13. maí 2013

Það tók sig upp gamalt blogg...

Það er rúmlega hálft ár síðan ég fann út að nú var komið nóg.  Ég þurfti allan minn tíma til að koma mér í gegnum erfitt tímabil.  Nú er ég komin í gegnum það, sprell-lifandi og hoppandi glöð og þá fór mig að klæja í lyklaborðið aftur.

Helstu hindranirnar sem ég þurfi að tækla á síðasta ársfjórðungi 2012:
  • Lilja byrjaði í grunnskóla, ári fyrr en planað var.
  • Sonja byrjaði hjá dagmömmu.
  • Við seldum tvær íbúðir og keyptum okkur hús.
  • Ég mætti fyrsta daginn (í sparifötunum :) í vinnuna eftir 14 mánaða barneignarfrí og fékk starfslokasamning að launum.
  • Ég fór í gegnum atvinnuleitenda ferlið og ákvað að ráða mig tímabundið til Össurar í stöðu Master Data Manager.
  • Þórólfur skipti um vinnu og fór til Icelandair.
  • Við fórum í stórframkvæmdir í nýja húsinu okkar.
  • Nóvember kom með flutningum og öllu því tilheyrandi.
  • Hlaupin voru sett á hakann eins og bloggið.
  • Ég missti keppnisgleðina mína, þyngdist og datt úr hlaupaformi.
Ó hvað ég var þreytt.  Svo úrvinda af þreytu.  Þreyttari en allt sem þreytt er.  Mig dreymdi um að læðast upp á milliloftið í nýja bílskúrnum okkar með dýnu og sæng, fela mig og sofa í nokkrar vikur.  Þreytt á morgnana, þreytt á kvöldin, þreytt um miðjan dag.    

Um áramótin tókum við hjónin ákvörðun um að koma okkur aftur í form og fórum að mæta á æfingarnar okkar. En það var ekki auðvelt.  Þórólfur var heilmikið í útlöndum vegna sinnar vinnu, ég var að kljást við mjög erfið verkefni í minni vinnu og það tekur bara á að koma sér aftur í form, bæði andlega og líkamlega.  

Fyrstu vikurnar og mánuðina var eins og ekkert væri að gerast.  Alltaf jafn erfitt að koma sér af stað, erfitt að halda í við hina í upphituninni og hvað þá í sprettunum.  Mér fannst ég vera þung, hæg og framfarirnar litlar.  En ég hef gert þetta áður.  Ég veit að með þolinmæði og því að halda sér við efnið kemst ég þangað sem ég ætla mér.  Þá var bara að ríghalda í þá hugsun.

Allar afsakanirnar sem klingdu í kollinum:   Er þetta ekki bara komið gott?  Þú ert búin að gera þitt?  Þarftu endilega alltaf að vera keppnis?  Hvað ertu að reyna að sanna? Ertu ekki bara fín smá búttuð?  Er ekki miklu betra að vera heima hjá börnunum?  Ég finn aldrei neitt í nýja elhúsinu, nema eitthvað drasl...  Það er fullt af fólki sem borðar óhollari mat en ég...   Hvar er blandarinn?  Kökur á hverjum degi í vinnunni...  Hinir eru að fá sér?  Ég er bara eins og asni hérna með epli...  Ef einn í viðbót segir við mig 'Þú mátt nú alveg við þessu...'.  Ég verð pottþétt svöng seinna í dag ef ég borða þetta ekki núna...  Ég er samt miklu duglegri að hreyfa mig en hinir...  Ég passa ennþá í flest fötin mín...  Þetta voru ekkert svo flottar buxur hvort sem er...  Veistu hver ég var?   STOPP! 

Í lok mars fann ég allt í einu að eitthvað var að gerast.  Ég fór í síðasta Flandrasprettinn og í þetta sinn var ég létt á mér og sterk.  Hljóp rúmlega mínútu hraðar en í mánuðinum á undan, en engin kvöl og pína, bara sigurtilfinning og þá skipti engu máli þó ég væri langt frá mínu besta. Nú þekkti ég mig aftur!

Ég hef nokkrum sinnum þurft að koma mér í form aftur, þ.e. eftir að ég snéri við blaðinu hjá mér fyrir 11 árum, t.d. eftir meðgöngur og meiðsl. Það hefur aldrei reynst mér erfitt, ég hef alltaf verið æst í að komast af stað og ekki þurft aðra hvatningu en þá sem býr innra með mér.  Fyrr en núna.   

Í þetta sinn þurfti ég á hjálp að halda og án þess að þurfa að biðja um hana, fékk ég nákvæmlega það sem ég þurfti.  Fyrst og fremst hjá mínum allra nánustu en þar fyrir utan hjálpaði mér ótrúlega mikið að hafa hann Jóa frænda minn sem æfingafélaga, hann Stefán Gíslason til að hvetja mig áfram með óbilandi trú á gömlu og svo bara óteljandi gamla vini, félaga og jafnvel bláókunnuga sem gáfu sér tíma til að segja eitthvað fallegt við mig akkúrat þegar ég þurfti á því að halda.

Já og ætli þar sé ekki komin ástæðan fyrir endurkomunni hér.  Mig sárvantar stað til að þakka reglulega fyrir mig!


Hér er mynd úr fyrsta hlaupinu sem ég tók þátt í, Kvennahlaupið á Selfossi 2002.  Ég var önnur kona í mark og hafði aldrei upplifað annað eins 'high' á ævinni!


2 ummæli:

  1. Elska þig - gott að fá þig aftur hingað, þó ekkert jafnist á við þig í raunheimum, t.d. chill í sólstofunni þinni eftir góða æfingu ;-)

    SvaraEyða