5. feb. 2011

Stóra planið - kafli 3

Við mættum til læknisins daginn eftir, frekar skrýtið allt saman.  'Jæja, nú er ég orðin ólétt og nú verður þú bara að sjá um að allt gangi vel í þetta sinn!'.  Læknirinn brosti bara út að eyrum og sagði ok, ég skal gera mitt besta.  'Ég fann það á þér að þið voruð ekki alveg búin að afgreiða þetta mál'.  Ég fékk fyrirmæli um að taka eina töflu af hjartamagníl á dag og var sett í reglulegar blóðprufur vegna skjaldkiltilssjúkdómsins.

Og svo hófst biðin...   Dagarnir eru lengi að líða, skapið fer á skjön en einhvern veginn tikkar þetta samt hægt og örugglega.  Svo kom pínulítil blæðing.  Neiiiii...  Og svo ekkert meir.  5 dagar eftir, 4, 3...   Við vorum mátulega bjartsýn, búin að undirbúa okkur eins og við gátum undir vonbrigðin.  Læknirinn tók á móti okkur með hlýju og brosi. ' Jæja, drífum í þessu, kíkjum'.  'Nei sko þarna er þessi fíni hjartsláttur og allt eins og það á að vera!'.   BUHUUUUUU...  Ég hef aldrei farið að gráta þegar illa gengur, ekki hjá læknunum, þá bít ég á jaxlinn.  En alveg eins og með Lilju þá hristist ég skalf þegar ég sá fyrsta hjartsláttinn og grét af gleði, hor og allt.   6 vikur komnar, 6 krítískar vikur eftir.  Við fórum frá lækninum alsæl og þar sem var alveg að koma jólafrí þá fengum við næst tíma eftir 3 vikur.  

Á annan í jólum, um kvöldið, pínulítil blæðing... Neiiii... og læknirinn í fríi.  Ég fékk tíma niðrá Landspítala daginn eftir og átti frekar erfiðan sólarhring.  Það var vel tekið á móti okkur og ég fór beint í sónar.  Jú, allt eins og það á að vera 8 vikur og 3 dagar.  Nú var komin enn meiri mynd á krílið og við sáum hjartsláttinn vel og greinilega.  HJÚKK og já BUHUUUU aftur.  

Tikk, takk, tikk, takk...   Næsti sónar 9 vikur og 2 dagar, allt í gúddí.  Og svo voru það 3 endalausar vikur þangað til við fórum í hnakkaþykktarmælingu og blóðprufur.  Ég verð fertug á árinu og maður ræður ekkert við hugsanirnar.  Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að með aldrinum aukast líkurnar á alls konar veseni.  Loksins, loksins, rann dagurinn upp og við niður á Landspítalann aftur.  Það er ekki mikið talað, bara mikið hugsað á leiðinni í svona erindi.  Það var kallað á okkur og á leiðinni inn í stofuna mættum við pari sem augljóslega hafði fengið hræðilegar fréttir.  Hnútur í magann.  Og svo sá ég konuna sem átti að skoða mig og ég þekkti hana undir eins.  Þetta var sama kona og hafði tekið á móti okkur þegar við sáum hjartsláttinn hennar Lilju í fyrsta sinn.  Hlýtur að vera happa.  

BUHUUUUU... þessi fíni hjartsláttur, sérstaklega nettur hnakki og allt eins og það á að vera.  Vinkona okkar sendi okkur svo í blóðprufu og bauðst til að hringja um leið og niðurstöðurnar kæmu svo við þyrftum ekki að bíða í 3 daga.  Daginn eftir hringdi hún með gleðifréttirnar.  Gæti ekki fengið betri tölur og nú, loksins, loksins gátum við farið að slappa af og farið að hlakka almennilega til.  Ég fann stressið líða úr skrokknum og vellíðanina hellast yfir mig.  Nú ætla ég bara að leyfa mér að vera endalaust glöð og nú get ég sagt öllum heiminum gleðifréttirnar.  

Við eigum von á barni þann 6. ágúst, ég er komin 14. vikur og lífið gæti ekki verið dásamlegra!  Já og það er ekkert eins töff og að vera með bumbuna út í loftið á fertugsafmælinu, kúkableiur og andvökunætur, bring it on, við erum til í tuskið!

8 ummæli:

  1. 6. ágúst er brúðkaupsdagurinn okkar Ella. Góóóður dagur sem þið megið gjarnan eiga með okkur :-)
    Lov jú.

    SvaraEyða
  2. Þetta er náttúrulega bara frábært, til hamingju.

    SvaraEyða
  3. Innilega til hamingju :)
    Kv. Ása Guðný

    SvaraEyða
  4. Innilega til hamingju !
    Þetta er bara yndislegt :)
    Magnea og Arnar Freyr

    SvaraEyða
  5. Elsku Eva og fjölskylda

    Hjartanlega til hamingju með bumbuna þína, þetta er bara yndislegt. Sit einmitt með prinsinn minn í fanginu og dáist að honum. Andvökunætur og kúkableyjur eru pís of keik því maður fær svo margt annað í staðinn.
    Gangi þér mega vel, ég býst þá ekki við þér á hlaupahátíðina.....
    bkv Gugga

    SvaraEyða
  6. ómæ!!!Knús á línuna, gangi ykkur vel! :-)

    SvaraEyða
  7. Takk fyrir, erum í skýjunum!

    SvaraEyða
  8. Hamingjuóskir aftur Eva mín. Gaman að lesa ferðalagið að þessu kraftaverki. Sé þig vonandi von bráðar. Btw þú bíður svo bara í 1 dag og gefur mér ungan í afmælisgjöf :)

    SvaraEyða