4. jún. 2012

Lýsi, himneskur hafragrautur og ein og hálf Esja í morgunmat

Þvílík veðurblíða sem við njótum.  Maður nær að njóta þess enn betur þegar þetta eru svona margir dagar í röð.  En til þess að leggja grunn að góðum degi og hafa orku í að gera allt það skemmtilega sem manni langar til að gera, þá mæli ég með lýsi, himneskum hafragraut og einni og hálfri Esju í morgunmat!

Er með smá Ragnar Reykás syndrome.  Eftir að hafa ákveðið að vera fókuseruð á eitt markmið í hlaupunum, þ.e. að hlaupa 10 km á undir 40 mínútum, þá er ég aðeins farin að efast um að það sé það rétta fyrir mig.  Í síðustu viku var ég á leiðinni upp í Heiðmörk þegar ég stóðst ekki mátið og fór í staðinn upp á Esju.  Ástæðan fyrir því að ég hef ekki farið fyrr, er að maður fær 5 daga harðsperrur eftir fyrstu Esjuna að vori, ekkert við því að gera og það var einhvern veginn aldrei rétti tíminn í það.  En alla vega, stóðst ekki mátið, ákvað að GANGA upp og niður, klára málið og taka út mínar harðsperrur.  Þvílík gleði að komast upp á fjöll og á stígana.  Ég er líka undanfarið búin að hlaupa heilmikið í Hólmanum og Heiðmörkinni, elska að hlaupa svona út í móa.  Og þá fer maður að spá... á ég að fókusera eingöngu á sub 40 í götuhlaupi á malbiki, jafnvel á kostnað þess sem mér finnst skemmtilegra, af því bara?  Eða eru meiri líkur á að ég nái sub 40 markmiðinu mínu ef ég er að gera fullt af öðrum skemmtilegum hlutum líka og það verði meiri svona bónus þegar þar að kemur.  Svei mér þá :)

Alla vega þá skráði ég mig í Mt. Esja Ultra Trail hlaupið og ætla að fara tvær ferðir þvert ofan í öll sub 40 plön, thí hí.  Fór smá generalprufu í gær morgun, hljóp fyrstu Esjuna mína í nokkur ár og tók svo hálfa í viðbót til að æfa mig aðeins betur í niðurhlaupinu.  Hrikalega gaman, sé að ég ræð vel við tvær Esjur og nú hlakka ég bara til.

Við tókum líka þátt í Sjómannadagshátíðarhöldunum niðrí bæ í gær.  Lilja var að missa sig af spenningi, búin að lesa dagskránna fram og til baka og rétt áður en við lögðum í hann skaust hún út í garð og kom til baka með fullt fangið af blómum.  'Ég ætla að gleðja leikarana og söngvarana og þakka fyrir mig.  Ég ætla sko að vera hugrökk og láta þau fá blómin, í alvöru mamma'.  (Hvaðan kemur þessi stelpa eiginlega :)

Eva appelsína með blómið sitt og Lilja fiðrildi.

Við sáum Sveppa og Villa sem voru alveg með eindæmum lélegir (fengu endin blóm frá minni... thíhí) og buðu krökkunum upp á þvílíkt metnaðarlausa drasl dagskrá að ég hef bara einu sinni eða tvisvar séð annað eins.  Í alvöru til háborinnar skammar.  En svo komu stelpurnar úr Söngvaborg og voru með flott atriði, Sóli spilaði á gítar og söng með krökkunum, fínt hjá honum og að lokum sáum við skemmtilegt atriði úr Ávaxtakörfunni.  Lilja fékk andlitsmálun og það var verið að gefa ís og kleinuhringi á svæðinu.  Ég hafði ekki hugmynd um hversu fínt hafnarsvæðið er orðið, snyrtilegt og fínt og nóg af litlum krúttlegum stöðum til að fá sér snarl.

Svipmyndir frá Sjómannadeginum.

Við Sonja áttum svo stefnumót við stelpurnar úr bankanum (mömmuhópinn) og krakkana í eftirmiðdaginn.  Frábært fyrir Sonju að komast í tæri við aðra krakka og mömmuna að komast í góðan félagsskap með tilheyrandi gúmmelaði hjá listakokki.  

Play date

Ja það er eins gott að leggja góðan grunn að svona viðburðarríkum dögum og þá er algjörlega nauðsynlegt að vera búin að fá sér góðan morgunmat og taka út hreyfingarpakkann til þess að maður njóti dagsins í botn. Hrundi inní rúm klukkan hálf tíu í gærkvöldi og rankaði ekki við mér fyrr en í morgun, svona á þetta vera!

p.s. Lilja og Þórólfur voru á forsíðu Moggans í dag!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli