20. feb. 2011

Litli vísindamaðurinn

Skemmtileg helgi langt komin.  Við erum komin með ofurskipulag á laugardagsmorgnum svo allir nái að fara á sínar æfingar.  Vöknum hálf átta til að borða morgunmat, Þórólfur skutlar mér á æfingu í Hreyfingu korter í níu, Gabríel passar á meðan, Þórólfur fer heim og skellir sér í hlaupagallann og græjar Lilju fyrir fimleikana klukkan 10, skilur hana þar eftir í smá stund í umsjá vinar okkar og kemur og sækir mig, ég tek bílinn og keyri í fimleikana til Lilju en Þórólfur hleypur af stað á sína hlaupaæfingu!

Eftir morgunatið fórum við í frábæran hádegisverð með hlaupafélögunum, svo gaman að sjá fólkið mitt og ég finn að ég sakna félagsskaparins af æfingum.

Eftir mat fórum við í Háskólann að sjá Dóru og Sprengjugengið sýna listir sínar á opnu húsi HÍ.  Lilja missti sig af gleði, átti ekki orð yfir þessi töfrabrögð og var alveg heilluð.  Eftir sýninguna fórum við yfir Öskju og sáum stjörnusýningu í litlu tjaldi það sem allir lágu á bakinu í hring og horfðu upp í stjörnuhimininn.  Mjög skemmtileg tilbreyting á laugardegi.

Við hjónin skelltum okkur í bíó á The Black Swan um kvöldið, jæks hrollur!  Við vorum komin í keng saman og horfðum á milli puttanna á sum atriðin.  Flott mynd en svakalega átakanleg.  Kannaðist nú við ýmislegt úr hinum harða heimi götuhlaupanna....  Muwahahahhaha :)

Fór í góðan hlaupatúr í morgun, rétt tæpa 10 km og í dag var eiginlega í fyrsta sinn sem ég fann aðeins fyrir bumbunni.  Ekkert að ráði en bara pínu skrítin tilfinning.  Annars gengur eins og í sögu að hlaupa, líður vel en ég fer voða rólega og mér finnst gott að hlusta á útvarpið á meðan ég skokka.  

Þórólfur og Gabríel klikkuðu ekki á konudeginum og færðu okkur mæðgum góða glaðninga.  Varð að smella einni af Lilju með blómið sitt og uppdressaðri í álfaprinsessu dressinu sem hún fékk.  


Engin ummæli:

Skrifa ummæli