1. jún. 2012

Heilsuhlaupið 2012

Á miðvikudagskvöldið var ég með fyrirlestur í Húsnæði símenntunar í Borgarnesi.  Það var þvílík sumarblíða og notalegt að keyra í rólegheitunum upp eftir.  Fékk reyndar í magann í Mosfellsbænum en þá sá ég að hljólreiðarmaður hafði greinilega lent í umferðaróhappi, lögreglubílar og hjól í vegkantinum.  Sem betur fer fór það nú ekki eins illa og það leit út.  

Alveg hreint magnað hvað maður tekur mikið með sér sjálfur úr svona uppákomum.  Í undirbúningi fyrirlestra rifja ég upp það sem mig langar að koma frá mér, fer yfir glærur og læt þetta svona mjatlast í hausnum á mér í nokkra daga.  Það gerir það að verkum að maður fær einhvern veginn endurnýjaðan fókus á hvað skiptir máli og að lokum orkan sem maður upplifir á vel heppnuðum fyrirlestri fylgir manni í marga daga á eftir.  Ég kom heim upprifin og með nýjar áherslur í hinu og þessu.

Þessa jákvæðu orku var ég staðráðin í að taka með mér í Heilsuhlaupið í gærkvöldi.  Sama bongó blíðan og markmið dagsins að hlaupa á ca. 4:05 pace en aðallega að njóta dagsins.  Ég hélt vel aftur af mér í startinu og var 4. kona eftir fyrsta km.  Var samt töluvert hraðari en ég átti von á og fann að þetta væri dagur þar sem allt gengi upp, pollróleg og vissi að tíminn myndi vinna með mér.  Eftir ca. 3 km náði ég 3. og svo 2. konu nokkru síðar og á snúningspunkti var ég komin í hælana á fyrstu konu.  Við hlupum saman alla leiðina til baka, nánast öxl í öxl, fann að ég réð vel við hraðann og já, naut þess að hlaupa.   Ég er að lesa frábæra bók sem heitir Born to run og síðustu km notaði ég möntru sem vísar í hana, 'Tarahumara, Raramuri, njóttu dagsins, njóttu dagsins' og þannig rúllaði þetta eins og vel smurð vél.  Síðasta km sá ég að ég átti alla möguleika á að vinna hlaupið og þá var það ákveðið.  Hugsaði til hennar mömmu minnar, frænku minnar, vinkvenna minna og vina, sem hafa upplifað það að þurfa að takast á við einhvers konar krabbamein.  Þegar ca. 400 m voru í mark tók ég af skarið og kláraði á fínum endaspretti og tryggði mér sigur í hlaupinu.  Um leið og ég kom í mark rak ég upp skaðræðis gleðióp svo undirtók í hverfinu, thíhí.  Þessi sigur er einn af þeim dýrmætari fyrir mig, flottir Asics skór og drykkjarbrúsi í verðlaun og svo var nú ekki ónýtt að standa á pallinum með honum Kára Steini, tilvonandi Ólympíufara!

Tíminn minn var 41:19 en samkvæmt Garmin var brautin rúmlega 200 m of löng og meðalpace hjá mér var 4:02 sem gaf 40:36 eftir 10 km, en það myndi gera 2. besta tímann minn frá upphafi.  Einn af þessum dögum þar sem allt gengur upp og fullkomið 'zen' í gangi.  Nú taka við aðrar vegalengdir í bili, held að næsta 10 km hlaup sé ekki fyrr en í seinnipartinn í júní og það verður gaman að breyta aðeins til.

Kári Steinn og gamla.

Fyrstu konur í 10 km


Engin ummæli:

Skrifa ummæli