10. maí 2011

30 mínútur í planka

Ætlaði heldur betur að gera góða hluti í þessu hjólaprógrammi mínu og um helgina skipti ég um hnakk, átti nefnilega risastóran gel Lazy boy hnakk frá síðustu meðgöngu.  Það gekk ekki betur en svo að þegar hann var komin á hjólið með öllum sínum gormum fannst mér hann halla full mikið upp á við svo ég kýldi hann vel niður að framan þangað til mér sýndist hann vera beinn.  Og svo prófaði ég EKKI.  

Á mánudagsmorguninn fann ég um leið og ég renndi mér niður Dyngjuveginn að þetta var nú ekki alveg að gera sig, var eins og ég sæti í rennibraut en nennti ekki að snúa við og laga.

Var farin að sjá verulega eftir því eftir 5 mínútur eða svo   Það er hrikalega erfitt, alla vega fyrir óléttar kellur, að hjóla en geta ekki sest á sætið.  Ég var svo búin í öxlunum og höndunum þegar ég kom loksins í vinnuna, tilfinningin er eins og að vera í plankastöðu nema að þurfa að hjóla líka, sjæse...

Fékk lánaðan sexkant í vinnunni til að laga hnakkinn en komst að því að það á bara alls ekki við mig að vera í einhverjum hægindastól á hjólinu.  Var ekki lengi að skipta aftur yfir í gamla góða hnakkinn minn og hjólaði með bros á vör í vinnuna í morgun.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli