25. apr. 2012

Kvefnef

Sonja reið á vaðið og náði sér í kvefpest, sennilega í sundferðinni á Sumardaginn fyrsta.  Á föstudagskvöld rauk hún upp með hita og var með hita um helgina.  Hún er ennþá með hornös en góða skapið komið á sinn stað, ekki það hún var ósköp góð litla skinnið.  Mamman fékk líka sinn skammt, þ.e. kvefið en ég er alveg hitalaus bara soldið drusluleg með hósta og hor.  Ég hef ekki orðið veik í meira en tvö ár og ég er ekkert að fara að breyta því, þetta telst ekki með :)

Kroppurinn er komin í toppstand, laus við alla sýru og óþægindi í læri.  Var að fá nýja skó frá styrktaraðilunum mínum í Sportís, líst mjög vel á þá og hlakka til að prófa almennilega.  Er ekki gefið að maður hlaupi hraðar á svona flottum skóm!

Jæja, nú er ég búin að prófa þá, fór á sprettæfingu í Laugardalnum og ég er mjög ánægð með þá, léttir, mjúkir og þægilegir.  

Við hjónin vorum að koma heim af fræðslukvöldi hjá Hlaupahópi FH en við vorum beðin um að halda smá erindi um næringu langhlaupara og hvernig við notum fæðubótarefni.  Mjög flott dagskrá hjá FH-ingum og frábær mæting, örugglega hundrað manns í salnum!  Fyrst var kynning á félagsstarfinu hjá þeim og atburðum framundan, næst var fyrirlestur næringarfræðings, svo komum við Þórólfur með okkar erindi og að lokum var kynning á hlaupagreiningum, sjúkraþjálfun og hlaupavörum frá Atlas.  Skemmtilegt kvöld og frábært að sjá þenna flotta stóra hóp af áhugasömum hlaupurum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli