23. okt. 2014

Yfirgangur, frekja og veruleikafirring

Skokkaði í gegnum Laugardalinn í gær á leiðinni á æfingu í Höllinni.  Vel dúðuð, með bakpoka og tónlist í eyrunum, bara notalegt.  Þegar ég nálgast tjaldstæðið sé ég framundan mér manneskju og lausan hund hlaupandi kruss og þvers yfir stíginn, snusandi af trjánum hér og þar.  Það er bannað að vera með lausa hunda í Laugardalnum og oftar en einu sinni hafa lausir hundar flaðrað upp um mig og tala nú ekki um, þegar ég var krakki og var bitinn í andlitið af hundi 'sem bítur ekki' eins og allir hundar áður en þeir bíta í fyrsta sinn.  Sem betur fer hjuggust tennurnar í augabrúnina á mér og kinnbeinið, augað slapp.

Þar sem ég skokka fram úr manneskjunni og sé að hún er með upprúllaðan taum í hendi, bendi ég henni, n.b. ofurljúflega og með spariröddinni, á að það sé bannað að vera með lausa hunda hérna.

Þá lítur þessi kona á mig og segir 'Hann er ekkert laus!'.  Já svei mér þá ef það var ekki með nákvæmlega þessum svip.


Mér varð svo mikið um að ég stoppaði í sporunum og leit á hana með tauminn í hendinni og svo hundinn sem hljóp út um allt og hef örugglega verið eins og spurningarmerki í framan.

'Ehh, jú hann er laus.  Hann er þarna og þú ert hérna með tauminn.'

'HANN ER EKKI LAUS!'

'Ehhh... jú hann er laus.' og bendi á hundinn sem í því hleypur yfir stiginn og nánast yfir tærnar á mér og út í runna hinu megin.

'Hva, ég var nú bara aðeins að leyfa honum að hreyfa sig.'

'Já ég skil það, en það er bannað hérna og minn réttur er bara ríkari til að fá að vera í friði fyrir lausum hundum hér en þinn réttur til að hleypa honum lausum.  Það er bannað samkvæmt lögum.'

'ÞÚ SKALT BARA HÆTTA AÐ VERA AÐ ÁREITA FÓLK!' 

Ég hefði gjarnan vilja sjá framan í mig á þessari stundu, díhhh ég hélt að fólk gæti ekki komið mér lengur á óvart.  Ég varð orðlaus í smá stund og svo segi ég:

'Fröken Fix, vilt þú ekki bara líta í eigin barm?´ og skokkaði aftur af stað.  Í alvöru, ég sagði Fröken Fix!!!     

Er búin að flissa þvílíkt yfir þessu og gat ekki beðið eftir að leika atriðið fyrir Þórólf sem pissaði næstum í sig af hlátri.  En í alvöru talað, þá verð ég að taka mig á og hætta að áreita fólk svona út í bláinn, þetta gengur ekki lengur.  

Engin ummæli:

Skrifa ummæli