4. feb. 2011

Stóra planið - kafli 2

Þá var bara að ganga í málið og ég pantaði mér tíma hjá lækninum mínum, hormónalykkja og málið afgreitt.  Eins fór ég að skoða IronMan keppnir og annað spennandi og datt niður á þessa hér, Ironman Cozumel sem mér leist bara ljómandi vel á.  Fullt af félögum mínum höfðu skráð sig í Ironman í Florida í nóvember en sú keppni var fullbókuð og þessi keppni var ca. tveim vikum síðar og mér fannst staðsetningin meira spennandi.  Að sama skapi gæti ég þá æft með þeim sem væru að fara til Flórída.  Það opnaði fyrir skráningu þann 28. nóvember og ég hafði smá tíma til að hugsa mig um.

Ég fékk tíma hjá lækninum þann 18. október en það kom í ljós að ég var ekki á réttum tíma í tíðahringnum og var boðuð í nýjan tíma viku seinna.  Viku seinna hringdi síminn og læknirinn minn á línunni, því miður gat hann ekki tekið á móti mér vegna þess að það var Kvennafrídagurinn og allar konurnar farnar heim um tvö en ég átti tíma hálf fjögur...  Geturðu komið eftir mánuð?  Já, já ekkert mál.  Ég hugsaði með mér hvað lífið getur stundum verið fyndið, skráning í Ironman 28. og lykkjan 29., gat ekki passað betur.

Ég sat fyrir framan tölvuna sunnudagsmorguninn 28. nóvember og skoðaði enn einu sinni allar upplýsingar um keppnina.  Þetta er risa fyrirtæki að taka þátt í svona dæmi, flug, hótel, keppnisgjöld, græjur og ég veit ekki hvað og þetta er ekki eitthvað sem þú ákveður 1,2 og 3.  Það stór fjárfesting að það var bara ekkert sjálfsagt að eyða öllum þessum pening í bara elsku mig, þó ég hefði allan stuðning í heiminum frá mínum manni  :)   Áður en ég ýtti á send, þá hugsaði ég með mér að það væri eins gott að vera 100% viss um að ekkert væri í gangi hjá mér.  

Nokkrum mínútum síðar horfði ég, með opinn munninn, á tvö blá strik á priki... 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli