12. jún. 2012

Glæný Eva

Það duga engin lýsingarorð yfir hversu vænt mér þykir um hana mömmu mína og það er langt síðan ég fór að hugsa um að mig langaði til að kenna mig við hana, eins og algengt er orðið í dag.  Mamma er norsk og heitir Gerd og Gerddóttir var einhvern veginn ekki alveg að virka en hún á líka ættarnafn sem okkur þykir vænt um.  Ég fékk sparkið í rassinn sem ég þurfti fyrir rúmri viku, hysjaði upp um mig, lagðist í rannsóknarvinnu og gekk í málið.

Í dag fékk ég staðfestingu í pósti frá Þjóðskránni.  Beiðni þín um nafnabreytingu hefur verið samþykkt:


Ég var skýrð í höfuðið á henni Evu frænku minni Skarpaas, systur mömmu, en við misstum hana fyrir mörgum árum úr krabbameini, þvílíkur harmdauði.  Mér þótti óendanlega vænt um hana Evu frænku, sem var alltaf kölluð Stor-Eva í fjölskyldunni eftir að ég fékk nafnið mitt og þá var ég að sjálfsögðu Lill-Eva.  Svona var það líka þó ég hafi fljótt orðið höfðinu hærri en hún, ég var Lill-Eva.  Enn þann dag í dag eiga ættingjar mínir í Norge til að kalla mig Lill-Eva.  Ég er staðráðin í að bera nafnið hennar Evu frænku minnar með sóma og ætli ég sé ekki fyrst tilbúin til þess núna.

Ég sérstaklega ánægð með nafna-afmælisdaginn minn, þann 12. júní,  því honum deili ég með vinkonu minni sem mér þykir líka óendanlega vænt um, já alveg út fyrir endimörk alheimsins skal ég segja ykkur <3

Dagurinn var góður að öllu leyti.  Ég byrjaði á að skottast upp Esjuna, sem er klárlega besta leiðin til að leggja grunn að góðum degi.  Á heimleiðinni kom ég við í Erninum og verslaði mér æðislegt fjallahjól sem ég á eftir að njóta bæði í frístundum og sem farartækis í vinnu og fleira.  Þegar ég kom heim fékk ég fleiri góðar fréttir, Gabríel er komin með fasta vinnu í að bera út Fréttablaðið í hverfinu okkar og við mæðgin tökum fyrstu vaktina saman í fyrramálið.  

Nýja hjólið mitt!


Nú sit ég hérna, með rauðvínstár í 'einari' og lífrænt 85% súkkulaði í 'hinari', börnin sofnuð og ég bíð þess að fá bónda minn heim úr sendiför með risakaktusinn okkar.  Þorðum ekki annað en að koma honum í fóstur hjá tengdapabba þangað til Sonja er komin með nógu mikið vit í kollinn til að láta hann eiga sig.  

Læfs gúdd?  
Újeee!



1 ummæli:

  1. Ó! Núna skil ég. Fékk svolítið kusk í augað, bara. Til hamingju með daginn okkar, elsku Eva Skarpaas!

    SvaraEyða