29. sep. 2010

Uppskrift af góðu skapi :)

7 km upphitun í rigningu og roki með flottu fólki (að innan sem utan :).

400 m sprettur á harðakani.

50 öklahopp (ímynda sér að maður sé Masaíi).
10 Burpees í grasinu og fatta að maður setti hendina ofan í einn blautan gæsaskít og annar er rétt fyrir neðan nefið á manni.
30 uppsetur, já þá leggst maður á bakið í rennandi blautt grasið með öllum gæsaskítnum.
Hlaupa út í runna og pissa.
30 hnébeygjur á meðan hinir klára að hoppa á einni löpp 20 m fram og til baka (bakið stoppar mig í því).

400 m sprettur á harðakani og reyna núna að halda í við strákana.

30 hnébeygjur með annan fótinn upp á bekk.
Aftur í grasið og gæsaskítinn, liggja á maganum eins og selur og gera bakfettur 15 á hvorri hlið.
Yfir á hliðina og 30 hliðar uppsetur á hvoru megin.
15 dýfur á bekknum.
30 framstig

Beinustu leið í 800 m sprett, tvisvar sinnum skemmtilegra en 400 metrarnir...

Byrja svo upp á nýtt og taka aðra umferð í þrekið og sprettum.
Skakklappast svo í gegnum Laugardalinn í skýfalli, ennþá með öllu fallega fólkinu.
Kveðja félagana, beygja heim á leið með bónda sínum.
Teygja vel á tröppunum og rífa sig úr gegnblautum gæsaskítslyktandi hlaupagallanum fram á gangi og vona að nágrannarnir séu ekkert á ferðinni.
Læðast inn þar sem mamma manns og krakkarnir taka á móti manni með knúsum og kossum.
Litla skvísan manns borar nefinu á sér inní naflann á manni og segir 'Ég elska ískalda bumbu mamma'.

Þá er allt gott í heiminum, getur ekki klikkað!

2 ummæli: