert væri í gangi hjá mér.  

Nokkrum mínútum síðar horfði ég, með opinn munninn, á tvö blá strik á priki... 

3. feb. 2011

Stóra planið - kafli 1

Verður maður ekki að hafa þetta smá spennandi, alla vega til að byrja með...  Já, stóra planið, það er nú það.  Ég var búin að tilkynna æfingafélögunum að áramótunum hefði verið frestað hjá mér um mánuð, en það fylgir áramótunum að setja niður fyrir sig stóru markmið ársins.  Það er nefnilega alveg vonlaust að gera einhver stórkostleg plön þegar maður er ekki í 100 % formi og veit ekki alveg hvernig tekst til að komast þangað.  En það er best að byrja á byrjuninni, vara ykkur við þetta verða nokkrir kaflar!

Hvenær er næsta maraþon?  Hvenær ætla þú í IronMan?  Þetta eru ósköp eðlilegar spurningar fyrir langhlaupara en í mínu tilfelli hefur þetta ekki verið svona einfalt, þ.e. að taka ákvörðun um að láta vaða á margra vikna æfingaprógramm og vera 100% dedicated.  Og það er bara alls ekki minn stíll að gera eitthvað hálfa leið.  

Málið er nefnilega að hærra á forgangslistanum, fyrir ofan sub 3 maraþon eða Ironman var sú von að geta átt fleiri börn.  Og þar sem að við höfum glímt við ítrekuð fósturlát,  en ég hef 6 sinnum orðið ólétt á síðustu 6 árum (tókum samt næstum tveggja ára hlé eftir að við áttum Lilju)  þá er þetta bara drulluerfitt.  Hver misheppnuð ólétta kostar nokkra mánuði í helvíti en ferlið er ca. þannig að fyrst eru einhverjar vikur þar sem maður er að bíða eftir að sjá hvort það hafi tekist að verða ólétt.  Í mínu tilfelli gengur það bara vel en í staðinn fyrir að hoppa af gleði þegar maður sér tvo strik á prikinu, þá fær maður hnút í magann og við tekur nokkurra vikna tímabil þar sem þú ert á milli tveggja heima.  Maður býr til afsakanir fyrir því að mæta ekki á æfingar (ég hef t.d. notað lungnabólgu, tognun í læri, verk í hné eða eitthvað svoleiðis) því maður treystir sér ekki í að ræða þetta og þurfa svo að láta vita ef illa fer.  Hver klósettferð er martröð því þú átt von á því hvenær sem er að það sé farið að blæða og þá er þetta búið.  Þetta eru vikur sem maður hvorki getur né vill halda sínu striki, maður slakar á í æfingunum, hættir að keppa og svo... búmm svo hrynur allt.  Þá taka við nokkrar vikur í að jafna sig og safna kröftum og geðheilsu aftur áður en maður er tilbúin í að svo mikið sem hugsa um aðra tilraun.  Hjá mér hefur það hjálpað að demba mér út í æfingar af fullum krafti og ég er alveg hissa hversu vel hefur gengið hjá mér síðustu árin með öllum þessum hléum.  Ég er nú bara nokkuð stolt af sjálfri mér þegar ég hugsa um það.

En stóru plönin, já ég hef alveg látið þau eiga sig hingað til en núna í haust settumst við hjónin niður og ákváðum að nú væri nóg komið.  Við erum alsæl og þakklát fyrir börnin okkar og söknum einskis í rauninni.  Það var bara ákveðin léttir að taka þessa breytu út og þá var ekkert því til fyrirstöðu að hugsa stórt, tala nú ekki um þar sem ég verð fertug á árinu og það tilheyrir nú að halda sérstaklega upp á svoleiðis áfanga.  Þannig að...