1. maí 2012

Sonja komin á skrið

Erum að detta inn í ótrúlega skemmtilegt tímabil hjá henni Sonju okkar.  Hún fór að sitja sjálf á Skírdag, þá stækkar heimurinn, miklu skemmtilegra að sitja á gólfnu og leika.  Á sunnudaginn fór hún að skríða.  Hrikalega gaman að fylgjast með krílinu rífa sig upp á hendurnar (fara í planka :) og reyna svo að átta sig á því hvernig best sé að nota fæturnar til að koma sér áfram.  Nú er hún orðin 'krakki' sem getur gert heilmikið sjálf  en er ekki lengur litla ungabarnið okkar.  Vei og sniff.


Þetta er líka tímabilið þar sem mamma er sjúklega fyndin, alveg sama hvað hún gerir :)


Af mér og hlaupunum er það að frétta að ég er læra aftur á líkamann og finna hvar mörkin mín liggja á milli þjálfunar sem byggir upp og brýtur niður.  Formið er orðið svo gott að það er erfitt að kunna sér hóf en það er galdurinn við að ná árangri á mínum aldri.  Ég er að komast í gegnum þetta leiðinda kvef en hefði sennilega átt að slaka aðeins meira á strax og það helltist yfir mig.  Ég hélt áfram að hlaupa og tók eina strembna æfingu og allt í góðu.  Fór svo einn daginn í LANGAN göngutúr, var svo sem ekki planið en við Sonja enduðum í tæplega 17 km...   Daginn eftir á hlaupaæfingu stífnaði ég aftur aðeins upp í lærinu, hef sennilega verið með harðsperrur eftir göngutúrinn (nota aðra vöðva í labbinu) og það var nóg til að ég þoldi ekki sprettina.  Hvíldi mig vel um helgina og í gær fór ég bara smá hring í hverfinu og hlustaði á gott Podcast á leiðinni, viðtal við einn besta Masters Runner (Öldunga hlaupari) í heimi og röð mistaka sem hann gerði þegar hann ætlaði að verja heimsmeistaratitilinn sinn.  Mjög áhugavert og gott að heyra að þeir allra bestu gera kjánaleg mistök líka og þurfa að bakka, taka tillit til aldurs og aðlaga sig.  Finn sem betur fer ekkert fyrir lærinu lengur en reynslunni ríkari ætla ég að gefa mér góðan tíma í að styrkja og jafna mig alveg.  Búin að skrá mig á HD Fitness námskeið en það er alveg eðal í að styrkja og teygja á öllum kroppnum.  Hlakka til að byrja!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli