24. maí 2013

Mæðgnaferð til Munchen

Systir mín missti sig í símann við mig.  Ætlarðu hvað?   Er ekki í lagi með þig?   (n.b. með ást og umhyggjutón)

Já, ég átti sem sagt flug til Munchen rétt um miðnætti á fimmtudagskvöldinu og var að segja systur minni að við hjónin ætluðum að skottast í Fjölnishlaupið kl. 20 og bruna svo beinustu leið heim um leið og við værum búin að hlaupa, því mamma myndi sækja mig hálf tíu til að fara út á völl.

Við fengum heljarinnar harðsperrur eftir Haukahlaupið á mánudaginn og tókum bara stöðuna eftir því sem dagarnir liðu og ákváðum rétt áður en forskráningu lauk að vera með í Fjölnishlaupinu.  Það rættist úr veðrinu eftir sem leið á daginn og ég var búin að undirbúa brottför áður en við skottuðumst af stað.  Brautin er með þeim meira krefjandi, fyrstu 5 km að mestu niður í mót og flatt, seinni 5 km að mestu upp i mót í staðinn og brattasta brekkan á síðasta km.  Ég var harðákveðin í að hlaupa bara mitt eigið hlaup og láta samkeppnina ekki trufla mig eða rugla mig í ríminu.  Var yfirveguð niður brekkurnar og eftir fyrstu 2 -3 km fann ég mér gaur til að elta, hann hélt góðum takti og við hjalpuðumst af við að halda uppi hraðanum það sem eftir var halupsins.  Var létt á mér og frísk fram að snúning, sá alltaf í Helgu Guðnýju sem hafði forystuna frá upphafi en það var mjög stutt í næstu konur á eftir mér svo það var ekkert svigrúm til að slaka á...

Næstu 3 km liðu nokkuð hratt en svo fór aðeins að draga af gömlu, fann fyrir þreytunni í lærunum og nú var tími til að bíta á jaxlinn, hysja upp um sig og klára dæmið.  Pjakk, pjakk upp brekkurnar, ég og nýi hlaupafélaginn skiptumst á að draga hvort annað áfram.  Síðasta brekkan var mér hrikalega erfið og endaspretturinn var vægast sagt lítið þokkafullur.   Sjaldan verið eins glöð að krossa marklínuna, alveg búin á því eftir þessa keppnistörn og svo tilbúin í langa og góða hvíld, dæs...

Eva, Helga Guðný og Ósk.

Þórólfur, Ingvar og Róbert.

Fjölnismenn flýttu verðlaunaafhendingunni til þess að við hjónin gætum tekið þátt og að henni lokinni hlupum við út í bíl, brunuðum heim og ég var rétt komin úr sturtu og í fötin þegar mamma bankaði uppá.  Allt gekk eins og í sögu hjá okkur mömmu á ferðalaginu og Ásta og Mummi tóku á móti okkur með bros á vör út á flugvelli.  

Tvær tilbúnar í húsmæðraorlof :)


Móttökurnar í Munchen eru eins og á 5 stjörnu hóteli, þetta verður eitthvað...

Engin ummæli:

Skrifa ummæli