20. maí 2011

Á fimmtugsaldri

Ég held að ég hafi aldrei hlakkað eins mikið til að eiga afmæli og núna.  Þetta er klárlega besta stórafmælið mitt hingað til.  Á 10 ára afmælinu mínu var ég feiminn, óöruggur, búttaður krakki og ekki mjög glöð.  Á 20 ára afmælinu mínu hélt ég villt partý heima hjá mömmu og pabba og mig rámar í að ég hafi fengið mér hélst til hraustlega af bollunni og sofnað í sófanum áður en gestirnir fóru, smart...  30 ára afmælið mitt var skemmtilegra, fékk hóp af vinkonum í mat og tjútt, en ég var ennþá allt of feit og óánægð með það, barasta ekki búin að finna mig (né Þórólf :).  

Ég hef aldrei verið ánægðari með lífið en akkúrat núna og allt er bara nákvæmlega eins og ég vil hafa það.  Þannig var líka dagurinn minn, það eina sem hefði getað verið betra var að fá að hafa hann Gabríel með okkur en hann var í skólaferðalagi á Reykjum í Hrútafirði.  Hann er komin heim núna og kúrir hérna hjá mér í sófanum.

Pínu krumpuð í morgunsárið en hva... mar er komin á fimmtugsaldurinn!

Dagurinn byrjaði á því að bóndi minn færði mér afmælisgjöf í bólið, ótrúlega fallegan hring og rós.  Ég hjólaði í vinnuna í bongó blíðu (má ekki klikka á Hjólað í vinnuna smá keppnis ennþá í manni...) og mætti í morgunleikfimina sem ég sé um upp í vinnu.  Stelpurnar tóku á móti mér með knúsum og kossum og sungu fyrir mig afmælissönginn.  Um leið og ég kom aftur í sætið mitt mætti vinur minn með rauðan rósavönd og geisladisk með vinsælustu lögunum 1971.  Ég var nú hálf hissa á þessu en þá kom í ljós að maðurinn minn hafði læðst út kvöldið áður og komið þessu til hans, til að koma mér á óvart, dæs...  Tveir af hópunum mínum í vinnunni sungu líka fyrir mig, svo var deildarfundur, og já enn einu sinni var afmælissöngurinn sunginn.  Ég held svei mér þá að maður vaxi aldrei upp úr því að fara alveg í flækju við það.  

Bestu vinir mínir, stoðir og styttur.

Ég hjólaði aftur heim eftir hádegismat og hitti bónda minn en þá var kominn tími til að klára útréttingar fyrir afmælisboðið.   Ég var búin að velta því heilmikið fyrir mér hvernig ég vildi halda upp á afmælið og fyrir nokkrum vikum datt ég niður á lausnina.  Ég leigði bústað hjá bankanum rétt fyrir utan bæinn og ég ákvað að bjóða fjölskyldunni minni og nánustu vinum í súpu og kökur frá 18 - 21, krakkar velkomnir og við grilluðum pylsur og vorum með skúffuköku fyrir þá.    Við tókum líka með okkur heilan helling af sápukúlum, frisbee og krikket.  Svo voru rólur, sandkassi og náttúrulega endalaust leiksvæði í sveitinni.  Félagi okkar sem vinnur með Þórólfi eldaði fyrir okkur ljúffenga mexíkóska kjúklingasúpu og svo fórum við mæðgur hamförum í bakstrinum.  Hátt í 50 fullorðnir og 20 krakkar komu til að halda uppá daginn með okkur.  

Ohhh það var svo gaman hjá mér og ég er svo glöð að hafa átt þennan dag með fólkinu sem mér þykir vænst um.  Ég gat ekki hætt að brosa fyrir utan smá móment þegar ástin mín bað um orðið og hélt ræðu og færði mér enn eina gjöfina.  Fann vörina fara að titra og buhuuu fyrir framan alla!  Kenndi óléttunni og hormónunum um (yeah right :).  

Mamma stóð vaktina með okkur allt til enda, ótrúleg þessi kona :)

Mamma og Þórólfur voru ótrúleg í að hjálpa mér að skipuleggja allt saman, undirbúa og ganga frá eftir veisluna.  Frábær dagur sem ég mun aldrei gleyma, takk fyrir mig!

2 ummæli:

  1. Greinilega súper dúper dagur hjá þér. Takk fyrir frábæra veislu. Dásamlegt að komast aðeins í "sveitina" til ykkar. En....ég hef heyrt að maður er ekki kominn á fimmtugsaldur fyrr en á 41 árs afmælinu svo njóttu í 1 ár enn. :)

    SvaraEyða
  2. Já takk sömuleiðis, þetta var alveg frábært!

    Ja nú get ég aldeilis frætt þig. Vinkona mín í vinnunni var nefnilega gallhörð á því í fyrra þegar hún varð þrítug að hún kæmist ekki á fertugsaldur fyrr en ári síðar, þ.e. þrjátíu og eins. Hér voru miklar vangaveltur um málið og til að sanna sitt mál í eitt skipti fyrir öll þá sendi hún erindi og fyrirspurn á Háskóla Íslands og bað um að fá úr þessu skorið. Skemmst frá því að segja að svörin voru skýr; 'Þú hefur rangt fyrir þér!'. Skv. svörum HÍ þá kemst maður á fertugsaldur um leið og maður verður þrítugur o.s.frv., þannig að ég ætla að njóta þess að vera á fimmtugsaldrinum þar til ég fæ betri rökstuðning og sannanir en frá Háskóla Íslands :)

    SvaraEyða