27. jún. 2010

Bláskógaskokk og framtíðin

Tók ekki ákvörðun fyrr en seinni partinn á föstudaginn um að fara með bónda mínum í Bláskógaskokkið.  Ég hafði nefnilega fundið svo mikið til í annarri löppinni eftir sprauturnar, svona eins og ég væri með skurð í hnésbótinni.  Endaði með því að ég reif af mér allar umbúðirirnar og þá kom í ljós að þetta var bara plásturinn sem var að meiða mig svona, ekkert annað.  Setti AD krem á og málið var dautt og... ekkert því til fyrirstöðu að hlaupa :)

Það hefur alltaf hist þannig á að eitthvað hefur komið í veg fyrir að við tökum þátt, þannig að við vorum voða spennt að fá að hlaupa þessa fallegu leið, í svona líka fínu veðri.  Ég er orðin vel heimavön á þessum slóðum eftir allar hjólakeppnirnar mínar.  Rétt fyrir hlaupið náði ég tali af æfingafélaga mínum sem er læknir og spurði hann meira út í Carpal Tunnel Syndrome. Hann skoðaði á mér höndina, sem n.b. er ennþá í algjöru lamasessi.  Hann fræddi mig á því að við erum ekki að tala um daga í bata, heldur vikur.  Ég þarf að fylgjast vel með þessu og passa mig, í versta falli þarf að skera við þessu og losa þannig um þrýsinginn á Median tauginni sem orsakar þetta máttleysi.

Jaháhhh... hugsaði ég með mér, þá þarf ég sennilega að skipta yfir í plan A aftur, þ.e. að leggja áherslu á að ná mér í topp hlaupaform, en ég hafði í vor skipt yfir í plan B, sem var að leggja áherslu á þríþrautina. Það sem ég finn að gerist þegar ég er með hugann við þríþraut er að maður er einhvern veginn alltaf að spara sig pínulítið í því sem maður er að gera þá stundina til að eiga inni fyrir næstu æfingu í einhverju öðru...  Og þetta gerist líka í keppnum.  Í hlaupunum hef ég ekki fundið fyrir hungrinu í að bæta mig eða gefa allt í þetta, alltaf með hugann við næstu æfingu sem er handan við hornið og enginn tími í recovery...

En aftur að hlaupinu.  Það voru hörku góðar hlaupakonur með og nú breyttist planið hjá mér frá því að ætla að dóla þetta huggulega, í að sjá hversu vel ég gæti hlaupið.  Eftir nokkra km vorum við 4 konur í fremsta hóp, sem fljótlega skiptist í tvær og tvær, ég var í seinna hollinu.  Mín strategía var einföld, reyna að hanga í 3. konu eins lengi og ég mögulega gæti og ná þannig topp æfingu út úr þessu.  Það gekk vonum framar og þegar leið á hlaupið sá ég að þó ég þyrfti að hafa mig alla við á sléttum köflum og upp brekkurnar, þá átti ég auðveldara með að rúlla niður brekkurnar.  Þegar 3-4 km voru eftir þá lét ég vaða niður langa brekku og náði 100-150 m forskoti, sem ég náði að halda alla leið í mark.  Síðustu km voru frá 3:30 til 3:55 pace og ég fann í fyrsta skipti í langan tíma gömlu góðu keppnishörkuna mína.  Endaði sem sagt í 3. sæti á rúmri 1:11 (16,1 km), ca. 1 og 1/2 mín á eftir fyrstu konu (er ekki búin að sjá staðfest úrslit...)

Hér eru úrslitin!

Hlakka til að einbeita mér að fullum krafti að því að hlaupa hratt og nú er fókusinn aftur kominn á sub 40!  

2 ummæli:

  1. Til hamingju með hlaupið!

    Ánægð með að þú ætlir að hlusta á dokksa :) Svo er plan A ekkert verra en plan B, þannig að GO FOR IT! :)

    SvaraEyða
  2. Sub 40 hljómar vel. Þú nærð því fljótt eins og öðru sem þú einbeitir þér að Eva mín.

    SvaraEyða