17. apr. 2011

Ballið á Bessastöðum og fleira

Sérstaklega skemmtileg helgi langt komin.  Laugardagsmorgun með venjubundnu amstri klikkar ekki og í þetta sinn stungum við af í brunch til ömmu og afa í Norðurbrún til að vera ekki fyrir snillingnum sem mætir reglulega heim og skilur allt eftir nýstrokið og ilmandi, mmmm lúxus.  Ekki verra að henda sér upp í Lazy-boy-inn eftir bita og detta út í klukkara eða svo.  Þá var komin tími á action fyrir krakkana og við skelltum okkur í sund í Ásvallalauginni í Hafnarfirði sem er í miklu uppáhaldi hjá okkur barnafólkinu.  Alltaf pínu skrítið samt að keyra 'landshlutanna' á milli til að komast í barnvæna laug þegar maður getur bókstaflega horft ofan í Laugardalslaugina heiman frá sér.  Stendur víst til bóta skv. fréttum.  Hefðbundið kósýkvöld hjá okkur mínus Gabríel sem fékk að horfa á El Classico hjá vini sínum.  Við hin horfðum á nýjustu Harry Potter myndina og gæddum okkur á laugardags gúmmelaði.

Sunnudagshlaupatúrinn gekk vonum framar, bumban er greinilega að færast upp og ég kemst lengra og lengra milli stoppa ;)   Leið alveg ljómandi vel og skilaði rúmúm 10 km í fínu vor veðri en var reyndar ekki fyrr komin inn en hann snérist aftur í vetur með roki og snjókomu, ohh well...   Við mamma fórum svo í Body Balance tíma í Hreyfingu eftir morgunhlaupið, tókum allan pakkann í dag og enduðum í heita pottinum á eftir, svo notalegt.  Var ég búin að segja hvað ég er stolt af því að eiga mömmu sem er 75 ár (í júní :) og er til í að prófa hvað sem er, lætur ekkert stoppa sig!

Við Lilja fórum svo í stelpu leikhúsferð og sáum Ballið á Bessastöðum í Þjóðleikhúsinu.  Mér fannst leikararnir standa sig vel og leiksviðið flott.  Við skemmtum okkur vel en ég varð fyrir smá vonbrigðum með söguna, ég er nefnilega mikið Gerðar Kristnýjar 'fan' og mér fannst ekki alveg nógu mikið kjöt á beinunum ef svo má að orði komast.  Maður áttar sig líka á hvað klassísku ævintýrin eru mikil snilld, Dýrin í Hálsaskógi, Lína Langsokkur o.s.frv. sem halda athygli allan tímann, engin tilviljun að þau séu klassísk.  Lokasenan var hápunkturinn og flott að enda á aðal laginu sem allir þekkja, Ballinu á Bessastöðum, Lilja missti sig í söng og dansi.

Með pósurnar á hreinu

Rólegheit framundan, ætla að sjá hvort ég nái barasta ekki að komast langleiðina með peysuna sem ég er að prjóna á bóndann.  Er komin upp að öxlum, ekki langt í land núna, yeehawww...  Eins og ég er búin að vera lengi að koma mér að verki.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli