9. apr. 2010

Tannlæknafóbía

Hérna áður fyrr þjáðist ég af heiftarlegri tannlæknafóbíu, sem átti sennilega rætur sínar að rekja til skólatannlæknis sem var ekkert sérstaklega mjúkhentur og fannst ekker gaman í vinnunni sinni.  Þegar barnaskólanum lauk fór ég til fjölskyldu tannlæknisins sem er einstakur öðlingur, en engu að síður gat ég látið mér kvíða óendanlega mikið fyrir hverjum tíma og bað um eins mikla deyfingu og hægt var.  Samt fann ég alltaf til.  Algjör martröð.

Það var svo fyrir svona 10 árum að ég las bók sem fjallaði um fóbíur og hvernig þær eru áunnar og síðan viðhaldið af mikilli natni af viðkomandi.  Fyrir mér er flugu eða köngulóafóbía alveg út í hróa, en í þessari bók voru þær settar í sama flokk og tannlæknafóbía.  Hmmm...

Ef fóbía er áunnin andsk... þá er það lógískt að hægt sé að losa sig við fóbíur.  Ég byrjaði markvisst að vinna í því að slaka á fyrir tannlækna heimsóknir, fara í skoðun reglulega og oftar en áður o.s.frv.  Ég steinhætti að tala um að ég hefði þessa fóbíu.   

Smátt og smátt hvarf hún líka.  Hljóðið í bornum sem boraði sig inn í heilann á manni svo maður var skjálfandi á beinunum, hætti að trufla mig en núna verð ég bara syfjuð þegar ég heyri svona borhljóð.   Fyrir nokkrum árum þegar það þurfti að skipta út gamalli og ónýtri fyllingu, þá spurði ég tannlækninn hvort við ættum ekki bara að sleppa deyfingunni og sjá til hvort ég fyndi nokkuð fyrir þessu.  Það gekk eins og í sögu.

Á mánudaginn fór ég í rótfyllingu í fyrsta sinn.  Engin deyfing.  Fann ekkert til. Mission accomplished.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli