17. júl. 2013

Það sem ég get gert

Ég var ótrúlega fljót að komast úr 'ég get ekki...' gírnum, í að einbeita mér að finna hluti sem ég get gert.   Ég get t.d. hjólað og það er frábært.  Ég verð betri með hverjum deginum og í morgun hjólaði ég rúma 20 km í góða veðrinu og naut þess að geta verið úti.  Ég skrapp svo niður í bæ eftir hádegi og fékk mér góðan latte og las slúður úti í sólinni.

Hjólatúr út á Ægissíðu.

Te og Kaffi@Eymundsson

Reyndar fór ég aðeins yfir strikið í gær en það var ekki alveg mér að kenna, thí hí.  Daginn eftir að ég brotnaði þá fór Þórólfur í Lyfju fyrir mig og keypti poka utan um gipsið til þess að ég geti farið í sturtu.  Ég fór að skoða pakkninguna og sá þá að þetta er hannað til að fara með í sund!   Þannig að í gær ákvað ég að láta vaða og prófa að fara í sund með blessaðan pokann.  Frænka mín frá Norge er í heimsókn með sína fjölskyldu og við fórum öll saman í Laugardalslaugina og þetta gekk svona svakalega vel, ég synti meira að segja 400 m og allt í góðu.  Rétt áður en ég fór upp úr var ég eitthvað að leika við Sonju og hún sparkaði í pokann, hann losnar aðeins frá löppinni og úbbs... ég rennandi blaut...

Ég hringdi upp á bæklunardeild á leiðinni heim úr sundinu.  'Ehhh.. sko ég var í sturtu og það blotnaði óvart hjá mér gipsið, er eitthvað hægt að gera.. ?'.  'Þú verður að koma og fá nýtt, annars myglar þetta bara'.  Á leiðinni upp á Slysó þá ákvað ég að 'come clean', ég angaði hvort eð er af klórlykt og það skvampaði +o gipsinu, ekkert nokkrir dropar.   'Hvað geriðst?'.  'Þarf ég að segja það?' með skömmustusvip.  'Nei, nei ekkert frekar.'.  Og svo sagði ég alla sólarsöguna, eins og fimm ára með skömmustusvip en samt hálf hlægjandi.   Stelpunum fannst þetta hrikalega fyndið og ein spurði mig af hverju ég hefði fengið fjólublátt gips, 'Það eru bara börn og þroskaheftir sem fá lituðu gipsin...'.  Ég sagðist klárlega tilheyra seinni hópnum og snúllurnar leyfðu mér að fá fjólublátt aftur, hjúkkit.  'En við viljum ekki sjá þig aftur hérna fyrr en þú átt að koma aftur!'  Þannig að ég held að ég verði að láta allar sundtilraunir bíða í bili, eins og þetta var gaman.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli