28. maí 2011

30 vikur og bara gaman

Er komin akkúrat 30 vikur í dag og það er alveg ótrúlegt hvað tíminn hefur liðið hratt á þessari meðgöngu.  Ég fór út að skokka í morgun og nú er hringurinn minn komin niður í rúma 8 km, ég hleyp langleiðina en labba upp brekkur.  Er farin að finna heilmikið fyrir bumbunni núna. 

Við gerðum okkur lítið fyrir í vinnunni og unnum Hjólað í vinnuna í ár.  Í fyrra vorum við í 3. sæti í heildarkeppninni þannig að við erum heldur betur búin að vinna okkur upp.  Þetta var æsispennandi á lokasprettinum, blóðug barátta við Arion banka og hver einasti km skipti máli.  Innan bankans þá vann mitt lið líka en við höfum unnið keppnina síðustu árin og kom aldrei annað til greina en að gera sitt allra besta.  Í fyrra hjólaði ég 690 km á 15 dögum en í ár þá lét ég nægja að hjóla 266 km.  Þetta gekk allt saman rosalega vel en ég verð að viðurkenna að ég var svakalega glöð að þegar ég kom heim síðasta daginn, ansi orðið strembið að hjóla upp allan Elliðaárdalinn og veðrið ekkert endilega að leika við okkur.  Nú ætla ég bara að vera í dekrinu síðustu vikurnar mínar, hjóla bara ef það er bongó blíða og meðvindur takk fyrir...

Ég er líka dugleg að fara í Hreyfingu og mér finnst best núna að fara í Body Balance tímana, passlegt álag og mér líður þvílíkt vel á eftir.  Reikna líka með að fara að synda meira núna þegar ég er laus úr hjólastússinu.

Framkvæmdirnar á heimilinu ganga vel, eitthvað að gerast á hverjum degi og við nálgumst óðfluga lok þessa tímabils.  Reikna með að vera komin með nýtt eldhús fyrir næstu helgi og held að það sé bara nokkuð raunhæft!  Ég sit reyndar hérna í rykmekkinum  ákkúrat núna, það gleymdist að brjóta fyrir einu röri...  En skítt með það, við erum í góðri skúri æfingu og þetta er ekkert til að trufla geðheilsuna (verulega).

Gabríel var fyrsta daginn sinn í úrvalsæfingabúðunum í körfu í dag og það var þvílíkt gaman hjá honum.  Tveggja tíma brjáluð keyrsla og þegar ég kom að sækja voru strákarnir gjörsamlega búnir á því, þreyttir en glaðir.

Gabríel tók bumbumynd af mér í morgun í tilefni 30 viknanna, allt að gerast :)


Engin ummæli:

Skrifa ummæli