4. apr. 2011

Gifting í Vegas og Honeymoon skíðaferð

Fórum á alveg frábæra árshátíð á laugardaginn.  Hátíðarhöldunum var startað með forpartýi í Kiwanis húsinu við Engjateig og þar var boðið uppá fínar veitingar og kósí stemmningu með Charlotte Böving og co.  Eftir upphitunina skottuðumst við svo yfir götuna á Hilton Nordica og þema kvöldsins var Vegas stemmning.  

Rúlletta, 21, Black Jack, myndatökur með stjörnunum, alvöru Vegas Show, já og ekki má gleyma Vegas kapellu þar sem boðið var upp á skyndibrúðkaup, vottorð og alles.  Við hjónin stóðumst ekki mátið, endurnýjuðum heitin og létum smella af okkur alvöru Vegas brúðkaupsmynd, brúðurin með bumbuna út í loftið!

Við fengum líka fullt af góðum mat og tókum nokkra létta takta á dansgólfinu á milli þess sem maður spjallaði við félaga og vini.  Frábært kvöld.

Krakkarnir gistu hjá afa sínum og við hjónin notuðum tækifærið, fórum snemma á fætur og hlupum fínan hring í góða veðrinu (n.b. ekki saman enda er ég ekki hlaupurum bjóðandi þessa dagana með öll mín pissustopp).  Á skokkinu heyrði ég í útvarpinu að í Bláfjöllum væri bongóblíða og frábært færi og eftir smá hressingu drifum við okkur upp í fjall.

Það var ekki ofsögum sagt með veður og færi, man varla eftir svona góðum degi og þó höfum við upplifað nokkra góða í vetur.  Sól, hlýtt, logn og nýfallinn snjór, dæs.  Prufukeyrðum nýtt skíðabeisli á henni Lilju og nú eru okkur allir vegir færir, stelpan heimtar að fara í stólalyftuna næst, mamma förum hraðar...  Þórólfur náði stórum áfanga, þ.e. náði að upplifa að það væri virkilega gaman að renna sér niður, ekki bara erfitt og hættulegt :).  

Eftir 4 tíma í fjallinu var gott að eiga heimboð hjá afa Þór í sunnudagsmat, grillaðan hrygg og meðlæti.  Það þarf ekki að taka það fram að frúin var farin að hrjóta fyrir 10 og rumskaði ekki fyrr en við klukkuna í morgun.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli