3. feb. 2011

Stóra planið - kafli 1

Verður maður ekki að hafa þetta smá spennandi, alla vega til að byrja með...  Já, stóra planið, það er nú það.  Ég var búin að tilkynna æfingafélögunum að áramótunum hefði verið frestað hjá mér um mánuð, en það fylgir áramótunum að setja niður fyrir sig stóru markmið ársins.  Það er nefnilega alveg vonlaust að gera einhver stórkostleg plön þegar maður er ekki í 100 % formi og veit ekki alveg hvernig tekst til að komast þangað.  En það er best að byrja á byrjuninni, vara ykkur við þetta verða nokkrir kaflar!

Hvenær er næsta maraþon?  Hvenær ætla þú í IronMan?  Þetta eru ósköp eðlilegar spurningar fyrir langhlaupara en í mínu tilfelli hefur þetta ekki verið svona einfalt, þ.e. að taka ákvörðun um að láta vaða á margra vikna æfingaprógramm og vera 100% dedicated.  Og það er bara alls ekki minn stíll að gera eitthvað hálfa leið.  

Málið er nefnilega að hærra á forgangslistanum, fyrir ofan sub 3 maraþon eða Ironman var sú von að geta átt fleiri börn.  Og þar sem að við höfum glímt við ítrekuð fósturlát,  en ég hef 6 sinnum orðið ólétt á síðustu 6 árum (tókum samt næstum tveggja ára hlé eftir að við áttum Lilju)  þá er þetta bara drulluerfitt.  Hver misheppnuð ólétta kostar nokkra mánuði í helvíti en ferlið er ca. þannig að fyrst eru einhverjar vikur þar sem maður er að bíða eftir að sjá hvort það hafi tekist að verða ólétt.  Í mínu tilfelli gengur það bara vel en í staðinn fyrir að hoppa af gleði þegar maður sér tvo strik á prikinu, þá fær maður hnút í magann og við tekur nokkurra vikna tímabil þar sem þú ert á milli tveggja heima.  Maður býr til afsakanir fyrir því að mæta ekki á æfingar (ég hef t.d. notað lungnabólgu, tognun í læri, verk í hné eða eitthvað svoleiðis) því maður treystir sér ekki í að ræða þetta og þurfa svo að láta vita ef illa fer.  Hver klósettferð er martröð því þú átt von á því hvenær sem er að það sé farið að blæða og þá er þetta búið.  Þetta eru vikur sem maður hvorki getur né vill halda sínu striki, maður slakar á í æfingunum, hættir að keppa og svo... búmm svo hrynur allt.  Þá taka við nokkrar vikur í að jafna sig og safna kröftum og geðheilsu aftur áður en maður er tilbúin í að svo mikið sem hugsa um aðra tilraun.  Hjá mér hefur það hjálpað að demba mér út í æfingar af fullum krafti og ég er alveg hissa hversu vel hefur gengið hjá mér síðustu árin með öllum þessum hléum.  Ég er nú bara nokkuð stolt af sjálfri mér þegar ég hugsa um það.

En stóru plönin, já ég hef alveg látið þau eiga sig hingað til en núna í haust settumst við hjónin niður og ákváðum að nú væri nóg komið.  Við erum alsæl og þakklát fyrir börnin okkar og söknum einskis í rauninni.  Það var bara ákveðin léttir að taka þessa breytu út og þá var ekkert því til fyrirstöðu að hugsa stórt, tala nú ekki um þar sem ég verð fertug á árinu og það tilheyrir nú að halda sérstaklega upp á svoleiðis áfanga.  Þannig að...


Engin ummæli:

Skrifa ummæli