30. ágú. 2011

HD Fitness

Skráði mig á HD fitness námskeið í Hreyfingu, en það eru tímar sem fara fram í heitum sal og eru blanda af yoga, pilates og tai chi.   Fullt af styrktaræfingum og teygjum, tímar sem láta manni líða eins og maður hafi farið í gott nudd svei mér þá.  Ég var heilmikið í Hreyfingu þegar ég var ólétt, prófaði alls konar þrek og styrktartíma og þá  lofaði ég sjálfri mér að gleyma ekki hversu gott það er að taka þetta með hlaupunum.  Fyrsti tíminn var í dag, fékk reyndar að svissa á milli námskeiða og mæta kl. 7 í morgun en venjulega verð ég seinnipartinn.  Námskeiðið er í 6 vikur og markmiðið er að vera alveg laus við bumbuna að því loknu.  Spurning um að taka fyrir og eftir myndir...   Nei sennilega betra að taka bara 'eftir' mynd þegar ég er komin með massa sixpack!

27. ágú. 2011

Tíminn

Á maður ekki að hafa endalausan tíma þegar maður er heimavinnandi...  Ég er ekki að finna hann alla vega og rétt næ að henda inn æfingafærslunum mínum og bloggið situr á hakanum.  Stund milli stríða:

Reykjavíkurmaraþon síðustu helgi og þvílíkur dagur.  Við mæðgur (Amman, mamman og litla krílið) gerðum okkur klárar fyrir hálf níu (gefa og græja sig) og héldum svo í bæinn.  Þórólfur hljóp niðrí bæ til að hita sig upp fyrir sitt hlaup, Gabríel kúrði til hádegis og afi Þór kom og passaði Liljuna fyrir okkur.  Það er frábær aðstaða fyrir starfsmenn Íslandsbanka rétt hjá startinu og þar geymdi ég ömmu og litlu á meðan ég skottaðist úr að hlaupa.

Fyrirfram var ég búin að stefna að því að hlaupa þetta á innan við klukkutíma, var búin að vera að skokka 6 km hringinn minn á 5:45 pace svo mér fannst það raunhæft.  En svo... hitti ég samstarfskonu mína í startinu og þegar ég segi henni mín plön verður hún svaka glöð og segir 'Þá ætla ég að vera á undan þér, ég er að stefna að 52 mínútum'.  Æiiii neiii hugsaði ég með mér, þú hefðir ekki átt að segja þetta, því ég fann hvernig það kveiknaði á keppnismanneskjunni í mér.   Ég kom mér nú samt fyrir vel fyrir aftan 55 mínútna pacerana og ákvað bara að sjá hvað myndi gerast.  Ég var líka klukkulaus (samkvæmt plani) svo ég færi ekki að sperra mig meira en ég þoldi.  

Ég fann strax að ég var mun léttari á mér en þeir sem voru í kringum mig svo ég sikk sakkaði í rólegheitunum fram úr einum á fætur öðrum.  Ég hef bara nokkrum sinnum startað langt fyrir aftan getu og það getur verið hrikalega gaman, maður er alltaf að taka fram úr og það gefur mann extra boost, og þá verður maður ennþá léttari á sér.  Leið frábærlega allan tímann og eftir 6-7 km átti ég nóg eftir og ákvað að spíta aðeins í.  Sá glitta í 50 mínútna blöðruna og það kitlaði að komast undir 50 mínúturnar.  Tók svo heljarinnar endasprett og þegar ég sá klukkuna í markinu (50:50) vissi ég að tíminn gæti dottið rétt yfir eða rétt undir 50 vegna þess að það tók hátt í mínútu frá starti að komast að rásmarkinu því ég startaði svo aftarlega.  Var frekar glöð þegar ég sá úrslitin á netinu  49:58 jeiii...

Þórólfur hljóp eins og engill á 35:35 og tryggði sér annað sætið í Powerade hlaupaseríunni, fékk flottan bikar og Asics skó að launum.  

Eftir rúma 3 km eða svo, vííí gaman.

Í endorfínvímu eftir hlaup, svo gott :)

Svo var málið að drífa sig heim og ná í hana Lilju okkar til að komast í Latabæjarhlaupið en það er svei mér þá meira spennandi en jólin hjá minni.  Hún var búin að stunda stífar æfingar síðustu vikurnar, draga mömmu sína út að hlaupa og teygja og ég veit ekki hvað.  'Mamma ég ætla að hlaupa í pilsi eins og þú í maraþoninu!'.  Lilja spretti af stað um leið og hlaupið var ræst og ég þurfti að hafa mig alla við að fylgja henni.  Rétt eftir startið hrasaði hún í þvögunni og fékk skrámu á hnéð.  'Er allt í lagi með þig?'.  'Já mamma, hlaupum!'.   Mín hljóp alla leiðina og 'vann' hlaupið eins og venjulega, þvílíkt gaman.  

Við mæðgur í startinu.

Gott að slaka aðeins á eftir átökin.

Eftir hlaupið hittum við afa Þór og við röltum um bæinn og fengum okkur kaffisopa með honum.  Þá var komið að næstu skiptingu.  Brunað heim, gefið, skipt um föt og brunað í bæinn aftur þar sem við hittum hlaupafélaga okkar, eins og venjulega á þessum degi, á Caruso.

Meira rölt í bænum (mest til að tékka á Gabríel og vinum hans :) en svo gafst  gamla upp að verða níu.  Þá fórum við heim og horfðum á flugeldasýninguna af svölunum hjá okkur.  Þetta er einn af uppáhaldsdögunum okkar á árinu en jæks hvað við erum alltaf búin á því þegar við komumst loks í ból.  Þá tölum við um að í ellinni náum við kannski líka að skoða einhverja menningu á Menningarnótt!

18. ágú. 2011

Run Forrest...

Ég fór að hlaupa aftur fyrir 10 dögum og er búin að ná 9 litlum hlaupatúrum á tímabilinu.  Ég var svona að taka stöðuna á mér hvort ég væri tilbúin að taka þátt í 10 km hlaupinu í RM eður ei og jú, mér líður bara þvílíkt vel á hlaupunum og þetta verður ekkert mál (þar til annað kemur í ljós...).  Ég stefni á að vera innan við klukkarann, get ekki skilið krílið eftir mikið lengur í einu!

Hvað er með þetta æðislega veður, svo gaman að vakna dag eftir dag í bongó blíðu.  Ekki erfitt að koma sér út að hreyfa sig þegar viðrar svona.  Í dag fengum við Þórólfur pössun og fengum smá 'date time' fyrir okkur.  Skutluðumst niðrá höfn og röltum út í vita en það er orðin hefð hjá okkur, gerum það á hverju sumri á einhverjum góðviðrisdeginum.  Það var nefnilega þannig að fyrsta kvöldið sem við hjónin náðum saman, reyndi bóndinn að draga mig í göngutúr út í þennan vita en ég var nú frekar treg í taumi.  Að fara að labba langar leiðir að óþörfu...

Síðan þá hefur margt breyst og aðallega það, hvað ég er orðin auðveld í taumi og nú fer ég hvert sem er, hvenær sem er með mínum manni.  Bara að nefna það :)


Rómó út í vita <3


Lilja úti á svölum í blíðunni.

Erfitt líf, geisp!!!

14. ágú. 2011

Vika tvö

Já nú er kátt í höllinni.  Allt gengur eins og í sögu hjá okkur og litla stelpan okkar aðlagast vel og við henni.  Hún er alveg sérstaklega róleg og góð, drekkur, sefur og er aðeins farin að skoða sig um núna.  Dekrar við mömmu sína á næturnar og sefur langa dúra í einu. 

 Í 5 daga skoðuninni var hún búin að ná fæðingarþyngdinni sinni og heimaljósan sagði okkur að þá væri nú bara óhætt að fara að taka hana út í stutta göngutúra í góða veðrinu.  Vorum fljót að taka hana á orðinu og erum búin að fara í nokkrar góða túra í Laugardalinn og nú um helgina fórum við í skemmtiferð til Hveragerðis á Blómstrandi daga.


Lilja skemmti sér konunglega með mömmu sinni í fallturninum, í hoppukastalanum og svo var toppurinn á tilverunni að sjá Ingó Veðurguð syngja á sviðinu.  Hún hefur nokkrum sinnum hitt hann hérna í hverfinu okkar þegar hann hefur verið að taka tröppuspretti og er þvílíkt skotin í honum :)  Litla skottið var eins og engill í ferðalaginu, enda áttum við ekki von á öðru.


Ég er farin að hlaupa aftur, byrjaði í vikunni á að fara 3,6 km og það gekk bara eins og í sögu.  Fór í fjórða skipti út í dag og lengdi aðeins, fór Hálftímann sem er 5,8 km og það var ekkert mál.  Er svona að prófa mig áfram hvort ég treysti mér í 10 km í RM næstu helgi og svei mér þá, getur vel verið að ég láti vaða.  Alla vega ef verðrið verður gott, annars breyti ég bara í skemmtiskokkið og tek lilluna með mér.  Hápunktur dagsins verður nú samt Latabæjarhlaupið með henni Lilju minni, hún er svooo spennt.  Hún er búin að æfa sig heilmikið, skokkar í leikskólann og gerir æfingar.




Stóra verkefnið framundan hjá okkur er að finna fallegt nafn á dömuna, spennandi :)

5. ágú. 2011

Fyrstu dagarnir í myndum


Elska þessa mynd, þarna er hún 10 tíma gömul að kúra sig hjá pabba upp í Hreiðri.


Sko spékoppinn :)


Lilja og Gabríel voru búin að kaupa gjafir fyrir litlu systur.  Lilja pakkaði inn og skrifaði kortið alveg sjálf.


Gott að kúra hjá stóru systur.


Sýnir spékoppinn fyrir ömmu Gerd.


Mér sýnist afi Þór vera ánægður með hana líka :) 


Gott að kúra eftir sopann hjá mömmu sinni.



Stóri bróðir lánar puttann til að smjatta á.


Stóri bróðir (litli pabbi) er svo duglegur að  hjálpa til og sinna litlu systur.


Afi Einar dáist að stelpunni. 


Jóhanna vinkona kom með stelpurnar sínar og færði dömunni flottan kjól.


2. ágú. 2011

Ohhh what a wonderful night!

Já það voru ekki margir klukkutímarnir í viðbót sem beðið var eftir barni.  Ég var svo sem búin að segja við Þórólf á laugardaginn að ég ætlaði annað hvort að eiga þann 1.8.2011 eða 8.8.2011, flottar dagsetningar :)  Eftir smá útréttingar og heimsókn var stefnan sett á Grafarvogslaugina til að viðra stóru dömuna okkar og slaka á í pottunum.  Þá var klukkan rétt um fimm og á leið inn í klefann þá finn ég að eitthvað er að gerast...  Það er ekkert öðruvísi en að annað hvort var ég að pissa í buxurnar eða vatnið að fara!  Ég gekk mörgæsagang inn í klefa að kanna málin og jú, ég var frekar á því að þetta væri vatnið en það var ekki mikið, svo ég var svona á báðum áttum.  Fór í sturtu og skottaðist út til að láta Þórólf vita, fór svo aftur inn í klefa og nú var ég ekki lengur í vafa.   

Það er nú samt ekki þannig að maður fari eitthvað að tilkynna hvað er í gangi þegar maður missir vatnið svona út í bæ.  Ég reyndi að laumupúkast að skápnum mínum, sat á handklæðinu meðan ég klæddi mig og var svoooo fegin að hafa valið mér svartar buxur þann daginn og var svoooo fegin að komast inn í bíl (n.b. þar sem öllum handklæðunum úr sundferðinni var plantað undir bossann á mér :)!

Komum okkur heim og krökkunum í pössun til ömmu og afa.  Bjallaði svo upp á deild en ég var ekkert farin að finna fyrir neinu og við vorum pollróleg.  Skottuðumst í skoðun um níu, bara til að láta vita af okkur og staðfesta stöðuna.  Frábær ljósmóðir sem tók á móti okkur og hún var viss um að það liði ekki langur tími þar til við kæmum aftur.  

Þá var komið að því að hlaða fyrir átökin og við renndum í ísbúð rétt fyrir klukkan tíu, fengum okkur bragðaref, komum okkur svo vel fyrir heima og horfðum á bíómynd.  Ég var aðeins farin að finna þrýsting með samdráttum um ellefu leytið en það var langt á milli og ekki hægt að tala um verki.  Og svo kom verkur og það er bara þannig hjá mér að þá er ekki langt í stuðið.  Fórum strax af stað upp í Hreiður og vorum komin þangað korter yfir tólf eftir miðnætti, þann 1.ágúst.  Ljósan skoðaði mig, vísaði okkur svo í fæðingarherbergi og ég sendi Þórólf niður í bíl að ná í dótið okkar.  'Vertu bara snöggur ástin'.  Ljósan spurði hvort hún ætti að láta renna í heita pottinn fyrir mig en ég var nú ekki viss um að það myndi nást.  'Ég held að barnið komi innan hálftíma'.  

Eftir þetta gerðist allt mjög hratt og 5 mínútum síðar eða kl. 00:40 var stelpan okkar komin í heiminn.