14. maí 2013

Flóahlaupið 2013

Þar sem bloggið mitt hefur hálfpartinn verið dagbókin mín og ég nota það oft til að rifja upp gömul hlaup þá ætla ég að pota inn hlaupasögum síðustu vikna svona inn á milli þangaði til ég næ í skottið á mér.

Fyrir mig þá er Flóahlaupið vorboðinn ljúfi.  Flóahlaup UMF Samhygðar í Gaulverjabæjarhreppi var haldið í 35. skipti í ár og þetta er eitt af þessum hlaupum sem manni þykir sérstaklega vænt um.  Allir sem koma að hlaupinu gera það af alúð og eftir hlaup er boðið í stórkostlega kökuveislu en allar konurnar í sveitinni baka á hlaðborðið og að lokum er glæsileg verðlaunaafhending. 

Ég á margar góðar minningar úr hlaupinu.  Yfirleitt hefur maður reyndar þurft að berjast við rokið seinni hlutann og þá eru síðustu km svakalega drjúgir.  Eitt árið háði ég blóðugt einvígi við hann Börk vin minn, þá kölluðum við það Flóabardagann.  Hann hafði betur í það sinnið.  Af því að brautin er marflöt þá er svakalega freistandi að reyna að bæta tímann sinn en það er nú sennilega raunhæfara að gera sitt besta og taka stöðuna fyrir sumarið.  Hér áður fyrr voru farandsverðlaunin fyrir konur þau flottustu á landinu, Þórshamarinn, en því miður er búið að leggja hann til hvílu og í staðinn er komin hefðbundinn bikar.  Það finnst mér synd. 

Í fyrra hljóp ég þetta hlaup með honum Gumma félaga mínum.  Hann tók það sem tempó æfingu fyrir maraþon og ég reyndi að hanga í honum eins og ég gat.  Sprakk eftir góða 7 km (á 4:00 pace) og kom í mark á 40:58, alveg búin á því.  

Í ár fór ég með Jóa frænda og nú voru væntingarnar mjög hófstilltar, bara að rúlla af stað og sjá hvað myndi gerast.   Stuttu eftir að við lögðum af stað fann ég mér 'pacer' sem hentaði og nelgdi mig á hælana á honum.  Í ár var vindáttin akkúrat öfugt við það sem hún er venjulega og við tókum rokið í upphafi.  Það hentar mér miklu betur (og sennilega öllum :) og við rúlluðum þetta í góðum takti, ég og nýi hlaupafélaginn.  Þegar u.þ.b. km var eftir, þakkaði ég pent fyrir fylgdina og bætti aðeins í.  Var létt á mér og sterk og kom í mark alveg alsæl með þetta allt saman.  Ég leit aldrei á klukkuna í hlaupinu og var ekki lítið hissa og glöð þegar ég sá tímann minn, 41:04, bara 6 sek frá tímanum í fyrra en þá taldi ég mig vera í þrusu formi...

Ég var 6. í heildina og fyrsta konan í 10 km, rétt á undan nýja hlaupafélaganum Wieslaw, en ég komst að því eftir hlaup að hann er að æfa með Frískum Flóamönnum.  Ég vissi það ekki þá en hann átti eftir að koma við sögu hjá mér í Vorþoninu, meira um það síðar.   Jói frændi sigraði 5 km hlaupið og það er ekki orðum aukið að fólkið okkar hafi verið ánægt með okkur.  Á einhvern óskiljanlegan hátt tókst mér að eyða út öllum myndunum af símanum mínum sem ég tók frá hlaupinu, nema þessari af því hún var komin á Instagram.

Í fyrra meiddist ég tveim dögum eftir Flóahlaupið af bölvuðum kjánaskap og var úti í 6 vikur fyrir vikið, ekkert svoleiðis í boði núna :)

Ég og Kári.


  


Engin ummæli:

Skrifa ummæli