6. sep. 2010

Þöggun

Ég er búin að hugsa heilmikið um orðið 'þöggun' síðustu vikur.  Þöggun er í rauninni tól sem er notað til að halda upplýsingum eða skoðunum annarra í skefjum, ef þær henta ekki viðkomandi.  Þetta er alþekkt fyrirbæri í öllum illvirkum hópum og samfélögum.

Ég persónulega upplifði mjög ung það 'ofbeldi' sem þöggunin felur í sér, enda er ég alin upp á heimili þar sem alkohólismi og tilheyrandi meðvirkni réði ríkjum.  Í þeim aðstæðum lærir maður fljótt hvað má tala um og hvað ekki.  Ég fékk sem betur fer tækifæri til að komast út úr mínum vítahring og nýtti mér það, já bara ansi vel myndi ég segja.  Ég held að ég sé alveg ferlega lítið meðvirk í dag, sumir myndu segja 'óþægilega' lítið.

Í dag prísa ég mig sæla að hafa fengið þessa mikilvægu reynslu, sem felst í að lifa við illvirkni og að komast frá því, sterkari fyrir vikið.  Hafi maður einu sinni gert það, þá er miklu auðveldara að koma auga á og bregðast við sambærilegum aðstæðum sem, óhjákvæmilega koma upp í lífinu, með reglulegu millibili.

Það eru ýmsar leiðir og tól til að framfylgja þögguninni.  Ég er aðeins búin að skoða hvaða leiðir eru notaðar til að þagga niður í óþægilegum einstaklingum, hér og þar í samfélaginu og það er ansi fróðlegt.  Meira síðar...

1 ummæli:

  1. Elfa D. Þórðard.6. september 2010 kl. 21:32

    Þöggun er ekki góð. Hún hefur fengið að grassera síðustu árin í íslensku samfélagi, í viðskiptalífinu og ekki síst í stjórnmálaheiminum. Skoðanaskipti verður að umbera þrátt fyrir það að maður sé ekki alltaf sammála þeim, eða sáttur við annara skoðanir eða pælingar. Mér þykja þau skemmtileg...sem betur fer.

    SvaraEyða