28. feb. 2011

Heimadagur

Lilja er búin að vera veik alla helgina, fékk slæman eyrnaverk á föstudagskvöldið og var ómöguleg fram á miðjan laugardag.  Henni leið betur í eyrunum um kvöldið en var með hita þangað til í gærkvöldi.  Við mæðgur vorum heima saman í dag og erum búnar að bralla eitt og annað.  Föndra, horfa á sjónvarpið, gera okkur fínar með málningardótinu hennar Lilju, naglalakka okkur, mála nokkrar myndir og já svo bökuðum við tvær nýjar uppskriftir.  Annars vega kókosbrauðbollur, nammi namm og svo var ég að taka banana/döðlubrauð út úr ofninum, á eftir að smakka en það lítur mjög vel út.

Gabríel leysti mig af á vaktinni þegar hann kom heim úr skólanum og hleypti mér út að skokka.  Æðislegt veður og ég tók sunnudagshringinn minn til að fá nóg af súrefni í lungun til að endast daginn.  Svo ánægð hvað mér líður vel á hlaupunum núna, hleyp lengra og léttara en fyrir nokkrum vikum og ekki eins móð.  

Við hjónin skelltum okkur í bíó í gærkvöldi, röltum út í Laugarásbíó á True grit og skemmtum okkur vel.  Við erum svo ýkt hallærisleg að við tökum með okkur Kristal/Topp í nesti, get ekki borgað hátt í fjögur hundruð kall fyrir kolsýrt vatn, þyrfti sennilega að vera á annars konar sýru til þess...  Við erum búin að standa okkur einstaklega vel í bíómenningarlífinu, búin að sjá The King's speech og Black Swan líka, ætli maður sé ekki strax farin að hugsa um að nýta tækifærið...

Það er ekki alslæmt að vera heima hjá mömmu allan daginn og fá frí í leikskólanum, mín gæti nú alveg vanist því :)



Fékk bolinn í pósti í dag, gott málefni!





Engin ummæli:

Skrifa ummæli