16. sep. 2014

Fokið í flest... Húsaskjól!

Það er fátt sem mér finnst eins andstyggilegt og þegar níðst er á minni máttar.  Mér hitnar, það bullar í maganum á mér og krullast upp á augnhárin.  Ef ég upplifi að það sé gróflega brotið á réttlætiskennd minni, þá er ég til í að elta fimm'kall til helvítis, bara upp á prinsippið.  Nokkra slagina hef ég tekið í gegnum tíðina, þetta er eins og með hlaupin, því erfiðari, því betra og því þrjóskari verð ég.

Foreldrar mínir hafa búið í sama húsinu í 47 ár, frá því að pabbi byggði það.  Í fyrra var komin tími til að minnka við sig og selja Norðurbrúnina og þið getið ímyndað ykkur hversu stórt mál það er fyrir gamalt fólk.  Við hjónin vorum tiltölulega nýbúin að standa í fasteignaviðskiptum og þegar til okkar var leitað, hvaða fasteignasölu skyldi velja, bentum við á þá sem sáu um okkar fasteignamál

Átta mánuðum síðar og eftir tvær misheppnaðar sölur ákváðu gömlu hjónin (78 og 82 ára) að segja upp samningi um einkasölu og færa sig yfir á aðra fasteignasölu.  Á þessum átta mánuðum upplifðu þau vægast sagt undarlegt viðmót trekk í trekk frá starfsmönnum fasteignasölunnar.  Þær voru duglegar við að láta þeim líða eins og þau væru pirrandi, gömul og algjörlega gagnslaus.  'Þið eruð nú svo fullorðin, þið munið þetta ekki rétt...', 'Einar, ég er að vinna í pappírum núna...!'.  Fasteignasalan verðmat húsið á 67,5 milljónir í upphafi, foreldrar mínir höfðu enga skoðun á verðmatinu.  Eftir mánuð og engan áhuga á eigninni á þessu verði bað pabbi um að verðið yrði lækkað um 5 milljónir.  'Já, nú erum við á sömu blaðsíðu...' var svarað glaðhlakkalega.  Ha?   Nokkru seinna ákváðu forldrar mínir að lækka enn verðið eftir að hafa ráðfært sig við fleiri.

Tveim vikum eftir að þau tóku húsið úr einkasölu hjá Húsaskjóli og færðu sig yfir á Eignamiðlun, sem tók einu prósenti lægri sölulaun (þar munar ca. 550.000,- á svona eign) og þeir rukka reyndar 10.000 í gagnaöflun en ekki 39.000... var húsið selt og allt frágengið.  Gömlu alsæl og skelltu sér í frí til Norge.  Mamma keypti meira að segja nýjan iPad í ferðinni!  Þegar heim var komið beið þeirra reikningur frá gömlu fasteignasölunni og jú þau höfðu vissulega gert sér grein fyrir að það kostaði töluvert að hafa tekið húsið úr einkasölu (já, já þó það hafi ekki selst...).  Meðfylgjandi var skýringarbréf og svona leit reikningurinn út:

Það er hægt að smella á allar myndirnar til að stækka þær.
Þau komu heldur hnýpin til mín á sunnudagskvöldið og fannst nokkuð súrt að borga 227.155,- krónur fyrir 'ekki sölu' á húsinu sínu.   Og þá byrjaði að bubbla í minni...   Ég hafði haldið í hendina á þeim í gegnum allt ferlið og ég mundi eftir einni lítilli auglýsingu í blaði á þessum mánuðum, 112.000 fyrir utan vsk!!!  Ég bannaði pabba að borga þetta, tók reikninginn og bað þau að gefa mér nokkra daga til að skoða málið.

Og þá byrjuðu samskipti sem fara hér á eftir og tóku tæpan dag í það heila:

Það sem Ásdís er að tala um hér er að sá sem á endanum keypti húsið hafði áður gert tvö tilboð í eignina, annars vegar 51 milljón og hins vegar 54 milljónir.  Það var alveg skýrt af hálfu foreldra minna að þau vildu fá 55 milljónir fyrir húsið og þau höfnuðu þessum tilboðum og fasteignasalan lét þau vita að þessi aðili væri ekki tilbúin að fara hærra.  Já og þó þau hafi tekið eignina úr einkasölu þá var ekki þar með sagt að Húsaskjól mætti ekki selja eignina, þau hefðu verið alsæl með það.  Þriðja tilboðið frá þessum sama aðila var gert á nýju fasteignasölunni (hmmm í staðinn fyrir að fara í gegnum sama aðilann aftur, eitthvað sem þær stöllur ættu að skoða), hann hækkaði sig um hálfa milljón og þar sem gömlu greiddu 1% lægri sölulaun þar eða 545.000 krónum minna þá voru þau sátt og rúmlega það.  

Ég verð að viðurkenna að hér fauk í mig vegna þess að þegar ég var að hjálpa gömlu að losa sig út úr einkasölunni hringdi ég í Ásdísi Ósk og spurði hvernig þau ættu að bera sig að.  Hún sagði að það væri nóg að senda tölvupóst og uppsagnarfresturinn væri 30 dagar, gott og vel.  En svo sagði hún þetta við mig: 'Já það er nefnilega svo furðulegt að oft um leið og fólk tekur eignir úr einkasölu, þá er bara allt í einu eins og einhver kaupandi birstist upp úr þurru nokkrum dögum síðar... mjög spes...'.  Ég spurði hana hvað hún væri að meina og hún sagði að það gerðist ítrekað að fólk væri þá búið að finna kaupanda og vildi láta einhvern annan njóta sölulaunanna.  Ég sagði eins og var að það væri alls ekki raunin í þessu tilfelli en ég var með smá óbragð í munninum eftir samtalið og talaði um þetta síðar við annan starfsmann á fasteignasölunni.  Sá ekki neinn tilgang í því að segja svona við viðskiptavin, hvort sem hann hefði í huga að vera óheiðarlegur eða ekki. 

Hér er Ásdís allt í einu komin í samningagír, vill ekki sýna fram á kostnað en vill leysa málið.  Nú kviknaði á öllum rauðu ljósunum... og ég fór að leita í gömlum blöðum á netinu.
Úbbs...
Í millitíðinni hafði ég samband við aðra fasteignasölu sem sagði mér að hefðbundnar fasteignaauglýsingar í blöðunum kostuðu frá 11-15 þúsund eftir stærð.  'Já og það er fyrir utan afsláttinn sem við fáum og leyfum kúnnunum okkar að njóta.'   Ég hafði líka samband við auglýsingadeild Morgunblaðsins og Fréttablaðsins, fékk uppgefin verð og miðað við að Ásdís var tilbúin að gefa 25% afslátt af auglýsingunni þá lagði ég saman tvo og tvo og fann út birtingarkostnað á samsvarandi auglýsingu miðað við viðskiptavild. 

Mér finnst sanngjarnt að borga fyrir vinnu við að útbúa auglýsinguna.   

Í ALVÖRU...  Þetta kallast heima hjá mér að gera eitthvað með rassgatinu og tánum.


Það eru ekki allir sem eiga eina öfugsnúna Evu í pokahorninu, því miður og mér hrís hugur við að hugsa um það hversu margir lenda í svona svínaríi og borga bara brúsann án athugasemda. Mismunurinn á milli fyrsta reikningsins og þess síðasta er 109.185,- 

Svei'attan!

17 ummæli:

  1. Ha ha og hún tók burtu 3% afsláttinn "í staðinn" :) (heilar 900 kr)

    SvaraEyða
  2. Hef lent í því svipað með systur minni þegar við vorum að selja húsið sem faðir okkar heitin byggði. En það var önnur fasteignasala sem ég mæli aldrei með. Gekk ekki að selja fyrr en við breyttum út einkasölu og við vorum látnar líta út eins og börn með ekkert vit. Ein var meiri að segja svo kræf að hún reifst við systir mína í gegnum síma og þegar við neituðu tilboði sem við vildum ekki þá samt ættum við að sofa á þvi um nóttina og hún rökræddi það við okkur í 10 mín að við ættum að taka því þegar við vildum gera gagntilboð . Þau byrjuðu líka að meta húsið hátt en þegar við völdum að lækka það þá vorum við á sömu bylgjulengd. ... Hef aldrei á ævi minni lent í því að það hafi verið komið svona fram við mig og systur mína eins og við værum hálfpartinn geðveikar !! Annar maður seldi husið okksr og þurftum við að greiða i kringum 80-90 þúsund. Nennti ekki að standa í meira rugli og borgaði minn hlut þegjandi og hljóðalaust. vonandi sjá þau að sér og koma nú á móts við ykkur :)

    SvaraEyða
  3. Ótrúlega sorglegt að þurfa að standa í þessu, en gott hjá þér að láta ekki fara illa með gömlu hjónin!

    SvaraEyða
  4. Þetta er ömurleg framkoma :-( Flott hjá þér að fara í málið og ég segi eins og þú SVEI'ATTAN!!!

    SvaraEyða
  5. Þar sem ég hef verið nágranni þeirra í fjölda ára, finn ég mikið til með þeim enda með besta fólki sem ég þekki. Það litla sem maður getur reynir maður, ég verð eiginlega að senda þetta á nokkra fasteignarsala sem ég þekki...

    SvaraEyða
  6. Þetta finnst mér mjög svo áhugaverð lesning þar sem við hjónin lentum bara í nánast sömu málum fyrir um ári síðan. það var bara eins og ég væri að lesa um okkar samskipti við þessa fasteignarsölu.

    SvaraEyða
  7. Takk fyrir þetta, þú ert með´etta :)

    SvaraEyða
  8. Vá.. magnað.. Takk kærlega fyrir þessa grein.. og ég hélt að ég hefði lent í veseni þegar ég keypti í sumar (reyndar við aðra fasteignasölu). sýnir hvað það eru margir svartir sauðir þarna sem koma miklu óorði á aðra sem eru alveg að standa sig..

    kv.Sigga

    SvaraEyða
  9. Þú ert frábær. Já sem betur ferð áttu elskulegir foreldrar þínir eina öfugsnúna í pokahorninu. Þvílíkt svínarí. Þetta er meira en ljótt.

    SvaraEyða
  10. Ég er fyrrverandi nágranni seljandanna og þekki þau af góðu einu. Hélt satt að segja að fasteignasalar ættu að fara eftir ströngum siðareglum en hér er greinilega brotalöm á.

    SvaraEyða
  11. Reyndar segir hún í póstinum að hún sé "tibúin að loka þessu í 25.000 + vsk..." en það þýðir þá 25.000*1,255 = 31.375 sem hún hefur svo sett inn sem 30.000 kr.
    Þannig að í rauninni náðir þú að plata hana í síðasta póstinum.
    Vel gert engu að síður :)

    SvaraEyða
    Svör
    1. Það er rangt hjá þér Örvar. Þjónustugjald, gagnaöflun og auglýsingar er fyrst gefið upp verð án VSK. VSK er bætt við neðar. :)

      Eyða
  12. Örvar, ef þú skoðar reikninginn aftur þá er vaskurinn reiknaður síðast fyrir alla 3 liðina á bætist á í restina.

    SvaraEyða
  13. Eva

    Það fer nú smá hrollur um mann við þá tilhugsun að mögulega geti þessi fasteignasala hafa snuða margan manninn með svona löguðu. Mikið eru foreldrar þínir heppnir að eiga svona öfluga dóttur.

    Kveðja, Torfi

    SvaraEyða
  14. Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.

    SvaraEyða
  15. Flott hjá þér Eva. Ég lenti ekki beint í svona vandamálum, en þannig að við hjónin keyptum nýja fasteign (2007) í gegnum fasteignasölu á höfuðborgarsvæðinu. Fasteignasalinn lofaði seljandann í öllu. Sagði hann hafa byggt margar eignir og væri vandvirkur og flottur verktaki. Annað kom heldur betur í ljós. Hann byrjaði á því að fara á hausinn, daginn sem við fluttum inn. Svo kom fleira í ljós - leki - gólfhiti virkaði ekki og fleira sem ég gæti talið upp. Við höfum ekki enn fengið afsalið og getum því ekki selt (sem myndi hvort sem er leiða til þess að við fengjum hana aftur í hausinn vegna galla). Það á enn eftir að klára hluta af sameigninni og skiptaráðandi hefur ekki áhuga á þessu lengur, sem ég skil ekki hvernig er hægt. Helst hefði ég viljað láta fasteignasöluna finna til ábyrgðar í þessu máli en svona er þetta. Hefði verið fínt að fá þig í lið með sér :)

    SvaraEyða