27. apr. 2010

Hjarðhegðun

Mér fannst áhugavert að heyra um hjarðhegðun í Kastljósinu í kvöld.  Mér finnst nefnilega alveg magnað hvernig skoðanir fólks geta sveiflast til og frá eftir því sem vindar blása.  Engin sjálfstæð hugsun, enginn kjarkur.  Þá er ég samt ekki að meina að það sé manni ekki hollt að skipta um skoðun öðru hvoru.  Mér finnst svo gaman þegar einhver fær mig til þess, að vel íhuguðu máli og með góðum rökum.   

Sama fólk og vílar ekki fyrir sér að svíkja undan skatti ef það getur, verður fjólublátt í framan af reiði vegna þess að einhver annar þáði óhóflega háan styrk.  Eitthvað segir mér að sá sem svíkur undan skatti, já t.d. með því að gefa ekki upp leigutekjur (ólöglegt), myndi vera fljótur að stinga feitum styrk (löglegt) í rassvasann, fengi hann tækifæri til þess, sama hvaðan hann kæmi.

Ég sá spennuþátt um daginn.  Plottið gekk út á það að ung kona komst yfir lottómiða sem hún átti ekki og á var risavinningur.   Þeir sem stóðu henni næst, vinir hennar og kærasti, vissu hvernig hún hafði komist yfir miðann en hvöttu hana engu að síður til að taka á móti vinningnum.  Jú, reglum samkvæmt þá var hún vinningshafinn þangað til annað kom í ljós.  Að sjálfsögðu endaði þetta allt saman með ósköpum.  Alveg sama hvað þú reynir að réttlæta svona hegðun, það gengur bara ekki.  Ekki til lengdar.

Ég hef sjálf upplifað að vera í hópi fólks sem reyndi að sannfæra mig um að, jú það væri í lagi og ekki bara í lagi, heldur sjálfsagt að taka á móti verðlaunum sem þú hefur ekki unnið til, svo lengi sem þú kemst upp með það.  En hvað með rétt og rangt?  Það skiptir ekki máli.  

Ég held að ekkert sé manni hollara en að komast burt úr hjörðinni, hvort sem maður er rekinn eða forðar sér sjálfur.  Fáir eru nefnilega svo gegnheilir að þeir séu algerlega ónæmir fyrir hjarðhegðuninni.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli