7. mar. 2010

Mín prívat kreppa

Á fimmtudaginn voru kaflaskil í mínu lífi.

Ég var rétt svo farin að feta mig á beinu brautinni, eftir að hafa verið með allt niður um mig í fleiri ár.  Eitt af því sem fór alveg í vaskinn hjá mér voru fjármálin og hluti af því að snúa við blaðinu var að borga upp yfirdrátt og kredikortaskuldir, fyrir utan afborganir af lítilli  íbúð sem ég átti.

Greiðsluplanið sem ég grenjaði út (í orðsins fyllstu...) í bankanum hljóðaði uppá 63 þúsund krónur á mánuði.  Það var svo sem raunhæft þegar það var gert en korteri seinna var ég ground-uð ófrísk flugfreyja með rúmar 90 þúsund krónur í laun.  Þegar hann Gabríel kom svo í heiminn tóku við mæðralaun sem á þeim tíma voru 68 þúsund á mánuði.  Þetta var svo sem ekkert drama þannig, borðaði bara mikið af núðlum og átti nóga mjólk fyrir guttann.  

Svo var ákveðið á húsfundi að fara í framkvæmdir.  Minn hluti af kostnaðinum var 300 þúsund.     Íbúunum var boðið að taka lán fyrir framkvæmda kostnaði og ég þurfti að taka mitt lán til 15 ára til að ráða við afborganirnar.  300 þúsund til 15 ára!

Ég veit ekki alveg af hverju ég hef ekki borgað upp þetta lán fyrr, fann svo sem aldrei fyrir þessum tvö, þrjú þúsund kalli á mánuði.  Svo minnti þetta lán mig líka á, að setja mig aldrei í þessa stöðu aftur.   Enginn yfirdráttur, engar kortaskuldir.  Smá nostalgía að halda í það, til að gera sér grein fyrir hversu gott maður hefur það.  

Núna á fimmtudaginn, ca. 11 árum síðar, borgaði ég eftirstöðvarnar af láninu, rétt rúmar 127 þúsund krónur.  Mér fannst það einhvern veginn passa að gera það núna.  Þetta lán er örugglega ein ástæðan fyrir því að það er engin kreppa hjá mér.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli