7. mar. 2011

Blóðugur sunnudagur...

Ég hefði ekki átt að minnast á slysó!  Í gær fékk Gabríel blóðnasir, sem er svo sem ekkert óvenjulegt þannig.  Venjulega höndlar hann það bara sjálfur, stoppar rennslið og treður bómull í nefið á sér, ekkert stórmál.  En í gær var þetta ekkert venjulegt.  Gabríel hleypur inn á bað og svo heyri ég allt í einu angistaróp.  Þegar ég kom að honum stóðu gusurnar út úr báðum nösum, blóð á speglinum, veggnum og vaskurinn allur útataður!  Ég náði góðu taki á nebbanum og stoppaði bunurnar og prófaði að sleppa aðeins eftir 5 mínútur og þá var það sama sagan, ekkert lát á blæðingunni.  Aðrar tíu mínútur stóðum við hlið við hlið, ég haldandi þéttingsfast um nefið og sleppti svo pínu til að tékka... Gusan út í loftið.

Bað Þórólf um að hringja í 112 og fá einhver ráð, spjallaði aðeins við þá og það var tekin ákvörðun um að senda hjálp á staðinn.  Sjúkrabíllinn kom 10 mínútum síðar, ég komin með massaðan hægri handlegg og ekkert lát á blæðingunni.  Þeir reyndu aðeins að kæla og leystu mig af en allt kom fyrir ekki og þá var eina ráðið að fara á slysó og fá hjálp þar.

Sem betur fer var afi Þór í heimsókn og hann passaði Lilju meðan við drösluðum guttanum á slysó.  Þar var vel tekið á móti okkur og við þurftum ekki að bíða lengi.  Ungur og myndarlegur læknir kallaði í okkur og mér fannst ég kannast við hann en áttaði mig ekki á hvaðan.  Upp á háls-, nef- og eyrna og þar skoðaði hann í krók og kring og tók ákvörðun um að brenna fyrir.  Allt í einu fattaði ég hvaðan ég þekkti kauða og fékk smá svona omg hvað ég er orðin gömul tilfinningu.  Þetta var sem sagt sonur kunningjakonu minna en foreldrar okkar eru vinahjón, sá hann síðast með hor í nös á Þorláksmessu fyrir nokkrum árum :)

En alla vega guttinn kom stálsleginn og viðbrenndur heim aftur, fegin að ævintýri dagsins lauk svona farssællega!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli